Laugardagur 27. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Hafdís ákvað ung að verða arkitekt og var einangruð í Danmörku vegna Covid: „Ég varð mjög einmana“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Frá því að ég man eftir mér hefur mig alltaf langað til að vera arkitekt. Ég man eftir því að liggja á gólfinu að teikna fyrir framan sjónvarpið einhverja draumóra, núna er ég svo heilluð af því hvernig arkitektúr getur breytt heiminum. Rými og efniskennd hafa svo mikil áhrif á lífsgæði þeirra sem koma nálægt því, bæði innri notendur, sem dvelja í rýminu sjálfu, og ytri aðilar, sem upplifa rýmið mestmegnis utan frá. Arkitektúr segir svo mikið um okkur sem samfélag. Hann endurspeglar karakter okkar, hvar við búum í hnattrænu samhengi, út frá dagsbirtu og öðrum skilyrðum, hvernig við höfum þróast á þann stað sem við erum á í dag og hvert við stefnum. Þetta er mjög skemmtilegt fag að vinna í.“

Segir hin 35 ára Hafdís Anna, arkitekt og viðskiptafræðingur sem settist niður með Mannlífi og sagði okkur frá verðlaunum í arkitektúr, verkefni um birtu- og rökkurskilyrðum og íslenskum arkitektúr.

Gott að fleiri taki þátt í samræðunum
„Arkitektúr byrjar alltaf með samtali og erfitt er að meta hver á að eiga það samtal. Eru það arkitektinn og verkkaupinn? Verkkaupinn er ekki alltaf sá sami og notandinn. Það er e.t.v. ekki eingöngu notandinn sem málið varðar, hvað með nágranna sem er annt um götumyndina? Hvað með almenning og samfélagið í heild sinni? Mér finnst gott að fleiri taki þátt í samræðunum því þá gerir fólk sér betur grein fyrir verðmætum góðs arkitektúrs og er þá vonandi reiðubúnara sem samfélag til að fjárfesta í góðri hönnun í stað þess að sætta sig við lakari valkosti. Að því sögðu þá þurfa ekki allir að vera sammála um hvað góð hönnun sé, oft eru það einmitt umdeildustu byggingarnar sem með tíð og tíma fá mesta ástúð almennings. Samtalið þarf að eiga sér stað.“

Hafdís telur að arkitektúr hafi áhrif á líðan okkar á svo marga vegu og segir að það sé gjörólíkt að standa í stóru opnu rými eða litlu lokuðu rými. Efniskennd, birta og litir spila þar inn í.

„Þetta er vel þekkt og rannsakað, en við erum kannski ekki eins meðvituð um það í hversdagsleikanum, þegar við förum, yfirleitt frekar endurtekið, á milli ákveðinna staða, hversu mikil áhrif sjálfur arkitektúrinn hefur á líðan okkar. Það er ekki fyrr en við skiptum skyndilega út frá vananum að við skynjum betur hversu mikið þetta hefur að segja um lífsgæði okkar, líðan og heilsu.“

Kerfið sjálft er nánast hannað til aðgreina og einfalda hlutina of mikið, ein lóð fyrir eitt hús í einum tilgangi, segir Hafdís.

„Fókusinn þarf að fara af lóðinni og yfir á það sem gerist á milli lóðanna. Hvernig við tengjum ólíka hluti saman á farsælan hátt, svo það styrki fjölbreytilega notkun og upplifun.“

- Auglýsing -

Borgarskipulag er eign fólksins
Hún heldur áfram að útskýra fyrir okkur hver sé hennar sýn varðandi borgarskipulagið hér á landi.

„Borgarskipulag er eign fólksins sem býr í borginni, stefnan á að koma frá fólkinu og ég held að við þurfum að færa yfirsýnina úr loftmyndinni í „google maps“ yfir í „street view.“

Það er þar sem mannleg samskipti eiga sér stað og það er þar sem borgarskipulag ætti að eiga sér stað í meira mæli. Þótt það sé meiri áskorun fyrir arkitekta þá þurfum við að veita fólkinu meiri stjórn. Hverfakosningar eru skref í rétta átt þar sem fólk kýs hvaða verkefni það vill sjá í hverfinu sínu.“

Rökkurskilyrðin á Íslandi
Útskriftarverkefni hennar var unnið á ensku og heitir „Where light and Darkness mingle“ sem vísar til þeirra skammvinnu rökkurskilyrða sem eiga sér stað við sólarupprás og sólsetur.

- Auglýsing -

„Mig hafði alltaf langað til að vinna með rökkurskilyrðin á Íslandi. Eftir frekari rannsóknir komst ég að því að þessi rökkurtími er mun lengri á Íslandi en sunnar og hefur því talsverð áhrif á menningu okkar, enda er oft minnst á sólroðin ský og sambærileg fyrirbæri í íslenskum dægurlögum. Það er til afar lítið af upplýsingum um rökkur m.t.t. arkitektúrs og frekar en að líta á það sem sérstakt fyrirbæri þá er þetta yfirleitt bara flokkað sem eitthvað á milli dags og nætur.

Ég ljósmyndaði m.a. íslenskar grjóttegundir til að sjá hvernig efniskennd þeirra breyttist í ólíkum birtu- og rökkurskilyrðum.“

Stór hluti af verkefninu var kortlagning þar sem hún notaði ólíka tækni úr kortagerð til að skilja og sýna fjölbreytileika svæðisins. Hún ákvað að vinna með Elliðaárdalinn því henni fannst það svæði vera sem  „á milli“ ólíkra hluta Reykjavíkur.

„Þetta er líka flennistórt svæði með ólíkum birtuskilyrðum en takmarkaðri innanhússaðstöðu t.d. salerni og annað.“

Verkefni Hafdísar vann til verðlauna
Við útskriftina í sumar fékk verkefni Hafdísar svokölluðu Cebra-verðlaunin, sem eru árlega veitt einum nemanda sem hefur á sannfærandi hátt með lokaverkefni sínu leitast við að færa mörk hefðbundinnar nálgunar og skynjunar á arkitektúr og rými. Verðlaunin veitir arkitektastofan CEBRA sem hefur starfað í Árósum frá árinu 2001.

„Þetta var mikill heiður og viðurkenning á því hvernig ég nálgaðist verkefnið. Þar sem ég reyndi ekki að einfalda svæðið eða afmarka það heldur að styrkja fjölbreytilega notkun og upplifun með arkitektúr sem skapar samtímis fegurð og greinilegt notagildi. Þeir töldu það líka krefjast mikils hugrekkis að rannsaka hið flókna, óskilgreinanlega og síbreytilega, með ljóðrænum styrk og fegurð í bæði greiningum og arkitektúr.“

Meistaranámið í Árósum var mjög skemmtilegt, en krefjandi, segir Hafdís. Deildarstjórinn (Bob Trempe) lagði mikið upp úr fjölbreyttri tækni og að nemendur nýttu verkstæðin sem voru í næsta rými við stúdíóið.

„Svo ég fékk tækifæri til að prófa ýmislegt, m.a. að þrívíddarprenta og þrívíddarskanna, fræsa, steypa brons, búa til módel með aðstoð sýndarveruleika og nota vísindaskáldskap sem innblástur fyrir framtíðarheimilisfólk. Það var góð æfing, því það tekur tíma fyrir það sem arkitektar teikna að verða að veruleika og svo standa byggingar yfirleitt yfir lengri tíma svo arkitektar þurfa að sjá fyrir framtíðarþarfir fólks.“

Krefjandi tímar
Hafdís upplifði krefjandi tíma þegar hún var að sækja um skólavist. Þegar hún sótti fyrst um í arkitektúrnámið í Listaháskóla Íslands voru bara teknir inn 15 nemendur og var hún 16. í röðinni og komst því miður ekki inn.

„Þess vegna fór ég í viðskiptafræði á Bifröst, en þótt það nám hafi átt vel við mig þá kraumaði alltaf í manni þráin eftir að læra arkitektúr svo ég fór í Myndlistaskólann í Reykjavík í fornámið og sótti svo aftur um að því loknu og komst þá inn í Kaupmannahöfn, þar sem ég lauk BA-námi mínu.“

Á þeim tíma voru hún og maðurinn hennar komin inn í skóla í San Francisco en skólaþreytan var farin að segja til sín svo þau ákváðu að fara frekar til Íslands og stofna fjölskyldu.

„Það var snúið að flytja aftur út sjö árum seinna með tvö börn, en við ákváðum að láta slag standa og færa okkur yfir til Árósa. Feðgarnir fluttu aftur heim hálfu ári seinna þar sem þeir voru ekki að una sér eins vel og við mægðurnar og það tók nokkuð mikið á.“

Stuttu síðar skall Covid á, skólanum úti var lokað og öll kennsla varð rafræn svo þær mæðgur fóru líka til Íslands. Þegar skólinn var opnaður aftur var stelpan þeirra búin að vera það lengi á Íslandi og byrjuð í íslenskum leikskóla að þau tóku þá ákvörðun að Hafdís færi ein út að klára síðustu önnina.

„Það var sérstaklega erfitt þegar maður mátti ekki heldur hitta marga í Danmörku og ég varð mjög einmana á tímabili og saknaði mikið barnanna minna og mannsins míns. Sem betur fer komst ég til Íslands nokkrum sinnum því lokaverkefnið mitt tengdist Elliðaárdalnum og skólinn gaf mér leyfi til að ferðast til Íslands út af verkefninu. Systkini og foreldrar okkar Bjössa veittu okkur öllum líka ómetanlegan stuðning á þessu tímabili og við hefðum ekki getað komist í gegnum þetta tímabil án þeirra.“

Nám, kennsla og fjölhæf hönnun
Í haust byrjaði Hafdís að kenna tölvuteikningu fyrir annars árs nemendur í BA-námi við arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Fyrir tilviljun þá eru þessir nemendur að vinna verkefni með Elliðaárdalinn, sem er einmitt það svæðið sem hún vann með í útskriftarverkefni sínu og varð til þess að fagstjóri BA-náms arkitektúrdeildarinnar, Massimo Santanicchia, bauð henni að vinna aðeins meira með þeim, „sem hefur verið mjög gaman.“

Hafdís vinnur nú á arkitektastofunni SeiStudio, sem er stofnuð af hjónunum Einari Hlé Einarssyni og Shruthi Basappa.

„Þar hef ég fengið að fara í mjög fjölbreytt verkefni og hlakka til að takast á við næstu verkefni og áskoranir.“

„Ég reyni að nálgast arkitektúrinn frá öllum hliðum og vinna jafnhendis með notagildi og fagurfræði eða efnislega eiginleika og andlega upplifun. Ég legg mig fram um að nýta þá ólíka og e.t.v. óhefðbundna tækni sem hentar verkefninu hverju sinni, hvort sem það felur í sér notkun sýndarveruleika eða gamaldags kortagerðaraðferðir.

Ég vil að hönnun mín sé fjölhæf (e. Polyvalent) en staðbundin. Þ.e.a.s. að þegar ég teikna tek ég mið af þeim aðstæðum sem eru fyrir hendi á staðnum, t.d. umhverfi og samfélagi, en gæti þess að nýta megi rýmið á ólíka vegu án þess að gera þurfi viðamiklar breytingar.

Það hefur verið mér hugleikið að vinna með það að skapa stað (e. Placemaking), hvernig teiknar maður rými þar sem fólk vill verja tíma sínum? Þar sem fólk vill staldra við og það er eitthvað sem er svo fallegt við arkitektúr því oft þarf þetta ekki að vera mjög stórt inngrip til að gjörbreyta upplifun okkar af rými.“

 

Hafdís er með heimasíðu, hafabra.myportfolio.com, þar sem hún hefur sett inn vinnu sína úr meistaranáminu ef fólk hefur áhuga á skoða verkin nánar og svo er hún líka með Instagram-reikning þar sem hún deilir ýmsum af þeim verkefnum sem hún hefur unnið eða er að vinna með @hafdis.anna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -