Laugardagur 14. september, 2024
2.8 C
Reykjavik

Getur kapítalisminn bjargað sjálfur sér frá kapítalismanum?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ráðandi kerfi í heiminum síðustu áratugi hefur verið hið kapítalíska markaðshagkerfi, og systir þess vestrænt lýðræði. Þeir sem eru jákvæðir gagnvart þessum kerfum benda á að á grunni þeirra hafi friður ríkt í hinum vestræna heimi frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Að mannréttindi hafi sífellt fengið stærri sess í þeim löndum sem umfaðmað hafa kerfin. Frelsi stóraukist, tækni fleytt fram og, síðast en ekki síst, lífsgæði mæld á þeim mælikvarða sem oftast er stuðst við, hagvöxt og kaupmátt, hafi tekið stakkaskiptum.

 

Sögulega má rekja upphaf þessarar viðhorfsbreytingar í viðskiptum til áttunda áratugarins þegar menn eins og hagfræðingurinn Milton Friedman stigu fram á sviðið og boðuðu það sem í dag er best þekkt sem brauðmolakenningin. Friedman skrifaði fræga grein í The New York Times árið 1970 þar sem hann sagði það samfélagslega ábyrgt í viðskiptum að auka gróða.

Hugmyndafræðin varð síðan einkennandi undirstaða stjórnartíðar Ronalds Reagan í Bandaríkjunum og Margaretar Thatcher í Bretlandi, tveggja áhrifamestu leikendanna í alþjóðaviðskiptum á níunda áratug síðustu aldar. Skilaboðin voru minna regluverk, frekari einkavæðing, minna ríkisvald og meiri hagnaður fyrir eigendur fyrirtækja. Hluthafinn, þ.e. fjármagnseigandinn sem fjárfesti í fyrirtækjum, varð það eina sem skipti máli í rekstri fyrirtækja.

Þessi áhersla beið ákveðið skipbrot árið 2008, þegar ríki og seðlabankar víða um heim þurftu að grípa fjármálakerfi sem hafði farið langt fram úr sér. Kapítalisminn kallaði á stórtækustu ríkisafskipti mannkynssögunnar. Þrátt fyrir það hefur efsta lagið í heiminum bara orðið ríkara síðastliðinn áratug. Í fyrra var staðan þannig, samkvæmt árlegri skýrslu Oxfam, að 26 ríkustu einstaklingarnir í heiminum áttu jafnmikið af auði og sá helmingur heimsbyggðarinnar, alls 3,8 milljarðar manna, sem átti minnst. Á sama tíma hafa kröfur um aukna samfélagslega meðvitund fyrirtækja, sérstaklega gagnvart umhverfinu, stóraukist. Vegna þessa hefur þrýstingurinn á breyttar áherslur stigmagnast ár frá ári.

Í ágúst 2019 sendu bandarísku samtökin US Business Roundtable, sem samanstanda af forstjórum allra stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna, frá sér yfirlýsingu. Í henni kom fram að fyrri stefna samtakanna, um að hagsmunir hluthafa ættu einir að stýra rekstri fyrirtækja, gæti ekki lengur átt við. Það þyrfti að telja til fleiri þætti eins og starfsfólk, nærsamfélag og náttúru.

Þessi stefnubreyting er í takti við fjárfestingastefnu sem margir af stærstu fjárfestingasjóðum heims hafa sett sér. Við blasir því að fyrirtæki sem horfa ekki til annarra þátta en hagnaðar munu eiga erfiðara með að nálgast fjármagn þegar þeir þurfa á slíku að halda til fjárfestingar.

- Auglýsing -

Meira að segja Financial Times, forystublað kapítalismans, boðaði nýja stefnu (The New Agenda) í september síðastliðnum þar sem blaðið talaði fyrir breyttri tegund kapítalisma. Í yfirlýsingu Lionel Barber, ritstjóra Financial Times, sagði að fyrirtækjalöggjöf, skattastefna, fjölmiðlaumfjöllun og reglugerðarsetningar væru allt svið sem þyrftu að breytast með þeim hætti að samfélagsleg ábyrgð og umhverfið yrðu jafnrétthá hluthöfum. Það þurfi að skila hagnaði en með tilgangi. Fyrirtæki þurfi að skilja að slík blanda muni þjóna þeirra eigin hagsmunum en líka hagsmunum viðskiptavina og starfsmanna.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -