Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Sölvi Tryggvason um Jón Pál sterkasta mann heims: „Hann vissi að hann var að deyja“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Upp úr 1980 sat almenningur sem límdur yfir túbusjónvörpunum sínum og fylgdist með fegurðarsamkeppnum og kraftakeppnum. Þessar tvær keppnir kynjanna, annars vegar í fegurð og hins vegar styrk, voru gríðarlegar vinsælar og vart var að finna það mælandi barn sem ekki gat nafngreint fallegustu konu og sterkasta mann Íslands. Eða heimsins, þegar svo bar við.

Algjörir yfirburðir

Gríðarlegur áhugi landans á kraftakeppnum var að stórum hluti til Jóni Páli Sigmarssyni að þakka en hann vann titilinn „Sterkasti maður maður“ heims hvorki minna né fjórum sinnum og hafði enginn afrekað það áður. Kjarninn rak sögu keppninnar og aðkomu Jóns Páls að henni árið 2015. Til hennar hafði verið stofnað árið 1977 sem alhliða aflraunakeppni þar sem keppt var um einn titli. Keppt var í ýmsum greinum eins og t.d. trukkadrátti, reipitogi og lóðakasti.

Keppnin var í upphafi hálfgerð brella, gerð fyrir amerískt sjónvarp, og var fálega tekið. En á níunda áratugnum varð keppnin alþjóðleg og þá komu íslenskir keppendur til leiks. Á árunum 1983 til 1996 má síðan segja að Íslendingar hafi haft algera yfirburði á mótinu. Án tillits til höfðatölu. Einna hæst reis áhuginn árið 1992 þegar keppnin var haldin hér á landi.

„Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál“

Þótt fleiri kraftkarlar hafi lagt sitt á vogarskálarinnar með frábærum árangri, má segja að það hafi verið Jón Páll Sigmarsson sem kom Íslendingum ærlega á kortið í kraftakeppnum komandi ára. Jón Páll varð súperstjarna. Eins og Skúli varð Jón Páll gríðarlega vinsæll fyrir brosmildi sína og hnyttinn tilsvör.

- Auglýsing -

„Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál“ og „Það er enginn tilgangur með lífinu ef þú getur ekki gert dauðalyftu“ eru meðal tveggja frægustu tilvitnana í Jón Pál sem var með afbrigðum orðheppinn þegar svo lá á honum.

Hið mesta ljúfmenni

Jón Páll var fæddur í Hafnarfirði árið 1960 og fluttist með fjölskyldu sinni til Stykkishólms tveggja ára gamall þar sem hann sýndi snemma af sér krafta við landabúnaðarstörf í Skáleyjum. Níu ára gamall flutti Jón Páll til Reykjavíkur og hóf að æfa fjölmargar íþróttagreinar. Hann kynntist lyftingum árið 1976 og eftir það var ekki aftur snúið.

- Auglýsing -

Jón Páll hóf keppnisferil sinn árið 1979, jafnt í vaxtarækt og kraftlyftingum og árið 1981 varð hann fyrsti Íslendingurinn að lyfta yfir 900 kg samanlagt á Íslandsmeistaramóti. Sama ár hlaut hann verðlaunin Íþróttamaður ársins og keppti í fyrsta sinn á „Sterkasti maður heims“ mótinu og lenti í 3. sæti.  Hann vann keppnina Sterkasti maður heims samtals fjórum sinnum; árin 1984, 1986, 1988 og 1990 og lenti aldrei neðar en í þriðja sæti.

Jón Páll var elskaður og dáður jafnt innan lands og utan. Hann var harður keppnismaður, sannkallaður víkingur, innan vallar, en þótti hið mesta ljúfmenni utan keppni.

Sannkallaður kettlingur.

Mikill harmdauði

Árið 1991 meiddist Jón Páll og það var þjóðinn mikilli harmdauði þegar Jón Páll varð bráðkvaddur við æfingar laugardaginn 16. janúar 1993, aðeins 32 ára að aldri.

Á þessum árum var lítið rætt og enn minna vitað um afleiðinga steranotkunar sem var, og margir segja, er ríkjandi í íþróttaheiminum. Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason skrifaði sögu Jóns Páls árið 2013 þar sem hann meðal annars ræði steranotkun Jóns Páls en lengi voru þessi mál tabú og ekki mátti orða að sterar hefðu átt þátt í fráfalli Jóns Páls. „All­ir vin­ir hans sögðu hins veg­ar við mig: „Ef Jón Páll væri á lífi í dag myndi hann pottþétt vilja segja frá þessu og opna umræðuna,“ sagði Sölvi.

Meðal þess sem kem­ur fram í bók­inni er að Jón Páll leitaði til vina sinna þar sem hann ræddi stera­notk­un sína og slæm­ar heilsu­fars­leg­ar af­leiðing­ar sem hann upp­lifði. Hann vissi að hann var að deyja.

Gerði sér grein fyrir hvert stefndi

„Síðasta árið gerði hann sér grein fyr­ir hvert stefndi. Hann fór í lækn­is­rann­sókn til Banda­ríkj­anna en hann vildi ekki fara í rann­sókn hér­lend­is því hann var svo hrædd­ur við kjafta­gang­inn. Síðasta árið var hann far­inn að passa sig að borða ekki fitu og hlúa vel að sér því lækn­ir­inn vest­an­hafs hafði til­kynnt hon­um að hjartað í hon­um væri eins og í níræðum manni.“

Sölvi segir í viðtali að tilgangurinn með bókinni hafi engan veginn að sverta minningu Jóns Páls og dragi bókin engan veginn úr afrekum hans en kraftamenn þessa tíma hafi notað stera og hafi hann staðið jafnfætis þeim.

„Ástæðan fyr­ir því að Jón Páll varð sterk­asti maður í heimi var ekki sú að hann tók stera held­ur sú að allt hans líf snér­ist um æf­ing­ar, hann hafði ótrú­lega háan sárs­aukaþrösk­uld, góð gen og vilja­styrk,“ sagði Sölvi. „Það verður eng­inn svona sterk­ur af stera­notk­un og það er ágætt að all­ir þeir strák­ar sem eru að gleypa stera í dag heyri það; þannig verður maður ekki Jón Páll.“

Eftir fráfall Jóns Páls missti þjóðin smám saman áhuga á keppninni um sterkasta manninn og við tók áhugi á góðu gengi í öðrum íþróttagreinum á við hand- og fótbolta og cross-fit. Keppnin er þó enn haldin en verður seint stórfrétt í íþróttafréttum landsmanna í dag.

Nettur hroki og karlremba

Jón Páll skildi eftir sig soninn Sigmar Frey, sem var aðeins níu ára gamall þegar að faðir hans lést. Sjálfur átti Sigmar eftir að nota misnota stera árum saman með skelfilegum afleiðingum, eins og fram kom í fréttaskýringarþættinum Kveik árið 2018.

„Áhrifin voru í fyrstu bara stórkostleg. Það er alveg sama þótt þú notir stera, þú þarft að hafa fyrir því að verða stór og hrikalegur. Og ég þyngdi mig um einhver þrjátíu kíló. En í byrjun þá fannst mér þetta… þá var eiginlega bara gaman alla daga. Maður var bara fullur af testósteróni, meira sjálfsöryggi, það kom svona nettur hroki í mann og karlremba. Og það var bara mjög gaman að vera til, til að byrja með. Og maður hugsaði með sér: „Af hverju er maður ekki alltaf svona?“

„Svo fór maður að finna fyrir aukaverkununum þegar leið á. Ég man að ég hætti að nota stera í heilt ár og hafði smá áhyggjur. Ég var ekki orðinn þrítugur og ég fann að kynhvöt og kyngeta kom ekkert til baka á heilu ári,“ sagði Sigmar Freyr í viðtali við Kveik.

 

Baksýnisspegillinn er endurbirtur. Höfundur: Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -