Laugardagur 20. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Birna bankastjóri Íslandsbanka: „Það eru allt önnur viðhorf í dag – meira eigið fé“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Með því að hafa gott fólk í kringum mig og vera svolítið auðmjúk og vinna bæði með starfsfólki og viðskiptavinum. Ég held að það sé leiðin í þessu,“ þetta segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka er spurð í helgarviðtali Mannlífs hvernig hún fari að því að komast af í þessum harða heimi.

Konur versus karlar í þessum harða heimi.

„Þetta hefur náttúrlega mikið breyst en tölfræðin sýnir okkur eðlilega að það eru ekki margar konur sem stjórna fyrirtækjum á Íslandi í dag; ekki bara á Íslandi heldur alþjóðlega líka. Auðvitað er þetta að breytast smám saman, en ég held að við eigum eftir að sjá breytingar og hvers vegna held ég það? Því að ég sé í framkvæmdastjóralaginu í flestum fyrirtækjum í dag að þar er orðin nokkuð góð blanda, þannig að þetta á eftir að skila sér upp. Ég er sannfærð um það.“

Birna er spurð hvort eitthvað hafi breyst síðan í hruninu, hvort sama brjálæðið sé í gangi eða jafnvel hvort það séu önnur viðhorf.

„Það eru allt önnur viðhorf. Það er bara allt betur undirbúið, bankarnir gera líka meiri kröfur um upplýsingagjöf og svo framvegis og fyrirtækin eru þar líka. Varðandi heimilin þá er neytendalöggjöf sem gerir það að verkum að fólk þarf nákvæmlega að vita hvað það þarf að greiða mikið. Þannig að það er bæði lagalegt umhverfi og almennt viðhorf hefur líka breyst mikið. Margir spyrja núna hvort þetta sé ekki að fara í sama farið, en nei, ég er ekki þar. Mér finnst vera enn þá meiri hugsun í þessu og það er meira eigið fé í verkefnum sem verið er að fara í en var þá. Og það hjálpar svo mikið þessum verkefnum.“

Bankastjórinn er spurður hvort munur sé á körlum og konum í stjórnendastöðum.

Það er eins og konur séu aðeins sterkari í framkvæmdinni en karlmenn gefa út að þeir séu sterkari í stefnunni.

- Auglýsing -

„Þetta er góð spurning og ég hef velt þessu heilmikið fyrir mér. Við gerum starfsmannakönnun á hverju ári þar sem við mælum alla leiðtogana innanhúss, alla sem eru stjórnendur hjá okkur og hvernig þeir standa sig sem stjórnendur, og ég hef aðeins látið gefa mér niðurstöður milli kynjanna. Það er eiginlega enginn munur á þeim. Það er eins og konur séu aðeins sterkari í framkvæmdinni en karlmenn gefa út að þeir séu sterkari í stefnunni. Það er nánast hægt að segja að það sé ekki neinn munur. Mér finnst þetta vera áhugavert, en það gæti haft eitthvað með fyrirtækjamenninguna hjá okkur að gera, þannig að ég veit ekkert hvernig þetta er almennt. En þetta er eitthvað sem væri áhugavert að skoða.

Ég held að karlstjórnandinn sé líka að breytast þannig að hann er að taka upp gildi sem hafa töluvert breyst líka. Þannig að ég held að það verði minni munur og að við verðum búin að finna leiðina í þessu.

Þetta er á réttri leið. En þetta gerist náttúrlega afar hægt. Ég held að allir séu nú sammála um það.“

- Auglýsing -

Peningar

„Money makes the world go round“ söng Liza Minelli í söngleikjamyndinni Cabaret. Hvað finnst bankastjóranum um peninga?

„Ég held að allir séu sammála um að peningar skipta máli, sérstaklega ef fólk hefur ekki nóg af þeim, og auðvitað upplifa þeir það sem eru í vandræðum, en það hefur mikil áhrif á líf þeirra. Það er sýn Íslandsbanka að vera hreyfiafl til góðra verka. Það er kannski þess vegna sem mér finnst vera gaman að vera í banka og mér finnst fjármálageirinn vera áhugaverður, því mér finnst við oft ná því að láta svona drauma rætast; bæði varðandi atvinnulífið og varðandi það að ungt fólk er að kaupa sér fasteignir og svo framvegis. Ég lít á peningana svolítið þannig hvað þeir geta verið mikið hreyfiafl til góðra verka bæði fyrir samfélagið í heild sinni og síðan fyrir fjölskyldur og fyrirtæki.“

Hvað ráðleggur svo bankastjórinn ungu fólki sem er að koma sér fyrir í lífinu og byggja upp eigin efnahag?

„Það þarf að gera sér svolítið raunhæf markmið, en ég verð líka að segja að það verður líka að vera aðeins kjarkað; að hafa hugrekki til að stíga skrefið.“ Hún talar um þegar ungt fólk veltir fasteignakaupum fyrir sér, sem sé stór og mikil ákvörðun, sé gott að banki fái að taka þátt í því. „Það þarf að sýna ákveðið hugrekki. En skynsemi að sjálfsögðu.“

Það er bara allt betur undirbúið, bankarnir gera líka meiri kröfur um upplýsingagjöf og svo framvegis og fyrirtækin eru þar líka.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -