Föstudagur 19. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Bannað með lögum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Linda Björg Árnadóttir, hönnuður og lektor við Listaháskóla Íslands

Við á Íslandi búum við frelsi sem við tökum sem sjálfsögðum hlut. Okkur finnst m.a. sjálfsagt að klæða okkur og líta út eins og okkur langar og/eða teljum viðeigandi hverju sinni þegar við höfum okkur til. Við höfum frelsi til þess að skapa og þróa sjálfsmynd okkar sem einstaklingar og/eða sem hluta af hóp.

Það finnast hins vegar mörg dæmi um það í sögunni að ákveðinn fatnaður eða tíska hefur verið bönnuð með lögum. Þessi lög eru afleiðing íhaldssemi, valdabaráttu milli stétta og þjóða og eru merki um þvingun og útskúfun ákveðinna hópa. Að banna fatnað og tísku sem tilheyrir sjálfsmynd og menningu hópa er það sama og að banna hópinn.

Tíska hefur mikið verið notuð til að aðgreina einn hóp frá öðrum eins og til dæmis fátæka frá ríkum. Í Evrópu hafa oft verið sett lög um að almúginn megi ekki klæðast ákveðnum fatnaði eða litum sem aðeins átti að vera fyrir yfirstéttina.

„Það finnast mörg dæmi um það í sögunni að ákveðinn fatnaður eða tíska hefur verið bönnuð með lögum.“

Konur hafa þurft að berjast fyrir fleiru en lagalegum jafnréttindum. Þær hafa einnig þurft að berjast fyrir réttinum til þess að klæðast með þeim hætti sem þær vilja, hvort sem það var að klæðast eins og karlmenn eða að klæðast efnislitlum (eða -miklum) fatnaði. Þegar konur vildu ganga í buxum, eins og karlmenn, þá féll það ekki í góðan jarðveg og boð og bönn fylgdu í kjölfarið. Sama gerðist þegar mínipilsið kom fyrst fram, þá var það bannað í nokkrum Evrópulöndum og eins þegar bikiníið kom til sögunnar skömmu seinna. Þarna báru yfirvöld því fyrir sig að viðkomandi fatnaður væri það efnislítill að hann þætti ósæmilegur á almannafæri. Sömu rök áttu greinilega ekki við þegar svokallað „búrkíni“, sundföt fyrir múslimakonur, voru bönnuð á nokkrum svæðum í Frakklandi og eru það enn.

Það eru til mörg dæmi úr sögunni um að þeim sem tapar í stríði sé bannað að klæðast þjóðbúningi sinnar þjóðar og sé þvingaður til þess að klæðast fatnaði sigurvegaranna.
Árið 1746 bönnuðu Bretar Skotum með lögum að klæðast „tartan“, hefðbundnum þjóðbúningi Skota sem var sterkt tákn í menningarlegri sjálfsmynd þeirra. Þetta var gert til þess að koma í veg fyrir hvers konar uppreisn þeirra á meðal. Þarna er ákveðinn fatnaður farinn að vera það sama; pólitísk uppreisn.

- Auglýsing -

Á þeim tíma sem að Bretar voru með yfirráð yfir Írlandi þá voru grænn og saffrangulur bannaðir í klæðnaði því þeir voru einkennandi fyrir írskan fatnað og menningu þjóðarinnar. Það finnst í texta írsks þjóðlags frá seinni hluta nítjándu aldar að Hinrik 8 hafi látið hengja fólk fyrir að klæðast grænu. Írar þurftu seinna að endurbyggja hugmyndir um það hvað væri írskt en þær höfðu mikið tapast undir stjórn Breta.

Af þessu má vera ljóst að frelsi til að klæðast hverju sem maður vill er ekki endilega sjálfsagt. Njótum þess frelsis sem við höfum og skemmtum okkur og bætum líf okkar með tísku og klæðnaði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

dfkjpogv

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -