Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Inga Maren dansari: „Ég átti þungt uppeldi – en við getum verið betri í að bjarga hvert öðru“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég átti að hluta til þungt uppeldi þar sem ég fékk á tilfinninguna að ég væri ekki nógu góð. Það smitaðist yfir í dansinn og það hefur verið ansi erfitt að berja þann frasa frá sér. Stundum hef ég ekkert skilið í sjálfri mér; að segja ekki skilið við fagið en þegar ástríðan er mikil og metnaðurinn þá vill maður sigrast á því sem verður á vegi manns. Líklegast hefur dansinn bara hjálpað mér að sigrast á þessum frasa og breyta grunngildum mínum til betri vegar.“

Í einlægu viðtal við Ingu Maren Rúnarsdóttur dansari, danshöfund og jóga, segir hún okkur frá danslistinni, nýju verki sínu og því sem dró hana inn í dansheiminn.

Inga Maren hefur starfað sem dansari og danshöfundur í fjölda ára, bæði hjá Íslenska dansflokknum og sjálfstæðum hópum.

Verkið: Ævi/Íslenski dansflokkurinn

Á síðastliðnum þremur árum hafa Inga Maren og Júlíanna Lára skapað tvö dansverk saman og er Hvíla sprungur það þriðja í röðinni. Verkin Ævi og Dagdraumar hlutu góðar viðtökur áhorfenda og hlutu samtals sex grímutilnefningar, m.a.  sem barnasýning ársins og búningar ársins 2020.

Inga Maren hlaut tvenn verðlaun fyrir Ævi, sem dansari og danshöfundur ársins.

Inga segist vera með óbilandi hreyfiþörf og geri því líklegast óþarflega mikið af því að hreyfa sig. Ásamt því að vera dansari er hún mikill hlaupari, ævintýrapési og vinur og segir okkur að rúsínan í pylsuendanum sé mömmuhlutverkið.

- Auglýsing -

Þykir hrikalega gaman að dansa

Talið okkar berst að því hvað hafi dregið hana að dansinum og segir Inga:

„Ég byrjaði víst áður en ég hafði vit til þess að hafa skoðun á svoleiðis hlutum í lífinu. Þó hótaði ég því oft að hætta á unglingsárum en man vel línuna: „þú verður allavega að klára önnina“ og þá einhvern veginn fór ég alltaf á næstu önn. Annaðhvort var mamma mín svona sniðug eða ég svona gleymin. Kannski sitt lítið af hvoru. Auk þess myndaðist svo dýrindis góður vinskapur og það hefur haldið áfram allt mitt líf, að eignast mitt besta fólk í gegnum dansinn, svo það hefur verið ómetanlega gefandi. En þegar öllu er á botninn hvolft þykir mér hrikalega gaman að dansa. Að reyna aftur og aftur við áskoranirnar sem finnast í danssalnum er enn gefandi eftir öll þessi ár og ég er þakklát fyrir að fá enn að glíma við þetta allt saman.“

Inga segist hafa dansað frá því að hún man eftir sér og samið dansverk frá því hún var í skólanum í London.

- Auglýsing -

„Hér heima var ég að semja í samstarfi við aðra listamenn til að byrja með og stofnaði hópa út frá því. Upp á síðkastið hef ég verið að semja ein, sem mér finnst mjög gaman en þetta er þriðja verkið sem ég geri sjálf.“

Inga er að vinna að nýju verki sem heitir Hvíla sprungur og ætlar að leyfa okkur að skyggnast inn í verkið og undirbúninginn. Verkið er unnið út frá myndum RAX, Ragnars Axelssonar, og við tónlist eftir Stephan Stephensen (GusGus) og Óttar Sæmundsen.

Í minni sögu lærði ég að fela mig

Verkið: Hvíla sprungur/ Íslenski dansflokkurinn

Í verkinu Hvíla sprungur dansa fjórir dansarar í landslagi af myndum eftir RAX. Myndirnar eru notaðar á óhefðbundinn hátt sem gefur dönsurunum tækifæri til að hverfa inn í sviðsmyndina.

„Í verkinu er ég einmitt að kafa inn í mannshugann. Nýlega gerði ég verk sem fjallaði um mannsævi og nú er ég að kafa inn á við. Ég á mína sögu sem ég lagði að hluta til á vinnuborðið og bauð dönsurunum í verkinu að gera slíkt hið sama. Svo mín persónulega saga birtist ekki á sviðinu heldur blandast sögur okkar allra saman. Í minni sögu lærði ég að fela mig, það var hluti af því hvernig ég tókst á við þær aðstæður sem ég bjó við og við vinnum með það í sýningunni. Til þess notum við myndir frá RAX sem verða að sviðsmynd og búningum en ég er mjög spennt að vinna með það.

Allir hafa eitthvað í sínum bakpoka og það er svo margt sem manneskjan geymir í sér sem ekki sést utan á henni. Nafnið Hvíla sprungur vísar í það, ég sé fyrir mér að við manneskjurnar höfum öll eins konar jökulsprungur að geyma, þar sem hefur fennt yfir sprunguna og við hreinlega getum ekki vitað hvort eða hvenær við dettum ofan í hana. Mér finnst svo flott að hugsa til þess, þegar hópur fólks er að ganga saman á Hvannadalshnjúk, þar sem allir eru saman í línu og læra fyrir ferð að ef einn dettur í sprungu þurfa allir hinir að leggjast á hliðina til þess að bjarga honum. Samvinna hóps, sem annars er bara í leiðslu á göngu, sem getur virkjast á örskotsstundu. Mig langar svo til þess að samfélag okkar geti virkað eins, að við getum verið betri í að bjarga hvert öðru. En þar kemur líka inn sú staðreynd að stundum sjáum við ekki þegar fólk dettur, þannig að við þurfum líka að læra að biðja um hjálp sem einstaklingar.“

Magnaðir dansarar

Þegar Inga var að velja dansara fyrir verkið fannst henni „mikilvægt að dansararnir væru ljúfir einstaklingar og gæfu af sér til hver annars svo það skapaðist góður hópandi. Ég var ansi heppinn með lið í þetta skiptið, þau eru ekki bara magnaðir dansarar heldur dásamlega skemmtileg líka.“

Sýningin verður frumsýnd 29. janúar 2022 á Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu og að lokum segir Inga:

„Opnum okkur og verum til staðar, förum á danssýningar og listviðburði og fyllum okkur af gleði þegar við getum!“

 

Um viðburðinn

Hvíla sprungur

Hugurinn er í móðu.

Líkt og hann sé hulinn hvítri snjóþekju.

Umhverfið sem var svo kunnuglegt er skyndilega einsleitt og framandi.

Líkt og rjúpan sem hefur lært að bregða litum til þess að lifa af hefur manneskjan lært að aðlaga sig umhverfi sínu.

Hún samlagast fjalllendinu, felur sig, hverfur.

Hún vill ekki sjást.

Það er líkt og blóðið taki að storkna í æðunum, allt verður hægt og hratt samtímis.

Hver augngota verður ógnvekjandi, andardrátturinn svo hávær, hjartslátturinn yfirgnæfir hverja frumu líkamans.

Það er erfitt að hreyfa sig.

Er ég fundinn?

Hendurnar fálma í þokunni.

Það birtir til. Sárin eru sýnileg, þau ytri og þau innri.

Rispur á sál, skarð í hjarta.

Þar hvíla sprungur sem fennt hefur yfir.

Tíminn líður og drífan fellur, felur sprungur sem hvíla.

 

Íslenski dansflokkurinn hefur getið sér gott orð fyrir að vera framsækinn nútímadansflokkur skipaður úrvalsdönsurum í hæsta gæðaflokki. Dansflokkurinn er sjálfstæð ríkisstofnun með aðsetur í Borgarleikhúsinu. Dansflokkurinn stendur fyrir ýmsum fræðsluverkefnum til að kynna og efla áhuga ungs fólks á danslistinni. Hann sýnir reglulega í Borgarleikhúsinu og heldur sýningar utan höfuðborgarinnar.

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -