Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Séra Þórir Jökull Þorsteinsson var sjókokkur fyrrum: „Ég hafði eiginlega enga reynslu af matargerð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég man eftir slæmum veðrum, sjóslysum og mannskaða. Einhvern tímann vorum við langt vestur af landinu í slíku veðri; þá var ég með Víkingi Halldórssyni á Jóni Jónssyni. Þá sáum við ekki fram á hvalbak á bátnum, bara hvítfyssandi sjó, og þá reyndum við að halda bátnum upp í vindinn alltaf og ég man ekki betur en að það færust þá bátar úti við Vestfirði,“ segir Þórir Jökull Þorsteinsson, prestur í Noregi, í viðtali við Kolbein Þorsteinsson.

Eins og Kolbeinn segir þá hefur Þórir Jökull marga fjöruna sopið og migið í saltan sjó en áður en hann varð prestur tók hann búfræðipróf og er auk þess með Samvinnuskólapróf.

Mann munstraði sig á bát í Ólafsvík forðum daga. Hvernig kom það til?

„Það var nú þannig að ungur maður og atvinnulaus vissi ekki alveg hvert leiðin lá. Þá lá beinast við að prófa að fara á sjóinn og gá að því hvernig það gengi,“ segir Þórir Jökull sem fékk pláss sem kokkur á sjó á báti frá Ólafsvík, Gunnari Bjarnasyni. „Ég var nú kannski svolítið djarfur af því að ég hafði eiginlega enga reynslu af matargerð.“

Á þessum tíma man ég ekki að það hafi verið eitt einasta helgarfrí allan marsmánuð.

Þennan vetur reri hann með Ríkharði Magnússyni sem var skipstjóri á Gunnari Bjarnasyni. „Þetta var mikil vertíð. Við fiskuðum um þúsund tonn þessa vertíð. Við byrjuðum á línu og þá var helmingur áhafnarinnar í landi og helmingurinn á sjó og síðan þegar við byrjuðum á netunum komu allir um borð og netavertíðin byrjaði. Á þessum tíma man ég ekki að það hafi verið eitt einasta helgarfrí allan marsmánuð. Það var ekki komið í reglur þá. En þetta var ágæt reynsla og ég á ágætar minningar frá þessari fyrstu vertíð minni í Ólafsvík.“

- Auglýsing -

Það hafa verið viðbrigði fyrir dreng úr sveit að söðla svona fullkomlega um og ekki ráðist á garðinn þar sem hann er kannski lægstur; en Þórir Jökull ólst upp á Ökrum vestur á Mýrum. Hvernig gekk þetta til að byrja með?

Þeir höfðu heyrt að ég byggi til ágætan mat.

„Ég var sjóveikur fyrstu róðrana og þurfti að kasta upp; að hlaupa fram á klósett og kasta upp og svo inn í eldhús og halda áfram matseldinni. Það fyrsta sem ég gat látið ofan í mig var íslensk kjötsúpa sem ég gat eldað og náði mér einhvers staðar í uppskrift að og eftir það var ég aldrei sjóveikur. Svo notaði ég landlegur og brælur til að verða mér úti um uppskriftir; ég talaði svolítið við konurnar á sjóbúðinni í Ólafsvík þar sem ég hafði herbergi. Ég spurði þær hvernig maður byggi til hina og þessa sósuna og svo voru aðrir sjókokkar sem maður gat flett upp í og fengið leiðsögn hjá. Ég varð alveg ágætur kokkur. Ég man eftir því að karlarnir sem voru í landi og beittu línuna hlökkuðu til að koma um borð þegar netavertíðin byrjaði, því þeir höfðu heyrt að ég byggi til ágætan mat. Þetta var allt saman dálítill skóli.“

Hálfgerður barningur

- Auglýsing -

Þórir Jökull segir að eftir þetta hafi hann verið hér og þar til sjós þangað til hann fann nýja leið að ganga; hann var á netavertíð, á rækjubáti og á humri. „Þetta var svona hér og þar. Ég var á tveimur eða þremur síldarvertíðum á Höfn í Hornafirði og úti fyrir Austfjörðum. Þá var veitt í reknet. Ég held að það sé alveg hætt núna. Það voru lagðar þessar ofboðslega löngu dræsur í hafið; skipstjórarnir lágu yfir dýptarmælinum til að finna torfurnar og finna út hvað djúpt þær lægju á. Síðan var kallað „klárir“ og þá hlupu allir til og þessar ofboðslegu netadræsur voru lagðar í sjóinn og reynt að sökkva þeim niður á rétt dýpi. Síðan var þetta dregið inn og dregið í gegnum svokallaðan hristara sem hristi þá síldina úr.“ Þórir Jökull segir að þetta hafi verið veiðiskapur sem hafi aðallega farið fram á nóttunni. „Maður var að draga þetta á nóttunni og stundum fram á morgun.“

Sjómennskan var með hléum. „Ég byrjaði upp úr nýári 1979 og síðan var þetta með hléum. ég held að síðasta úthaldið mitt hafi verið á rækjubáti frá Ísafirði sumarið 1983. Þá hafði ég einsett mér að fara í skóla eftir hlé. Ég var orðinn faðir og þetta var ekki allt einfalt; að sjá fram á að geta fjármagnað að komast í skóla. Ég byrjaði á því þetta sumar og var á trolli á báti sem heitir Kópur og er frá Þorlákshöfn. Svo einu sinni vorum við að fara út og þá var einhver skítabræla og skipstjórinn, Gunnar Egilsson, ákvað að snúa við í þetta sinn og það varð úr þessu eitthvert stopp. Á þeim tíma frétti ég að það vantaði kokk á rækjubát, reyndar Jón Jónsson frá Ólafsvík, sem þá lagði upp á Ísafirði.

Þá voru menn að byrja að veiða úthafsrækju úti fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum og það var gríðarlega hátt verð á rækju á heimsmarkaði. Og það var verið að vinna þetta á Ísafirði. Ég hringdi og kannaði hvort ég gæti ekki fengið þetta starf og það stóð bara heima. Ég man að ég fór hálfafsakandi til Gunnars Egilssonar, skipstjóra á Kópnum, og sagði honum að ég hefði fengið starf sem gæfi líklega betur af sér, hvort hann myndi ekki fyrirgefa mér ef ég söðlaði um. Hann var ekkert kátur, en lét þetta eftir mér. Þetta sumar sem við vorum að veiða rækjuna úti fyrir Norðurlandi og norður af Vestfjörðum gaf svo vel í aðra hönd að ég gat byrjað í Samvinnuskólanum og það var skref inn í nýja tilveru fyrir mig.“

Það var ekkert ofboðslega mikið úr þessu að hafa.

Á þessum tíma hafa það verið gríðarleg uppgrip fyrir unga menn að fá pláss á vinsælum skipum. Var það ekki raunin hjá þér í flestum tilvikum?

„Það gátu komið góðar slettur inn á bankareikninginn hjá manni eða í launaumslagið en þvert yfir finnst mér þetta oft hafa verið hálfgerður barningur. Það var ekkert ofboðslega mikið úr þessu að hafa. Miklar fjarvistir. En jú, kannski miðað við fyrir ómenntaðan mann og óreyndan þá gaf þetta betur af sér heldur en margt annað. Þetta gat líka á köflum verið skemmtilegt. Ef maður var í góðri áhöfn þar sem var góður mórall og skemmtilegur mannskapur þá var þetta aldeilis ágætt fyrir ungan mann að reyna að spreyta sig á þessu.“

Jú, mórallinn skiptir máli. „Ég man eftir því á netavertíðum þegar við vorum að draga inn trossurnar og taka þorskinn úr þeim þá var oft líflegt spjall yfir netaborðið og verið að segja alls konar kjafta- og lygasögur. Þetta gat verið alveg ofboðslega gaman og fór eftir því hversu góðir sögumenn áttu í hlut.“

 

Trúin og sjósóknin

Svo söðlaði Þórir Jökull um og fór í guðfræði. Fiskurinn er trúarlegt tákn. Er hægt að tengja þetta saman við fiskveiðar?

„Það er margt sem getur leitt menn á svið trúarlegra þanka, svið guðfræðinnar. En það er alveg rétt; ég man oft þessa tilfinningu til sjós að finnast bátur og menn afskaplega smáir og eiga einhvern veginn allt undir bæði forsjóninni og því hvernig tíðarfarið hagaði sér. Og hvort tveggja er náttúrlega bjargræðisvegur; trúin og sjósóknin. Það er það hvort á sinn hátt.“

Þar er ákveðin menning út af fyrir sig.

Þórir Jökull er spurður hvort hann hafi fundið fyrir löngun til að fara aftur á sjó eftir að hann hætti.

„Mér hefur alltaf þótt vænt um þennan tíma og á þann hátt er alveg óhætt að tala um taugar til þess arna og sjósóknar og þess líf sem hrærist um borð í fiskibátum. Þar er ákveðin menning út af fyrir sig. En það einhvern veginn varð ekki þannig að þetta yrði nærtækt eftir að þessu luak. En ég hef til dæmis alltaf tekið til mín hátíðarhöld á sjómannadegi og verður þá hugsað til þessara tíma og þessarar reynslu.“

Hægt er að hlusta á allt viðtalið hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -