Mörgum þykir óþægilegt þegar svokallað dósasöfnunarfólk róta í ruslatunnum við heimili sitt. Sóley nokkur bendir íbúum Norðurmýrarinnar í Reykjavík á að fólk ætti ekki að dæma bókina eftir kápunni. Þó fólk sé fátækt og í neyð þá sé það ekki verra fólk en annað. Hún segist innan Facebook-hóps íbúa hafa fylgst með einni slíkri manneskju á dögunum. Það sem hún sá kom henni skemmtilega á óvart.
„Oft skapast leiðinleg umræða vegna fólks sem fer óumbeðið í gegnum ruslið okkar í leit að peningum í flöskuformi. Vildi bara setja hér einn jákvæðan punkt á móti. Ég var að fara út með ruslið áðan akkúrat þegar ein af “rusla-flösku/dósasöfnunarmanneskjunum” er að fara í gegnum rusl nágrannans. Ég býð góðan daginn bara kurteisislega og manneskjan spyr á móti hvort ég eigi flöskur, ég svara nei,“ lýsir Sóley.
Hún ákvað að fylgjast aðeins með þessu. „Eftir að ég kem inn aftur fylgist ég aðeins með manneskjunni þar sem hún fer á milli tunnu eftir tunnu hjá nágrönnunum í leit að flöskum. Það skemmtilega er, að ég sé að viðkomandi sorterar rusl nágrannanna í leiðinni! Veiðir upp pappakassa og annan pappír úr svörtu tunnunum, brýtur saman og setur samviskusamlega yfir í bláu tunnuna. Ekki bara hjá einum granna, heldur þeim næsta líka. Er þetta etv útsendari frá plánetu Jörð að efla endurvinnslu, en ekki manneskja í neyð? Mér þótti allaveganna fallegt að sjá þetta og hugsaði hlýlega til viðkomandi,“ lýsir Sóley.
Flestir nágrannar hennar taka vel í þetta og einn skrifar: „Laumaðu af henni nokkrum hundrað köllum næst þegar þu hittir hana og gefðu henni allar tómu flöskurnar þínar! Jóla góðverk!“ Sóley svarar og segir að það muni hún hiklaust gera.