Sunnudagur 2. október, 2022
8.8 C
Reykjavik

Hrafn segir Surtlu hafa minnkað: „Ég ætla alla leið í vítaspyrnukeppni, ef þörf krefur“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Hrafn Jökulsson, rithöfundur, skákfrömuður og ýmislegt fleira, berst eins og alþjóð veit af krafti við erfitt krabbamein sem hann kallar Surtlu. Hefur baráttuþrek hans vakið aðdáun Íslendinga en hann vill ekki vera kallaður hetja.

Hrafn skrifaði færslu rétt yfir 13:00 í dag á Facebook þar sem hann segir að Surtla hafi minnkað en baráttuna kallar hann Operation Mikael.

„OPERATION MIKAEL —

Kæru vinir. Geisla- og lyfjastríð hafa greitt Surtlu þung högg. Lítil var hún fyrir en nú er hún ennþá minni. Margar jákvæðar tölur en Surtla er auðvitað langt í frá búin að vera og lungnabólgan er svæsin. En á þessum afmælisdegi pabba skulum við nota orð Winstons vinar okkar:
„Now this is not the end. It is not even the beginning of the end. But it is, perhaps, the end of the beginning.“,“ skrifaði Hrafn og bætti við:

„Höfum eitt á tæru, við Surtla verðum aldrei sundur skilin. Þegar hún skaut upp sínum svarta kolli, var útlit fyrir að baráttan stæði aðeins í örfáar vikur. Skapari minn hefur nú hleypt mér í framlengingu á úrslitaleiknum mikla. Þetta hefur verið stórkostlegur tími og ég ætla alla leið í vítaspyrnukeppni, ef þörf krefur.“

Því næst þakkaði Hrafn stuðninginn sem hann hefur fundið fyrir síðan bardaginn við Surtlu hófst en bað fólk að gera ekki of mikið úr hetjuskap sínum:

„Stuðningur vina minna hefur verið ómetanlegur, og öll ykkar fallegu orð.
En ég bið ykkur elsku vinir að gera ekki of mikið úr „hetjuskap mínum“, ég fer hjá mér við slíkt. Í okkar heimi eru óteljandi hetjur sem takast á við verkefni lífsins frá degi til dags án þess að fá nokkurt hrós. Það eru hvunndagshetjurnar sem ég ber ótakmarkaða virðingu fyrir. Fólkið sem vaknar á morgnana og fer og lætur gott af sér leiða. Fólkið sem ferðast yfir hálfan heiminn til að skapa börnum sínum nýtt líf. Fólkið sem lætur ekki bugast frammi fyrir valdníðslu og skepnuskap. Börnin á Barnaspítala Hringsins og öll börn sem mæta óréttlæti hinna fullorðnu.
Kæru vinir, yfir mig hefur rignt óverðskulduðum yfirlýsingum um hetjuskap minn. Innilegar þakkir en margir verðskulda slíkt lof fremur en ég. Ef þið viljið gleðja mig, gerið það með því að taka eftir hetjunum, alvöru hetjunum. Það vekur mér sanna gleði ef þið rifjið upp eitthvað sem ég hef gert en ekki hvernig ykkur finnst að ég sé. Ég bið ykkur að rifja upp sögur fremur en lýsingar á persónu minni. Finnið ykkur hetjur dagsins og sendið mér sögur af þeim.“Í niðurlagi færslunnar segir hann baráttuna rétt að byrja og að næstu daga þurfi hann að einbeita sér að slagnum sem framundan sé.
„Já, baráttan er rétt að byrja ef Skapari minn leyfir. Nú mun ég einbeita mér að þeim mikla slag, nú þegar Surtla hopar tímabundið út í horn að sleikja sín geislasár. Verið viss um eitt: hún getur lokið dansinum í einu vetfangi, en ég mun dansa og dansa, ýmist byrstur eða með bros á vör. Á næstu dögum mun ég pósta færra hér á facebook og einbeita mér að næsta kafla í þessum stórkostlega seinni hálfleik lífs míns.
LAG DAGSINS: Dalaka Obala.
AFMÆLISBARN DAGSINS: Jökull Jakobsson.
- Auglýsing -

FRAM TIL SIGURS!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -