2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Þróar sjóræningjaseríu í Hollywood

Hollywood-framleiðandi vill gera sjónvarpsþætti byggða á handriti eftir fjölmiðlakonuna Kristínu Evu Þórhallsdóttur. Handritið fjallar um herskáan sjóræningja sem á í útistöðum við franska aðalinn á 14. öld.

„Þetta er viss staðfesting á því að hugmyndin sé góð og náttúrlega hvatnig til að halda áfram,“ segir Kristín Eva glöð þegar hún er spurð að því hvernig tilfinning það sé að stórframleiðandinn Anders Tangen sem á meðal annars að baki hina vinsælu þætti Lillehammer og Norsemenn, hafi í hyggju að gera sjónvarpsseríu eftir handritinu The Lioness sem Kristín Eva skrifar í samvinnu við Margrethe Stang Lund.

Handritið fjallar um kvenkynssjóræningja sem á í útistöðum við franska aðalinn á 14. öld og er innblásið af raunverulegum atburðum sem Kristín Eva las sér til um þegar hún var að gera þátt um sjóræningja fyrir Leynifélagið á Rás 1. „Ég rakst á sögu kvenkynssjóræningja að nafni Jeanne de Clisson sem sigldi með eigin skipaflota um Ermarsundið í Hundrað ára stríðinu undir merkjum Ljónynjunnar af Bretaníu og réðst grimmilega á skip Filippusar VI. Frakklandskonungs til að hefna eiginmanns síns, Olivers, háttsetts manns í Bretaníu sem konungurinn hafði látið drepa í pólitískum tilgangi. Ég varð strax heilluð af þessari sögu þegar ég las hana og langaði að gera eitthvað við hana, en það var svo ekki fyrr en ég flutti með fjölskyldunni til Los Angeles fyrir nokkrum árum og kynntist þar Margarethe að hjólin fóru að snúast.“

„Ég varð strax heilluð af þessari sögu þegar ég las hana og langaði að gera eitthvað við hana, en það var svo ekki fyrr en ég flutti með fjölskyldunni til Los Angeles fyrir nokkrum árum og kynntist þar Margarethe að hjólin fóru að snúast.“

Ljónynjan af Bretaníu var sjóræningi sem sigldi um Ermarsundið í Hundrað ára stríðinu og réðst þar á skip franska aðalsins.

Kristín Eva sagði Margarethe frá sögunni og þær ákváðu að skrifa saman handrit upp úr henni, átta þátta seríu sem Kristín Eva segir hafa tekið tíma að vinna vegna þess hversu mikil heimildavinna liggi að baki verkinu. „Í heilt ár gerðum við Margarehe lítið annað en að liggja í sagnfræðibókum svo að við hefðum góða hugmynd um hvernig Frakkland og England hefðu verið á 14. öld. Við vildum ekki byrja að skrifa fyrr en við þekktum vel sögusviðið og helstu leikendur og þurftum að kynna okkur allt frá stórum sögulegum atburðum til minnstu smáatriða í hversdagslífi fólks til að draga upp raunsæja mynd af þessum tíma.“

AUGLÝSING


Hún segir að það hafi ekki síður verið áskorun að skrifa sögu aðalsöguhetjunnar, Jeanne de Clisson, vegna þess hversu lítið er raunverulega vitað um hana. „Það eru litlar sem engar heimildir til um Jeanne en þó nægar til að við Margarethe gætum fyllt í eyðurnar. Það má segja að það hafi gefið okkur visst listrænt frelsi.“

Framleiðandanum Tangen leist svo vel á handritið að ekki er nóg með að hann langi til að gera þáttaseríu eftir því heldur hefur hann lofað það í hástert í erlendum fjölmiðlum, meðal annars fyrir hinn pólitíska þátt sögunnar sem hann segir vera skírskotun til samtímans og sterka persónusköpun sem hann þykist viss um að muni laða þekkta leikarara að verkefninu. En hvenær reiknar Kristín Eva eiginlega með að þættirnir fari í framleiðslu? „Það er enn langt í það,“ segir hún róleg. „Það getur tekið nokkur ár að koma svona stórverkefni á koppinn,“ bætir hún við til útskýringar. „Þannig að þetta er enn allt á byrjunarstigi.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is