Miðvikudagur 18. september, 2024
11 C
Reykjavik

Pólitískar flóttakonur frá Hvíta-Rússlandi senn sendar úr landi – Veikar og óttast framhaldið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hvítrússnesku vinkonurnar Alina Kaliuzhnaya og Daria Novitskaya eru hér á landi sem pólitískir flóttamenn. Eftir ofsóknir yfirvalda í Hvíta-Rússlandi, sáu þær ekki aðra leið en að flýja heimalandið – og komu til Íslands. Útlendingastofnun hefur tvívegis hafnað beiðni þeirra, en mál þeirra verður tekið fyrir í þriðja skiptið á næstunni. Tapi þær enn á ný, verða þær sendar til Póllands en þar dvöldu þær í tvær nætur áður en þær flugu til Íslands. Fjallað hefur verið um þær á öðrum miðlum, en Mannlíf ákvað að taka viðtal við þær í ljósi þess að nú hefur undirskriftasöfnun til stuðnings vinkonunum verið ýtt úr vör.

Daria og Alina
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Sögur vinkvennanna eru ótrúlegar og í raun svo fjarri íslenskum veruleika að erfitt er að ímynda sér hvernig þeim líður eftir allt sem á undan hefur gengið.

Saga Alinu

Alina, 24 ára, er dóttir eins þekktasta pólitíska flóttamanns Hvíta-Rússlands, Dmitrys Petrushkevich sem kom upp um dauðasveitir Alexanders Lukashenko forseta og, að eigin sögn, síðasta einræðisherra í Evrópu. Þurfti Dmitry í kjölfarið að flýja landið. Þá var Alina aðeins þriggja ára gömul.

Æska Alinu einkenndist af spítalavist og veikindum, en hún er greind með Crohns-sjúkdóminn, sem er sjálfsofnæmissjúkdómur sem herjar helst á meltingu fólks en veikir einnig ónæmiskerfið, svo Alina er viðkvæm fyrir hvers kyns sýkingu. Einnig er hún greind með hið sjaldgæfa og alvarlega Marfan-heilkenni. Af þeim sökum þarf hún stöðuga lyfjagjöf og læknishjálp en Marfan-heilkenni getur verið lífshættulegur sjúkdómur, en hann leggst á hjarta- og æðakerfið, augun og stoðkerfið, sem útskýrir hvers vegna Alina fór strax sem barn að missa hluta af sjónarinnar.

Alina bauð sig fram í eftirlitsstörf árið 2020, þegar efnt var til fyrstu lýðræðislegu forsetakosninganna í Hvíta-Rússlandi frá falli Sovíetríkjanna. Þar varð hún vitni að stórfelldu kosningasvindli en ekkert var hlustað á hana þegar hún tilkynnti yfirstjórninni frá brotunum. Ákvað hún þá að mótmæla úrslitunum, en Lukashenko hlaut yfir 80% atkvæða. Var Alina handtekin í mótmælunum ásamt vinum hennar sem einnig höfðu mótmælt. Fyrstu þrjá dagana var hún látin dúsa í hinni alræmdu fangageymslu í Minsk, Okrestina sem þekkt er fyrir hryllilega meðferð á föngum, meðal annars nauðganir, barsmíðar og pyntingar. Þar hefur fólk meðal annars þurft að hírast 15 saman í fimm manna klefa þar sem ekkert klósett var að finna, í nokkra daga. Slapp hún við líkamlegt ofbeldi, en var beitt andlegu ofbeldi þar. Eftir þriggja daga vist þar var hún færð í  fangelsi, um 300 kílómetra fjarlægð frá Minsk. Þar sat hún inni í 12 daga til viðbótar, þar sem hún sætti andlegum pyntingum. „Þeir tóku vel eftir mér í fangelsinu því ég var alltaf að minna þá á að ég hefði þessa sjúkdóma og fékk þá þannig af því að berja mig. Þannig að þeir notuðu aðrar aðferðir. Þeir beittu mig andlegu ofbeldi, þeir lokuðu mig inni í pínulitlu herbergi án pappírs eða dagblaða í 15 daga,“ segir Alina og segist ekki hafa getað fylgst með tímanum af þeim sökum. Þá var ómögulegt fyrir Dariu að senda henni lyfin sem hún þurfti, því hún fékk engar upplýsingar um staðsetningu hennar. Daria fór um allt land í leit að rétta fangelsinu, svo Alina gæti fengið augndropana sem hún þurfti nauðsynlega. Þá varð Alina veik mestallan tímann á meðan hún dvaldi í fangelsinu, en fékk enga læknisaðstoð. „Ég gat ekkert borðað þarna, því vegna heilsuvandans get ég ekki borðað hvaða mat sem er. Þannig að ég bara svalt,“ segir Alina og bætir við að hún þurfi að fylgja ströngu mataræði vegna heilsunnar.

- Auglýsing -
Félagarnir Alexander Lukashenko og Vladimír Pútín horfast í augu.
Ljósmynd: kremlin.ru

Aðspurð segist Alina auðvitað vera í áfalli eftir dvölina í fangelsinu. „Á þessum þremur dögum sem ég var í fangageymslunni, missti ég þrjú kíló, sem er mikið fyrir mig. Dvölin hafði einnig alvarleg áhrif á æxlunarfærin. Andleg heilsa mín sökk algjörlega niður fyrir gólffjalirnar. Ég gat ekki farið til sálfræðings eftir þetta því ég var hrædd um að sálfræðingurinn myndi kjafta í yfirvöld. Það sem hjálpaði mér mikið var starf mitt á leikskólanum, en fáeinum vikum eftir að mér var sleppt, lést afi minn. Hann hafði unnið mestalla ævi sína sem lögmaður lögreglunnar og var sem slíkur verðlaunaður af yfirvöldum. Hann vissi af fangageymslunni hræðilegu í mörg ár. Þegar hann frétti að Alina hefði farið í gegnum þennan stað hætti hann að tala við nokkurn mann og nokkrum vikum síðar lést hann. Þannig að þetta var bara hræðilegt.“

En af hverju ákvað Alina að flýja frá heimalandinu og af hverju til Íslands? Alina svarar því til, að fljótlega eftir að henni var sleppt úr fangelsi var henni sagt upp starfi sem leikskólakennari og þegar hún sótti um á öðrum vinnustöðum rakst hún alltaf á vegg, hún hafði verið handtekin og enginn möguleiki fyrir hana að fá vinnu. Hún ákvað þá að flýja land og vissi að Ísland væri eitt öruggasta land í heimi og gæti boðið henni upp á bestu mögulegu hjálp hvað varðar heilsu hennar.

Saga Dariu

- Auglýsing -

„Saga mín er svolítið öðruvísi. Mamma mín var handtekin árið 2008 og dæmd í tveggja ára fangelsi. Í þá daga var ekki hægt að handtaka og ákæra fólk fyrir að mótmæla, heldur þurfti að búa til einhverjar upplognar sakir. Hún var fundin sek um að tilheyra glæpasamtökum sem innihéldu aðeins eina manneskju – hana. Einnig var hún dæmd fyrir mansal,“ sagði Daria og sagði svo frá sinni handtöku.

Ákæran á hendur móður Dariu
Ákæran á hendur móður Dariu
Þýðing á ákæru á hendur móður Dariu
Þýðing á ákæru á hendur móður Dariu

 

Hún fór ásamt Alinu á nánast öll mótmæli árið 2020, fyrir og eftir að upp komst um kosningasvindl Lukashenkos, en áður höfðu allir helstu stjórnarandstæðingarnir verið fangelsaðir. Til að byrja með voru þetta heilmikil mótmæli í miðborg Minsk, en svo kom óeirðalögreglan og dreifði hópunum þannig að fólk var farið að mótmæla í hverju hverfi fyrir sig, í smærri hópum. Daria segist hafa verið með í fórum sínum innanlandsvegabréf, sem allir verða að ganga með á sér, en þar koma allar þínar persónulegu upplýsingar fram; hvar þú býrð, hvað þú hefur átt marga eiginmenn, hvað þú átt mörg börn og fleira. „Þegar ég var í einni af mótmælagöngunum var ég handtekin og lögreglan kíkti í innanlandsvegabréfið og sá að ég átti son. Það var óskráð regla hjá lögreglunni að ef sá handtekni á börn, er farið aðeins mýkri höndum um hann.“ Af þeim sökum slapp hún við fangelsisvist.

Hún ætlaði að taka son sinn með til Íslands, en hann er með slæman astma og sjálf er Daria með erfiðan lungnasjúkdóm. „Á Íslandi var ég ekki send til lungnasérfræðings vegna sjúkdóms míns, þótt ég hafi beðið um það í níu mánuði. Ég er ekki að kvarta, mér líður alveg ágætlega núna, en ef ég fæ ekki að hitta íslenskan lækni, get ég bara sýnt sjúkdómsgreiningu og gögn frá Hvíta-Rússlandi.“ Þar koma fram þær upplýsingar að hún þurfi að forðast sólarljós eins og hún getur vegna sjúkdómsins sarklíki (e. sarcoidosis) sem hún greind með. „Ég hugsaði þetta þannig að ég þyrfti fyrst að koma ein hingað og þegar ég væri farin að vinna og koma mér fyrir, myndi ég fá nægan pening til að fljúga syni mínum hingað. En svo fattaði ég, eftir að ég kom hingað, að ég hef ekki einu sinni efni á að hitta alla sérfræðilæknana sem ég þarf að hitta. Þannig að ég get ekki tekið þá áhættu að fá son minn hingað því ég hef ekki efni á astmalyfjum handa honum, ekki á meðan ég er flóttamaður.“

Ekki öruggar í Póllandi

En af hverju geta vinkonurnar ekki hugsað sér að búa í Póllandi?

Daria segir það ekki mögulegt fyrir þær, þetta snúist ekki um þeirra vilja. Til að mynda þjáist hún af sjúkdómnum sarklíki (e. sarcoidosis) sem er, samkvæmt bæklingi Landspítalans, sjúkdómur af óþekktum orsökum sem getur lýst sér á afar margvíslegan hátt. Um er að ræða bólgu sem getur komið fram í nánast öllum líffærum líkamans. Algengast er að sjúkdómurinn komi fram í lungum, liðum, augum, eitlum eða á húð. Sarklíki getur einnig lagst á lifur, heila og hjarta, en það er mun sjaldgæfara. Sjúkdómurinn getur haft þau áhrif að sólarljós er hættulegt fyrir þá sem þjást af honum, en of mikið af D-vítamínum hefur slæm áhrif á sjúklinginn. Hægt er að lesa meira um sjúkdóminn hér. Eins og gefur að skilja er sólin talsvert oftar og lengur á lofti í Póllandi og öðrum löndum Austur-Evrópu en á Íslandi. Einnig er önnur ástæða fyrir því að Daria finnst hún ekki örugg í Póllandi; lögreglumaðurinn sem handtók móður Dariu býr í Póllandi og hefur alla tíð verið stuðningsmaður Lukashenkos, en aðeins nýlega hefur hann skipt um skoðun og er nú meðlimur í félagi brottfluttra lögreglumanna sem eru á móti forsetanum og félagið hefur aðsetur í Póllandi. Daria treystir honum þó ekki, þar sem hann hefur bara nýlega skipt um skoðun.

Læknaskýrsla frá sérfræðingi í Hvíta-Rússlandi
Þýðing á læknaskýrslunni
Þýðing á læknaskýrslunni

 

Læknaskýrsla frá sérfræðingi í Hvíta-Rússlandi
Þýðing á læknaskýrslu frá Hvíta-Rússlandi

Þá hefur einnig komið fram að Alina treysti heilbrigðiskerfinu hér á landi betur en því pólska, en einnig óttast hún um öryggi sitt þar í landi. Ástæðan fyrir því er sú að þegar þær vinkonur komu við í Póllandi tveimur dögum áður en þær komu til Íslands, gistu þær hjá vini föður Alinu sem er þar sem pólitískur flóttamaður. Hann var þess fullviss að fylgst væri með honum af leyniþjónustu Hvíta-Rússlands og að búið væri að endurvekja dauðasveitina alræmdu.

Einnig segja þær að Pólland sé nú þegar með allt of marga flóttamenn og að þær vinkonur þurfi báðar sérstakar meðferðir vegna sjúkdóma sinna og þær fengju þær ekki í Póllandi, sérstaklega ekki í því ástandi sem nú ríkir.

Síðasti séns

Og hvað segir Útlendingastofnun varðandi heilsu þeirra?

„Útlendingastofnun hefur algjörlega hundsað þær staðreyndir að þær eigi við heilsuvandamál að stríða. Stofnunin hefur beitt þeim rökum að það sé mjög erfitt fyrir Alinu að fá þá aðstoð sem hún þarf frá læknum hér á landi vegna stöðu hennar sem flóttamaður,“ segir Alina og bætir við: „Lögfræðingur minn hefur biðlað til Útlendingastofnunar um að taka ekki lokaákvörðun um mitt mál fyrr en hún hafi fengið læknisvottorð frá íslenskum lækni, en þau hafa bara hundsað þá beiðni. Nú hefur stofnunin neitað okkur í annað skiptið um hæli, en það gerðist aðeins viku áður en ég átti að hitta augnlækni.“ Afar dýrt er fyrir þær að sækja um hæli í þriðja skipti, en þá þurfa þær að borga sjálfar fyrir lögfræðinga, en Rauði krossinn ákvað að borga fyrir þær í ljósi sérstakra aðstæðna þeirra.

Þann 24. og 25. maí mæta vinkonurnar til fundar í Útlendingastofnun þar sem þeim verður tilkynnt svar stofnunarinnar við þriðju og síðustu beiðni þeirra um hæli á Íslandi.

Hafin er undirskriftasöfnun til stuðnings Alinu og Dariu, til að krefjast þess að þær fái að búa hér á landi. Hægt er að skrifa undir hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -