Sunnudagur 28. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

„Ég ætla að fá einn hnetutopp, takk“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Töru Margréti Vilhjálmsdóttur

Um 16 leytið í gær, 6. nóvember, hafði ég verið vakin og sofin yfir forsetakosningum í Bandaríkjunum áðurliðna 3 sólarhringa. Biden hafði loksins tekist að ná forskoti í Pennsylvaníu og var á sigurleið þrátt fyrir að Trump kepptist við að skapa sýndarveruleika þar sem stórfengleg kosningarsvik áttu að hafa farið fram og forsetaembættinu stolið undir honum. Ég var að lesa um viðbrögð Bidens við vangaveltum um að Trump myndi mögulega neita að yfirgefa Hvíta Húsið. Svörin voru skýr: „Bandaríkin áskilja sér rétt til að vísa óvelkomnum úr Hvíta Húsinu“. Um leið og ég hafði lokið við að lesa þessa setningu fékk ég sendan pistil frá vinkonu sem hafði birst á man.is fyrr um morguninn. Hann hafði verið skrifaður af fararstjóra hjá Ferðafélagi Íslands, og bar heitið „Kæri offitusjúklingur: Ísbíllinn kemur alltaf aftur“.

Í Bandaríkjunum, landi sem við erum flest sammála um að sé uppfullt af kynþáttafordómum, eru fitufordómar jafn algengir og rasismi (1). Ef að íslenskur miðill myndi birta pistil uppfullan af rasískum sleggjudómum og staðalmyndum væri pistlinum umsvifalaust hafnað af meginþorra íslensks samfélags og hann tættur í öreindir. Í pistlinum virðist höfundur reyna að hvetja feitt fólk til þátttöku í göngum Ferðafélagsins með því að smána það og hvetja til skaðlegra aðferða eins og skera út fæðutegundir. Ég trúi ekki að árið 2020 þurfi ég að svara pistli sem lýsir feitu fólki sem „afmynduðu í útliti“ og var flokkaður undir „samfélagsmál“ hjá miðlinum sem birti hann. En hér er ég víst.

Pistillinn er uppfullur af fitufordómafullum sleggjudómum um holdafar, orsakir þess og afleiðingar á heilsu. Þetta er í raun eins og skólabókardæmi um þann hræðsluáróður sem hefur dunið yfir okkur sl. áratugi um holdafar og heilsu. Má þar nefna gamalkunna frasa um að offita sé dauðadómur sem sé afleiðing af óhóflegri neyslu sykurs og hafi í för með sér ýmsa líkamlega og andlega sjúkdóma. Rót óhófsins sé að finna í matarfíkn sem leiði til þess að „fólk úði í sig sykri og annarri óhollustu“ en að samfélagið viðurkenni hinsvegar ekki umrædda fíkn. Feitt fólk sé jafnframt getulaust þegar kemur að hreyfingu. Þetta sé veruleiki hins feita sem eigi sér einungis tvær leiðir úr þjáningunni en þar er um að ræða aðhald í mat og aukningu á hreyfingu. Hann þurfi að kveljast og þjást og leita sér stuðnings með því að borga aðild að gönguhópi á vegum vinnuveitanda hans. Þannig muni hinn feiti öðlast frelsi og lífshamingju og skilja martröðina, sem hefur einkennt líf hans fram að því, að baki. Smá klausa kemur um fitufordóma og að mikilvægt sé að feitt fólk sé ekki litið hornauga, rétt eins og öll fordómafulla og hatursfulla runan sem á undan kom og gefur í skyn lága greind, siðferðiskennd og sjálfsaga feits fólks hafi aldrei komið fyrir. Lokatrixið er að höfundur vísar til þess að hafa sjálfur verið feitur en að hann hafi síðan grennst og hann vilji bara feitum samþolendum sínum vel með góðum og heilnæmum ráðleggingum. Rétt eins og að hugsunarháttur feitra og fyrrum feitra geti ekki einkennst af sömu fordómafullu skekkjunum og hjá langflestum okkar innan fitufordómafulls samfélags…

Allt eru þetta gamlar sögur og nýjar. Þó að höfundurinn hafi náð takmarki sínu í megrun breytir það ekki þeirri staðreynd að hann er hluti af einungis 3-5% þeirra sem reyna að léttast sem ná markmiði sínu til lengri tíma (2). Restin mun líklegast lenda í gamalkunnum vítahring þar sem fólk fer í aðhald, sker út fæðutegundir og springur að lokum á limminu og endar þyngra en það byrjaði. Ólíkt því sem pistlahöfundur heldur fram er það þó ekki vegna þess að ísbíllinn eigi afturkvæmt í hverfið heldur vegna þess að líkamar okkar hafna öllum tilraunum okkar til að megra og grenna líkama okkar með dáðum og ráðum. Þetta ferli er afleiðing þróunar mannslíkamans en ekki „sykurpúkans“.

Allar fullyrðingar um matarfíkn og skort á samfélagslegri viðurkenningu á henni eru jafnframt rangar. Hugmyndir um matarfíkn hafa þvert á móti hátt samfélagslegt samþykki enda er þeim slengt óumbeðið framan í feitt fólk í tíma og ótíma af sjálfskipuðum samfélagsrýnum og okkur þannig eyrnarmerkt það hlutverk að vera haldin stjórnlausri þrá eftir fitu og sykri sem heltekur allt okkar líf. Það finnst þó samfélag sem ekki hefur viðurkennt matarfíkn en það er fræðasamfélagið. Er það á þeim einföldu forsendum að ekki hafa enn fundist vísindalegar forsendur fyrir slíkri viðurkenningu (3, 4). Fæst feitt fólk uppfyllir ennfremur skilyrði fyrir meintri matarfíkn ef tekið er mið af skimunarlistum sem frumkvöðlar hugmyndafræðinnar hafa búið til. Jafnframt er það hæpin fullyrðing að ætla sykri það hlutverk að vera valdur að „offitufaraldrinum“ þar sem slíkt hefur ekki verið unnt að staðfesta með rannsóknum (3). Þvert á móti er margt sem bendir til þess að þau sem uppfylla skimunarviðmið „matarfíknar“ séu frekar með átröskunina lotuofát þar sem endurteknar megranir og fráhald leiðir til átkasta, geðröskun sem leggst á fólk af öllum stærðum og gerðum. Í því samhengi má benda á að meðferð við matarfíkn er ekki gagnreynd aðferð undir hatti Landlæknisembættisins og gengur út á að skera út þær fæðutegundir sem eiga að valda meintri fíkn og vigta mat. Um er að ræða megrun sem getur aukið áráttu og þráhyggju í tengslum við mat og þar með átröskunarhegðun (3). Enda hefur slík meðferð ekki sýnt langtímaárangur, ólíkt gagnreyndum meðferðum við átröskunum sem byggja á núvitund og að sleppa boðum og bönnum.

- Auglýsing -

Síðasti punkturinn sem mig langar að koma inná er að fullyrðingar um fituvef sem beinan heilsufarslegan skaðvald standa á mjög völtum vísindalegum fótum. Um er að ræða túlkun fylgnisambands sem ígildi orsakasambands án þess að tekið sé tillit til þeirra skaðlegu afleiðinga sem hljótast af endurteknum þyngdartapstilraunum, fitufordómum og mismunun, lakari heilbrigðisþjónustu og forðun á heilbrigðisþjónustu af þeim sökum (5). Sjúkdómsvæðing holdafars er því ekki einungis ógagnreynd heldur getur hún einnig reynst hættuleg því að hún eykur fitufordóma sem að aftur hafa neikvæðar afleiðingar fyrir heilsu. Og það er ástæðan fyrir því að fræðasamfélagið hefur verið að færa sig frá þyngdarmiðuðum nálgunum yfir í þyngdarhlutlausar nálganir að lýðheilsueflingu (6, 7).

Óháð persónulegri reynslu eða hversu vel meintir sleggjudómar pistlahöfunds eru stendur ekki steinn yfir steini hjá honum. Um er að ræða skýrt dæmi þess að tilgangurinn helgi ekki meðalið. Ekki ef tilgangurinn er að bæta lýðheilsu og ekki heldur einu sinni til að selja aðgang að gönguhópum þar sem að smánun á grundvelli holdafars og fitufordómar leiða frekar til minni hvata til hreyfingar og eykur líkur á óheilbrigðum matarvenjum en hitt (6).

Sem betur fer hefur barátta undanfarinna ára skilað sér í blómstrandi líkamsvirðingarsamfélagi sem fer sífellt vaxandi hér á landi. Það hefur verið magnað að fylgjast með því. Við látum ekki deigan síga og höldum ótrauð áfram. Og eitt er víst; við áskiljum okkur rétt til að vísa óvelkomnum sleggjudómum, fordómum og öllum tilraunum til að skapa sýndarveruleika um tengsl holdafars og heilsu beint á dyr.

- Auglýsing -

Höfundur er félagsráðgjafi og formaður Samtaka um líkamsvirðingu

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -