Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Nýjar tillögur um lög um vatnsréttindi tilbúnar um áramót

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vatn er ein af mikilvægustu auðlindum jarðar og sífellt heyrast fleiri raddir sem benda á að innan fárra ára gætu vatnsauðlindir orðið jafnefnahagslega mikilvægar og olíuauðlindir eru nú. Mikilvægi þess að tryggja samfélagslegt eignarhald á vatni hefur því reglulega ratað í umræðuna, bæði erlendis og á Íslandi. Samþykkt sem Sameinuðu þjóðirnar sendu frá sér árið 2010 skilgreinir aðgang að hreinu vatni sem mannréttindi, en enn er langt frá því að þeir sem nýta vatnsuppsprettur sem gróðaleið fari eftir þeirri samþykkt. En hvað er til ráða og hvar er Ísland statt í þessu mikilvæga máli?

Forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir. Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Í íslenskum lögum um nýtingu vatns er ríki og sveitarfélögum tryggður réttur til að seilast í vatn á landi í einkaeigu en landeigendur eiga þá rétt á bótum fyrir þá nýtingu, hvort sem um er að ræða lagningu vatnsveitna eða til nýtingar í orkuframleiðslu. Ef ekki semst um greiðslu, þá er heimild til þess í lögum að ráðherra beiti sérstökum úrræðum um eignarnám.

Forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, lýsti því yfir í viðtali við Frjálsa verslun í ágúst á þessu ári að aukinn áhugi auðmanna á að kaupa jarðir á Íslandi kunni að tengjast vatnsréttindum og öðrum verðmætum hlunnindum í tengslum við loftslagsbreytingar. Þetta hafi menn ekki séð fyrir við gerð gildandi laga frá 2004 og því sé verið að vinna tillögur að hugsanlegum breytingum á lögum og regluverki um landakaup.

„Á vegum forsætisráðuneytisins er unnið að heildarendurskoðun löggjafar um jarðir og fasteignir og ég á von á að þær tillögur liggi fyrir öðru hvorum megin við áramót.“

Í skriflegu svari forsætisráðherra við fyrirspurn Mannlífs vegna málsins segir: „Það liggur fyrir bæði pólitískur og almennur vilji til að setja skýrar lagaheimildir þannig að unnt sé að takmarka landa- og jarðakaup, t.d. til að koma í veg fyrir samþjöppun eignarhalds á landi. Á vegum forsætisráðuneytisins er unnið að heildarendurskoðun löggjafar um jarðir og fasteignir og ég á von á að þær tillögur liggi fyrir öðru hvorum megin við áramót. Á alþjóðavettvangi sjáum við aukna ásælni í land og þau réttindi sem fylgja landareignum, þar á meðal möguleg vatnsréttindi. Ég tel að við séum lánsöm að hafa sett þjóðlendulögin á sínum tíma en vegna þeirra eru 40% af landinu í almannaeigu og þar með auðlindirnar sem þar eru. Bæði stjórnarskrá og EES-samningurinn veita svigrúm til að setja reglur um eignarhald og nýtingu fasteigna í þágu almannahagsmuna og ýmsar leiðir eru færar í þeim efnum.“

Grunsemdir um að erlendir auðmenn ásælist vatnsréttindi

Ljóst er að vaxandi óánægju gætir með síaukin landakaup erlendra auðmanna hérlendis og á aðalfundi Landssambands veiðifélaga, sem haldinn var á Sauðárkróki 13. júní síðastliðinn, var Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, ómyrkur í máli um þær grunsemdir að þeir ásælist vatnsréttindin og lífsnauðsynlegt sé að ríkisvaldið grípi inn í sem fyrst.

Jóhannes gerir meðal annars kaup breska auðkýfingsins James Ratcliffe á meirihluta í Grímsstöðum á Fjöllum, með Jökulsá á Fjöllum innanborðs, að umtalsefni og átelur stjórnvöld fyrir að hafa ekki gripið inn í til að stöðva þau.

- Auglýsing -

„Grímsstaðir á Fjöllum er stærsta einstaka fersksvatnsforðabúr í Evrópu. Hafi einhvern tíma verið ástæða fyrir ríkið að koma að málum þá var það við sölu á þeirri jörð. Ríkið átti síðan einfaldlega að lýsa þetta land sem þjóðlendu,“ segir Jóhannes.

Harðar tekist á um nýtingu vatns víða í heiminum
Þessi umræða er langt því frá bundin við Ísland og er sífellt harðar tekist á um nýtingu vatns og vatnsréttindi víða í heiminum. Alþjóðlega stórfyrirtækið Nestlé var til dæmis nýverið harðlega gagnrýnt vegna fyrirætlana um að nýta daglega yfir milljón gallon af vatni úr Santa Fe-ánni í Flórída og tappa því á flöskur í hagnaðarskyni. Gagnrýnendur óttast að vatnsuppsrettan þoli ekki slíka nýtingu eins og fram kom í ítarlegri úttekt breska blaðsins The Guardian.

Peter Brabeck,.

Þá vöktu ummæli fyrrverandi stjórnarmanns Nestlé, Peter Brabeck, gríðarlega reiði þegar hann gerði lítið úr því sjónarmiði að aðgangur að heilnæmu drykkjarvatni ætti að vera skilgreindur sem sjálfsögð mannréttindi. Hann sagði að vatn væri eins og hver önnur neysluvara og ætti að hafa markaðsvirði.

- Auglýsing -

Ummæli Brabecks eru í hrópandi mótsögn við samþykkt Sameinuðu þjóðanna um að allir, karlar, konur og börn, eigi að hafa aðgang að hreinu drykkjarvatni og öruggri hreinlætisaðstöðu.

Í greinargerð sem Sameinuðu þjóðirnar tóku saman í tilefni alþjóðadags vatnsins, sem haldin er í mars á hverju ári, kemur fram að yfir tveir milljarðar manna lifi í dag án öruggs neysluvatns og allt að fjórir milljarðar upplifi alvarlegan vatnsskort að minnsta kosti einn mánuð á ári. Yfir sjö hundruð börn undir fimm ára aldri deyja daglega vegna kvilla sem tengjast óöruggu drykkjarvatni og ófullnægjandi hreinlætisaðstöðu. Ef fram heldur sem horfir er talið að árið 2030 muni um sjö hundruð milljónir manna um heim allan hafa þurft að flýja heimkynni sín vegna vatnsskorts.

Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -