Sunnudagur 15. september, 2024
9.5 C
Reykjavik

Marta María Arnarsdóttir – Nýráðinn skólameistari Hússtjórnarskólans stýrði Covid-sýnatökum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Allt frá því ég var lítil hefur mig langað til að verða skólastjóri,“ segir Marta María Arnarsdóttir, nýráðinn skólameistari Hússtjórnarskólans í Reykjavík. „Mig langaði líka alltaf til að verða kennari og mér fannst rökrétt að byrja að kenna fyrst áður en ég spreytti mig á skólastjórastarfinu. Mig langaði til að vera kennarinn sem ég vildi að ég hefði haft sem barn og í kennslu minni hef ég lagt ríka áherslu á að nemendum mínum líði sem allra best til dæmis með því að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir til að koma til móts við alla nemendur á einhverjum tímapunkti. Ég hef einnig verið lánsöm með marga kennara í gegnum tíðina sem hafa haft mikil og mótandi áhrif á mig. Kennarar hafa mikil áhrif á nemendur sína og mig langaði til að láta gott af mér leiða; hafa góð áhrif á aðra. Ég hef einnig fengið að upplifa mismunandi stjórnunarhætti yfirmanna minna og skólastjóra sem ég hef unnið með og það hefur gefið mér skýra sín á það hvernig skólastjóri ég vil vera. Í mörgum yfirmönnum mínum hef ég séð fyrirmyndir en í öðrum hef ég lært hvernig ég vil ekki haga hlutunum. Þegar ég hef lent í mótlæti í lífinu hef ég reynt að nýta mér það til góðra verka svo aðrir þurfi ekki að upplifa hluti sem maður sjálfur hefur gengið í gegnum. Ég hugsa að það sé í grunninn þess vegna sem ég ákvað að sækja um sem skólastjóri, til að láta gott af mér leiða.“

Það má því segja að skólinn sé aftur kominn í tísku.

Hvaða áherslur mun nýr skólameistari koma með? Jafnvel einhverjar nýjungar?

„Ég ber mikla virðingu fyrir sögu Hússtjórnarskólans, þeirri mikilvægu starfsemi sem þar fer fram og tel mig geta starfað af krafti við að halda arfleifð skólans við í síbreytilegum nútímanum. Hússtjórnarskólinn hefur vissulega breyst mikið frá því hann var stofnaður þótt grunnurinn sé að miklu leyti sá sami. Ég sé gríðarleg tækifæri í skólanum. Mikilvægt er að huga að sjálfbærni á öllum sviðum, endurnýta, endurvinna og vera sjálfstæður og skapandi og þetta er allt kennt nú þegar í skólanum. Það má því segja að skólinn sé aftur kominn í tísku. Ég sé ekki fyrir mér að kollvarpa öllum þeim góðu gildum sem skólinn stendur fyrir en vissulega koma einhverjar breytingar með nýjum stjórnanda; ég held að það sé óhjákvæmilegt.“

Marta María Arnarsdóttir

Marta María segir að það sé fyrst og fremst gífurlegur heiður að fá að taka við taumunum í svona gömlum skóla sem á sér góða og farsæla sögu. „Ég ber ómælda virðingu fyrir skólanum og því sem hann stendur fyrir. Andinn í húsinu er ólýsanlega góður; það er eins og maður finni fyrir krafti allra þeirra nemenda og kennara sem hafa áður gengið um stofur skólans. Ég er líka verulega heppin með samstarfsfólk sem heldur uppi mjög góðum anda og hefur tekið mér opnum örmum.“

Draumurinn hefur ræst.

- Auglýsing -

„Ég vona að ég geti nýtt krafta mína til góðra verka í þeim verkefnum sem ég kem að og geti haft góð áhrif á fólkið í kringum mig. Stóri draumurinn var í raun að verða skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík þannig að núna er það bara að njóta tímans hér.“

 

Handavinnan veitir hugarró

- Auglýsing -

Marta María var á sínum tíma nemandi við skólann og er spurð hvers vegna hún hafi farið í skólann.

„Stóra systir mín gekk í skólann þegar ég var fimm ára. Ég man eftir því að hafa farið á opið hús í skólanum þegar hún var í honum og í minningunni var það eins og að koma inn í kastala sem í raun er ekki svo fjarri lagi; mér líður enn eins og í höll eða á fínum herragarði í hvert sinn sem ég er í skólanum. Móðir mín og amma hafa einnig verið ötular við handavinnuna, hafa kennt mér margt varðandi alls konar bakstur og eldamennsku og þær smituðu mig fljótt af áhuga þeirra. Þegar ég sótti um skólavist í Húsó á sínum tíma langaði mig aðallega til að komast í kynni við alla handavinnuna sem er kennd við skólann og verða sjálfstæðari í eldhúsinu. Ég er einnig mjög heilluð af uppsetningu námsins. Námið er ein önn og því afar hentugt að stoppa við í Húsó þegar maður er í einhverju millibilsástandi líkt og ég gerði eftir menntaskóla og áður en ég hóf nám við Háskóla Íslands.“

Marta María Arnarsdóttir
„Ég og amma mín og nafna, Marta María, sem gekk einnig í skólann á sínum tíma. Einn af mínum helstu stuðningsaðilum og fyrirmynd.“

Handavinnan verður á þann hátt einhvern veginn ávanabindandi.

Hvað fannst Mörtu Maríu hún helst læra svo sem varðandi sig sjálfa?

„Í handavinnu felst mikil núvitund og því nær maður góðri tengingu við sjálfan sig þegar maður situr við og saumar, vefur og prjónar. Handavinnan verður á þann hátt einhvern veginn ávanabindandi, maður sækir oft í hana til að öðlast hugarró. Svo er líka mjög hvetjandi að mæta á réttum tíma í Húsó þar sem allir skóladagar hefjast á morgunverðarhlaðborði. Það má því segja að ég hafi lært stundvísi þegar ég gekk sjálf í skólann.“

Marta María segir að þegar hún stundaði nám við skólann hafi hún eignast mörg áhugamál sem eru hennar helstu áhugamál í dag. „Ég met mikils að hafa orðið sjálfstæð á hinum ýmsu sviðum eins og í eldhúsinu, í handavinnu og í ræstingu. Í skólanum kynntist ég einnig mörgum af mínum bestu vinum og við höldum mörg enn hópinn í dag. Það er mjög dýrmætt.“

Marta María Arnarsdóttir
Marta María og Katrín saumakennari við Hússtjórnarskólann á góðri stundu við saumaskapinn.

Eldamennska, bakstur, saumaskapur, prjónaskapur… Hvaða máli skiptir fyrir Mörtu Maríu að kunna þetta og gera þetta vel?

„Það þurfa allir að hafa í sig og á. Fljótlega átta ungir einstaklingar sig á því að það er ekki hægt að kaupa tilbúinn mat í öll mál; það er bæði dýrt og óumhverfisvænt. Eða þá að kaupa allar flíkur dýrum dómum þegar vel er hægt að sauma eða prjóna sér þær. Einhvers staðar þarf maður að læra þá hæfni sem til þarf til að vera sjálfstæður og sjálfbær á þessum sviðum og það er tilvalið að læra það í Húsó.“

 

Umsjónarkennari 19 ára

Marta María ólst upp í Reykjavík. „Ég lék mér mikið með krökkunum í götunni, æfði á fiðlu og einsöng og söng í kórum. Ég æfði einnig samkvæmisdans, ballett og tennis og hafði gaman af öllu þessu. Mig langaði þó helst til að geta „æft” prjón, saumaskap og bakstur en það var hvergi hægt og það þyrfti kannski að bæta úr því fyrir unga krakka. Þess í stað gat ég farið í Húsó til að leggja frekari stund á þá iðju. Í grunnskóla sleppti ég 10. bekk en ég lærði námsefni 10. bekkjarins þegar ég var í 9. bekk og eftir það lá leið mín í MH. Þar undi ég mér mjög vel á málabraut og félagsfræðabraut. Mig langaði lengi vel til að verða stærðfræðikennari en í MH skipti ég algerlega um skoðun þar sem íslenskukennarar skólans smituðu mig af einlægum áhuga þeirra. Áður en ég fór í BA-nám í íslensku við HÍ fór ég í Húsó. Það hentaði mjög vel þar sem ég varð stúdent í desember og hafði því akkúrat eina lausa önn til að njóta mín í Hússtjórnarskólanum. Eftir BA-námið lá leið mín í meistaranám í kennslufræðum. Samhliða háskólanáminu kenndi ég í Hvassaleitisskóla. Ég varð fyrst umsjónarkennari 19 ára gömul og fékk strax þá fullvissu um að ég vildi leggja mitt af mörkum í menntakerfinu. Ég tók við stórum og krefjandi bekk sem ég var svo heppin að fá að kenna í mörg ár. Það var ótrúlega skemmtilegur tími sem mér þykir mjög vænt um.“

 

Stýrði Covid-sýnatökum

Marta María gegndi starfi verkefnastjóra hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og stýrði Covid-sýnatökum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandsbraut 34 í heimsfaraldrinum.

Það er í raun ótrúlegt að líta til baka á þau fjöll sem við fluttum þegar mest lét og alltaf ríkti jákvæðni, gleði og drifkraftur í starfsmannahópnum.

„Eftir fimm ár í kennslu lá leið mín óvænt á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ég réð mig upprunalega til starfa hjá Heilsugæslunni þar sem ég var í kennarasumarfríi, hafði lítið við að vera og vildi láta gott af mér leiða í faraldrinum. Eitt leiddi að öðru og áður en ég vissi af var ég nánast búin að flytja lögheimili mitt á Suðurlandsbrautina þar sem Covid-sýnatökur fóru fram. Verkefnastjórastaðan hefur gefið mér verulega mikið. Hjá Heilsugæslunni ríkir mjög góður andi og ég er mjög heppin með samstarfsfólk og yfirmenn þar. Dagarnir hafa margir verið krefjandi og síbreytilegar reglugerðir og bylgjur hafa ýtt undir mjög sveigjanlega starfshætti. Það er í raun ótrúlegt að líta til baka á þau fjöll sem við fluttum þegar mest lét og alltaf ríkti jákvæðni, gleði og drifkraftur í starfsmannahópnum. Einna eftirminnilegustu stundirnar af Suðurlandsbrautinni eru frá á aðventunni. Þá komu mörg þúsund skjólstæðingar til okkar dag hvern til að sækja sér hraðprófsvottorð fyrir hvers kyns viðburði samhliða því að smittölur fóru hækkandi og því fjölgaði einnig í PCR-sýnatökunum. Þrátt fyrir langar raðir sem hlykkjuðust í kringum bygginguna voru skjólstæðingar duglegir að hrósa okkur fyrir gott skipulag og hvað þetta gekk allt saman hratt og vel. Náungakærleikurinn getur verið svo sterkur og þýðingarmikill. Þetta var verulega skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Ég hef ekki alveg sagt alveg skilið við Heilsugæsluna og held áfram í mínu starfi þar í sumar.“

Marta María Arnarsdóttir

Fyrirmynd

Marta María segir að sín helstu áhugamál í dag samtvinnist vel í nýja starfinu. „Ég hef mjög mikinn áhuga á hvers kyns handavinnu og bakstri og oft fer frítími minn í þær iðjur. Ég hef einnig mikinn áhuga á kennslu, uppeldi, íslensku og góðum stjórnunarháttum. Einnig hef ég mikla ánægju af félagsskap og útiveru með hundinum mínum henni Línu og nýt þess að fara í ferðalög og hitta vinkonur mínar.“

Marta María Arnarsdóttir
Marta María með Línu, hundinum sínum.

Hvaða lífsreynsla hefur mótað hana?

„Eins og áður hefur komið fram tók ég við sem umsjónarkennari í fyrsta skipti þegar ég var 19 ára gömul. Sú reynsla og ábyrgð sem mér var fólgin mótaði mig mjög mikið. Ég gaf mig alla í starfið og það var dýrmætt fyrir mig að finna fyrir trausti samstarfsfólks, nemenda og foreldra. Það gaf mér mikið að sinna því mikilvæga starfi sem kennarastarfið er. Mér fannst mikilvægt að vera eins góð fyrirmynd og ég gat fyrir nemendur mína og ábyrgðin sem fólst í starfinu hvatti mig til að standa mig vel, setja mér skýr markmið og standa við þau.“

Lífið getur verið alls konar.

„Þar sem það er óhjákvæmilegt að verða fyrir áföllum í lífinu er mikilvægt að læra að takast á við þau, sækja sér aðstoð og taka ákvörðun um það hvernig maður vill lifa lífinu með þeim. Það er mjög mikilvægt að leyfa sér að dvelja í tilfinningum sínum og í sorginni þegar það á við en síðan er jafn mikilvægt að festast ekki þar. Það þarf mikinn viljastyrk að vinna úr áföllum og láta þau ekki brjóta sig niður. Þótt það sé krefjandi getur maður alltaf lært af þeim áföllum sem maður verður fyrir og snúið þeirri reynslu upp í eitthvað jákvætt.“

Skólameistarinn gefur lesendum uppskrift að sívinsælu húsókleinum skólans. „Uppskrift sem notuð hefur verið frá upphafi skólans. Alveg guðdómlegar.“

 

Húsó-kleinur

 

Heil uppskrift:

1 kg hveiti

300 g sykur

150 g smjörlíki

6 tsk. lyftiduft

2 stór egg

2 tsk. matarsódi

6 dl súrmjólk eða AB-mjólk

2 tsk. malaðar kardimommur

 

  1. Blandið öllum þurrefnum saman.
  2. Myljið smjörlíkið saman við.
  3. Vætið í með sundurslegnum eggjum og helmingnum af súrmjólkinni/AB-mjólkinni. (Myndið fjall úr þurrefnunum og myndið holu fyrir eggin og súrmjólkina).
  4. Vætið í með afganginum af súrmjólkinni/AB-mjólkinni og hnoðið.
  5. Fletjið út og mótið kleinur.
  6. Steikið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -