Þriðjudagur 19. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Hildur Lillendahl gefur lítið fyrir iðrun Kolbeins: Vonast eftir lækningu fyrir ofbeldismenn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hildur Lillendahl segir skrif Kolbeins Óttarssonar Proppé þingmanns sem boðar brotthvarf úr stjórnmálum, vera gegnsýrð af sömu gaslýsingu og konur hafa verið að lýsa af hans hálfu í lokuðum hópum.

Kolbeinn skrifaði færslu á Facebook síðu sinni fyrr í kvöld þar sem hann tilkynnti að hann dragi framboð sitt til baka í forvali Vinstri grænna í Reykjavík. Brotthvarf Kolbeins kemur í framhaldi af uppnáminu vegna Sölva Tryggvasonar sem hófst með frétt Mannlífs um síðustu helgi.

Ástæðan mun vera sú að á dögunum var leitað til fagráðs VG með kvartanir vegna hegðunar Kolbeins í garð kvenna. Það hafi opnað augu hans fyrir því að ýmislegt hafi verið ábótavant í hans hegðun. Í kjölfar umræðu undanfarinna daga hafi hann því ákveðið að enduríhuga framboð sitt og komist að þeirri niðurstöðu að best væri draga það til baka.

„Ég hef mína djöfla að draga og ýmislegt óuppgert úr fortíðinni. Undanfarna mánuði hef ég fundið að eitthvað sé að breytast innra með mér, ég er að verða opnari og óhræddari, í minni vörn. Þegar mér svo barst til eyrna að hegðun mín hefði valdið konu mikilli vanlíðan varð ég fús til að leita mér aðstoðar vegna þessa. Ég vil ekki koma þannig fram að öðru fólki líði illa. Ég vil ekki sýna af mér hegðun sem konur upplifa sem óeðlilega,“ skrifar Kolbeinn.

Útskýrir hann að hegðun sín orsakist af erfiðleikum sínum með að mynda náin tengsl og lýsir því hvernig hræðslan við að verða særður taki yfir. Kolbeinn segist oft hafa hrokkið skyndilega í baklás í samböndum sínum, hlaupið í felur og brostið undan. „Hugsa meira um að verja mig mögulegum skaða en það hvernig ég kem fram. Geri það því illa, kem illa fram“.

Kolbeinn biðst afsökunar á hegðun sinni og segir best að hann boði brottför sína úr hinu opinbera rými í haust.

- Auglýsing -

„Ég er hluti af valdakerfinu og ég er hluti af femíniskum flokki sem á alltaf að standa með konum. Ég held að ég geti ekki staðið bæði með mér og konunum sem líður illa mín vegna á meðan ég er í framboði fyrir VG. Og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, eða nokkur þar innan borðs, á ekki að þurfa að svara fyrir mína hegðun.“

Hildur Lillendahl virðist vera fjúkandi reið yfir skrifum Kolbeins og skrifar athugasemd við færslu hans: „Einhvern veginn ert þú orðinn þolandi ekki síður en gerandi. Nákvæmlega eins og þvælan í Birni Inga í gærkvöldi,“ skrifar Hildur og er þá væntanlega að vísa til Kvöldviðtals Mannlífs við Björn Inga Hrafnsson.

Hún segist jafn framt vonast til þess að hann haldi sig alfarið frá öllu sviðsljósi það sem eftir er þolenda hans vegna. „Og ég vona að læknisfræðin finni einn daginn leið til að lækna karla af ofbeldishneigð og narsissisma,“ skrifar Hildur að lokum.

- Auglýsing -

Færsla Kolbeins Óttarssonar Proppé í heild sinni:

Dreg framboð mitt til baka

Ég hef í all nokkur ár átt í erfiðleikum með að mynda náin tengsl. Kemur þar ýmislegt til, en í grunninn held ég að undir búi varnarmekanismi. Meðvitað og ómeðvitað er ég svo logandi hræddur við að verða særður að sú tilfinning tekur yfir. Á sama tíma er ég hrifnæmur og þegar við bætist löngun og von til að verða ekki einn, hafa ný sambönd við hitt kynið stundum farið af stað eins og flugeldar. Allt er gott og ég sannfærður um að nú sé ég kominn á þann stað að geta myndað ný og varanleg tengsl.

En svo hef ég rekist á vegg. Það getur verið einhver ákveðinn viðburður sem það kveikir eða bara að eitthvað rennur upp innra með mér. Ég dreg tjöldin fyrir, verð kaldur og fjarlægur og reyni að koma mér í burtu.

Með þessu hef ég komið illa fram við konur. Ég hef gefið til kynna langtímasamband, byggt á heitum og djúpum tilfinningum. Og þær hafa verið það. En svo hleyp ég í felur, brest undan. Hugsa meira um að verja mig mögulegum skaða en það hvernig ég kem fram. Geri það því illa, kem illa fram. Læt konunum líða eins og þær hafi ekki skipt mig máli, sem er kolrangt. Að þær geri það ekki lengur, sem er líka kolrangt. Skríð inn fyrir skelina mína og í öryggið og einmanaleikann þar.

Á sama tíma hef ég oft og tíðum verið svo einmana að sú tilfinning hefur á stundum heltekið mig að ég verði alltaf einn. Minn mesti ótti er að ég sé dæmdur til að vera einn af því að ég geti ekki gefið það af mér sem þarf til að koma í veg fyrir einmitt það.

Ég hef mína djöfla að draga og ýmislegt óuppgert úr fortíðinni. Undanfarna mánuði hef ég fundið að eitthvað sé að breytast innra með mér, ég er að verða opnari og óhræddari, í minni vörn. Þegar mér svo barst til eyrna að hegðun mín hefði valdið konu mikilli vanlíðan varð ég fús til að leita mér aðstoðar vegna þessa. Ég vil ekki koma þannig fram að öðru fólki líði illa. Ég vil ekki sýna af mér hegðun sem konur upplifa sem óeðlilega.

Nú er mikil og þörf bylgja í gangi þar sem konur segja frá. Það er aðdáunarvert að þær geri það og ég vona innilega að gott komi út úr því. Á dögunum var leitað til fagráðs VG með kvartanir vegna hegðunar minnar. Það ferli sem þá fór af stað opnaði augu mín fyrir því að ýmislegt hefur verið ábótavant í minni hegðun. Ég ákvað engu að síður að gefa kost á mér í forvali Vinstri grænna í Reykjavík. Umræða undanfarinna daga hefur hins vegar gert það að verkum að ég hef endurskoðað þá ákvörðun.

Ég er hluti af valdakerfinu og ég er hluti af feminískum flokki sem á alltaf að standa með konum. Ég held að ég geti ekki staðið bæði með mér og konunum sem líður illa mín vegna á meðan ég er í framboði fyrir VG. Og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, eða nokkur þar innan borðs, á ekki að þurfa að svara fyrir mína hegðun.

Á henni ber ég einn ábyrgð. Mér þykir leitt hvernig ég hef hagað mér, ég biðst afsökunar á því. Það góða kom út úr þessu öllu að ég er að leita mér aðstoðar til að ráða betur við samskipti og tengsl og mun halda því áfram. Það er hins vegar best fyrir öll að ég boði brottför mína úr hinu opinbera rými í haust.

Ég dreg framboð mitt í forvali Vinstri grænna í Reykjavík til baka og verð því ekki í framboði í kosningunum. Ég þakka öllu því góða fólki sem hvatti mig og studdi og þykir leitt að valda því vonbrigðum.

Ég hef ýmislegt að læra og mun leggja mig fram við að verða að betri manni. Ég vona að þessi ákvörðun mín verði til einhvers góðs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -