Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, greindist nýlega með krabbamein í lifur en hún greindist með brjóstakrabbamein árið 2019 og gekk þá í gegnum stranga meðferð. Þórunn heldur í bjartsýnina og hamingjuna í baráttunni.
Þetta er í því annað skipti sem Þórunn greinist með krabbamein. Hún segir að læknar geti ekkert sagt til um horfurnar. „Það verður bara að koma í ljós. En við erum bjartsýn núna. Það er þannig. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég er sigurviss; ég fer í þetta svoleiðis. Svo kemur bara í ljós hvað gerist.“
Þórunn segist aldrei hafa verið hrædd við að deyja. „Ég held að það sé ekkert vont fyrir þann sem deyr. Það er verra fyrir hina. Ég hef þá frekar áhyggjur af fólkinu mínu; þeim sem eru í kringum mig. En ekki af sjálfri mér, segir Þórunn.
Þórunn er spurð hvort hægt sé að upplifa hamingjuna í þeim aðstæðum sem hún er í? „Já. Það er mjög auðvelt að finna hamingjuna þar sem ég er núna af því að ég lít á mig sem lánsama konu. Mjög lánsama. Ég er full þakklætis fyrir allt sem ég fæ og full gleði. Svo má maður ekki taka lífið of alvarlega. Það verður bara leiðinlegt. Við vorum ekkert að fæðast á þessa jörð til að hafa leiðinlegt,“ segir Þórunn.
Þórunn er umfram allt bjartsýn. Vongóð. Spurð um hamingjuna segir hún: „Hamingjuna finnur maður í hjartanu. Ef við gerum allt út frá hjartanu þá erum við á réttri leið. Og þegar hjartað nær sínu fram þá erum við sönn og trú og líður vel með okkur sjálfum og fólkinu okkar. Ef við náum að gera allt úr frá hjartanu og hlustum á það þá held ég að við séum á góðum stað.“
Þórunn er í einlægu helgarviðtali Mannlífs og þú getur lesið það allt hér.