Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Keikó synti til Noregs og drapst úr lungnabólgu – Hvalurinn vildi ekki frelsið eftir dvöl í Eyjum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Haustið 1998 var háhyrningurinn Keikó fluttur frá dýragarði í Bandaríkjunum til Vestmannaeyja, þar sem hann dvaldi í kví í Klettsvík þar til honum var að lokum sleppt.

Keikó var heimsfrægur háhyrningur, en hann lék burðarhlutverk í kvikmyndinni Free Willy, sem kom út árið 1993 og naut gríðarlegra vinsælda. Sögu háhyrningsins Willy, sem Keikó leikur í myndinni, svipar um margt til sögu Keikó sjálfs. Í kvikmyndinni er Willy bjargað úr dýragarði þar sem hann eyðir dögum sínum vansæll í búri og skemmtir gestum garðsins með því að leika listir sínar. Í forgrunni er vinasamband ungs drengs og Willy, en það er drengurinn sem leggur á ráðin um að frelsa vin sinn úr prísundinni.

 

Frá Íslandi til Kanada, Mexíkó og Hollywood

Saga Keikó hefst þegar hann var handsamaður undan ströndum Íslands árið 1979, þá aðeins um tveggja ára kálfur. Hann var tekinn frá móður sinni og seldur til skemmtigarðsins Marineland í Ontario í Kanada. Þar var hann þjálfaður sem skemmtikraftur. Árið 1985 var Keikó seldur til Reino Aventura, sem er skemmtigarður í Mexíkó.

Í meira en áratug var Keikó haldið föngnum í litlum tanki í skemmtigarðinum í Mexíkó, algjörlega einangruðum og vansælum. Það var þar sem framleiðendur myndarinnar Free Willy fengu hann til að leika í kvikmyndinni.

Myndin sló í gegn og fólk um víða veröld fékk mikinn áhuga á háhyrningi myndarinnar.

- Auglýsing -

Þegar aðdáendur komust að því að Keikó væri haldið föngnum, rétt eins og Willy, urðu til ýmsar herferðir til að knýja fram að Keikó yrði sleppt úr haldi sædýragarðsins. Ber þar helst að nefna herferðina Frelsum Keikó (e. free Keiko). Í ljós kom að vist Keikós í Mexíkó var afar slæm og heilsu háhyrningsins hafði hrakað mjög. Hann var kominn með slæmar sýkingar í húðina vegna óviðunandi vatnsgæða og hann var alltof horaður.

Í framhaldinu var krafan um að sleppa Keikó lausum á æskustöðvum sínum við Ísland afar hávær.

Free Willy (1993)

Keikó frelsaður – þjálfun í Klettsvík

„Eigendur“ Keikó létu að lokum undan og áætlanir um að flytja hann til Íslands fóru af stað.

- Auglýsing -

Fyrst um sinn var hann fluttur til Oregon í Bandaríkjunum, árið 1996, þar sem hann dvaldi í tvö ár. Þar var honum kennt að veiða lifandi fisk og smátt og smátt var Keikó farinn að éta fiskinn sem hann veiddi. Á þessum tveimur árum gekk húðsýkingin alveg til baka og Keikó komst aftur í góð hold; fór úr 3,8 tonnum í um 4,8 tonn.

Að lokum varð það úr að hann var fluttur til Vestmannaeyja með flutningavél Bandaríkjahers, þar sem stór kví var útbúin fyrir hann í Klettsvík.

Keikó var í kvínni í Klettsvík með þjálfurum sínum og gæslumönnum fram til ársins 2002, þegar honum var loks sleppt lausum eftir mikla þjálfun. Þjálfunin fór þannig fram að hann var meðal annars látinn fylgja báti sem leiddi hann að háhyrningahjörðum. Þar var reynt að fá hann til að blanda geði við aðra háhyrninga. Keikó gekk þó aldrei sérlega vel að mynda tengst við aðra af sinni eigin tegund. Hann sótti ávallt frekar í mannfólk.

 

Keikó hittir aðra háhyrninga

Þegar Keikó var fyrst formlega sleppt árið 2002, flaut hann hreyfingarlaus um í sjónum og fylgdist með hinum háhyrningunum úr fjarlægð. Hann hafðist í framhaldinu við í sjónum í tíu daga, en að lokum sneri hann sjálfur til baka í kvína sína.

Þegar sýni voru tekin frá honum kom í ljós að Keikó hafði lítið eða ekkert nærst á meðan hann hélt við í opnum sjó.

Tveimur dögum seinna var aftur reynt að sleppa honum lausum. Aftur sigldi báturinn með honum út á sjó. Í þetta sinn fór Keikó að stinga sér og gera dýfur, sem hann hafði ekki gert í fyrra skiptið.

Þar sem búið var að setja staðsetningartæki á Keikó var hægt að fylgjast nákvæmlega með ferðum hans. Hann fór yfirleitt ekki neðar en fjóra metra undir sjávarmál og þegar hann stakk sér voru dýfurnar yfirleitt ekki meira en 26 metrar. Til samanburðar stinga villtir háhyrnar sér yfirleitt niður á 50 til 75 metra dýpi.

Keikó sást einu sinni stinga sér í félagsskap villtra háhyrninga. Það var 30. júlí árið 2002.

 

Keikó fer á flakk

Fljótlega eftir það fór Keikó lengra út og endaði á því að fara alla leið að Noregsströndum. Hann birtist í ágústlok í Halsa í Noregi og vakti mikla kátínu heimamanna. Þar sem Keikó sótti enn allra helst í félagsskap manna fékk hann mikla athygli, jafnvel of mikla. Börn kepptust um að leika við hann og ferðamenn flykktust á staðinn í hrönnum til að hitta háhyrninginn knáa.

Að lokum þurfti að banna almenningi að fara út í sjóinn til Keikós og sömuleiðis að snerta hann.

Á endanum var farið með Keikó til Taknesbugtar í nágrenninu. Þangað komu þjálfarar hans og gæslumenn og sinntu honum, sáu honum fyrir fæði og fóru með hann í sundferðir um sjóinn í nágrenninu.

Keikó virtist falla það betur að eyða tíma sínum í félagsskap manna, eftir að hafa búið í dýragörðum nánast alla sína ævi.

Keikó dó í Taknesbugt þann 12. desember árið 2003, úr bráðalungnabólgu. Hann var grafinn á landi, en uppi hafa verið hugmyndir um að með tímanum megi hugsanlega grafa beinin upp og koma þeim fyrir á safni.

Mynd: Ocean Futures Society

Hátíðahöldin, beina útsendingin og flugvélin

Mikil spenna einkenndi landann í aðdraganda komu Keikós. Daginn sem hann var fluttur til Vestmannaeyja var Stöð tvö með þriggja klukkustunda beina útsendingu frá eyjunni.

Dagana á undan höfðu öll blöð og fréttatímar verið smekkfullir af fregnum af yfirvofandi heimkomu Keikós. Í kringum 150 erlendir blaðamenn settu upp búðir í Vestmannaeyjum til að skjalfesta viðburðinn.

Bilun í lendingarbúnaði flutningavélar Bandaríkjahers varð til þess að þriggja klukkutíma sjónvarpsútsendingin sem átti að vera, varð um það bil helmingi lengri. Þetta þótti neyðarlegt fyrir Bandaríkjaher, því þarna átti að nýta þessa sögulegu stund til að sýna nýja vél hersins. Um 20 kynningarfulltrúar frá bandaríska flughernum voru á staðnum.

Bilunin varð í lendingu vélarinnar í Vestmannaeyjum. Þegar flugvélin snerti flugbrautina brotnaði hluti af lendingarbúnaði hennar og fór upp í vænginn. Þetta olli því að þessi flennistóra vél sat kyrr á flugbrautinni frá klukkan tíu og fram yfir hádegi, án þess að nokkur kæmi út eða nokkuð gerðist.

Útsendingin sýndi því lengi vel ekkert nema bið og hreyfingarlaust flykki Bandaríkjahers.

„Maður bara veltir fyrir sér: hvað í ósköpunum eru mennirnir að hangsa?,“ sagði Eiríkur Hjálmarsson í útsendingunni, en hann var fréttamaðurinn sem fór fyrir útsendingu Stöðvar 2.

Loks fóru hlutirnir að gerast og Keikó var fluttur í Klettsvíkina. Þar tók hann fyrstu sundtökin með þjálfara sínum.

Í seinni tíð hafa ýmsir haft það á orði að allt tilstandið í kringum flutning Keikós „heim“ hafi verið óttalegur sirkús. Enda var flutningadagurinn eins og hálfgerður þjóðhátíðardagur. Lög voru samin um heimkomu háhyrningsins og hvað eina annað.

Bubbi Morthens sagði hinsvegar að Keikó væri best kominn á grillinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -