Blaðamaðurinn Björn Þorláksson minnist Árna Johnsen og segir:
„Örfáum dögum áður en Fréttablaðið féll, tók ég tvö viðtöl við Árna Johnsen. Ég sagði ritstjóranum, að það væri ekki ólíklegt, að efnið sem stóð til að birta viku síðar, yrði síðasta fjölmiðlaviðtalið við Árna. Því ég skynjaði að mjög var af Árna dregið, þótt hann bæri sig allar götur vel. En viðtalið verður aldrei birt. Því við Árni ætluðum að ræða saman einu sinni enn fyrir birtingu.“

Björn færir í tal að „þá hvarf fjölmiðlavettvangurinn úr höndum mér. Fyrst féll Fréttablaðið og nú er Árni dáinn. Ég er því eini Íslendingurinn sem veit hvað Árna langaði að tala um í síðasta viðtalinu sínu.“
Bætir við:

„Ég veit líka einn hvaða spurninga mér fannst áhugaverðast að spyrja þennan merka mann og ég veit svörin. En þau verða aldrei birt. Árni var alla tíð sannur gagnvart blaðamennskunni í hjarta sínu. Eins og hann skildi blaðamennsku. Ég held ég brjóti engan trúnað við Árna þótt ég upplýsi um eitt sem við ræddum í viðtalinu sem aldrei verður birt; Árni sagðist hafa notið blaðamennskuáranna betur en stjórnmálanna.“
Segir að endingu:
„Árni var ekki einhliða persóna heldur marglaga. Gríðarlegur fjöldi vina hans segir ákveðna sögu og nær langt út fyrir flokkslínur. Ég sendi vinum og ættingjum Árna einlægar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Árna Johnsen.“