Á laugardaginn kemur fer fram árlegt Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka en þar hlaupa þúsundir manna um götur borgarinnar til styrktar hinum ýmsu samtökum og góðgerðamálum. Einn þeirra er Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins á Íslandi. En Guðjón er ekki einn á ferð því með honum er ungur dóttursonur hans, Kristján Emil Blöndal en stundum fara hin barnabörnin tvö með honum á æfingar.
„Það er misjafnt hver fer með mér á rúntinn en ég á þrjú barnabörn. Annars eru alltaf Halla konan mín og hundurinn Tinni með í för. Það má segja að Halla fari með okkur þrjá út að ganga. Við göngum eða hjólum um Lindirnar í Kópavoginum. Við blásum ekki úr nös félagarnir en reynir meira á Höllu og Tinna í brekkunum,“ sagði Guðjón í samtali við Mannlíf. Aðspurður hvort hann hefði hlaupið áður í maraþoninu játar hann því: „Reyndar ekki með svona æfingafélaga. Það er miklu skemmtilegra sko.“

Segir Guðjón æfingarnar ganga vel. „Já, já, við förum alltaf smá hring út á róló og slíkt. Það verður að hafa gaman af þessu líka.“ En er Guðjón ekki bjartsýnn á að vel gangi á laugardaginn? „Jú, alveg hiklaust og ég skora á fólk að heita á okkur félagana.“
Þau sem vilja heita á MDN-samtökin hjá Guðjóni geta gert það hér.