Laugardagur 27. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Umsátur í kjölfar skotárásar – Byssumaðurinn skotinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tæplega sextugur maður var skotinn í aðgerðum sérsveitar lögreglu, eftir að hann skaut úr haglabyssu úr íbúð sinni í Árbænum. Maðurinn var síðar úrskurðaður látinn. Skrifuð var ítarleg yfirferð atburðarásarinnar í Morgunblaðinu, þann 3. desember 2011, vegna skotárásar manns í Hraunbæ 20, í Reykjavík.

 

Skaut út um glugga með haglabyssu

Í frétt Morgunblaðsins stóð: „Tæplega sextugur maður bjó einn í íbúð við Hraunbæ. Nágrannar urðu varir við að maðurinn kom heim með látum í fyrrakvöld. Einhverjir þeirra heyrðu hljóð um klukkan hálfeitt um nóttina sem þeir tengja við að fyrsta skotinu hafi verið hleypt af í íbúð mannsins. Þá vakti hundur eins nágrannans eiganda sinn og fleiri vöknuðu um svipað leyti. Lögreglan segist hafa fengið tilkynningu um háværa hvelli um klukkan þrjú um nóttina. Almennir lögreglumenn voru sendir á staðinn til að kanna málið og þeir biðu eftir aðstoð sérsveitarmanna. Ekki tókst að ná sambandi við manninn og opnuðu lögreglumenn íbúðina sem er á annarri hæð í fjölbýlishúsi. Tilgangurinn var að sögn lögreglu að kalla til hans.

Maðurinn skaut á lögreglu

„Skotið lenti á skildi sérsveitarmanns sem kastaðist við það aftur á bak og niður stigann. Mun hann hafa rotast. Tveir almennir lögreglumenn leituðu skjóls uppi á þriðju hæð. Lögreglan dró sig til baka og öll sérsveitin var kölluð út. Almennu lögreglumönnunum var komið út og stigagangurinn rýmdur. Lögreglan náði ekki sambandi við manninn en taldi að fólk sem væri á ferli í nágrenni íbúðar hans væri í hættu. Ákveðið var að reyna að yfirbuga hann með beitingu gasvopna. Um klukkan sex var reykhylkjum skotið inn um glugga á svefnherbergi og eldhúsi í íbúð mannsins. Ekki tókst að svæla hann út því hann hóf þess í stað að skjóta út um glugga íbúðarinnar, að því er fram kom hjá Stefáni Eiríkssyni, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á blaðamannafundi í gær. Skotin dundu yfir bílastæðið og í gær voru lögreglumenn að leita að ummerkjum á öllu svæðinu. Þegar sérsveitarmenn ruddust inn í íbúðina til að yfirbuga manninn skaut hann nokkrum skotum að þeim. Hann hitti hjálmklætt höfuð lögreglumanns sem féll við og skot fóru fram hjá höfðum annarra, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar. Sérsveitin skaut þá á móti og særði manninn. Hann var úrskurðaður látinn þegar komið var með hann á sjúkrahús. Ekki fengust í gær nánari upplýsingar um aðstæður í íbúðinni eða hvernig byssumaðurinn féll. Í fréttatilkynningu ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að við fyrstu sýn verði ekki betur séð en sérsveitarmennirnir hafi farið eftir verklagsreglum.“

- Auglýsing -
Mynd/skjáskot

Lögreglan harmaði atburðinn

Farið var ítarlega yfir málið og aðstæður lögreglu á vettvangi. Haraldur Johannessen, þáverandi ríkislögreglustjóri tók fram í fréttatilkynningu að: „Lögreglan harmar þennan atburð og vill koma á framfæri innilegum samúðarkveðjum til fjölskyldu mannsins“

Meiðsli lögreglumannanna

- Auglýsing -

Meiðsli vegna skota mannsins á lögregluna reyndust minniháttar og taldi Stefán Eiríksson þá verandi lögreglustjóra að hlífðarbúnaður lögreglu og þjálfun hafi bjargað. Ennfremur kemur fram í fréttinnni: „Þá telur lögreglan að almennir lögreglumenn sem fyrstir fóru á staðinn hafi verið í mikilli hættu. 15 til 20 lögreglumenn, auk sérsveitarmanna, tóku þátt í aðgerðinni sem lauk um klukkan sjö í gærmorgun. Lögreglan tilkynnti atburðinn til innanríkisráðherra og ríkissaksóknara en embætti ríkissaksóknara fer með rannsókn málsins.“

„Eins og atriði úr bíómynd“

Í samtali við MBL sjónvarp lýsti Einar Símonarson, íbúi í Hraunbæ aðstæðum „Þetta leit út eins og atriði í bíómynd.“

Nágrannar, búsettir í Hraunbæ vöknuðu á mismunandi tímum við skothvellina og svefnleysi einkenndi nóttina afdrifaríku. „ Margir tengdu hljóðin við það að verið væri að sprengja kínverja eða skjóta flugeldum úti á bílastæði,“ segir í grein Morgunblaðins, 3. desember 2011.

„Sigurður Stefánsson segir að sér hafi brugðið þegar hann sá sérsveitina ryðjast inn í íbúð mannsins og áttað sig á því að hann hefði verið að skjóta út úr íbúðinni. „Ég var ekki mikið við gluggann eftir að ég fattaði að verið væri að skjóta út af svölunum,“ sagði Sigurður við mbl sjónvarp.“

„ Einn nágranni sem vildi ekki láta nafns síns getið sagði við mbl.is í gærmorgun að maðurinn hefði komið heim með miklum látum um klukkan ellefu á sunnudagskvöldið, greinilega ölvaður. „Hundurinn vakti mig klukkan hálfeitt þegar ég var alveg að sofna, hann gelti við fyrsta skothvellinn. Ég hélt fyrst að þetta hefði verið árekstur,“ sagði nágranninn en honum kom ekki dúr á auga alla nóttina. Hann sagði að skotið hefði verið út á bílaplan. Lögreglan hefði haft mikinn viðbúnað. Nágranninn segist hafa verið afar hræddur. „Ég viðurkenni alveg að ég grét þegar ég heyrði fyrstu hvellina.“

Kirkjan veitti áfallahjálp

„Þór Hauksson, sóknarprestur í Árbæ, sagði í gærmorgun að margir íbúar í næsta nágrenni við atburði næturinnar væru í áfalli. Hann kom því á framfæri að íbúar hverfisins gætu komið til kirkjunnar og fengið áfallahjálp. Einhverjir hefðu kosið að hringja og aðrir lagt leið sína í kirkjuna.“

 

Hér er hlekkur á frétt Morgunblaðsins á tímarit.is.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -