Fimmtudagur 16. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

Vegagerðin ætlar að strika aftur yfir Grindavík: „Mjög mikilvægt að við séum með rétta vegvísun“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Smári Þórólfsson björgunarsveitarmaður og Grindvíkingur tók upp á því að fjarlægja yfirstrikanir Vegagerðarinnar á nafni bæjarins á vegaskiltum. Vegagerðin ætlar að strika aftur yfir bæjarheitið.

Vegagerðin strikaði víða yfir Grindavík.
Ljósmynd: Facebook

Björgunarsveitarmanninnum Smára Þórólfssyni er hampað sem hetju af fjölmörgum ef marka má viðbrögð fólks á Facebook við færslu hans þar sem hann birtir myndir af sér skafa yfirstrikun Vegagerðarinnar á bæjarheitinu Grindavík á vegaskiltum. „Grindavík er enn á sínum stað og verður það vonandi um ókomna tíð. Við látum ekki teipa okkur af kortinu. Áfram Grindavíkingar og lengi lifi fallega Grindavíkin okkar,“ skrifaði Smári við ljósmyndirnar en viðbrögðin hafa bara verið jákvæð en fjöldi manns hefur hrósað honum í athugasemdakerfinu og hefur færslunni verið deilt 21 sinnum þegar þessi frétt er rituð. Þá hafa hátt í þrjúhundruð manns líkað við hana.

Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi hjá Vegagerðinni segir stofnunina ætla sér að strika aftur yfir Grindavík. „Já, já við setjum þetta upp aftur,“ sagði Pétur í samtali við Mannlíf og hélt áfram. „Það er mjög mikilvægt að við séum með rétta vegvísun.“ Aðspurður hvort Vegagerðin hyggðist kæra Smára svaraði Pétur: „Það hefur bara ekki verið rætt.“

Lögreglumenn eru á öllum póstum nærri Grindavík en Pétur segir að skiltin séu víðar en alveg við bæinn. „Vegvísarnir eru ekki bara þar sem lögreglupóstarnir eru, þeir eru víðar í vegakerfinu þannig að við erum einmitt að forða því að til dæmis erlendir ferðamenn, þeir þurfa bara að vita að það er ekki fært til Grindavíkur. Með því að líma yfir þá sést Grindavík en þá sjá menn að það er ekki fært.“

Pétur segir að Vegagerðin hafi fullan skilning á þessu athæfi Smára. „Við skiljum alveg að þetta er viðkvæmt fyrir Grindvíkinga, okkur finnst það alveg eðlilegt og kippum okkur ekkert upp við þetta í sjálfu sér.“

Mannlíf reyndi að ná sambandi við björgunarsveitina Þorbjörn frá Grindavík en þar var blaðamanni tjáð að enginn hjá Þorbirni hefði tíma til að ræða við fjölmiðla, enda sjálfsagt nóg að gera á þeim bænum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -