2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Léttist um 85 kíló og sagði skilið við Bakkus

„Ég var þekktur sem íþróttamaður og þegar ég fór úr því í þetta man ég að fólk sagði: Guð minn góður, hvað gerðist?“ segir Noah Kingery í viðtali við vefritið Men’s Health.

Noah segir sögu sína í viðtalinu, en á yngri árum spilaði hann knattspyrnu í Brasilíu. Hann borðaði hollan mat og æfði mikið en þegar hann var átján ára þurfti hann að velja milli þess að bjarga sambandi sínu við kærustu sína í heimabænum Dallas í Bandaríkjunum eða halda áfram að láta ferilinn blómstra í Brasilíu. Hann valdi að snúa aftur heim til að halda kærustunni.

Sambandið hins vegar gekk ekki upp og það fékk mikið á Noah. Hann leitaði að huggun í mat og áfengi og þyngdist um rúm 96 kíló á einu ári. Þá var hann orðinn rúm 160 kíló og hafði aldrei verið jafn þungur.

Alltaf maðurinn á bak við tjöldin

AUGLÝSING


Árið 2009 flutti Noah til Los Angeles til að stofna sitt eigið fatamerki, Prep Couture, en meðal viðskiptavina hans voru Kanye West og Justin Bieber.

„Ég gat ekki klæðst neinu sem ég bjó til. Ég var alltaf maðurinn á bak við tjöldin og vildi ekki láta sjá mig,“ segir Noah. Þáttaskil urðu í lífi hans ári síðar þegar náinn vinur hans lést í bílslysi þegar ökumaður undir áhrifum áfengis keyrði á hann.

„Ég sagði við sjálfan mig: Ókei, ég verð að hætta að drekka og ná stjórn á þessu. Ég þarf að verða aftur fótboltamaðurinn sem ég var í miðskóla.“

Léttist um 67 kíló en sjálfstraustið vantaði

Noah ákvað að borða og æfa eins og þegar hann var í formi. Hann hætti að borða sjö þúsund kaloríur af kínverskum mat á dag og byrjaði að borða hreinan mat. Hann æfði af fullum krafti og lyfti lóðum til að byggja upp vöðvamassa. Og hann hætti að drekka. Allt þetta varð til þess að hann léttist um 67 kíló.

„En ég fékk ekki meira sjálfstraust. Mér fannst ég enn vera rúm 160 kíló. Ég var alltaf að berjast við það,“ segir Noah og níu mánuðum síðar féll hann.

„Ég vildi ekki hugsa um hve illa mér leið þannig að ég féll aftur í mína gömlu fíkn – áfengi.“

Langaði að hoppa

Noah byrjaði í kjölfarið að borða óhollan mat og hætti að æfa. Fljótlega bætti hann nánast öllu aftur á sig og var fljótlega orðinn 145 kíló. Á þessum tímapunkti íhugaði hann sjálfsvíg.

„Mér fannst eins og ég væri með pálmann í höndunum fjárhagslega en í einkalífinu fannst mér ég vera tómur. Mig langaði ekki að halda áfram að lifa. Þannig að einn dag keypti ég vodkaflösku og verkjastillandi og fór uppá 31. hæð í húsinu sem ég bjó í. Mig langaði til að hoppa. En einn af bestu vinum mínum hringdi og ég sagði honum hvað ég ætlaði að gera og hann flýtti sér til mín. Næsta sem ég man er að hann sagði: Ef einhver getur breyst, getur þú það en þú verður að finna sjálfan þig. Ef þessi stund breytir þér ekki, þá gerir ekkert það,“ segir Noah.

Hann ákvað að breyta fíkninni í eitthvað gott – að borða góðan og hollan mat og hugsa vel um líkamann. Hann ákvað að æfa aftur eins og hann gerði og í dag æfir hann fimm daga vikunnar í einn til tvo tíma. Hann borðar fjórar máltíðir á dag og borðar máltíð sem er rík af kolvetnum annað hvort fyrir eða rétt eftir æfingar. Hann borðar mikið af próteini, eins og fitulítið kjöt, egg og gríska jógúrt. Hann velur að borða eingöngu mat sem honum finnst góður.

„Þú verður að elska það sem þú borðar. Ef þú sérð þig ekki borða það næstu þrjá mánuði þá er það ekki að fara að virka.“

Getum ekki breytt gærdeginum

Í dag er Noah 75 kíló og vinnur sem næringarfræðingur. Nú nýtur hann lífsins við að hjálpa öðrum og hjálpaði meira að segja móður sinni að losa sig við 48 kíló.

„Ég hef verið þarna. Ég veit hvernig það er að reyna að losa sig við slæma ávana. Mig langaði að hafa tilgang í vegferð annarra og sjá hvernig líf þeirra breytist,” segir Noah og bætir við.

„Við getum ekki breytt því sem gerðist í gær en við getum gert það sem við getum í dag til að breyta morgundeginum.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is