Miðvikudagur 8. maí, 2024
2.8 C
Reykjavik

Bílaviðskipti enduðu með ofbeldi: Stungu kaupandanum undir kalda sturtu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er víst öruggt að viðskipti manna á milli ganga ekki alltaf snuðrulaust fyrir sig. Sem betur fer endar þó líklega minnihluti þeirra með handalögmálum, en það gerðist þó einmitt í Seláshverfi í Reykjavík, þegar seljandi bifreiðar taldi kaupandann hafa svindlað á sér. Seljandinn og föruneyti hans gripu til heldur óhefðsbundna aðferða, en kaupandinn var á endanum settur í sturtu.

 

Sakaði kaupandann um að hafa falsað bankaskjal

„Allsérstæðar innheimtuaðgerðir vegna bílaviðskipta voru viðhafðar í húsi einu í Seláshverfi um helgina. Þær enduðu með því að ráðist var að bílkaupandanum á heimili hans og honum stungið undir kalda sturtu,“ segir í frétt DV um málið. Atvikið sem um ræðir átti sér stað í janúarmánuði árið 1990.

Forsaga málsins er sú að seljandi bílsins hafði ekki fengið greitt fyrir fararskjótann, sem hann hafði selt manni búsettum í Seláshverfi í Reykjavík.

Blaðið kemur út laugardaginn 20. janúar, en seljandi bílsins hafði farið, heldur ósáttur, við annan mann til að krefja kaupandann um peningana kvöldið áður. Svör kaupandans voru á þá leið að hann hefði peningana ekki tiltæka. Seljandi bílsins vildi þá að kaupin gengju til baka og sakaði kaupandann um að hafa falsað bankaskjal fyrir kaupin. Kaupandinn gekkst ekki við þessu. Eftir það virðist seljandinn hafa misst þolinmæðina.

„Tvímenningamir réðust þá á kaupandann, rifu fötin af honum og tuskuðu hann til í íbúðinni. Honum var einnig hótað lífláti ef hann segði lögreglunni frá. Að lokum var maðurinn færður undir kalda sturtu.“ (DV)

- Auglýsing -
Árbær, hvar Seláshverfi er að finna.

Sagði seljandann hafa stolið bílnum

Eftir að hafa stungið kaupandanum í kalda sturtuna tók seljandinn og föruneyti hans lyklana að bílnum úr vörslu kaupandans og keyrðu fenginn á brott. Kaupandinn lét aðfarir seljandans ekki yfir sig ganga, heldur tilkynnti hann lögreglu um árás mannanna, sem og að búið væri að stela bílnum hans. Þótt líklega hafi eignarhaldið verið á gráu svæði.

Lögregla hafði uppi á seljandanum, sem fékkst til að afhenda lögreglu bíllyklana, án þess þó að gefa það upp hvar gripurinn væri niður kominn. Seljandinn er sagður hafa tilkynnt lögreglu að hann ætlaði sér að geyma bílinn í öruggri vörslu sinni þar til málið væri leyst og hann fengi sína greiðslu fyrir fákinn.

„Kaupandi bílsins gaf skýrslu til lögreglu en hann hefur ekki kært seljandann fyrir líkamsárás né heldur stuld á bifreið. Lögreglan hefur ekki frekari afskipti af einkaviðskiptum sem þessum nema að kæra liggi fyrir. Bíllinn umdeildi er enn í vörslu seljandans,“ segir í frétt DV.

- Auglýsing -

Í fréttinni kemur einnig fram að nokkuð algengt sé að seljendur, sem telji sig svikna í bílaviðskiptum, „grípi til róttækra ráða til að nálgast þau verðmæti aftur sem þeir fá ekki greitt fyrir samkvæmt samningum.“

Ekki er vitað hver málalok urðu milli seljandans og kaupandans hreina í Seláshverfi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -