Föstudagur 13. desember, 2024
-0.4 C
Reykjavik

„Í  minningu um stríðsmann sem barðist eins og ljón, sem ég elska og dái“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þann 22 janúar, 2013 er dagurinn sem breytti lífi mínu. Það er dagurinn sem ég og Olga fengum að vita að hún væri með brjóstakrabbamein. Nærri átta árum seinna les ég að brjóstaskimun eigi að hætta fyrir konur á milli fertugs og fimmtugs, Olga greindist 37 ára og lést 44 ára,“ Gísli Álfgeirsson, eftirlifandi eiginmaður  Olgu Steinunnar Weywad Stefánsdóttur. Hann gagnrýnir yfirvöld harðlega eftir að í ljós kom að boð í skimun verði breytt á þann máta að konur á milli fertugs og fimmtugs verða ekki boðaðar. Þykir þetta afar umdeilt og ekki síst, grafalvarlegt.

Von Gísla var sú að samfélagið myndi þróast algjörlega í öfuga hátt, að mögulega yrði brjóstaskimun færð niður í 35 ára aldur. Eftir að ákvörðunin varð ljós ákvað Gísli að grípa til sinna ráða og hefja rannsóknarvinnu til að vera nægilega upplýstur þegar stjórnvöld taka málið aftur til umfjöllunar.

Olga greindist með brjóstakrabbamein árið 2013. Hún barðist hetjulega með Gísla sér við hlið. Hún deildi reynslu sinni í viðtali við Vikuna árið 2017 og sýndi óhrædd örið eftir brjóstnámið á forsíðu blaðsins. Í stað þess að fara í uppbyggingu á brjóstinu brá hún á það ráð að láta tattúvera yfir örið.

„Ég skammast mín ekkert fyrir þetta og þessi reynsla er orðin svo stór hluti af mér og þeirri persónu sem ég er í dag. Ég veit að það er mikið mál fyrir margar konur í sömu stöðu að fara í sund. Mér finnst það allt í lagi og ef einhver krakki stendur og horfir eða spyr hvað hafi gerst, svara ég bara:

„Brjóstið mitt var veikt og þess vegna þurfti að taka það.“

Fyrir flest börn er það nóg og þau segja:

„Já, er það. Mamma réttu mér sjampóið.““

Fyrirmynd sem heillaði alla

Olga heillaði alla á ritstjórn Vikunnar með hispursleysi sínu og yfirvegun. Hún lætur eftir sig eiginmann, Gísla Álfgeirsson, og þrjú börn.

- Auglýsing -

Gísli rifjar upp daginn sem þau fengu þær sláandi fréttir, að Olga væri með krabbamein.

„Olga horfði út í tómið og náði engu sem læknirinn sagði. Ég man að læknirinn reyndi að útskýra allt fyrir mér en í eyrunum var suð og ljósin urðu allt í einu ótrúlega björt svo mér sortnaði fyrir augum. Framtíðin var breytt, því næst var að fara heim og reyna að útskýra fyrir börnum okkar þá, 5, 7 og 16 ára hvernig við myndum takast á við breyttar aðstæður,“ segir Gísli og bætir við:

„Næstu ár börðumst við og það leit út fyrir að við værum að sigra, en 2015 fengum við að vita að Olga væri komin með meinvörp í höfuð, mjaðmagrind og hrygg.“

- Auglýsing -

Þess vegna er skimun mikilvæg

Þá bendi Gísli á sláandi staðreyndir en í sænskri rannsókn kemur fram að af 250 konum sem voru með ómeðhöndlað brjóstakrabbamein, létust um 90% þeirra innan 6 ára og aðeins ein lifði í 15 ár.

Krabbamein uppgötvast oftast þegar sjúklingurinn finnur fyrir einkennum. Þá er meinið þegar varið að hafa alvarleg áhrif á líkamann. Oft er staðan því miður sú að of seint er að gera nokkuð.

„Það er aðal ástæðan fyrir því af hverju skimun er svona mikilvæg, til að geta hafið meðferð eins fljótt og auðið er áður en meinið er orðið ill læknanlegt og fyrir suma því miður ólæknanlegt. Aldur kvenna skiptir hér máli.“

Gísli bendir á að konur á milli fertugs og fimmtugs geta verið einkennalausar í um 2,4 ár. Konur í hópnum 50 til 59 ára geta verið án einkenna í 3,7 ár og konur 60 til 69 ára í 4,2 ár.

Dauðinn andaði ofan í hálsmálið

Eftir að Olga, Gísli og börnin fengu þessi skelfilegu tíðindi reyndu þau af fremsta megni að njóta tímans.

„… en dauðinn andaði allan tímann í hálsmálið á okkur. Við ferðuðumst og gerðum skemmtilega hluti til að börnin gætu eignast góðar minningar með mömmu, ekki til að getað strikað yfir einhver markmið fyrir framtíðina. Því framtíðin var engin, þetta var bara bið. Bið sem er mannskemmandi, sem á ekki að leggja á nokkra manneskju,“ segir Gísli og heldur áfram:

„Það að heyra þessi orð: „Þú ert með krabbamein“

Er það erfiðasta sem ég hef heyrt. Þú stendur þarna sem áhorfandi, getur ekki tekið neitt af sársauka þess sem fær dóminn, sársaukinn er andlegur og líkamlegur fyrir viðkomandi en ekki síður þá sem standa næst.“

Strákar, koma svo – Þetta eru stelpurnar okkar

Ásgeir komst að alvarlegri staðreynd eftir að hafa sökkt sér ofan í tölulegar staðreyndir um brjóstaskimun. Konur á öllum aldri nýta sér alls ekki nægilega oft þessa leið, að hans mati, að skima og taka strokur. Í brjóstaskimun er 60% þátttaka og í stroku er 67%. Þá bendir Gísli á að regluleg skimun hafi dregið niður dánartíðni kvenna um 20 til 25%.

„Strákar!, við eigum líka að aðstoða við að minna á þetta, því þetta eru stelpurnar okkar,“ segir Gísli og heldur áfram:

„Flestir erum við svo heppnir að í þessum brjóstum fengum við næringu fyrst um sinn. Við erum líka makar, synir, feður, bræður, frændur og vinir kvenna sem okkur þykir óendanlega vænt um. Við eigum að láta þetta mál okkur varða, okkar hamingja og raunir geta legið í þessu litla atriði að láta skima brjóst og taka strokur kvennanna í lífi okkar.“

Í minningu um stríðsmann

„Af hverju skrifa ég þetta? Því ég vil reyna að koma í veg fyrir að fólk upplifi missi, eins og ég, og í þessu málefni er hægt að minnka það með reglubundnum skimunum,“ segir Gísli sem skorar á stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína og vill koma á framfæri tölulegu staðreyndum málstaðnum til stuðnings.

„Ef það á að taka svona alvarlega ákvörðun sem á eftir að hafa áhrif á á líf margra kvenna og fjölskyldna þeirra á ári hverju þá verður að upplýsa konur í landinu hvað býr að baki. Skimun veitir ekki 100% öruggi, það er alltaf möguleiki á fölskum niðurstöðum. Þar af leiðandi skiptir mestu máli að fræðsla og upplýsingar séu góðar,“ segir Gísli og bætir við:

„Þetta er í minningu um stríðsmann sem barðist eins og ljón inn á sjöunda ár, sem ég elska og dái. Hinar einu sönnu Olgu Steinunnar. Ég mun alltaf berjast fyrir málstaðnum fyrir hana og okkur sem eftir sitjum með minningar okkar.“

Þá skorar Gísli á fólk að skrifa undir og deila. Þú getur skrifað undir með því að smella hér.

„Strákar ekki láta ykkar eftir liggja!! Deilist að vild!“

Tölulegar upplýsingar eftir Gísla Álfgeirsson:

Ég vil alltaf að allar konur eigi kost á að fara í skimun og að boðið verði áfram uppá skimun fyrir konur frá 40 ára aldri. Ég á gullfallega dóttur sem er bara 23 ára og ég vil ekki að hún þurfi að bíða í 27 ár eftir skimun. Nú segja kannski sumir að auðvitað fái hún skimun þar sem móðir hennar lést, en 90% kvenna sem fá brjóstakrabbamein hafa enga fjölskyldusögu, sjá hér.

Að meðaltali greinast 47 konurnar á ári og 5 konur látast, það gefur okkur að 1 af hverjum 10 konum sem fá brjóstakrabbamein muni látast.

 

Þriðjungur kvenna með brjóstakrabbamein greinist í skimun. Samkvæmt tölum frá Krabbameinsfélaginu þá greindust 66 konur á árunum 2015-2019, fyrir 40 ára afmælisdaginn sinn. Ef aldursviðmiðið á árunum 2015-2019 hefði verið 50 ára þá hefði bæst 153 konur við, sem þýðir að ef skimunar aldur hækkar þá er 70% kvenna á milli 40-50 ára, SJÁ HÉR.

Við skorum á lesendur að kynna sér pistil Gísla í heild sinni með því að smella HÉR.

Deilist að vild

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -