2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Innbrotsþjófur sem klifraði upp á svalir í Reykjavík reyndist húsráðandi sem læst hafði sig úti

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um mann vera að klifra upp á svalir í gærkvöldi. Maðurinn var að fara inn í íbúð í fjölbýlishúsi. Ekki reyndist vera um innbrotsþjóf að ræða eins og talið var í fyrstu heldur hafði húsráðandi læst sig úti.

75 mál voru skráð milli 17:00 – 05:00 í dagbók lögreglu. Tilkynnt var um ölvaðan mann sem hafi stokkið upp á bifreið og hoppað á þaki hennar svo hún skemmdist. Atvikið átti sér stað rétt eftir miðnætti í miðbænum. Maðurinn var farinn þegar lögregla kom á vettvang.

Fjórir ökumenn voru grunaðir um akstur undir áhrifum í gærkvöldi. Einn ökumaður var stöðvaður á Kringlumýrarbraut vegna hraðaksturs. Hann reyndist vera undir áhrifum fíkniefna, með fíkniefni meðferðis og á ótryggðri bifreið. Þá voru þrír aðrir ökumenn stöðvaður í akstri vegna gruns um að aka undir áhrifum. Tveir þeirra voru vistaðir í fangageymslu.

Þegar reykvísk húsmóðir læsti sig úti, skrúfaði í sundur gluggafestingu og festist með rassinn út um glugga

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að lögreglan á höfuðborgasvæðinu fær tilkynningu um húsráðanda að brjótast inn á eigið heimili. Kona sem læsti sig utan eigin heimilis í vor sendi lögreglunni skilaboð í gegnum Facebook síðu sveitarinnar. Hún vildi koma í veg fyrir að lögreglubíll yrði sendur á staðinn ef ske kynni að nágrannar hefðu orðið varir við uppátækið. Skilaboðin vöktu talsverða athygli meðal starfsfólks lögreglu sem deildi þeim á vefsíðu embættisins. „Sá sem þau sendi gaf góðfúslega leyfi sitt og gat hlegið, eftir á, að þeim aðstæðum sem þarna kom upp.”

AUGLÝSING


Í skilaboðunum sagði; „Ég vildi bara láta ykkur vita, ef ske kynni að fengjuð tilkynningu um innbrot í hús við **********, að ég húsmóðirin á heimilinu, læsti mig úti og brá á það ráð að skrúfa gluggafestinguna upp með bíllyklinum mínum og klifra inn um gluggann.” Þá kemur fram að innbrotið hafi gengið brösulega og hún hafi setið föst í glugganum í dágóða stund. „Ég hef smá áhyggjur af því að gangandi vegfarendur kunni að hafa séð til mín með rassinn út um gluggann og tilkynnt herlegheitin. En þetta var ekki það sem það leit út fyrir að vera.”

Konan endar skilaboðin á léttu gríni og segir innbrotið hafa verið árangursríkt þrátt fyrir brösuglega byrjun. „Ég komst óslösuð frá þessu öllu saman, náði að grípa veskið mitt og láta mig hverfa, allt áður en lögregla mætti á staðinn.”

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is