Sunnudagur 14. júlí, 2024
12.4 C
Reykjavik

Lét spinna garn úr hári hundsins Fróða  – „Held að hann sé bara stoltur að hafa lagt þetta til“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Hún er alveg rosalega hlý,“ segir rithöfundurinn Unnur Þóra Jökulsdóttir um peysu sem hún prjónaði úr garni sem var spunnið úr hárum af hundinum hennar Fróða. Fróði er tveggja ára og af tegundinni Samoyed. Sú tegund er með tvöfaldan feld.

„Þegar ég er í peysunni fæ ég aðeins að upplifa hvernig Fróða líður með þennan mikla feld. Hann elskar kuldann og vill helst sofa úti þegar það er frost. Veturinn er hans Kanaríeyjar,“ segir Unnur.

„Það er svo mjúkt og hárin spretta út eins og í pels.“

Spurð nánar út í garnið sem spunnið var úr hári Fróða segir Unnur: „Ég heimsótti Jólahúsið á Akureyri síðasta sumar. Í einu horni Jólahússins eru alls konar hespur af garni til sýnis og sölu, garn sem eigandi Jólahússins spinnur. Ég var akkúrat með poka af hári af Fróða úti í bíl, hári sem hefur safnast í kambinn hans. Ég spurði hvort það væri hægt að gera eitthvað úr því og henni fannst þetta spennandi. Nokkrum vikum seinna fékk ég þessar fínu hespur sendar í pósti.“

Unnur segir garnið koma afar vel út í peysu. „Það er svo mjúkt og hárin spretta út eins og í pels.“ Þess má geta að Unnur notaði garnið Alpaca Queen úr Storkinum í peysuna á móti Fróða-garninu.

Hérna má sjá peysuna sem Unnur prjónaði betur,

Aðspurð hvernig Fróði hafi brugðist við þegar hún fékk garnið í pósti segir Unnur það hafi verið augljóst að honum hafi þótt þetta athugavert. „Þegar ég tók garnið upp úr pakkanum var hann fyrst ráðvilltur og hissa. Svo held ég að hann sé bara stoltur að hafa lagt þetta til,“ segir Unnur og hlær. „Hann þefaði mikið af garninu fyrst en hefur svo ákveðið að taka því ekki sem keppinaut.“

Fróði skoðar garnið. Mynd / Unnur

Safnar sögum um áhrif handavinnu á líf fólks

- Auglýsing -

Peysan sem Unnur prjónaði úr garninu er glæsileg. Hún segist hafa stuðst lauslega við uppskrift úr prjónablaðinu Tinnu. „Ég fór frjálslega eftir uppskriftinni, ég er ekki nógu klár prjónakona til að hanna eigin uppskrift. Ég er samt alltaf að læra eitthvað nýtt. Ég ætla t.d. að læra að prjóna kaðlamunstur í sumar,“ segir Unnur. „Annars hef ég komist að því að YouTube er besta kennslukonan,“ bætir hún við.

Þótt Unnur telji sig ekki mikla prjónakonu segist hún hafa mikinn áhuga á prjónamennsku út frá samfélagslegum sjónarmiðum. Hún segir merkilegt að sjá að margt fólk byrjar að prjóna í auknum mæli þegar krísur koma upp. „Eins og þegar árásin á Tvíburaturnana í New York var gerð, í efnahagskreppunni 2008-2011 og núna á tímum COVID-19, þá er eins og áhugi fólks á prjóni og handavinnu aukist. Fólk leitar meira inn á við.“

Hún segir róandi að sitja við og prjóna eða hekla en tekur fram að það geti líka verið krefjandi. „Þetta er svona iðja sem leyfir fólki að gleyma stund og stað en hún er ekki alltaf afslappandi. Þetta er ákveðin þraut og maður er einhvern veginn alltaf að telja út þannig að einbeitingin þarf að vera í lagi.“

- Auglýsing -

Unnur safnar nú sögum um hvernig prjónaskapur og hekl hefur haft áhrif á líf fólks í krísum og gleði. Hún bendir á að hægt sé að senda henni sögur á netfangið [email protected].

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -