Laugardagur 24. september, 2022
9.1 C
Reykjavik

Ingibjörg: „Fólk hefur hringt, sagst vera fyrir utan heimili okkar og hótað að drepa okkur“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

 

Ingibjörg Tamimi Sigurjónsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn 15 ára gömul. Hún skildi við fyrri eiginmann sinn rúmlega tvítug og kynntist nokkrum árum síðar stóru ástinni í lífi sínu, Salman Tamimi, sem lést í lok síðasta árs. Ingibjörg talar hér meðal annars um lífið, ástina, dauðann og sorgina.

„Ég var rosalegur fjörkálfur, uppátækjasöm og hvatvís. Ég var óþekka dóttirin hennar mömmu. Ég var með alls konar uppátæki en við krakkarnir, vinirnir, köstuðum stundum eggjum í hurðir og stundum þegar var mikill snjór lokuðum við götum í bænum með snjóboltum. Þetta voru þannig uppátæki; að hrekkja náungann og stríða.“

Ingibjörg Tamimi Sigurjónsdóttir ólst upp í Ólafsvík og á Hellissandi. Ingibjörg er í helgarviðtali Mannlífs þessa helgina og hefur viðtalið nú þegar vakið mikla athygli. Viðtalið í heild má nálgast HÉR en hér fyrir neðan greinir Ingibjörg frá því af hverju hún snerist til Islam.

Snerist til Islam

Ingibjörg og Salmann giftu sig hjá sýslumanni árið 1994. Hún gerðist múslimi þremur árum síðar.

„Þetta var bara annar veruleiki sem hann kynnti fyrir mér; annar heimur. Við spiluðum mikið arabíska tónlist og ég fékk að heyra tungumálið hans þegar hann las upp úr Kóraninum og þegar hann bað. Þetta var allt nýtt.“

- Auglýsing -

Ingibjörg segir að Salman hafi ekki ýtt á sig að skipta um trú. „Hann sagði alltaf að það væri undir mér komið en það væri skylda sín að fræða mig um Islam en allt hitt væri undir mér komið. Það sem mér fannst það góða við Islam er að allir spámennirnir eru í því og þar með Jesú og Múhameð er sá eini sem bættist við. Og það sem hann var búinn að vera að boða í sinni trú var nákvæmlega það sama og ég var búin að læra sem krakki um kristna trú nema að Múhameð er ekki í kristinni trú. Mér fannst vera svo fallegt sem haft er eftir honum í Kóraninum og margt fallegt varðandi réttlæti og siðferði. Þetta varð til þess að ég skipti um trú því ég var í rauninni ekkert að skipta svo mikið um trú. Við trúum alveg á sama guðinn og alla spámennina en það bættist bara einn við.“

Ingibjörg skráði sig úr þjóðkirkjunni og fór með trúarjátningu Islam. Vitnin voru tvö. „Þá var það búið.“

- Auglýsing -

Múslímar biðja almennt fimm sinnum á dag en Ingibjörg segir að þau hjónin hafi ekkert gert það almennt. „Ég bað hins vegar fimm sinnum á dag þegar ég var að fasta. Við reyndum okkar besta en að sjálfsögðum erum við bara mennsk og ekki fullkomin.“

Hjónin eiga tvö börn, son og dóttur, og ólust þau upp í Islam.

Ingibjörg segir að hún og fjölskylda sín hafi orðið fyrir fordómum vegna þess að þau eru múslímar. Hún segir að flestir séu jákvæðir gagnvart því en að auðvitað séu undantekningar.

„Ég lít alltaf miklu meira á það góða og fallega sem er í kringum okkur. Varðandi fordóma þá hef ég til dæmis heyrt sagt að sumir myndu ekki líta mig réttum augum þegar ég hef sett upp slæðu, hijab. Við höfum orðið fyrir fordómum þegar við höfum verið að fasta sem hafa meðal annars falist í athugasemdum og svo höfum við fengið hótanir; fólk hefur hringt og sagst vera fyrir utan heimili okkar og hótað að drepa okkur af því að við erum múslímar. Við kærðum einu sinni þegar maður hótaði að drepa Salman og það fór fyrir dóm. Þetta er vont. Maður er stundum hræddur. Það er engi lygi. Dómarinn spurði hvort við vildum fá einhverjar miskabætur en við Salman sögðum að það væri ekki aðalmálið heldur að láta vita um þetta. Við vildum bara láta vita að það er ekki heilbrigt að láta svona.“

„Tíminn heldur áfram. Mér finnst að hann ætti að stöðvast en hann heldur áfram og ég þarf alltaf að takast á við nýjan dag.“

Draumur Salmans var að moska risi í Reykjavík. „Ég trúði því ekki að hann myndi deyja áður en moskan risi. Þetta var forgangsmál hans.“ Ingibjörg segir að Félag múslíma, sem Salman stofnaði, hafi enn vilyrði fyrir lóð við hlið Herkastalans en að enn vanti fjármagn til að hefja framkvæmdir. „Við erum að fjármagna þetta sjálf og það gengur fremur hægt.“

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu. Viðtalið má finna í heild HÉR.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -