2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Hörmungarnar afskiptar af hálfu íslenskra stjórnvalda

Mikil flóð urðu á Costa Blanca-svæðinu á Spáni í síðustu viku, þau verstu í 130 ár. Afleiðingarnar eru þær að fimm þúsund manns hafa misst heimili sín og sjö einstaklingar hafa fundist látnir.

 

„Það er þó talið líklegt að sú tala muni hækka, þar sem í mörgum húsanna á hamfarasvæðinu býr eldra fólk og ekki er vitað hvort allir íbúar komust út,“ segir Rúnar Ásþór Ólafsson sem búsettur hefur verið á svæðinu í fimm ár.

Á svæðinu sem verst varð úti búa um eitt þúsund Íslendingar og hafa flestir þeirra tekið þátt í hjálparstarfi á svæðinu í kjölfar flóðanna, bæði fullorðnir og börn, og margir þeirra sinnt hjálparstarfinu alla vikuna. Eftir hjálparbeiðni stjórnvalda hafa íbúar á svæðinu allir lagst á eitt við aðstoð og öll fyrirtæki sem geta hafa gefið starfsfólki frí úr vinnu til að sinna neyðaraðstoð. Segir Rúnar að mikill samtakamáttur sé á meðal Íslendingana. Hópurinn hefur safnað fé til að kaupa helstu nauðsynjar fyrir þá einstaklinga sem misst hafa heimili sín og allar veraldlegar eigur vegna flóðanna. „Við höfum tekið á móti fjárframlögum á veitingastaðnum Pablo´s International. Fyrir söfnunarféð höfum við keypt bleyjur, barnavörur, mat, hreinlætisvörur og fleira. Teppi, sængur og annað höfum við fengið að gjöf og gefið til nauðstaddra.“

Skólum hefur verið haldið opnum til að hýsa þann mikla fjölda einstaklinga sem eru í neyð. Margir bæir eru lokaðir vegna hættuástands.

AUGLÝSING


Flóðin hófust seinnipartinn á föstudaginn í síðustu viku, á þeim tíma þegar flestir voru á heimleið frá vinnu og skóla. Sjálfur var Rúnar heima hjá sér. „Það hafði verið gefin út rauð viðvörun vegna yfirvofandi storms, en vegir hér og hús eru ekki byggð fyrir þetta veður, hér er sól 320 daga á ári,“ segir Rúnar og bætir við að ef flóðin hefðu átt sér stað síðar um kvöldið eða nóttina, hefði ástandið orðið mun verra og mannfallið meira.

Rúnar fyrir miðri mynd ásamt nokkrum Íslendingum. Allir leggjast á eitt við hjálparstarfið, bæði fullorðnir og börn.

Ný vá blasir við íbúum á svæðinu í kjölfar flóðanna. Skólp flýtur um allt með tilheyrandi óhreinindum og er varað við móskítófaraldri. Auk þess er hætta á veikindum, til dæmis vegna kulda.

„Það versta sem ég hef upplifað“

„Það er mikill reiði í íslenska hópnum yfir því að íslensk stjórnvöld hafi ekkert látið sig ástandið hér varða, en á Costa Blanca og í kring búa um fimm þúsund Íslendingar. Einnig hafa íslenskir fjölmiðlar lítið fjallað um það hörmulega ástand sem nú ríkir hér,“ segir Rúnar en bætir við að nálægar þjóðir hafi sinnt hjálparbeiðni með fjárframlögum og aðstoð. Spænski herinn og Rauði krossinn eru á svæðinu og sjá um að keyra hjálpargögn til nauðstaddra.

„Það er mikill reiði í íslenska hópnum yfir því að íslensk stjórnvöld hafi ekkert látið sig ástandið hér varða.“

Rúnar er ekki með á hreinu hve margir búa á svæðinu en segir að tala heimilislausra eftir hamfarirnar, fimm þúsund manns, sé mjög hátt hlutfall af heildaríbúafjölda.

Hluti af hjálpargögnum sem íslenski hópurinn hefur safnað.

„Ég verð að viðurkenna að ég beygði af þegar ég upplifði neyðina hjá fólki fyrsta daginn. Við fórum í skóla hér nálægt og þar stóðu flestir uppi allslausir, ekki með nein föt, mat eða aðrar nauðsynjar. Ég hef nú upplifað margt persónulega, en þetta er það versta sem ég hef upplifað,“ segir Rúnar. „Það jákvæða í hörmungunum er samhugur Íslendinganna sem standa saman í því að láta gott af sér leiða og hjálpa þeim sem þurfa.“

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is