Frægustu símtöl ráðherra Sjálfstæðisflokksins

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað komið sér í vandræði með umdeildum atvikum sem margir hafa kallað dómgreindarbrest. Þannig komst til að mynda upp um brot Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á sóttvarnarlögum með frægri heimsókn hans í Ásmundarsal á Þorláksmessu en það var söguleg dagbókarfærsla lögreglu sem upp um hann kom. Fræg ljósmynd kom síðan upp um ferðamálaráðherrann Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur á brotlegum Covid-vinkvennahittingi síðastliðið sumar. Ekki löngu síðar var Áslaug Arna Sigurbjörsdóttir dómsmálaráðherra gagnrýnd fyrir að láta þyrlu Landhelgisgæslunnar sækja sig austur á land og skutla sér aftur tilbaka í hestaferð að loknum vinnufundi í borginni.

Sótt var að Þórdísi Kolbrúnu eftir umdeildan Covid-vinkvennahitting.

Í öllum ofangreindum tilvikum var hart sótt að ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og víða kallað eftir afsögnum þeirra vegna framferði þeirra. Öll sitja þau enn og halda sum hver áfram að koma sér í fréttirnar með klaufagangi og vafasömum símtölum. Af því tilefni ákvað Mannlíf að rifja upp frægustu símtöl ráðherra Sjálfstæðisflokksins á liðnum árum.

Rándýrt símtal

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri kemur við sögu í fyrsta símtali. Þá hringdi Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í Davíð Oddsson. Dagurinn er 6. október 2008. Þann dag voru neyðarlögin sett á hérlendis vegna Hrunsins.

Hvorki Geir né Davíð bjuggust við því að fá lánið endurgreitt.

Í umræddu símtali ræddu Davíð og Geir örlög bankakerfisins og sammæltust um að Seðlabankinn, sem Davíð þá stýrði, myndi veita Kaupþingi 500 milljón evra lán þennan dag. Lengi vel hvíldi leynd yfir símtali tvímenninganna og það var ekki fyrr en tæpum áratug síðar sem afrit af samtalinu var loksins birt.

Tveimur dögum eftir að Davíð og Geir sammæltust um lánið hrundi Kaupþing og tapaði Seðlabankinn um andvirði 35 milljarða króna á þessu láni.

Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra 6. október 2008, korteri fyrir hrun. Þessi upphæð var stór hluti gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar á þessum tímapunkti. Kaupþing hrundi tveimur dögum síðar og Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur þess þann 9. október 2008. Seðlabankinn tapaði um 35 milljörðum á láninu.

Í samtali Davíðs og Geirs kom greinilega fram að þeir áttu ekki von á því að fá hið stóra lán nokkurn tímann tilbaka. Davíð sagði meðal annars:

„Ég býst við því að við fáum þessa peninga ekki til baka“

Skellti á Bjarna

Í desember 2009 var Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sakaður um að hafa hringt í Hrein Loftsson, sem þá var útgefandi DV, með það fyrir augum að stöðva umfjöllun blaðsins á tengslum Bjarna við gruggugar fjárfestingar Makaó. Bjarni vísaði þessu hins vegar á bug:

„Ég hef aldrei farið fram á að Hreinn Loftsson stöðvaði fréttaflutning DV.“

Bjarni Benediktsson. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Bjarni viðurkenndi aftur á móti að hafa hringt í Hrein vegna fréttaflutnings DV á þessum tíma. Markmiðið hafi verið að segja skoðun sína á óásættanlegum vinnubrögðum blaðamanns, í þessu tilviki Inga Freys Vilhjálmssonar sem nú starfar á Stundinni. Bjarni sagðist ekki hafa náð að koma skoðun sinni að:

„Áður en ég hafði haft tök á að fara yfir samskipti mín við blaðið æsti Hreinn sig, sagðist ekki lúta mínu boðvaldi og sagði mér að eiga samskipti um þetta við ritstjórn blaðsins. Að svo búnu skellti hann á.

Bolla, bolla, bolla

Davíð og Hreinn koma líka við sögu í næsta símtali. Á bolludeginum árið 2013 hringdi Davíð, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í Hrein, þáverandi stjórnarformann Baugs. Tilefnið var meint mútutilraun Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fyrrum forsprakka fyrirtækisins, sem Davíð síðar varpaði sem sprengju í útvarpsviðtali á umræddum bolludegi. Hann fullyrti að Jón Ásgeir hefði boðið sér 300 milljónir í mútur og vísaði í samtal þeirra Hreins á hótelherbergi í Lundúnum.

Hreinn Loftsson, sem í dag aðstoðar Áslaugu Örnu dómsmálaráðherra.

Hreinn, sem var gamall vinur Davíðs og aðstoðarmaður hans lengi, fullyrti að orðin sem forsætisráðherrann fyrrverandi vísaði til hefður fallið í hálfkæringi enda verið lítið annað en fyllirísröfl gamalla vina.

„Mistök af minni hálfu“

Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sagði af sér embætti í Lekamálinu svokallaða og var í því meðal annars harðlega gagnrýnd fyrir afskipti sín af rannsókn lögreglu á málinu. Afskiptin fólust í ítrekuðum símtölum hennar við Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir. Mynd / Skjáskot RÚV.

Tryggvi Gunnarsson, sem nýlega tilkynni að hann muni stíga af stóli sem umboðsmaður Alþingis, gagnrýndi mjög samskipti Hönnu Birnu við Stefán. Hún bað lögreglustjórann fyrrverandi síðar afsökunar á afskiptum sínum sem hafi ekki að ölllu leyti verið réttmæt:

„Það voru mistök af minni hálfu að eiga samskipti við lögreglustjórann vegna rannsóknarinnar meðan hún stóð yfir. Ég hefði ekki átt að eiga í nokkrum samskiptum við lögreglustjórann vegna hennar.“

Hvernig líður þér, vinur? 

Það fyrsta sem Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra gerði eftir að hafa séð umfjöllun um meint lögbrot, stórfelldar mútur og siðlausa framkomu útgerðarfyrirtæksins Samherja í Namibíu, var að hringja í vin sinn og forstjóra fyrirtækisins, Þorstein Má Baldvinsson, og spyrja hvernig honum liði.

Óhætt er að segja að Kristjáns hafi fengið á baukinn fyrir símtalið. Sjálfur skýrði hann það með eftirfarandi hætti:

„Ég var bara að spyrja hvernig honum liði einfald­lega“

Lík­legt er að símtal Kristjáns til útgerðarmannsins komi til með að hafa á­hrif á trú­verðug­leika Kristjáns sem stjórnmálamanns. Í kjölfar þess fullyrti sjávarútvegsráðherrann að hann komi til með að segja sig frá öllum málefnum Samherja rati þau á hans borð.

Ekkert óeðlilegt

Nýjasta símtal ráðherra Sjálfstæðisflokksins átti sér svo stað síðasta aðfangadag. Þá hringi Áslaug Arna dómsálaráðherra tvívegis í Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu vegna áðurnefndrar dagbókarfærslu lögreglunnar um sóttvarnarbrot Bjarna, formanns flokksins.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Áslaug segist aðeins hafa viljað kynna sér verklagsreglur lögreglunnar til að vera sem best undirbúin undir svör til fjölmiðla. Hún segir ekkert hafa verið óeðlilegt við símtölin. Athyglisvert er að Áslaug Arna virðist aðeins hafa haft áhuga á því að komast að lögreglulekanum en ekki sjálfu sóttvarnarbrotinu.

Dæmin hér að ofan eru ekki sambærileg að stærð en þau lýsa öll mögulegum dómgreindarbresti stjórnmálamanna sem fara með vandmeðfarin völd.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -