Laugardagur 9. nóvember, 2024
10.5 C
Reykjavik

Venus í stjörnumerkjunum – hvernig nálgumst við ástina?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það ætti ekki að koma á óvart að Venus í stjörnuspeki hefur mikið með ástina að gera. Hvernig við elskum og hverja við elskum. Venus er líka táknræn pláneta fyrir lífsins lystisemdir, þægindi og það sem veitir okkur ánægju. Venus stjórnar þokka, persónutöfrum og fegurð. Venus hefur skapandi orku og gefur vísbendingu um okkar eigið listfengi.

 

Hrútur

Þeir sem eru með Venus í Hrúti eru hreinskiptnir og blátt áfram í ástum. Það þarf ekki að toga hluti upp úr þeim og þeir kunna að meta það sama hjá maka sínum. Þeir vilja líf og fjör í samböndum sínum og fjölbreytni er þeim mikilvæg. Þessir einstaklingar nálgast ástina á barnslegan og einlægan hátt. Þeir eru fljótir að reiðast en þeir fyrirgefa líka frekar fljótt. Af ástríðu eiga þeir nóg og vilja gjarnan lenda í ævintýrum með maka sínum.

Þeir kunna illa við stöðnun og maki þeirra má ekki taka sig of alvarlega.

Í listum og nýsköpun eru þessir einstaklingar ævintýragjarnir og óhræddir við að ögra. Þeir eru afar hugmyndaríkir. Nálgun þeirra á sköpun er í gegnum forvitni og áræðni barnsins.

 

- Auglýsing -

Naut

Fólk með Venus í Nauti er einstaklega rómantískt og nautnafullt. Það er trygglynt og þarf á öryggi og stöðugleika að halda í samböndum. Traust skiptir það öllu máli. Naut eru almennt gefin fyrir lífsins lystisemdir og það magnast enn frekar upp þegar Venus er í Nauti. Því getur virkað vel að heilla Venusar-Naut með rómantískum kvöldverði, súkkulaði og ostum, eða ferð í leikhús, svo dæmi séu tekin. Að sama skapi mun fólk með þessa plánetustöðu huga vel að maka sínum og dekra við hann. Þar sem hraðar breytingar eru Nautum yfirleitt ekki að skapi mun Venusar-Naut ekki sérstaklega kunna að meta ástarsamband með manneskju sem sveiflast mjög hratt og er of hvatvís.

Þetta fólk kann að meta listform þar sem hægt er að snerta og búa til með höndunum, til dæmis myndlist og leirlist. Að sama skapi getur það oft fengið útrás með skapandi eldamennsku.

 

- Auglýsing -

Tvíburi

Þeir einstaklingar sem hafa Venus í Tvíbura nærast mjög á vitsmunalegri hlið rómantískra sambanda. Þeir kunna að meta léttar og spennandi rökræður við maka sinn, kímni og snörp tilsvör. Gáfur eru afar heillandi í þeirra augum. Makinn þarf að geta haldið Tvíbura-Venus á tánum og staðnaðar skoðanir og venjur eru honum ekki að skapi. Tvíburar elska að vera á ferð og flugi og fyrir þennan Tvíbura er mikilvægt að hafa ákveðið frelsi til að sinna hugðarefnum sínum.

Þeir sem hafa Venus í Tvíbura hafa skemmtilegt skopskyn og elska að koma öðrum til að hlæja. Það er stundum flókið fyrir þá að skilja eigin tilfinningar og stundum geta þeir virst dálítið kaldir. Það er vegna þess að þeirra þægindarammi er í hinu vitsmunalega. Þeir þurfa að þjálfa tengsl við eigin tilfinningar og læra að skilja tilfinningar sinna nánustu.

Í listum eru þeir oft flinkir í skrifum. Sömuleiðis dragast þeir að tölvum og tækni. Upptökur og hljóðtækni geta því heillað þá.

 

Krabbi

Sá sem er með Venus í Krabba þráir mikla nánd í rómantískum samböndum og er viðkvæmur og djúpur. Hann kann að meta stöðugleika og kýs frekar rólegheit en hraða. Hann elskar að búa sér notalegt heimili þar sem hann getur hreiðrað um sig með maka sínum.

Einstaklingar með Venus í Krabba eru oft tortryggnir og ef þú brýtur traust þeirra getur verið ansi erfitt að vinna það til baka. Þeir gleyma engu.

Þessir einstaklingar eru næmir elskhugar og njóta þess að dekra við maka sinn. Þeir fá gjarnan mikið út úr því að sjá um þann sem þeir elska, til dæmis með því að elda dýrindis máltíðir fyrir viðkomandi, nudda hann, láta renna í bað og slíkt. Þeir eru afar umhyggjusamir og fara ávallt í sambönd fullum fetum með þann ásetning að láta þau endast. Þeir eru almennt lengi að jafna sig á sambandsslitum.

Einstaklingar með Venus í Krabba eru mjúkir og næmir í listfengi sínu og ferst vel úr hendi að nota þá eiginleika, ásamt umhyggjusemi sinni í listsköpun. Þeir geta líka verið góðir heilarar.

 

Ljón

Fólk með Venus í Ljóni er heiðarlegt og trygglynt. Það elskar að vera miðpunktur athyglinnar og það á einnig við í ástarsamböndum. Þetta fólk þarf á umhyggju, hrósi og aðdáun að halda frá maka sínum og að sama skapi vill það monta sig af þeim sem það elskar. Venusar-Ljón taka þá sem þeim þykir vænt um undir sinn verndarvæng og eru ómetanlegur stuðningur.

Þau eru orkumikil og þykir gaman að láta koma sér á óvart og gera það sama fyrir aðra. Stöðnun og mikill fyrirsjáanleiki eru þeim ekki sérstaklega að skapi, enda uppfull af ástríðu. Tilfinningar þeirra eru stórar og miklar – í allar áttir.

Þetta fólk er hreinskilið og ætlast til þess sama frá maka sínum. Þetta Ljón getur verið barnslegt í nálgun sinni á ástina og treystir yfirleitt auðveldlega. Í þeirra huga er samband einskis virði án trausts.

Í listum hentar þessu fólki einstaklega vel að koma fram með einhverjum hætti. Þannig getur það kunnað mjög vel við sig sem leikarar, tónlistarflytjendur (í forgrunni) og dansarar.

 

Meyja

Venusar-Meyjan leggur mikið á sig fyrir þann sem hún elskar. Hún sýnir ást sína yfirleitt í verki og er lítið fyrir innihaldslaust koddahjal. Hún getur virst dálítið köld enda er það henni eðlislægt að nálgast hluti frá vitrænu sjónarhorni og hún kann að meta það þegar maki hennar er beinskeyttur, eins og hún er sjálf.

Komist þú inn fyrir varnir hennar hefur hún mikla ást að gefa og er afar traust. Henni farnast best í langtímasambandi og hún kann að meta ákveðinn fyrirsjáanleika.

Þessir einstaklingar vilja rækta líkama sinn og kunna vel við það þegar makinn gerir slíkt hið sama. Stefnumót í formi fjallganga eða annarrar líkamsræktar eru þeim gjarnan að skapi.

Venusar-Meyja er eftirtektarsöm og greinandi. Henni hættir stundum til að vera nöldrari, enda afar nákvæm og oftast með dálitla fullkomnunaráráttu.

Þau listform sem hugnast þeim mest eru þau sem sameina eitthvað áþreifanlegt og skipulagshæfni. Þannig getur arkitektúr verið þeim mjög að skapi. Sömuleiðis þykir þeim oft gefandi að sjá um skipulag fyrir aðra listamenn eða halda utan um „stóru myndina“, eins og til dæmis með því að vera sýningarstjórar í leikhúsi eða listgalleríi.

 

Vog

Fólk með Venus í Vog hefur mjúka og notalega orku. Þetta er fágað fólk sem er fært í samskiptum, góðir hlustendur og á auðvelt með að setja sig í spor annarra. Venusar-Vogir eru hrifnar af hugmyndinni um sambönd og eru oftast ekki einhleypar lengi í einu. Raunar hættir þeim frekar til að hoppa úr einu langtímasambandinu í annað og eiga stundum erfitt með að finna það sem þær eru að leita að. Þær þrá félagsskap og einhvers konar sameiningu tveggja huga og hjarta. Þeim þykir hugmyndin um sálufélaga heillandi en eiga það til að kyngja því sem þeim mislíkar of lengi og geta orðið meðvirkar.

Þetta fólk er einstaklega sjarmerandi og það er ekki erfitt að hrífast af því. Það hefur yfirleitt óaðfinnanlegan smekk, bæði þegar kemur að eigin útliti og klæðaburði, sem og heimili.

Í listum hugnast þeim einhvers konar samskiptaform og geta til að mynda fundið sig í sjónvarpi þar sem þær hafa viðmælendur og áhugaverð viðfangsefni.

 

Sporðdreki

Sá sem er með Venus í Sporðdreka þrífst á tilfinningalegri dýpt, nánd og ástríðu. Hann á yfirleitt frekar erfitt með að treysta öðrum fyrir tilfinningum sínum. Það er meðfætt myrkur innra með honum og hann þarf að treysta elskhuga sínum fullkomlega til að sýna honum það sem þar býr. Þar sem hann er tortrygginn að upplagi þarf hann maka sem er þolinmóður við hann og er tilbúinn til að vinna sér inn traust hans. Takist það fær sá hinn sami það margfalt til baka. Venusar-Sporðdrekinn er afar verndandi og elskar af öllu hjarta. Hver taug er þanin til hins ýtrasta.

Þessir einstaklingar eru dálítið dularfullir og fólki þykir þeir yfirleitt annaðhvort spennandi eða yfirþyrmandi. Þeir eru ákafir og vilja vita allt um maka sinn – ekki síst erfiðu, flóknu og dimmu hlutina. Þeir hræðast ekki það „ljóta“, heldur vekur það áhuga þeirra. Þeir eiga það til að hegða sér dálítið eins og sálfræðingar eða geðlæknar við maka sína.

Í listum vekur einna helst áhuga þeirra að geta nálgast dauða, umbreytingu og endurfæðingu á einhvern hátt. Þannig fær þeirra listsköpun, í hvaða formi sem hún er, yfirleitt slíkan brag á sig.

 

Bogmaður

Venusar-Bogmaðurinn er opinn og orkumikill í rómantískum samböndum. Hann þarf töluvert frelsi til að vera ánægður og kann afar illa við að finnast hann kæfður. Hann er félagslyndur, elskar að ferðast og hrífst af forvitni og húmor. Sjálfur er hann með létt skopskyn og þótt skapið eigi það til að fara í allar áttir er hann yfirleitt fljótur að jafna sig. Hann vill vera með einhverjum sem nálgast lífið með opnum huga, þykir gaman að spjalla um hin ýmsu málefni og er ekki of alvarlegur.

Þessir einstaklingar eru ekki sérlega hrifnir af því ef einhver verður of háður þeim og vilja að maki þeirra sé jafn sjálfstæður og þeir eru sjálfir.

Þeir elska að velta fyrir sér heimspekilegum hugmyndum og vilja geta rætt þær í þaula við maka sinn og farið á dýptina. Þeim leiðist yfirborðsleg samskipti og þegja frekar en að tala stefnulaust um veðrið.

Í listum þurfa þeir eitthvað sem er fjölbreytt og vilja eltast við hugmyndir og kenningar.

 

Steingeit

Manneskja með Venus í Steingeit er jarðbundin og traust. Hún laðast að sjálfstæðum og sterkum persónuleikum. Hún er yfirleitt ekki sérstaklega upptekin af ástarsamböndum og er sjálfri sér nóg, en þegar hún verður ástfangin er hún einstaklega traust og trú. Hún anar ekki út í samband öðruvísi en að vera tilbúin til að skuldbinda sig. Hún er afar hjálpsöm, leggur sig fram fyrir maka sinn og sækist eftir öryggi og staðfestu í samböndum.

Venusar-Steingeitur treysta ekki ósjálfrátt og geta verið lokaðar, enda standa þær vörð um tilfinningar sínar og kunna ekki vel við að sýna veikleika. Þess vegna tekur yfirleitt tíma að vinna sér inn traust þeirra og það krefst þolinmæði og vinnu.

Þær vilja fást við eitthvað sem hefur að gera með skipulag og yfirsýn. Einhvers konar byggingarlist hentar oft vel, sem og sköpun sem krefst færni í viðskiptum.

 

Vatnsberi

Einstaklingur með Venus í Vatnsbera er oft óhefðbundinn í hegðun og fasi. Hann er frumlegur en nálgast menn og málefni yfirleitt út frá vitsmunalegu sjónarhorni. Hann dvelur í huga sínum frekar en hjarta og það á sömuleiðis við um ástina. Hann vill elskhuga sem getur ögrað honum vitsmunalega og hefur eitthvað sérstakt við sig.

Venusar-Vatnsberar elska að ögra. Það gera þeir með hegðun sinni en sömuleiðis klæðaburði, sem er gjarnan óvenjulegur og eftirtektarverður. Þeim leiðist hjarðhegðun. Þeir laðast að gáfum og vilja vera með einhverjum sem elskar að ræða fólk og hugmyndir fram og til baka. Ákveðið frjálsræði þarf að vera til staðar og maki þeirra má ekki vera of háður þeim.

Þeir kunna vel við sig innan um annað fólk og í listsköpun vilja þeir gjarnan þróa eitthvað sem kemur á óvart, ögrar eða talar inn í samfélagsumræðuna. Það má oft finna ádeilur í verkum þeirra.

 

Fiskar

Þeir sem eru með Venus í Fiskum eru dreymandi, viðkvæmir og skapandi. Þeir eiga það til að verða yfir sig ástfangnir af hugmyndinni um ákveðna manneskju og sjá hana með rósrauðum gleraugum. Raunsæi er ekki þeirra sterka hlið og stundum er eins og þeir haldi að ástarsambönd séu eins og í ævintýrum. Þeir verða því oft fyrir vonbrigðum þegar í ljós kemur að svo er ekki.

Þessir einstaklingar búa yfir einstöku tilfinninganæmi og sjá oft lengra en nef þeirra nær. Þeir finna fyrir tilfinningum elskhuga síns og farnast best með einhverjum sem hleypir þeim óhindrað að sér. Venusar-Fiskar hafa afar róandi og fallega nærveru og geta haft mjög heilandi áhrif. Það er bæði náðargáfa og bölvun, því þeir geta orðið meðvirkir. Sömuleiðis eiga þeir það til að ætla að „bjarga“ einhverjum. Þeir geta hins vegar fundið hamingju í samböndum þegar þeir læra að aðskilja sjálfa sig frá öðrum og nálgast sambönd og elskhuga á örlítið raunsærri hátt.

Vegna sterks innsæis þeirra leita þessir einstaklingar oft í sköpun með einhvers konar andlegu og dulúðlegu ívafi. Sömuleiðis eru listform eins og ballett oft heppileg fyrir þá.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -