Miðvikudagur 1. febrúar, 2023
-3.9 C
Reykjavik

Sjúklingur deyfður með koníaki

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Samfélag í heljargreipum vegna skorts á læknisþjónustu.

Íbúar á Borgarfirði eystra kalla eftir samstarfi um viðbragðsþjónustu utan spítala þar sem óöryggi íbúanna varðandi heilbrigðisþjónustu sé algjört. Þegar alvarleg tilvik koma upp þarf að kalla eftir sjúkrabíl frá Egilsstöðum sem er í klukkutíma akstursfjarlægð yfir fjallveg. Læknir hefur ekki verið starfandi í þorpinu í áratug.

Íbúi á Borgarfirði eystra segir í samtali við Mannlíf að húsnæði, sem notað er sem heilsugæsla þegar þörf er á, skorti lágmarks aðföng sem þarf til að sinna sjúklingum.

„Það er ekkert til þarna. Það slasaðist einstaklingur fyrir nokkru. Það var læknir á staðnum þegar slysið varð en hann var ekki með læknisáhöld á sér, enda á frívakt. Það fannst ekkert til að sauma manninn með en fyrir rest gróf læknirinn upp einhvern grófan tvinna og nál. Það var heldur ekkert í húsinu til að deyfa manninn með nema koníak sem einn úr hópnum hafið meðferðis,“ segir íbúinn, sem vill ekki láta nafn síns getið en Austurfrétt vakti nýverið athygli á atvikinu í tengslum við frétt um íbúafund í plássinu um utanspítalaþjónustu.

Vegna aðstæðna hafa heimamenn á svæðinu þurft að mynda sérstakan viðbragðshóp vettvangsliða til að bregðast við neyðartilfellum og veita fyrstu hjálp á meðan beðið er eftir sjúkrabíl. „Við erum búin að vera með þennan viðbragðshóp í gangi síðan 2012. Við menntuðum hópinn hjá Sjúkraflutningaskólanum en þetta var leið okkar slökkviliðsins og fólksins á staðnum til að undirbúa vettvangsliðana fyrir hver þau áföll sem þeir gætu þurft að takast á við sjálfir, enda er oft ófært eða seinfarið yfir á Borgarfjörð [frá Egilsstöðum]. Niðurstaðan varð sú að kosta námskeiðin úr sjóðum Brunavarna Austurlands,“ segir Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna á Austurlandi, og kveðst hafi mætt daufum eyrum hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) þegar þangað var leitað. „Þess vegna var samfélagið einfaldlega að kalla eftir þessum íbúafundi, til að fara vel yfir þessi mál.“

Á fundinn mættu forstjóri lækninga HSA, framkvæmdaráð og fleiri aðilar. Segist Baldur hafa þrýst á HSA að koma að borðinu svo að skilgreina mætti betur hlutverk vettvangsliða, nokkuð sem sé nauðsynlegt að gera eftir að tvö áföll dundu yfir í þorpinu. Hann segist hafa sent bréf á yfirlækni og yfirmann sjúkraflutninga á Egilsstöðum vegna málsins en ekki fengið skýr svör þrátt fyrir að hafa ítrekað fyrirspurnina.

Hnigu meðvitundarlausir niður

- Auglýsing -

Áföllin sem Baldur minnist á urðu þegar tveir einstaklingar hnigu niður meðvitundarlausir með árs millibili og þurftu á endurlífgun að halda.

„Í fyrra skiptið náði viðkomandi að hringja áður en hann missti meðvitund. Vettvangsliðar komu fljótt og byrjuðu að hnoða og blása,“ segir hann en sá sem verið var að endurlífga var sjálfur félagi í hópnum. „Þetta var félagi okkar sem datt þarna niður, nándin þarna er svo mikil, sem getur verið mjög erfitt. Vettvangsliðarnir hnoðuðu og blésu í klukkutíma en það er það eina sem þeir mega gera. Fyrir tilviljun náðum við í lækni hjá HSA og hann kom klukkutíma síðar.“

„Í fyrra skiptið náði viðkomandi að hringja áður en hann missti meðvitund. Vettvangsliðar komu fljótt og byrjuðu að hnoða og blása.“

Baldur segir að í seinna tilvikinu hafi manneskja orðið vitni að því þegar einstaklingur hneig niður. Viðkomandi hringdi strax til að láta vita og þá hafi allt farið á sama veg og síðast. „Læknirinn sem kom hafði ekki heyrt af vettvangsliðunum, hjúkrunarfræðingur, sem vissi af okkur, var í sambandi við hann. Það fer því bara eftir því hver er á vakt hvort viðkomandi viti yfirhöfuð að þessi viðbragðshópur sé til. Skipulagið er allt í molum.“

- Auglýsing -

„Það er verið að fækka sjúkrabílum og ekkert kemur í staðinn“

Að sögn Baldurs er utanspítalaþjónusta á borð við björgunarsveitir, slökkvilið og vettvangsliða óskilgreint innan kerfisins. „Við kölluðum eftir samstarfi um að skilgreina svona hópa og líka eftir tillögum að því hvernig ætti að mennta þetta fólk. Ég sat nýverið þing Slysavarnarfélagsins Landsbjargar þar sem einnig var verið að fjalla um þessi mál. Allir eru að kalla eftir því að það verði mótuð heildstæð stefna í utanspítalaþjónustu. Það er verið að fækka sjúkrabílum í landinu og ekkert kemur í staðinn, það er engin stefna.“

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, tekur í svipaðan streng. „Við höfum ítrekað kallað eftir því við heilbrigðisráðuneytið að mörkuð verði stefna um samræmda utanspítalaþjónustu um allt land. Þar með talið sjúkraflutninga og aðkomu þessara hópa sem hafa verið kallaðir vettvangsliðar. Staðreyndin er sú að það er engin samræming á milli heilbrigðisumdæma þegar kemur að þessu. Við höfum verið að kalla eftir því að það verði lögð vinna í að samræma þessa hluti. Við höfum fundað með ráðuneytinu snemma á þessu ári og því síðasta og í raun allt frá árinu 2015 um þessi mál,“ lýsir hann og segir að engar tillögur um úrlausnir hafi borist úr ráðuneytinu.

Mannlíf sendi heilbrigðisráðuneytinu fyrirspurn um hvort og þá hvaða úrlausnir ráðuneytið hafi til að svara kalli þessara aðila. Í svari ráðuneytisins kemur fram að utanspítalaþjónusta sé eitt af fleiri tilteknum verkefnum sem ráðherra hefur sett í forgang á þessu ári og því næsta.

„Áhersla verður lögð á heildstætt skipulag allra sjúkraflutninga hvort sem þeir fara fram á landi eða með flugi,“ segir í svarinu sem Margrét Erlendsdóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, sendi ritstjórn Mannlífs. „Í samræmi við þessar áherslur er hafinn undirbúningur í ráðuneytinu að heildarstefnumótun í málaflokknum þar sem hlutverk hvers og eins viðbragðsaðila verður skilgreint, ábyrgð, staða í kerfinu, menntunarkröfur og fleira. Ráðherra hefur hitt fulltrúa Landsbjargar á fundi, þar sem þeir síðarnefndu hafa lýst sínum sjónarmiðum,“ segir enn fremur í svarinu.

Mynd / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -