Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Sanna svarar Sigmundi: „Kynslóð eftir kynslóð hefur svart fólk sætt lítillækkun…“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðsend skoðun
Eftir / Sönnu Magdalenu Mörtudóttur

Grein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins sem ber heitið Sumarið 2020 og menningarbyltingin leitast við að gera lítið úr því sem hefur átt sér stað í kjölfar morðsins á George Floyd og réttindabaráttu svarts fólks í Bandaríkjunum. Sigmundur Davíð telur aðgerðir Black Lives Matter hreyfingarinnar gegn kynþáttafordómum of öfgakenndar og að baráttan fyrir réttlæti, endurvekji þá hugmynd að það beri að flokka fólk eftir húðlit. Eins mikið og við sem berjumst gegn kynþáttafordómum vildum óska þess að hugmyndafræðin sem raðar fólki á virðingarstiga eftir húðlit, væri ekki til staðar, þá er sú ekki raunin. Kynslóð eftir kynslóð hefur svart fólk sætt lítillækkun og verið svipt efnahagslegum-, samfélagslegum- og borgaralegum réttindum sínum. Kynþáttaflokkanir og staðalímyndir sem þeim fylgja eru því miður ekki liðin tíð.

Kynþáttafordómar eru ennþá til staðar

Í líffræðilegum skilningi er ekki hægt að skipta mannkyni upp í ólíka kynþætti, þar sem meðalmunur á erfðaefni manna er svo agnarsmár. Félagslegur veruleiki slíkra flokkana er samt sem áður áþreifanlegur þeim sem þurfa sífellt að upplifa kynþáttafordóma á eigin skinni. Sigmundur Davíð er á algjörum villigötum þegar hann telur slíkt vera nánast liðna tíð í mannkynssögu okkar líkt og sjá má í eftirfarandi orðum hans: „Þegar langt var komið með að útrýma þeirri bábilju er hún nú endurvakin og fólk aftur skilgreint út frá húðlit.“ Ég hef sko fréttir að færa þér Sigmundur: Sú bábilja hefur ekki verið endurvakin, hún fór aldrei neitt. Þau sem berjast gegn kynþáttafordómum eru ekki vandamálið, kynþáttafordómarnir eru vandamálið og kerfisbundið viðhald á þeim.

Svartir Bandaríkjamenn eru aðeins um 13% þjóðarinnar en eru 2,5 sinnum líklegri en hvítir til þess að vera drepnir af lögreglu þar í landi. Rannsókn frá árinu 2015 sýndi fram á að svartir í Bandaríkjunum virtust tvisvar sinnum líklegri til þess að vera óvopnaðir þegar þeir voru skotnir til bana af lögreglu, miðað við þá hvíta einstaklinga sem hlutu sama banamein. Opinberar tölur frá Englandi og Wales sem spanna tímabilið apríl 2018 — mars 2019 sýna að svart fólk var næstum því tíu sinnum líklegra en hvítt fólk til þess að vera stöðvað af lögreglunni og að á þeim hafi verið framkvæmd leit. Sumstaðar er hlutfallið jafnvel hærra, þar sem svart fólk í Dorset, sýslu á suðvestur Englandi var 25 sinnum líklegra en hvítt fólk, til þess að hljóta þessi afskipti lögreglunnar.

400 ára samfélagsleg útilokun vs. útilokun á samfélagsmiðlum

- Auglýsing -

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það er að vera efnahagslega vel stæður, hvítur karlmaður sem býr við mikið öryggi í sínu heimalandi og þarf ekki að upplifa áreiti vegna húðlits. Ætli sá veruleiki auðveldi fólki að grafa undan baráttu þeirra sem vilja lifa frjáls undan oki kynþáttafordóma? Ég velti þessu fyrir mér þar sem Sigmundur Davíð, nefnir einn hluta greinar sinnar Aftökumenning. Þessi kafli er ekki tileinkaður þeim sem hafa glatað lífi sínu vegna kerfisbundins lögregluofbeldis og kynþáttahaturs, heldur kýs Sigmundur Davíð að styðjast við hugtakið aftökumenning sem þýðingu á cancel culture. Ég tel þýðinguna útilokunarmenning eiga betur við, það mætti jafnvel þýða hana sem sniðgöngumenningu. Skiptar skoðanir hafa verið á útilokunarmenningunni sem felur í sér að almenningur dregur úr stuðningi við ákveðinn einstaklinginn, oft er um einhvern þekktan eða frægan að ræða sem hefur sagt eða gert eitthvað sem þykir óviðeigandi. Hér getur verið um fordómafull ummæli að ræða t.a.m. í garð kvenna, hinsegin samfélagsins eða ummæli sem innihéldu kynþáttafordóma.

Útilokunin felur í sér að almenningur dregur úr opinberum stuðningi við umræddan einstakling, sem hefur oftar en ekki mikil völd í formi frægðar og frama. Útilokunin fer oft fram á samfélagsmiðlum, þar sem vakin er athygli á því sem viðkomandi sagði. Slíkt getur leitt til þess að viðkomandi verður ekki jafn áberandi á sínu sviði eða samfélagsmiðlum og hættir jafnvel á þeim og glatar atvinnutækifærum í kjölfarið. Markmiðið með þessu var að láta fólk sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar. Talað hefur verið um að þessi aðferð geti nýst vel til þess að sniðganga aðila í valdamikilli stöðu, sem hafa haft mikið rými og vægi til að tjá sig á skaðlegan hátt, sérstaklega ef slík hegðun er endurtekin og líkleg til þess að valda áframhaldandi skaða. Í kjölfarið hafa komið fram umræður þar sem sumir telja að í einhverjum tilfellum geti leiðir sem leitast við að efna til frekari samtals verið betri en að beita útilokunaraðferðinni strax. Hér er þó rétt að nefna að fólk í mikilli forréttindastöðu finnst oft vegið að sér þegar skoðanir þeirra falla í grýttan jarðveg. Þá hafa aðrir í valdamikilli stöðu oft verið fljótir að taka upp hanskann fyrir þau og málað upp mynd af þeim sem fórnarlömb fyrir að hafa fengið yfir sig hólfskeflu gagnrýnisradda.

Óháð því hvað fólki kann að finnast um útilokunarðaferðina á samfélagsmiðlum og víðar, þá vekur hún okkur til umhugsunar um að orðum og gjörðum fylgir ábyrgð. Það kann að vera óþægilegt, vandræðalegt og sársaukafullt að þurfa að eiga við gagnrýnisraddir á netinu en það er ekki það sama og að skyndilega glata lífi sínu. Þó svo að talað sé um mannfall fræga fólksins (e. Celebrity casualties) og að myllumerkið #RIP (ís. hvíldu í friði) sé notað innan útilokunaraðferðarinnar á samfélagsmiðlum, þá er engann veginn hægt að líkja því við þær aftökur á svörtu fólki sem hafa átt sér stað síðastliðin misseri. Að vera úthrópaður fyrir eitthvað er ekki það sama og að vera tekinn af lífi. Slíkur samanburður er vægast sagt smekklaus.

- Auglýsing -

Kynþáttafordómar eru dauðans alvara. Sigmundur Davíð fjallar ekki um raunveruleg dráp á fólki í kaflanum sínum Aftökumenning. Hann kýs að leggja opinberri smánun að jöfnu við raunverulegar aftökur. Samúð hans fer til þeirra sem hafa fengið gagnrýnisraddir á sig fyrir að tjá sig með hætti sem samræmist ekki orðræðu réttindabaráttunnar:  Í því samhengi segir Sigmundar Davíð: „Þótt leiðtogar nýju menningarbyltingarinnar hafi ekki vald til að taka fólk af lífi eru þó aftökur eitt helsta einkenni hreyfingarinnar. Þ.e. samfélagslegar aftökur. Enda er þróunin nú kölluð aftökumenning í enskumælandi löndum (e. Cancel culture). Sú þróun hófst raunar löngu áður en menningarbyltingin sem fylgdi Covid fór af stað og lagði grunninn að því sem koma skyldi.“ Hann heldur áfram og segir: „Allir sem fjalla á gagnrýninn hátt um atburðarásina geta vænst þess að verða „teknir af lífi“ á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Þar er enginn óhultur.“

Aftökur vísa til þess að taka einhvern af lífi. Hjartað hættir að slá. Líf þeirra er bókstaflega búið eftir aftökuna. Eins og átti við í tilfelli George Floyd. Eins og átti við í tilfelli India Kager. Eins og átti við í tilfelli Breonna Taylor. Eins og átti við í tilfelli Ahmaud Arbery. Eins og átti við í tilfelli Eric Garner og Michael Brown og eins og átti við í tilfelli svo margra svarta einstaklinga sem hafa skyndilega verið drepin. Við þurfum að beina sjónum okkar að fórnarlömbum þeirra sem glata lífi sínu vegna kerfisbundins misréttis. Þær aftökur fara m.a. fram úti á götu, þegar svartur maður fer út að skokka og snýr ekki aftur heim.

Saga vestrænnar menningar gerð upp

Í lok greinar sinnar segir Sigmundur Davíð: „Nú þarf að standa vörð um grunngildi vestrænnar siðmenningar. Þau gildi sem skilað hafa samfélögum meiri árangri en nokkuð annað í mannkynssögunni. Þar ber hæst hugsjónina um að allir skuli teljast jafnréttháir óháð líkamlegum einkennum.“ Ég velti því fyrir mér hver grunngildi vestrænnar siðmenningar séu? Því að í grunninn byggir mikið af vestrænni menningu á langri sögu af nýlenduhyggju og heimsvaldastefnu sem enn á eftir að gera upp. Sem aðgerðarsinnar um heim allan, eru að gera upp núna. Sigmundur Davíð talar um að við megum ekki endurskilgreina söguna. Hér vil ég árétta eftirfarandi: Ef sagan er byggð á kúgun í garð ákveðinna hópa, er þá ekki nauðsynlegt að fara í naflaskoðun? Sumt þarf einfaldlega að endurskoða með tilliti til þess sem hefur gengið á.

Þegar við segjum frá sögu síðustu hundruða ára, er nauðsynlegt að orða hlutina eins og þeir voru. Þar mynda ég vilja leggja áherslu á að við vísum nú til fyrrum þrælaeigenda, með sínu réttmæta heiti, sem virka gerendur í því að ræna börnum og manneskjum frá fjölskyldum sínum, til þess að halda þeim í ánauð, þar sem margir hverjir voru nauðgarar. Hvernig við orðum hlutina skapar ákveðinn veruleika og þó að það hafi talist ásættanlegt að tala um þrælaeigendur fyrir hundruð árum síðan, þá er mikilvægt að muna að við getum og eigum að kalla hlutina réttum nöfnum. Því það er aldrei í lagi að eiga aðra manneskju og þræla henni út sér til efnahagslegs,- kynferðislegs eða annarskonar ávinnings.

Andúðin á svörtu fólki hætti ekki þegar þrælahald var afnumið. Kynþáttahyggjan, ofbeldið og afmennskunin á svörtu fólki sem fólst í umræddri hugmyndafræði var enn við lýði.

Kynþáttahugmyndafræðin sem byggir á því að flokka fólk eftir húðlit, þar sem hvítt fólk var talið hafa yfirbuði, var mótuð og sett fram á meðvitaðan hátt. Markmiðið var að réttlæta ómannúðlega stofnun þrælahalds og slæma meðferð á undirokuðu fólki, sérstaklega svörtu fólki. Undir þeim formerkjum var hugmyndin mótuð um að Afríkubúar væru vitsmunalega óæðri Evrópubúum. Afleiðingar þeirrar hugmyndafræði gætir enn í vestrænu samfélagi og henni er viðhaldið með orðum, gjörðum og athöfnum sem miða að því að viðhalda þessum valdahlutföllum. Það hallar víða á svart fólk í samfélaginu í dag. Sem dæmi má nefna að svartir bandaríkjamenn eru miklu líklegri til þess að vera handteknir fyrir eiturlyfjanotkun, miðað við hvíta samborgara sína, þó svo að kannanir sýni að notkun þeirra á eiturlyfjum sé áþekk. Fjöldafangelsun er líka annað sem má nefna í þessu samhengi, þar sem svartir bandaríkjamenn eru fimm sinnum líklegri en hvítir til þess að vera dæmdir í fangelsi. Þetta eru tölfræðilegar staðreyndir. Við erum því langt frá því að lifa í heimi þar sem allir eru jafnir fyrir lögum.

Vestræn siðmenning eins og hún er kölluð, var að miklu leyti byggð upp í kringum heimssýn sem var sniðin að þörfum hvítra karlmanna og er enn að miklu leyti sniðin í kringum þá ímynd. Umhverfið okkar breytist eftir því sem við fjarlægjum minnisvarða vestrænnar kynþáttahyggju sem hefur fengið að grassera í hundruði ára. Það er skiljanlegt að við viljum ekki hafa áminningar um mannræningja og nauðgara hangandi yfir okkur. Það er skiljanlegt að fólk vilji rífa slíka minnisvarða niður. Afhverju ættum við að samþykkja tákn kúgunnar?

Er pláss fyrir okkur öll í samfélaginu?

Kynþáttafordómar eru alltumlykjandi í okkar samfélagi, þeir eru ekki afmarkaðir við tiltekna staði eða rými. Það er því mikilvægt að nýta öll þau rými sem hægt er til að sýna samstöðu gegn kynþáttafordómum. Sigmundur Davíð á erfitt með að skilja afhverju leikmenn enska boltans ákváðu að spila með áletrunina Black Lives Matter á bakinu. Hann skilur ekki hvað enski boltinn hefur með lögreglumál í Minneapolis að gera. Svo að ég færi þér aftur fréttir Sigmundur, þá eru kynþáttafordómar á fleiri stöðum en í hugarheimi svarts fólks eins og þú virðist halda. Kynþáttafordóma má finna innan íþróttaviðburða, meira að segja á Íslandi og því er nauðsynlegt að ræða þessi málefni á öllum stigum samfélagsins. Ef að kynþáttafordómar eru ekki viðurkenndir og þeir tæklaðir, þá fá þeir að viðgangast. Við hljótum öll að vilja vinna gegn því að kynþáttafordómar verði enn rótgrónari en þeir eru nú þegar.

Réttindabarátta svarts fólks snýst um réttinn til að fá að lifa af. Að komast í gegnum daginn. Að vera ekki tekinn af lífi. Að snúa heim eftir skokkið á lífi. Að vera ekki drepinn heima hjá sér. Að fá að lifa. Að fá að lifa góðu, innihaldsríku lífi án kerfisbundinnar mismununar. Að geta verið viss um að þú getir farið út í búð og komið til baka lifandi. Lögregla var kölluð á vettvang þar sem George Floyd var síðar myrtur, vegna gruns um að hann væri með falsaðan 20 dollara peningaseðil. Hann var 46 ára gamall þegar hann var tekinn af lífi. Aðeins eldri en Sigmundur Davíð, eða rúmu ári eldri. Það kann að vera að Sigmundur Davíð hafi verið opinberlega smánaður vegna gruns um að geyma peningaseðla sína og fjölskyldunnar sinnar í aflandsfélagi í skattaskjóli. Þar held ég að upphæðirnar hafi numið stærri tölum en 20 dollurum en engin aftaka fór fram. Maðurinn labbaði úr úr herberginu þegar hann var spurður beinskeyttra spurninga um málið í fjölmiðlum. Sigmundur Davíð hélt áfram starfi. Hann er með völd í heimi sem elskar grunngildi vestrænnar menningar; með lýðræði sem einn af hornsteinum. Hann situr í sæti í einu af æðstu valdastofnum þjóðarinnar, þar sem lögin eru sett í landinu. Það er mín heitasta ósk að þar sé unnið eftir grundvallargildinu um mannréttindi, þar sem unnið er að því að skapa réttlátt samfélag fyrir okkur öll, í stað þess að afvegaleiða umræðuna.

Höfundur er borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -