Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Hunsum íslenska málfarsfasista, droppum dönskunni og tökum upp þýsku

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það hefur mikið verið skrafað og skeggrætt um tungumálið okkar, og sitt sýnist hverjum.

Sumir hreinræktaðir málfarsfasistar vilja helst að við tölum eins og þegar land var numið – sem er bara gamla norskan – sem er kennd í háskólum í Noregi; til hvers hef ég ekki græna glóru um.

Ég tel að íslenskan sé alls ekki í neinni hættu; hún er hins vegar smám saman að breytast, þroskast og þróast; og fólk talar ekki lengur þá íslensku á götum úti eða í húsum inni sem notuð var á leiksviðum og í fyrstu íslensku kvikmyndunum.

Ég meina, horfið bara á hvernig leikkonan Tinna Gunnlaugsdóttir talaði í fyrstu kvikmyndunum sem gerðar voru um og eftir 1980. Þar talaði hún „hreinræktaða“ íslensku, en tilfinningin sem maður fékk var að hún væri að tala við heyrnarskertan einstakling eða einhvern sem var ekki alveg skarpasti hnífurinn í skúffunni; og það var og er ömurlegt.

Allt sem tengist orðinu hreinræktaður fær mig til að kúgast, og stundum æla. Þetta er viðbjóðslegt orð sem tengist engu öðru en öfgaþjóðernishyggju og einangrunarstefnu ala Enver Hoxha sem ríkti með harðri hendi í áratugi og lokaði landið sitt, Albaníu, fyrir umheiminum. Nei takk!

Hættum að hafa áhyggjur af íslenskunni – hún er ekki í hættu, en mun eðlilega breytast smám saman, enda erum við ekki lokað og einangrað land lengur. Einbeitum okkur frekar að öðru tungumáli; dönskunni, og útrýmingu hennar úr grunnskólum landsins.

- Auglýsing -

Að kenna dönsku í skólum landsins er ein mesta og versta tímaskekkja sem fyrirfinnst hér á landi; verra en allt íslenskuvælið og varðhundahugmyndirnar um það. Droppum þessari helvítis dönsku!

Við skuldum Dönum ekki neitt; þeir skulda okkur hins vegar mjög mikið – enda kúguðu þeir okkur Íslendinga um alltof langt skeið og hirtu allan auð sem hér skapaðist og létu okkur hokra við kjör sem voru nálægt japönskum fangabúðum í gæðum; eina sem ég hef upplifað gott frá Danmörku er Hróarskelduhátíðin, Kim Larsen og Kristjanía – og ekki endilega í þessari röð.

Danska hljómar hryllilega; eins og einhver sé að tala með lifandi eiturslöngu upp í kjaftinum.

- Auglýsing -

Svo tala bara eitthvað um 6 milljónir manna þetta eiturslöngutungumál, og það er nákvæmlega ekkert á því að græða að læra það – ekki neitt!

Tökum frekar upp kennslu í þýsku í grunnskólum, byrjum á sama aldri og nú er byrjað að læra dönskuna.

Íslendingar eiga mjög auðvelt með að læra þýsku, hún er einföld og talsvert mikið skyld íslensku; geta heilu setningarnar í þessum tveimur tungumálum verið nánast eins. Og svo tala allavega 130 milljónir manna þýsku um allan heim, líklega mun fleiri ef allt er talið.

Hættum að byggja upp einhverja múra í tengslum við íslenskuna; leyfum henni að þróast og þroskast með nýjum og breyttum tímum, þar sem íslenskt samfélag er sem betur fer alltaf að verða fjölþjóðlegra.

Hættum að kenna dönsku í grunnskóla – það er bara tímaskekkja; slítum þessum ömurlegu tengslum endanlega við okkar gömlu og afar grimmu nýlenduherra.

Tökum upp þýskukennslu í stað dönsku; á því er eitthvað að græða enda tala margir þýsku í heiminum, og hún er bara ekkert erfið. Og miklu fallegra tungumál en margur gerir sér grein fyrir. Prófið að útiloka öskur Hitlers og hlustið á venjulegt fólk tala þýsku.

Hættum að lifa í fortíðinni, hættum að segja: Svona hafa hlutirnir alltaf verið. Tökum betur á móti útlendingum og lærum af þeim; gerum íslenskt samfélag eins fjölþjóðlegt og mögulegt er og byrjum að læra þýsku snemma í grunnskóla.

Amen.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -