Fimmtudagur 30. júní, 2022
8.8 C
Reykjavik

Nauðlending Dakota-vélar Bandaríkjahers – Ísing olli óstöðuleika í hreyflunum

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Rétt fyrir hádegi þann 21. nóvember árið 1973 voru sjö áhafnarmeðlimir Douglas Dakota flugvélar af gerðinni C-117 í loftinu fyrir ofan Mýrdalsand. Voru hermennirnir á leið frá Höfn í Hornafirði eftir að hafa flutt vistir til ratsjárstöðvarinnar á Stokknesi. Flugvélin var hátt á lofti er hún lenti í mikilli ísingu og tóku hreyflarnir að ganga óstöðugt. Nú voru góð ráð dýr fyrir sjömenningana ef ekki átti illa að fara. Í fyrstu var talið að flugvélin myndi brotlenda í sjónum en svo varð ekki. Flugvélin nauðlenti á Sólheimasandi.

Morgunblaðið sagði frá nauðlendingunni daginn eftir:

Dakota-vél nauðlenti á Sólheimasandi í gærdag

DOUGLAS Dakota-vél af gerðinni C-117 nauðlenti skömmu eftir hádegi í gær á Sólheimasandi. Sjö menn voru með vélinui, sem var frá varnarliðinu, og sluppu þeir allir ómeiddir. Vélin var að koma frá Höfn í Hornafirði, en þangað hafði hún flutt vistir til ratsjárstöðvarinnar á Stokksnesi.

Sigþór Sigurðsson fréttaritari Morgunblaðsins í Litla-Hvammi sagði, að það hefði verið um kl.14, sem vélin nauðlenti í minni Hólsá á Sólheimasandi. Ís var yfir ármynninu og brotnaði hann undan vélinni. Hékk hún þó á ísskörinni. Björgunarsveit Slysavarnafélagssins í Vík í Mýrdal og menn frá sveitabæjum fyrir vestan Vík fóru strax að svipast um eftir vélinni. Um svipað leyti og þeir komu að henni, kom þyrla frá varnarliðinu á staðinn og tók hún mennina, sem i vélinni voru.

Eins og fyrr segir, var vélin að koma frá Höfn í Hornafirði. Flaug hún nokkuð hátt, og þegar hún var yfir Mýrdalssandi lenti hún í mjög mikilli ísingu og hreyflar gengu óstöðugt. Hún
byrjaði því að missa hæð og sendi út neyðarkall, sem önnur varnarliðsvél heyrði. Þegar voru sendar þrjár Phanthom-þotur og tvær þyrlur á móti vélinni, en talið var, að hún myndi jafnvel nauðlenda á sjónum. Er Dakota-vélin var svo komin vestur á Sólheimasand hélzt hún ekki lengur á lofti og varð því að nauðlenda í minni Hólsá.

- Auglýsing -

Hannes Hafstein hjá Slysavarnafélagi Íslands sagði, að flugstjórn hefði strax haft samband
við Tilkynningaskylduna. Talið hefði verið, að vélin myndi nauðlenda á sjónum nokkuð fyrir austan Vik. Því hefði Vestmannaeyjaradíó haft samband við öll skip, sem voru út af Vík. Síðan hefði verið látið uppi að vélin gæti lent í sjónum á öllu svæðinu frá Vík að Þjórsárósum. Þá hefði verið haft samband við báta á Stokkseyri og Eyrarbakka og þeir beðnir að fara af stað, en þeir hefðu ekki getað farið út úr höfnunum vegna brims. Leitað hefði verið til Þorlákshafnar og voru fyrstu bátarnir farnir af stað, er frétt kom um, að vélin hefði nauðlent á landi.

Sagði Hannes, að menn frá björgunarsveit Slysavarnafélagsins í Vík væru nú á vakt við
vélina ásamt tveimur Bandarikjamönnum. Flokkur viðgerðarmanna frá varnarliðinu væri á
leiðinni austur og ætluðu austanmenn að leiðbeina þeim niður sandinn að vélinni. Til ferða upp og niður sandinn hafa björgunarsveitamenn jeppa og beltabíl.

Síðan eru liðin mörg ár en enn er flugvélin á sínum stað. Bandaríkjaher lét sér nægja að strípa vélina alveg en skilja grindina eftir í sandinum. Segja má að subbuskapur Bandaríkjahers hafi í þessu tilfelli komið sér afar vel fyrir Ísland því í dag er flugvélin á Sólheimasandi þekktur viðkomustaður ferðamanna allsstaðar að frá heiminum. Justin Bieber tók upp myndband á Sólheimasandi við lagið „I´ll show you“ fyrir fáeinum árum en flugvélarflakið spilar stóra rullu í myndbandinu.

- Auglýsing -

En svæðið getur reynst víðsjárvert enda lítið skjól að fá ef óveður skyldi skella á. Fyrir tveimur árum varð kínverskt par úti nálægt flakinu en óveður hafði verið á svæðinu um tíma.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -