Laugardagur 14. september, 2024
8.8 C
Reykjavik

Matjurtagarðurinn: „Skora á sjálfa mig og garðinn þannig að hann fæði mig og son minn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðrún Hulda Pálsdóttir, verðandi ritstjóri Bændablaðsins, segist hafa alist upp við að foreldrar hennar hafi unað umhverfinu og náttúrunni. Fallegur garður var við æskuheimilið sem foreldrar hennar ræktuðu frá grunni og segir hún að faðir hennar hafi til dæmis unnið moltu úr öllum matarafgöngum og hafi verið mjög natinn við að halda garðinum snyrtilegum og plöntum vel nærðum.

„Matjurtaáhuga minn má rekja til þess að þegar ég bjó á Indlandi árið 2010 og komst þar í kynni við sjálfsþurftarbúskap í sinni tærustu mynd. Mér fannst svo aðdáunarvert að sjá bæði börn og fullorðna kunna til verka við ræktun á fjölbreyttum mat og þau vissu enn fremur hvernig hægt væri að nýta allar jurtir sem uxu í grenndinni á einn eða annan hátt. Þetta tók ég mér til fyrirmyndar.

Ég komst svo í kynni við vistrækt þegar ég flutti heim og fannst það afar heillandi nálgun að matjurtaræktun. Einn vængur vistræktar – permaculture – snýr að því að skapa sjálfbært vistkerfi í nærumhverfi þar sem fjölærar ætiplöntur, náttúran, menn og dýr lifa þannig samlífi að þau vaxi og dafni. Ég fór til Írlands og viðaði að mér kunnáttu um fræðin og hef lagt upp með að garðurinn minn sé byggður á vistræktaraðferðum að því marki sem raunhæft er hér á landi.“

Guðrún Hulda Pálsdóttir
Séð yfir hluta garðsins. Guðrún Hulda reisti gróðurhúsið í fyrravor.

Stór garður er við heimili Guðrúnar Huldu og segist hún rækta hann upp sem svolítið kaótískan ætigarð. „Ég er með ræktunarsvæði hist og her um garðinn svo sem kartöflugarða, gróðurkassa og hraukbeð og síðasta vor bætti ég svo 24 fermetra gróðurhúsi sem eykur mjög á fjölbreytni afurðanna.“

Garðrækt er langtímaverkefni. „Ég dunda við svæðið mitt í hjáverkum og skora á sjálfa mig og garðinn, þannig að hann fæði mig og son minn að einhverju marki ár hvert.

Guðrún Hulda Pálsdóttir
Inkakorn (quinoa) er korntegund sem ég tel eiga framtíð fyrir sér bæði í heimagörðum og framleiðsluræktun hér á landi. Hún er gullfalleg og skemmtileg planta.

Ég hef alltaf haft lítil markmið á hverju sumri,“ segir Guðrún Hulda en fimmta sumarið í húsinu er fram undan. „Fyrsta sumarið vildi ég athuga hvort ég gæti fengið mér máltíð úr garðinum á hverjum degi í eina viku, sem tókst og rúmlega það. Næstu árin jók ég lengd áskorunarinnar og nú er svo komið að garðurinn er uppistaða kvöldverðar meirihluta sumars og fram á kvöld. Það felur í sér alla jafna alls konar salat og kál, tómata, kryddjurtir, lauka, ýmis ber, baunir, beðjur og blómkál, rabarbara, einstaka epli, jafnvel inkakorn, rótargrænmeti af ýmsu tagi og æt blóm svo eitthvað sé nefnt. Þessi iðja er mér mjög mikilvæg, hún fyllir hjartað ró í amstri dagsins og veitir mér mikla gleði.“

- Auglýsing -
Guðrún Hulda Pálsdóttir
Gómsætt salat í öllum stærðum, litum og gerðum. Þetta kaupi ég forræktað af Tómasi Ponzi.

Guðrún Hulda segir að takmarkið sé að flestallar plöntur garðsins verði ætar. „Með því get ég mér til skemmtunar lagt grunn að ákveðnu fæðuöryggi á heimilinu yfir hásumarið, að minnsta kosti hvað varðar ferskt, gott grænmeti, auk þess sem ég vil búa syni mínum nærandi umhverfi. Það eru nefnilega tveir mjög patent punktar sem þessu fylgja: Drengurinn minn er matvandur með eindæmum, en tekur það upp hjá sjálfum sér að borða mun meira af alls konar ferskmeti á sumrin því hann getur tínt það úr garðinum eftir lyst og löngun. Fyrir mig fylgir þessu afskaplega heilnæm rútína þegar garðurinn er í blóma. Þá borða ég stærstu máltíðina mína í hádeginu en fæ mér ferska salatskál á kvöldin.“

Guðrún Hulda Pálsdóttir
Kartöflur eru auðveldar í ræktun.

Guðrún Hulda segir að fjölæringarnir sem vaxi í garðinum ár eftir ár séu meðal annars rabarbari, graslaukur, hjálmlaukur, mynta, jarðarber, sólber, hindber, rifsber og stór amerísk bláber. Epli og kirsuber séu stopulli en hún sé enn að læra á ávaxtatré. „Þá vex í garðinum sjálfssáð síberískt grænkál eins og illgresi og á það til að vera að framleiða ný blöð fram yfir jól í djúpum snjó. Af einæringum í sumar verð ég með alls konar gómsætt lífrænt salat og Heirloom-tómata sem ég keypti forræktaða af Tomasi Ponzi. Ég sáði fyrir alls konar plöntum og sýnist að eggaldin og rómaneskó-blómkál ætli að vera nýjustu viðbæturnar, báðar gullfallegar plöntur sem ég hlakka til að fylgjast með vaxa. Auk þess verð ég meðal annars með rauðrófur, kartöflur, gulrætur, hvítlauk, skjaldfléttu og kúrbít.“

Guðrún Hulda Pálsdóttir
Eplatré.

Í huga Guðrúnar Huldu snýst matjurtaræktun í heimagarði um lífsgæðin sem iðjan skilar. „Ætli maður að stefna að einhvers konar undirstöðu fæðuframleiðslu fyrir sig og sína í heimagarðinum þá held ég að það verði að vera á kostnað vinnu utan heimilis. Það tekur tíma að sinna mörgum plöntum og búa um uppskeruna þannig að hún geymist fram á vetur. En á Íslandi eru æðislegir bændur sem framleiða heilnæmar og bragðgóðar afurðir svo ræktunin heima snýst fyrst og fremst um gleðina hjá mér. Ég geri mér grein fyrir hversu óraunhæft það er fyrir mig að treysta á ræktunina mína þótt hún sé vissulega bragarbót þegar vel gengur. Máltíðirnar sem ég uppsker eru í raun bara skemmtileg auka unun ofan á dundið sem gefur mér svo mikið.“

- Auglýsing -
Guðrún Hulda Pálsdóttir
Þótt þetta sé útiplanta þá leið hnúðkálinu rosalega vel inni í gróðurhúsinu í fyrra.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -