Gögn hafa borist Mannlífi frá Helgu Jónsdóttur oddvita Vina Kópavogs er staðfesta að gerður hafi verið samningur á milli lóðarhafa á Þinghólsbraut 75 og Bakkabraut 2. Sá samningur var ekki við bæinn en útfærður í byggingarnefndarteikningum samþykktum af bænum.
Helga segir í tölvupósti til Mannlífs að hún hafi ekki staðið í deilum við skipulagsnefnd Kópavogs vegna málsins líkt og Mannlíf hefur sagt frá, aðeins bent á að með samningnum hafi torfþak á tækjageymslu við Bakkabraut orðið framlenging á lóðinni við Þinghólsbraut.
„Sá samningur er milli lóðarhafanna en ekki við bæinn en var útfærður í byggingarnefndarteikningum samþykktum af bænum. Allan þennan tíma hef ég séð um garðinn, málað girðingar, plantað gróðri og slegið grasflöt og enginn gert við það athugasemdir í hartnær fjörutíu ár,“ skrifaði Helga í tölvupóstinum.
Þá segir hún einnig: „Hér fylgir yfirlýsing Helga Hafliðasonar arkitekts, dags. 11. nóvember 2020, sem send var skipulagsstjóra Kópavogs Birgi Hlyni Sigurðssyni með tölvupósti 12. nóvember 2020 kl. 14.21. Hún ætti því tvímælalaust að vera í gögnum Kópavogsbæjar.“