Öld öfganna er runnin upp á ný

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Gamla þjóðernishyggjan, sósíalisminn og loftslagspólitík spretta úr spori

Úrslit í nýafstöðnum kosningum til Evrópuþingsins gefa enn eina vísbendingu um að miðjan sé að hverfa úr stjórnmálum en fylgi hefur verið að flytjast út á jaðrana til vinstri og hægri. Sama þróun hefur átt sér stað í Bandaríkjunum, Brasilíu og í Ungverjalandi. Skýringuna er að finna í örum samfélagsbreytingum og breyttu dagskrárvaldi fjölmiðla.

„Það blasir við að það hefur átt sér stað pólarisering í stjórnmálunum þar sem jaðrarnir hafa verið að styrkjast. Fyrst með uppgangi þjóðernispopulískra flokka víða í Evrópu og síðan Trump í Bandaríkjunum. Þessir flokkar hafa að mörgu leyti gjörbreytt stjórnmálunum, pólitískri umræðu og flórunni í pólitík álfunnar,“ segir dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.

Eiríkur segir að síðan hafi þessir flokkar verið að koma upp vinstra megin þar sem einarðir sósíalískir flokkar eru að koma fram á sjónarsviðið. „Einnig frjálslyndir flokkar sem sumir hverjir eru kannski tengdir inn í hina gömlu hefðbundnu miðju en hins vegar birtist pólariseringin á þann hátt að þeir eru enn frjálslyndari en áður var,“ útskýrir hann og tekur Emmanuel Macron, forseta Frakklands, sem dæmi en hann hefur í auknum mæli stillt sér upp sem and-popúlískum. „Hefðbundnu flokkarnir í Frakklandi hrynja og við taka hægri þjóðernissinnar undir forystu Marine Le Pen og mótvægið við það er hinn frjálslyndi Macron.“

Þá segir Eiríkur að í ljósi loftslagsumræðunnar séu Græningjarnir að styrkja sig víða. „Hefðbundnu flokkarnir, eins og hófsamir hægri flokkar og sósíaldemókratar, hafa verið að missa fylgi til þessara flokka. Mesta breytingin hefur verið hjá sósíaldemókrötum sem hafa verið að missa töluvert fylgi yfir til þjóðernispopúlískra hægri flokka. Þannig að það er mikið flot á þessu.“

Margleitari samfélög en áður er ein af skýringunum á þessum sveiflum, að mati Eiríks. „Á 20. öldinni var stefna vestrænna ríkja í sömu átt meira og minna. Enda tók stjórnmálalífið mið af því,“ segir hann og dregur fram að ákveðin samsvörun hafi verið í stjórnmálunum og fjölmiðlum.

„Það blasir við að það hefur átt sér stað pólarisering í stjórnmálunum þar sem jaðrarnir hafa verið að styrkjast.“

„Meginstraumsfjölmiðlarnir römmuðu inn umræðuna, ritstýrðu henni og héldu utan við hana alls konar röddum sem nú hafa komið fram en heyrðust ekki áður. Stjórnmálin á tuttugustu öldinni gengu eftir mjög svipuðum brautum. Síðan gerist það með þessum miklu samfélagsbreytingum sem hafa átt sér stað undanfarin 20 ár, sér í lagi með tækniframförum, að öll samfélagsmyndin verður margslungnari. Fjölmiðlunin verður miklu uppbrotnari og það endurspeglast síðan í stjórnmálunum. Þetta er sama þróunin,“ segir Eiríkur.

Ástandið í Bretlandi er sérstakt að mörgu leyti, að sögn Eiríks, þar sem fylkingar þjóðhyggjunnar og alþjóðasamstarfs sæki báðar í sig veðrið. „Ef skoðaður er uppgangur þjóðernishugmynda í Bretlandi, þá er honum mætt með enn þá meiri alþjóðahugsun hinum megin frá. Þannig að uppgangur beggja afla er eiginlega álíka mikill. Eðli málsins samkvæmt höfum við horft miklu meira á einangrunaröflin enda er þar að finna róttækari breytingu.“

Eiríkur dregur ekki dul á það að svipuð þróun eigi sér stað á vettvangi stjórnmálanna hér á landi þó að birtingamynd hennar sé ekki endilega sú sama. „Við sjáum þessa þróun í uppbroti fjórflokksins sem hafði hér ægivald, naut um 90 prósenta fylgis sem dreifðist á þessa fjóra flokka. Aðrir gátu ekki gert sér miklar vonir um langvarandi stuðning þó svo að fimmti flokkurinn væri oft með inni á þingi. Þetta kerfi er að breytast mjög mikið. Nýir flokkar hafa verið að ryðja sér til rúms, sem ekki eiga þessa rót í tuttugustu öldinni og þessu hefðbundna kerfi. Það er samsvarandi þróun uppi á teningnum í stjórnmálum víðast hvar þó að birtingarmyndin geti verið ólík frá einu landi til annars.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Óþægilegt fyrir Róbert

Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, er í snúinni stöðu eftir að Fréttablaðið upplýsti að hann vildi taka slaginn...

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -