Harður kjaravetur

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Útlit er fyrir að það stefni í harðan vetur í kjaramálum.

Síðustu misseri hefur andað köldu milli forystu verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda, ef marka má orðræðuna sem birst hefur í fjölmiðlum og þá stöðu sem hreyfingin hefur tekið. Hvernig sem því líður er ljóst að nú í lok desember renna út 82 kjarasamningar og í mars 2019 losna 152 samningar. Um þetta þarf að semja. Á sama tíma er verðbólga, sem hefur verið nokkuð stöðug, að aukast – komin vel yfir 3% og hækkaði talsvert í desember.

Hin nýja forysta verkalýðshreyfingarinnar virðist standa þétt saman, þrátt fyrir að Efling, VR og Verkalýðsfélag Akraness hafi valið að vera ekki í samfloti með Starfsgreinasambandinu. Fyrsti formlegi fundur hefst hjá ríkissáttasemjara í dag á milli þeirra aðila og Samtaka atvinnulífsins en í gær kom fram að það væri ófrávíkjanleg krafa félaganna að samningar verði afturvirkir þ.e. að launahækkanir taki gildi frá og með þeirri stund sem gömlu samningar losnuðu. Það hefur ekki verið venjan hingað til en getur skipt milljörðum.

Í pistli fyrir nokkrum dögum sagði Forseti ASÍ að hreyfingin sé sammála um meginmarkmið þó að greint sé um aðferðir. Verkalýðshreyfingin krefst alvöru aðgerða í þágu launafólks og sagði forseti ASÍ fyrir nokkum dögum að veturinn ráðist af því hvort stjórnvöld leggi fram aðgerðir svo um munar í skatta- og húsnæðismálum. Meðal annars sé gerð krafa um að breytingar verði gerðar á skattkerfinu til að létta byrðar láglaunafólks.

- Auglýsing -

Þessar áherslur forseta ASÍ fara að einhverju leyti saman við áherslur ríkisstjórnarinnar þó augljóst sé að aðilar deili um hvað sé nóg og hvað séu aðgerðir sem um munar. Í fjárlögum segir að áherslur kjaraviðræðna muni snúast að nokkru leyti um aðra þætti en launalið samninga. Þess vegna var lögð til hækkun persónuafsláttar um 1% umfram þá hækkun sem á sér stað með vísitölu neysluverðs og „veruleg“ hækkun barnabóta – 16% hækkun milli 2018-2019.

Raunar má deila um hvort að 16% hækkun sé veruleg hækkun í ljósi þess að útgjöld ríkisins vegna barnabóta og einkum vaxtabóta hafa ekki aukist í nokkur ár. Fjöldi fjölskyldna hafa raunar dottið út úr þeim tekjujöfnunarkerfum. Því má snúa þessu við og segja að 16% hækkun barnabóta sé leiðrétting.

Takmarkað svigrúm til launahækkana

- Auglýsing -

Í fjárlögum kemur jafnframt fram að svigrúm til launahækkana sé takmarkað enda hafi „launaþróun undanfarinna ára verið hröð og hækkanir launa komnar að mörkum þess sem viðráðanlegt er talið.“ Það kann að vera að launaþróun hafi verið hröð sem og hækkun launa en spurningin sem blasir auðvitað við er: laun hvaða hópa? Meðaltal er fínt mælitæki en þessar hækkanir verður að skoða út frá stöðu hvers hóps. Tölur hafa verið lagðar fram sem sýna að láglaunahópar hafa setið eftir í launahækkunum og skattalækkunum enda leiða flatar skattalækkanir alltaf til mestu launahækkunar fyrir þá sem mestar tekjur hafa.

Stærsta pólitíska verkefni næstu vikna verða þessar kjaraviðræður. Það stefnir í störukeppni. Það hjálpar ekki að teikn eru á lofti um einhvern óstöðugleika í íslensku efnahagskerfi, sem bitnar á öllum, en ekki síst láglaunahópum. Verðbólgan er að stíga og íslenska krónan hefur verið að taka dýfur undanfarið, en hún virðist aðeins geta boðið upp á einhvern stöðugleika með miklum inngripum.

Í þessari samningalotu virðist ekki áhersla lögð á að ræða áhrif íslensku krónunnar. En staða gjaldmiðils þessarar þjóðar skiptir gríðarlega miklu máli fyrir almenning – sem breyta í kjaraviðræðum í þessu lokaða hringrásarhagkerfi – ekki síður en skattkerfið og aðgerðir í húsnæðismálum.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -