Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Hönnu Björgu misboðið og segir hingað og ekki lengra: „Það þarf að stinga á þetta kýli“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég get sagt að ég sé aktívur femínisti í þeim skilningi að ég læt til mín taka ef svo ber undir. Ég hef skoðanir á jafnréttismálum og mér er misboðið eins og svo mörgum öðrum um það hvernig kynferðisbrotamál eru meðhöndluð í samfélaginu af almenningi, dómskerfinu og hvarvetna. Til að útskýra það aðeins betur þá er ég að meina í fyrsta lagi hversu algeng kynferðisbrot eru, hversu kynjuð þau eru – konur eru meirihluti þolenda og karlar eru meirihluti gerenda – og svo er þetta partur af ójafnréttinu sem ríkir í samfélaginu þar sem karlar ráða á kostnað kvenna í stóra samhenginu,“ segir Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, framhaldsskólakennari og forkona jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands.

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir

Hún vakti nýlega athygli þar sem hún skrifaði grein með fyrirsögninni „Um KSÍ og kvenfyrirlitningu“. Þar nefnir hún meðal annars spillingu og ákveðið siðleysi sem hún segir hafa fylgt íþróttinni að minnsta kosti undanfarna áratugi og nefnir FIFA (Alþjóða knattspyrnusambandið) sem kallað var „skipulögð glæpasamtök“ vegna spillingar. Hún bendir á að vændi (þar með talið mansal) hafi verið hluti af skipulagi stórmóta. Aðalefni greinar Hönnu Bjargar er ung kona sem steig nýlega fram og sagði frá hópnauðgun sem átti sér stað árið 2010 og fram kemur í frásögninni að um landsþekkta gerendur hafi verið að ræða. Í greininni kemur fram að þolandanum hafi verið ráðlagt að kæra ekki. Hanna Björg nefnir í grein sinni að aðrar frásagnir séu á kreiki um til dæmis landsliðsmenn sem sagðir eru hafa beitt konur ofbeldi og bendir hún á að þöggunin sé alger og að KSÍ beri ábyrgð á henni.

Ég hef skoðanir á jafnréttismálum og mér er misboðið eins og svo mörgum öðrum um það hvernig kynferðisbrotamál eru meðhöndluð í samfélaginu af almenningi, dómskerfinu og hvarvetna.

Hanna Björg segir að fjöldi fólks hafi haft samband við sig í kjölfar greinarinnar sem hún skrifaði. „Það rignir yfir mig skilaboðum og það er engin fjaldsamleg rödd búin að hafa samband við mig. Mér finnst það vera áhugavert og það er staðfesting á því að ég sé á réttri vegferð.“ KSÍ hefur ekki haft samband við Hönnu Björgu vegna greinarinnar. Hún vill ekki tjá sig um það að svo stöddu.

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir

Hanna Björg segist í gegnum árin hafa lesið og heyrt svo marga þolendur kynferðsbrota segja frá brotum og viðbrögðum við þeim og að frásögn ungu konunnar sem lýsti hópnauðguninni árið 2010 hafi verið sterk og að hún hafi ákveðið að taka þetta skrefinu lengra og gera eitthvað. Hún byrjaði að tjá sig um þetta á Facebook-síðu sinni og síðan var það greinin því hún vildi að skilaboð sín næðu til fleiri. „Af hverju ekki ég eins og einhver annar? Ég hugsaði „hingað og ekki lengra“. Það þarf einhver að gera eitthvað. Það þarf að stinga á þetta kýli.“

- Auglýsing -

Hanna Björg segir að það skipti öllu máli að stungið hafi verið á kýlið. „Erum við ekki allar orðnar þreyttar á því að vera hræddar og vera stöðugt misboðið í öllum mögulegum aðstæðum? Það er ekki hlustað á okkur, við fáum lægri laun, við höfum færri tækifæri og við þurfum alltaf að gera allt helmingi betur en karlar til að fá sömu viðurkenningu. Þetta misrétti er svo víðtækt. Og kynferðisofbeldi er kjarni svívirðunnar í kvenfyrirlitningunni. Það er ljótasta birtingarmyndin af misréttinu og viðbrögð samfélagsins taka þetta skrefinu lengra og gera enn verra fyrir þolendur. Það er brotið á manneskju og hún situr uppi með skömmina. Það stenst enga skoðun. Þolendur eru hvattir til að kæra ekki til að varpa ekki skugga á mannorð gerandans. Þetta er svo brjálæðislega klikkað að það tekur engu tali.“

Hanna Björg er mikil baráttukona.

Hanna Björg segist vonast til þess að skrif sín verði til þess að vitundarvakning verði um kynferðisofbeldi og viðbrögð við þeim bæði í  íþróttalífinu og almennt í samfélaginu. „Ég vona líka þekktir íþróttamenn sem eru gerendur í svona málum verði teknir úr sviðsljósinu vegna þess að eins og við vitum þá er það mjög triggerandi fyrir þolendur að þurfa endalaust að geta ekki opnað fyrir fjölmiðla án þess að sjá gerendurs sína ítrekað og  jafnvel varpaða dýrðarljóma. Það hefur mjög vond áhrif á þolendur.“

Það er brotið á manneskju og hún situr uppi með skömmina. Það stenst enga skoðun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -