Föstudagur 2. júní, 2023
9.8 C
Reykjavik

Samúel lýsir aðdraganda að andláti bróður síns: „Sárin í hjörtum okkar munu aldrei gróa að fullu“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -
„Addi er fundinn
Það fer að renna upp fyrir okkur að hann kemur aldrei aftur í heimsókn, hringir ekki framar, sendir ekki fleiri skilaboð. Engar skýjaborgir sem höfðu fundið sér fótfestu í huga okkar munu rætast. Það verða engir endurfundir, þetta er endanlegt.

Eftir standa fjölskylda og vinir í sorg og söknuði.“ Svona hefst langur og sár pistill Samúels Ívars Árnasonar, bróður Stefáns Arnars Gunnarssonar sem féll fyrir eigin hendi nýverið.

Í pistlinum fer hann yfir aðdragandann sem leiddi til þess að bróðir hans tók sitt eigið líf. Fer hann ítarlega yfir mál Stefáns Arnars og það hversu auðvelt er að koma af stað kjaftasögum og eyðileggja þannir orðstír fólks. Þá bendir hann á þær brotalamir sem finna má hjá íþróttafélögum og samböndum, þegar kemur að slíkum málum. Segir hann að það virðist „ekki skipta máli hvort þú ert sekur eða saklaus þegar orðrómurinn fer af stað.“

„Meðhöndlun ÍSÍ á þessum ásökunum er svo fyrir neðan allar hellur og nauðsynlegt fyrir íþróttasambandið að fara vel yfir þetta mál til að tryggja að eitthvað álíka gerist aldrei aftur. Sambandið, í þessu tilfelli samskiptaráðgjafi ÍSÍ sem fær málið í hendurnar, rannsakar hvorki ásakanirnar markvisst eða af fagmennsku. Sú einfalda og auðvelda leið er valin að senda Arnari póst um að sambandinu hafi „borist erindi“ en málinu sé lokið vegna þess að „hann er ekki lengur starfandi hjá félaginu“. Arnar vissi ekkert um þetta mál fyrr en hann fær þennan póst frá samskiptaráðgjafa ÍSÍ, var ekki tilkynnt hverjar ásakanirnar voru og var því aldrei beðinn um að gefa sínar skýringar á þeim. Innihald bréfsins er honum hulið allt þar til hann fer á fund með þessum aðila daginn sem hann hverfur. Þið megið reyna að setja ykkur í þau spor að fá slíkt erindi til ykkar, fá engar upplýsingar um hvað verið er að saka ykkur um og velta fyrir ykkur hvernig þið mynduð bregðast við. Svona vinnubrögð eru óásættanleg með öllu. Ef þjálfari gerist sekur um einhver brot gagnvart iðkendum, líkt og Arnar var sakaður um eða gefið í skyn að hann hafi gert í þessu bréfi, er fráleitt að viðkomandi sleppi við frekari rannsókn vegna þess eins að hann sé hættur störfum hjá félaginu þar sem meint brot áttu sér stað. Sambandinu ber að mínu mati skylda til að kæra viðkomandi til lögreglu, í það minnsta að sjá til þess að málið sé rannsakað að fullu ef rökstuddur grunur er á sekt hans/hennar. Reynist viðkomandi sekur á hann ekkert að koma aftur að störfum með börnum og ungmennum. Reynist hann saklaus verða þau sem bera ábyrgð á rógburði að svara fyrir sínar gjörðir. Það á aldrei að vera í boði að bera slíkar ásakanir á borð ef þær eru ekki byggðar á staðreyndum og/eða atburðum, fólk verður að þurfa að standa fyrir máli sínu. Orð bera ábyrgð og það er löngu tímabært að við áttum okkur á því.“

Samúel kemur einnig inn á það hversu fljótt og auðvelt er að koma af stað kjaftasögum.

„Í dag virðist ekki skipta miklu máli hvort þú ert sekur eða saklaus þegar orðrómurinn fer af stað og þessi hópur hefur aldeilis séð til þess að orðrómur um að Arnar hefi hegðað sér ósæmilega gagnvart iðkendum sínum lifi vel í handboltasamfélaginu hið minnsta. Ég frétti síðast af slíku umtali fyrir viku síðan, rúmum mánuði eftir að hann hvarf. Það elska líka allir að heyra eitthvað krassandi um náungann, smjatta vel á því og segja öðrum hvað einhver á að hafa gert, eða hvað? Frásögnin breytist svo hægt og rólega í eitthvað sem hann eða hún gerði. Snjóboltinn fer að rúlla og sögurnar hlaða á sig fleiri krúsídúllum eftir því sem fleiri bera hana á milli sín og hver og einn segir hana oftar. Áður en þú veist af er allt orðið staðfest því þú ert búinn að heyra það svo oft og jafnvel „frá einhverjum sem þekkir vel til málsins“. Fram á sviðið stíga sjálfskipaðir sérfræðingar sem reyna að upphefja sjálfan sig og stöðu sína innan hreyfingarinnar með því að vera með upplýsingar „úr innsta hring“ að eigin sögn. Í raun hafa þessir sérfræðingar ekkert annað en eitthvað kjaftæði sem þeir hafa heyrt af frá fleiri en einum og tveimur.“

Bróður sínum lýsir Samúels sem ljúfum og skemmtilegum og að samkvæmt skólastjórnendum Kópavogsskóla, hafi hann átt „sérstakan stað hjá börnunum sem hann kenndi þetta skólaárið.“

- Auglýsing -
„Við sem þekktum hann tengjum ekki saman hljóð og mynd í þessu máli, þessar ásakanir eru svo fjarri manninum sem við þekktum og var okkur svo kær. Arnar var ekki allra og hleypti sömuleiðis ekki hverjum sem er inn í sinn innsta hring, en hann var traustur og tryggur, með sterkar skoðanir á málefnum, ófeiminn við að láta þær í ljós og taka rökræður, faglegur í allri sinni nálgun í leik og starfi. Hann var einstaklega laginn með börn og ungmenni, ljúfur og skemmtilegur.

Samkvæmt stjórnendum Kópavogsskóla á hann sérstakan stað hjá börnunum sem hann kenndi þetta skólaárið fram að andláti sínu. Þar eru allir miður sín yfir því að hafa misst hann. Ég meina, hvaða toppeintak af kennara getur endað tímana sína á því að kalla yfir hópinn „allir í frímó“ og fá til baka samhljóma svarað „og hlusta á Skímó!“. Eins hafa fyrrum samstarfsmenn, iðkendur og foreldrar úr Selfossi og Fjölni, þar sem Arnar starfaði í 10 og 4 ár, fært okkur sem næst honum standa heilan haug af fallegum sögum sem mála mynd af miklum fagmanni og mannvini. Einhver sem lét velferð iðkenda sinna sig mikið varða og gerði allt sem í hans valdi stóð til að hjálpa þeim innan vallar sem utan. Margir hverjir leituðu áfram til hans þótt hann væri löngu hættur að þjálfa þá og hann var alltaf boðinn og búinn að hjálpa þeim sem það gerðu.“

Í lokaorðum Samúels segir hann að sárin í hjörtum þeirra sem þekktu Stefán Arnar, muni aldrei gróa að fullu.

„Á endanum hafði Arnar minn ekki kraftinn til að standa af sér þennan storm, þrátt fyrir að hann hefði þéttan vinahóp á bak við sig, þar á meðal einstaklinga innan íþróttafélagsins HK. Þið sem stóðuð að baki þessum stormi megið bera skömmina að eilífu og ættuð að mínu mati að halda ykkur fjarri öllu íþrótta og tómstundastarfi héðan í frá, þið eruð ekki hæf til verksins. Feluleikur þeirra seku varpar einnig skugga á alla hina foreldrana í þessum hóp, sem liggja hvert og eitt undir grun um alvarlega aðför að mannorði Arnars á meðan svo er. Aðför sem ýtir honum hægt en örugglega að bjargbrúninni og að lokum fram af henni. Við þessa aðila vil ég að lokum segja. Það er vegna framkomu ykkar og gjörða að farinn er frá okkur einn allra færasti þjálfari landsins, afbragðs kennari, mannvinur og yndislegur drengur. Við sem þekktum hann munum sakna hans og syrgja svo lengi sem við lifum, sárin í hjörtum okkar munu aldrei gróa að fullu.“

- Auglýsing -

Hægt er að lesa færsluna í heild sinni hér að neðan:

Ef ein­stak­ling­ar glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir er bent er á Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa sam­band viðPíeta-sam­tök­in sem veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -