Séra Arnaldur Máni Finnsson birtir grein í Morgunblaðinu þar sem hann hvetur Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra og sendiherra til að setjast í helgan stein.
Arnaldur er sonur Elísabetar Þorgeirsdóttur; hún steig fram í pistli í Morgunblaðinu og gagnrýndi framgöngu Jóns Baldvin gagnvart þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar; er Elísabet ein þeirra kvenna sem lýst hafa kynnum sínum af Jóni Baldvin inn á MeToo-síðu sem sett var á laggirnar fyrir þremur árum síðan:

„Ég er sonur konu sem var beitt kynferðisofbeldi og hefur reynt að vinna sig út úr þeirri reynslu, meðal annars með harðsnúinni göfgun tilfinninga eins og reiði og sársauka, um langa hríð og viljað styðja önnur sem búa að erfiðri reynslu.
Það er hennar hlutskipti, eins og margra sem þráðu að njóta sannmælis á liðinni öld, þar sem kyn, kynhneigð, stétt eða önnur staða gat orsakað jaðarsetningu. Hún var hluti þjóðfélagsbreytinga þar sem hin valdalausu kölluðu eftir hinum heilaga rétti til að vera uppreistar manneskjur. Ég spyr þig: Getur þú ímyndað þér hvert hún sótti kraftinn til að stíga fram, þrátt fyrir niðurbrot og níðingsskap manns sem misbeitti valdi í krafti stéttar og stöðu? Það var jú fyrst fyrir hálfri öld síðan en hann þrjóskast við það enn í dag.“
Bætir við:
„Þau sem standa nærri verða þolendur þess líka. Þekkjum það öll. Þolandi eða aðstandandi; gildir það ekki einu? Ég er á móti ofbeldi og stend með þolendum ofbeldis því reynslan mótar mann. Og því stíg ég fram hér.
Því fer fjarri að sá sem friðhelgi krefst leiti náðar. Hann smyr í andlit viðhlæjenda og játningabræðra spurningunni um það hvað sé að „að njóta sannmælis“. Þannig krefst hann samsektar þeirra sem útvega vettvang glæpa hans. Því býð ég örlítinn fróðleik þó hollráð verði engin þegin. Ofbeldinu er viðhaldið. Við þá sem velja sér opinberan vettvang með sjálfsréttlætingarsvip til að útmála meintan fjölskylduharmleik, saklausum lesendum þessa fjölmiðils til miska, segi ég: Misbjóðið ekki fleirum. Gangið til náða.
Vittu nú til Jón minn, sumt er ekki svara vert. Það ætti reynslan af því að klæmast við ungmeyjar að hafa kennt þér. Ég votta samúð mína öllu samferðafólki í „ævintýrinu“ sem líf hins mikla skólamanns og stjórnvitrings hefur verið. Sem betur fer ráðum við því sjálf hvenær við stígum inn á það svið, hvaða hlutverk við tökum – ef við höfðum einhvern tíma tækifæri til þess – og hverju við höfnum. Við erum sjálfráða um það hvort, hvernig og hvenær ævintýri „hins mikla satýrikons“ lýkur í okkar eigin lífi. Lífið er ekki stríðsvöllur kappa. Völd og áhrif ekki náðin sjálf. Höfðingjum fornaldar reyndist erfitt að sjá á eftir áhrifavaldi sínu og játast undir það lögmál að dómur sögunnar og æðri máttarvalda er ekki í þeirra höndum. Þeir höfðu val um að setjast í helgan stein. Ég hvet þig, hr. Jón Baldvin Hannibalsson, til þess að láta á það reyna.“