Miðvikudagur 15. maí, 2024
7.8 C
Reykjavik

Verður tvítug tveggja barna móðir í sumar: „Rosalega mikið sjokk“

|||
|||

„Mér hefur oft fundist ég hafa misst af einhverju sem aðrir á mínum aldri eru að gera en ég hef allt lífið framundan og nægan tíma til þess að gera allskonar hluti,“ segir Karen Eva Þórarinsdóttir.

Karen var aðeins átján ára þegar hún eignaðist son sinn, Elmar Þór Róbertsson, með kærasta sínum Róbert Smára Haraldssyni. Í dag er Karen tvítug og Róbert 23ja ára og þau eiga von á sínu öðru barni þann 11. júní næstkomandi. Karen segir það hafa verið ákveðið áfall að komast að því að hún gengi með annað barn svo ung.

Karen og Elmar í kósíheitum.

„Þetta var rosalega mikið sjokk fyrst þar sem ég er svona ung og ég taldi mig engan veginn tilbúin í það að eignast annað barn, enda algjörlega að læra á lífið og allt um uppeldi á eldri stráknum mínum. Mamma mín, sem er mín stoð og stytta, studdi mig í gegnum sjokkið eins og hún gerði á fyrri meðgöngunni og er ég endalaust þakklát fyrir hana. Viðhorfið mitt var mjög fljótt að breytast enda er strákurinn minn það allra besta í lífinu mínu og ég er umvafin yndislegu fólki sem vill allt fyrir okkur gera,“ segir Karen.

Krefjandi að vera ung móðir

Elmar sonur hennar verður aðeins nítján mánaða gamall þegar að nýja barnið kemur í heiminn, en Karen segir það vissulega reyna á að verða móðir svona ung.

„Það er mjög krefjandi að vera ung móðir og ég held að margir átti sig ekki á því hversu mikið maður þarf að þroskast á stuttum tíma til þess að takast á við foreldrahlutverkið, nýskriðin í fullorðinsaldur. Þetta tekur mikið á oft á tímum og maður fær að kynnast hvað þreyta er,“ segir Karen og hlær. „En á sama tíma er þetta svo rosalega gefandi, að fá að elska sitt eigið barn, að lítill einstaklingur þarfnist manns.“

Karen segist ekki hafa fundið fyrir fordómum í sinn garð fyrir að byrja barneignir á þessum aldri.

„Ég hef ekki fundið mikið fyrir fordómum, nema kannski þegar ég fæ svip frá fólki hér og þar. Sumir verða mjög hissa að ég af öllum skuli vera ung móðir þar sem ég var vandræðagemsinn í 10. bekk. Sumir hafa gert létt grín að þessu en alls ekkert á fordómafullan hátt. Ég fékk oft að heyra hvernig ég ætti að hafa hlutina og fékk uppeldisráð sem mér fannst persónulega úrelt og ákvað sjálf að taka ekki til mín,“ segir Karen.

Gerólíkar meðgöngur

Elmar virðir fyrir sér litla systkinið.

Karen er búin að vera óvinnufær síðan í febrúar vegna meðgöngukvilla, en hún segir þessar tvær meðgöngur gerólíkar eins og oft vill verða.

„Fyrri meðgangan mín var algjör draumur og gekk frábærlega, engir fylgikvillar og allt gekk eins og í sögu. Það sama átti við um fæðinguna. Ég þurfti ekkert verkjastillandi nema baðið og glaðloft. Seinni meðgangan er hinsvegar allt önnur. Morgunógleðin byrjaði snemma og ég var með hana í þrjá mánuði. Þá tók við grindargliðnun, sem er orðin mjög slæm núna og fer versnandi með tímanum. Í kringum 20. vikuna byrjaði ég síðan að fá samdrætti með miklum verkjum sem að hræddi mig rosalega þar sem ég fékk aldrei neina fyrirvaraverki á fyrri meðgöngu. Ég er búin að vera í góðu eftirliti hjá yndislegu ljósmæðrunum mínum og það er passað vel uppá mig þar,“ segir Karen sem hefur líka þurft að passa uppá andlegu hliðina á þessari meðgöngu.

„Það er ekki hægt að vera alltaf í góðu skapi þegar maður er í sársauka alla daga og verkjalyf gera takmarkað gagn. En ég held í vonina að fæðingin verði góð í þetta skiptið líka.“

Draumurinn að vinna við förðun

Karen og Róbert búa saman á Selfossi, þar sem Karen hefur búið meira og minna alla sína tíð. Hún útskrifaðist sem förðunarfræðingur frá Mask Academy í desember í fyrra og stefnir á frekari frama í þeim bransa.

„Draumurinn er að vinna við eitthvað förðunartengt, mögulega opna mitt eigið fyrirtæki eða eitthvað skemmtilegt. Mig langar rosalega að klára framhaldsskóla og mun ég sennilega vinna í því hægt og rólega,“ segir Karen, sem snappar um líf sitt og tilveru undir nafninu kareneva98.

Snappar um allt milli himins og jarðar.

„Ég snappa um allt sem mér dettur í hug; barnið mitt, meðgönguna, förðun, andlega heilsu, hvað ég geri á daginn og ýmislegt,“ segir Karen og bætir við að Snapchat hafi verið hennar leið til að vinna bug á feimni. „Ég ákvað að koma mér út úr þægindarammanum og feimninni sem ég glími við og finna mér eitthvað skemmtilegt að gera á daginn. Ég byrjaði á opnu snappi með öðrum frábærum mömmum, madres101, og er ég þar inni reglulega. Ég snappa líka á mínu eigin snappi á hverjum degi.“

Áður en ég kveð Karen verð ég að spyrja hvort hún hyggi á að fjölga enn frekar í barnahópnum í nánustu framtíð.

„Nei, allavega ekki næstu árin. Okkur langar að koma undir okkur fótum og kaupa húsnæði. Mig langar að finna mér góða atvinnu áður en við hugum að öðru barni á eftir þessu kríli.“

Myndir / Fyrirmyndir og úr einkasafni

Sarah Jessica Parker hannar brúðarkjóla

|||||||||||
|||||||||||

Sex and the City-stjarnan Sarah Jessica Parker er búin að frumsýna brúðarlínu í samstarfi við tískurisann Gilt.

Brúðarkjólarnir í línunni eru afskaplega fallegir og vandaðir og kosta allt frá rúmlega þrjátíu þúsund krónum og upp í þrjú hundruð þúsund krónur. Í línunni er einnig klæðnaður fyrir brúðarmeyjar, sem og skór fyrir stóra daginn.

Öll línan er unnin í New York, en Sarah ferðaðist víða um Evrópu til að velja slitsterk og vönduð efni fyrir línuna. Þá eru þægindi höfð að leiðarljósi í öllum sniðum.

Hér fyrir neðan má sjá nokkra af brúðarkjólunum:

Hér má svo sjá fatnað sem ætlaður er brúðarmeyjum:

Og hér eru nokkur skópör:

Alla línuna má sjá hér.

Nýr stefnumótaþáttur úr smiðju höfundar The Bachelor

Mike Fleiss, höfundur raunveruleikaþáttarins The Bachelor, tilkynnti í vikunni að nýr stefnumótaþáttur úr hans smiðju færi í loftið í sumar á sjónvarpsstöðinni ABC.

Þátturinn heitir The Proposal, eða Bónorðið, og fellur það í hlut fyrrum NFL-leikmannsins Jesse Palmer að vera kynnir. Þeir sem hafa fylgst vel með fyrrnefndum Bachelor-þáttum kannast kannski við Jesse, en hann keppti í seríu 5.

The Proposal telur alls tíu þætti og snúast þeir um tíu vonbiðla sem keppa um hylli einnar manneskju, líkt og í The Bachelor, The Bachelorette og fleiri þátta í svipuðum dúr. Bónorðið sker sig úr með þeim þætti að vonbiðlarnir fá ekki að sjá, eða vita nokkurn skapaðan hlut um manneskju sem þeir eru að reyna að heilla.

Líkt og í öðrum stefnumótaþáttum verða ýmsar áskoranir sem vonbiðlarnir þurfa að takast á við, til dæmis svara ýmsum nærgönglum spurningum og reyna að heilla fjölskyldumeðlimi óþekktu manneskjunnar.

Eftir hverja áskorun er einn keppandi sendur heim þar til aðeins tveir standa eftir. Þeir tveir fá þá loksins að hitta huldumanneskjuna og geta þá borið upp rómantískt bónorð að eigin vali, samkvæmt tilkynningu frá ABC.

Lesa má á milli línanna að bónorðið sé valfrjálst, en að það geti einnig aðeins falið í sér boð á stefnumót.

Frægir foreldrar sem eiga tvíbura

Það er mikil blessun að eignast börn, hvað þá þegar um fjölbura er að ræða.

Nokkur pör af tvíburum hafa gert það gott í skemmtanaiðnaðinum og ber þar helst að nefna Mary-Kate og Ashley Olsen. Fræg pör hafa einnig verið dugleg að eignast tvíbura og ákváðum við að líta aðeins yfir nokkur stjörnubörn sem hugsanlega eiga eftir að feta í fótspor foreldra sinna í framtíðinni.

Enrique Iglesias og Anna Kournikova

Söngvarinn og tennisstjarnan buðu tvíburasystkinin Nicholas og Lucy velkomin í heiminn þann 16. desember í fyrra.

Cristiano Ronaldo og Georgina Rodriguez

Fótboltastjarnan tilkynnti í júní í fyrra að hann væri búinn að eignast tvíbura með kærustu sinni. Systkinin hafa fengið nöfnin Mateo og Eva.

Beyoncé og Jay Z

Beyoncé tilkynnti það á Instagram í febrúar í fyrra að hún ætti von á tvíburum og internetið sprakk næstum því. Tvíburarnir, sem heita Rumi og Sir Carter, komu síðan í heiminn þann 13. júní í Kaliforníu.

A post shared by Beyoncé (@beyonce) on

George og Amal Clooney

Leikarinn og lögfræðingurinn hafa reynt að halda einkalífi sínu utan sviðsljóssins en það var vinur þeirra, leikarinn Matt Damon, sem staðfesti fréttir þess efnis að þau ættu von á barni í fjölmiðlum. Í júní í fyrra komu tvíburar í heiminn, dóttirin Ella og sonurinn Alexander.

Ricky Martin

Söngvarinn eignaðist synina Matteo og Valentino í ágúst árið 2008 með hjálp staðgöngumóður.

A post shared by Ricky (@ricky_martin) on

Sarah Jessica Parker og Matthew Broderick

Leikarahjónin nýttu sér hjálp staðgöngumóður í júní árið 2009 þegar þeim fæddust dæturnar Marion Loretta Elwell og Tabitha Hodge.

A post shared by SJP (@sarahjessicaparker) on

Rebecca Romijn og Jerry O’Connell

Það voru gleðileg jólin árið 2008 hjá leikarahjónunum. Þau eignuðust tvíburasysturnar Dolly Rebecca-Rose og Charlie Tamara-Tulip þann 28. desember það ár.

Neil Patrick Harris og David Burtka

Leikararnir tilkynntu það þann 14. ágúst árið 2010 að þeir ættu von á tvíburum með hjálp staðgöngumóður. Sonur þeirra Gideon Scott og dóttir þeirra Harper Grace komu í heiminn í október sama ár.

A post shared by Neil Patrick Harris (@nph) on

Mariah Carey og Nick Cannon

Söngkonan og spéfuglinn eignuðust tvíburana Moroccan og Monroe þann 30. apríl árið 2011, en Mariah og Nick skildu þremur árum síðar.

A post shared by Mariah Carey (@mariahcarey) on

Angelina Jolie og Brad Pitt

Leikkonan staðfesti það á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí árið 2008 að hún ætti von á tvíburum. Það var svo þann 12. júlí það ár að sonurinn Knox Léon og dóttirin Vivienne Marcheline komu í heiminn. Bættust tvíburarnir í stóran barnahóp, en foreldrarnir skildu árið 2016.

Jennifer Lopez og Marc Anthony

Tónlistarhjónin eignuðust soninn Maximilian David og dótturina Emme Maribel í New York þann 22. febrúar árið 2008. Jennifer og Marc skildu þremur árum síðar.

A post shared by Jennifer Lopez (@jlo) on

Eurovision-stjarna gefur út sumarsmell

Eurovision-stjarnan María Ólafs er búin að gefa út nýtt lag sem heitir Hækka í botn. María er líklegast þekktust fyrir að vera fulltrúi Íslands í Eurovision árið 2015, en hún flutti lagið Unbroken í Vín og komst ekki upp úr undanúrslitum.

Lagið er heldur betur hressandi stuðlag, svokallaður sumarsmellur, en lítið hefur farið fyrir Maríu síðustu misseri.

Það eru sannkallaðar Eurovision-kanónur sem standa á bak við lagið Hækka í botn, en höfundar þess eru Sveinn Rúnar Sigurðsson og Valgeir Magnússon, oft þekktur sem Valli Pipar, en þeir tveir sömdu lagið Golddigger fyrir Söngvakeppnina í ár sem Aron Hannes flutti. Hann laut hins vegar í lægra haldi fyrir laginu Heim, eða Our Choice, sem flutt var af Ara Ólafssyni en um trommuleik í því atriði sá Gunnar Leó Pálsson, kærasti fyrrnefndar Maríu Ólafs.

Hér fyrir neðan má hlusta á þennan nýja smell frá Maríu:

Mynd / Jónatan Grétarsson

Veruleiki barna annar en áður

Berglind Brynjólfsdóttir, sálfræðingur hjá Sálstofunni, veit meira um kvíða barna og ungmenna en flestir landsmenn.

Starf Berglindar felst fyrst og fremst í greiningu og meðferð á fjölbreyttum vanda og frávikum í hegðun og líðan barna en einnig í ráðgjöf til foreldra og fagaðila. Hún segir meirihluta vinnu sinnar snúast um kvíða í einhverri mynd, þar sem kvíði barna fari vaxandi og snerti flest mál með einhverjum hætti. Berglind hefur áralanga reynslu af ráðgjöf og hefur haldið fjölmörg vel sótt námskeið og fyrirlestra tengda málefnum barna og unglinga. Hún segir námskeiðin og kvíðavinnuna almennt fyrst og fremst ganga út á fræðslu. „Að vita hvað maður er að glíma við og af hverju, er jafnmikilvægt og að vita hvernig er svo hægt að takast á við vandann. Þá er líka mikilvægt fyrir foreldra og börn að vita hvað þarf að forðast að gera og hvað ekki.Ég held að flestir sálfræðingar sem hafa haldið námskeið eða fyrirlestur um kvíða séu með fullt út úr dyrum.  Maður á alltaf von á að koma að hálftómu húsi einhvern tíma og að fólk sé búið að heyra nóg um kvíða barna en það virðist að minnsta kosti ekki vera komið að því ennþá.“

Kvíði er eðlileg tilfinning 

Berglind segir kvíða hafa margar og ólíkar birtingarmyndir. „Helstu einkenni hans eru ýmis konar áhyggjur, feimni gagnvart fólki og /eða aðstæðum, hræðsla gagnvart ýmiss konar aðstæðum og þrálátar hugsanir. Kvíða fylgja gjarnan ýmis líkamleg einkenni, s.s. hraður hjartsláttur, magaverkur eða hröð öndun. Kvíðin börn og ungmenni forðast gjarnan aðstæður sem valda þeim kvíða og ef þau þurfa að fara í slíkar aðstæður reyna þau yfirleitt að komast úr þeim eins fljótt og þau geta og líður þá oft eins og þau hafi rétt sloppið við eitthvað sem er upplifað mjög hættulegt. Þannig getur myndast vítahringur sem vindur oft upp á sig ef ekkert er að gert.“

Kvíði er í grunninn eðlileg tilfinning sem allir finna fyrir einhvern tíma og er okkur nauðsynlegur. Hann verður hins vegar að vanda þegar hann er farinn að birtast of oft, við aðstæður sem eru ekki hættulegar og er farinn að trufla barn/ungmenni í sínu daglega lífi og farinn að koma í veg fyrir að það taki þátt og/eða njóti þess sem það tekur sér fyrir hendur.“

Veruleiki barna annar en áður

Kvíði er nokkuð algengur að sögn Berglindar, en hún segir mörg börn glíma við einhver einkenni kvíða í lengri eða styttri tíma. „Eins og ég segi, þá kemur einhvers konar kvíði inn í meirihluta mála sem við veitum meðferð við á stofu. Stundum erum við fljót að laga það sem truflar, stundum tekur það lengri tíma. Veruleiki barna og unglinga er annar en hann var og felur í sér aðrar áskoranir og verkefni en þegar við vorum ung. Umræða um tilfinningar og líðan er án nokkurs vafa opnari en hún var og algengara að fólk ræði almennt þau mál við börnin sín. Á hinn bóginn er auðvelt að falla í þá gryfju að vilja að börnunum okkar líði aldrei illa, sem er auðvitað óraunhæf krafa og getur leitt til þess að venjuleg líðan og viðbrögð eru orðin að vanda í huga foreldra.“

Mikilvægast að afla sér upplýsinga

Aðspurð um ráð fyrir foreldra sem grunar að barnið sitt gæti þjáðst af kvíða, segir Berglind mikilvægast að afla sér upplýsinga og fræðslu. „Algengustu hindranir foreldra sem ég rekst á eru tvenns konar; að átta sig ekki á hvar/hvenær kvíði er farinn að trufla og leyfa barni að „sleppa“ við aðstæður sem geta undið upp á sig. Hins vegar að ætla alls ekki að leyfa kvíða að stjórna og krefjast því of mikils af barninu sem getur líka viðhaldið vandanum og gert hlutina verri. Það er því mikilvægt að afla sér upplýsinga um eðli kvíða og fá ráð hjá fagfólki ef einföld inngrip duga ekki til“ segir Berglind að lokum.

Lesið umfjöllunina í heild sinni í 15.tölublaði Vikunnar.

„Ég lofa þér að ég mun elska þig og vernda“

Stórleikarinn Dwayne “The Rock” Johnson eignaðist sitt annað barn með kærustu sinni Lauren Hashian í gær. Dwayne tilkynnti þetta á Instagram og deildi um leið yndislegri mynd af nýfæddri stúlkunni, sem fengið hefur nafnið Tiana Gia Johnson.

Með myndinni birtir Dwayne hjartnæm skilaboð.

„Hamingjusamur og stoltur að færa heiminum aðra sterka stúlku. Tiana Gia Johnson kom í heiminn eins og náttúruafl og móðirin fæddi hana eins og rokkstjarna,“ skrifar Dwayne. Hann bætir við að hann beri ómælda virðingu fyrir konum um heim allan.

A post shared by therock (@therock) on

„Ég var alinn upp og umkringdur sterkum, ástríkum konum allt mitt líf, en eftir að hafa tekið þátt í fæðingu Tiu er erfitt fyrir mig að lýsa þeirri ást, virðingu og aðdáun sem ég ber til Lauren Hashian og allra mæðra og kvenna þarna úti.“

Þá gefur leikarinn verðandi feðrum mikilvæg ráð.

„Það er mikilvægt að ná sambandi við konu sína þegar hún er að fæða, að styðja hana eins mikið og hægt er, haldast í hendur, halda í fótleggi, gera hvað sem þú getur. En ef þú vilt virkilega skilja kraftmiklustu og frumstæðustu stundu sem lífið hefur upp á að bjóða – horfðu á barnið þitt fæðast. Það breytir lífinu og sú virðing og aðdáun sem þú berð til konu verður takmarkalaus.“

Þetta er þriðja dóttir Dwayne en fyrir átti hann hina tveggja ára Jasmine Lia með Lauren og hina sextán ára gömlu Simone Alexandra úr fyrra hjónabandi. Hann segir að Tiana litla fái nákvæmlega sömu meðferð og hinar tvær stúlkurnar – nóg af ást og stuðningi.

„Ég lofa þér að ég mun elska þig og vernda, leiðbeina þér og láta þig hlæja restina af lífinu mínu. Brjálaði pabbi þinn ber ábyrgð á mörgu og ber ýmsa hatta í þessum stóra heimi, en að vera faðir þinn verður alltaf sá hattur sem ég er stoltastur af því að bera.“

Sláandi lík Díönu prinsessu í rauðum kjól

Kate Middleton, hertogynjan af Cambridge, og Vilhjálmur prins eignuðust sitt þriðja barn, lítinn snáða, á St Mary’s-sjúkrahúsinu í London í gærmorgun.

Kate og Vilhjálmur yfirgáfu sjúkrahúsið síðdegis í gær og frumsýndu um leið nýjustu viðbótina við konunglegu fjölskylduna.

Kate ljómaði er hún heilsaði blaðamönnum, ljósmyndurum og aðdáendum fyrir utan sjúkrahúsið og klæddist eldrauðum kjól frá Jenny Packham með hvítum blúndukraga. Við hann var hún í ljósum skóm frá Gianvito Rossi. Hár og förðun hennar var óaðfinnanleg, þökk sé stílista hennar Natasha Archer sem var að sjálfsögðu á staðnum.

Margir hafa bent á að Kate hafi verið sláandi lík Díönu prinsessu í fatavali, en prinsessan heitin klæddist rauðri dragt þegar hún gekk út af fæðingardeildinni með Harry prins árið 1984.

Þess má geta að Kate klæddist líka kjól úr smiðju Jenny Packham þegar hún frumsýndi hin tvö börnin sín; Georg prins árið 2013 og Charlotte prinsessu árið 2015. Þeir voru hins vegar báðir ljósir, en í þetta sinn ákvað hún að kynna heiminn fyrir nýjasta prinsinum í sterkum lit sem tekið er eftir.

Þetta velja Íslendingar helst á pítsu

||
||

Við sögðum frá því í gær að Bandaríkjamenn velja helst pepperoni á pítsur, samkvæmt gögnum frá heimsendingarþjónustunni Caviar. Í öðru sæti á listanum voru pylsur og í því þriðja hvítlaukur.

Við ákváðum því að spyrja Önnu Fríðu Gísladóttur, markaðsstjóra Dominos á Íslandi, hver eftirlætisálegg Íslendinga væru þegar þeir panta sér pítsu. Ótrúlegt en satt, þá trónir pepperoni líka á toppi þess lista. Í frétt úr gögnum Caviar furðuðum við okkur á því að skinka næði ekki á blað, en hún er í öðru sæti á listanum frá Dominos. Það er svo rjómaosturinn sem vermir þriðja sætið.

Hér eru tíu vinsælustu áleggin á pítsur Íslendinga samkvæmt gögnum frá Dominos:

1. Pepperoni
2. Skinka
3. Rjómaostur
4. Piparostur
5. Beikon kurl
6. Sveppir
7. Nautahakk
8. Laukur
9. Ananas
10. Jalapeno

Heimurinn elskar pepperoni á pítsur.

Við settum einnig fram mjög óvísindalega könnun í hópnum Matartips! á Facebook og spurðum einfaldlega hvert eftirlætis álegg tipsara væri. Við fengum fjöldan allan af svörum og niðurstaðan er að meðlimir hópsins eru sammála fjöldanum og setja pepperoni í efsta sæti. Í öðru sæti er ananas, sem ætti að gleðja forseta vor eða hitt þó heldur, og fast á hæla ananas eru sveppir.

Hér kemur listi Matartips-ara yfir eftirlætisálegg:

1. Pepperoni
2. Ananas
3. Sveppir
4. Skinka
5. Beikon
6. Rjómaostur
7. Bananar
8. Laukur
9. Jalapeno
10. Piparostur

Annað sem var nefnt gott á pítsur voru til að mynda döðlur, kjúklingur, rækjur, gráðostur, svartur pipar, ólívur, paprika, svart Doritos-snakk, parmesan-ostur og hráskinka.

Smekkur manna er misjafnur þegar kemur að áleggi á pítsu.

Fyllti eldhúsið af keramík

Áskorun að fara út fyrir þægindarammann.

Hera Guðmundsdóttir hönnuður tók þátt í HönnunarMars 2018 með sýningunni Souvenir/Minning í Geysi Heima. Hún starfar bæði hérlendis og í Frakklandi og nafn hönnunar hennar, Atelier Dottir, tengir þessa tvo menningarheima.

Hera Guðmundsdóttir er konan á bakvið hönnunina Atelier Dottir og starfar bæði í París og á Íslandi.

„Sýningin mín á HönnunarMars 2018 er hluti af rannsóknarvinnu sem ég byrjaði á fyrir næstum ári síðan. Verkefnið er enn í mótun en mér fannst áhugavert að sýna verk sem er enn þá á útfærslustigi,“ úrskýrir Hera. „Rannsóknin snýr að sambandinu á milli lyktar og minnis eða hvernig við tengjum ákveðna lykt við stað og stund. Ég notast við ilmkjarnaolíur sem ég hef blandað til að draga fram ákveðnar minningar, mínar eigin og annarra, en ég dreypi svo þessum olíum yfir litla skúlptúra úr steinleir sem dregur ilminn í sig og gefur jafnframt frá sér. Verkefnið er mun nær mér en það sem ég hef gert hingað til en í því er einmitt mikil áskorun, að fara út fyrir þægindarammann og sjá hvað gerist.“

Flakkar milli miðla
Hera lærði fatahönnun í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist 2012 en hefur á síðustu árum færst yfir í önnur listform. Hún er líklega þekktust fyrir veggspjöldin sem hafa verið í sölu og nú síðast bættist keramíkið við.

„Ætli það sem ég geri sé ekki á mörkum hönnunar og listar. Mér finnst mjög áhugavert allt sem að sameinar notagildi og fagurfræði; hlutirnir sem við umkringjum okkur með og fegra umhverfi okkar. Ég flakka á milli miðla en hingað til hef ég mest unnið með collage og ljósmyndir sem verða svo að veggspjöldunum sem Atelier Dottir er þekkt fyrir. Nýjasti miðillinn er hins vegar keramík sem ég byrjaði að vinna með síðasta haust. Mér finnst engin ástæða til að einskorða sig við einn miðil eða eina ákveðna tækni, það sem vekur áhuga hverju sinni er alltaf vert að skoða.

Það var ekki endilega meðvituð ákvörðun að hverfa frá fatahönnun. Mig langaði að breyta til og lét eina spurningu ráða ferðinni: „Hvað langar þig að gera alla daga, alltaf?“ Það sem ég komst að er að ég þrífst best þegar ég vinn að ólíkum verkefnum, þegar engir tveir dagar eru eins. Ég er ekki viss um að ég hafi sagt skilið við fatahönnun fyrir fullt og allt en í augnablikinu finn ég mig betur innan listarinnar og annarra sviða hönnunar. Allt sem ég nýti mér í dag við rannsóknar- og hugmyndavinnu lærði ég í náminu. Ég sé það alltaf betur og betur hversu margar og ólíkar dyr hönnunarnám getur opnað. Námið er í raun upphafspunktur rannsóknar sem svo teygir sig inn á önnur og ólík svið.“

Í nýjustu hönnun sinni dreypir Herar ilmkjarnaolíum yfir litla skúlptúra úr steinleir með það að markmiði að draga fram minningar.

Kynntist ástinni í París
List hefur alltaf skipt Heru miklu máli og hún hefur alla tíð verið umkringd list bæði heima hjá sér og hjá afa sínum og ömmu. „Ég veit ekki hvernig áhuginn kviknaði fyrir alvöru, ætli hann hafi ekki bara alltaf verið þarna en ég held að ég hafi lært snemma að list væri sjálfsögð og nauðsynleg. Ég er fædd í Reykjavík og alin upp við Skólavörðuholtið. Foreldrar mínir fluttu í Garðabæ þegar ég var unglingur og búa þar enn en mér hefur alltaf fundist ég vera miklu meiri Reykvíkingur en nokkuð annað. Ég kynntist manninum mínum í París en við erum búin að vera saman í tæp fimm ár. Hann er einstaklega skilningsríkur og þarf oft að sýna mikla þolinmæði þegar ég er í miðju verkefni. Ég lagði til dæmis undir mig eldhúsið í desember fyrir keramíkið og það var varla hægt að sjóða vatn þar fyrir vösum og klumpum af steinleir. Foreldrar mínir og afi og amma hafa líka sýnt mér mikinn stuðning, alveg síðan í náminu, voru alltaf í klappliðinu og alltaf til í skutl og reddingar á síðustu stundu.“

„Það hefur milka þýðingu fyrir mig að sýna á Íslandi. Ég sæki mér orku í hvert skipti sem ég kem heim til Íslands og það eru algjör forréttindi að geta flakkað svona á milli og sinnt verkefnum á báðum stöðum.“

Hera flutti til Frakklands haustið 2012 til að vera í starfsnámi í þrjá mánuði. Síðan eru liðin sex ár. „Frakkland og þá sérstaklega París er og verður draumastaður fyrir alla sem tengjast list eða hönnun, sagan og söfnin eru næg ástæða til að setjast þar að. Síðan er maðurinn minn auðvitað er franskur. Nafnið sem ég hanna undir, Atelier Dottir, tengir saman löndin mín tvö og vísar í þetta flakk á milli Parísar og Reykjavíkur. Svo spilaði líka inn í að „h“ er ekki borið fram í frönsku og ég hef enn þá ekki hitt þann Frakka sem getur borið rétt fram föðurnafnið mitt.“

Hera hélt sýningu í Geysi heima á HönnunarMars.

Sækir orku til Íslands
Hera hefur haldið nokkrar sýningar. Í Reykjavík hefur hún sýnt hjá Norr11, The Coocoo’s nest og Geysi Heima. „Allt mjög ólíkar sýningar sem eiga það sameiginlegt að hafa verið unnar í samstarfi við frábært fólk og haldnar í fallegum rýmum svo það er ómögulegt að gera upp á milli þeirra. Í desember síðastliðnum tók ég í fyrsta skipti þátt í samsýningu hönnuða í París en út frá þeirri sýningu hófst nýtt samstarf sem verður kynnt með vorinu. Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að sýna á Íslandi. Ég sæki mér orku í hvert skipti sem ég kem heim til Íslands og það eru algjör forréttindi að geta flakkað svona á milli og sinnt verkefnum á báðum stöðum. Það skiptir mig miklu máli að halda í þessa tengingu.“

Næsta verkefni Heru er lína af handgerðum keramíkvösum sem hún gerir fyrir blómasalann Louis-Géraud Castor sem sér meðal annars um blómaskreytingar fyrir búðir A.P.C. og Lemaire og Picasso-safnið í París. „Við byrjuðum á hugmyndavinnunni í desember og ætlum okkur að kynna vasana í apríl en fyrsta frumgerðin var hluti af sýningunni minni á HönnunarMars,“ segir Hera að lokum. Hera er á Facebook og Instagram undir notandanafninu Atelier Dottir. Veggspjöldin og gjafakortin fást í Geysi Heima og Akkúrat.

Viðtalið birtist í 12. tbl. Vikunnar 2018. 

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

„Svolítill hippi í mér“

Eyrún Birna brúðarkjólahönnuður.

Hver kjóll er einstakur.

Tilviljun réði því að Eyrún Birna Jónsdóttir sneri sér að gerð brúðarkjóla en hún sérhæfir sig í bóhemískum, flæðandi, þægilegum og lágstemdum kjólum.

„Þið fáið engar „rjómatertur“ hjá mér,“ svarar Eyrún Birna hlæjandi þegar hún er spurð út í sérstöðu brúðarkjólanna sinna. „Ég hef alltaf heillast af hvers kyns blúndum og hekli, ætli ég sé ekki svolítill hippi í mér. Við hönnunina hef ég í huga að kjólarnir séu áhugaverðir, úr fallegum efnum og að sniðin séu klæðileg. Ég legg líka áherslu á að kjólarnir séu þægilegir því mér finnst mikilvægt að konum líði sem best á brúðkaupsdaginn. Innblástur fæ ég alls staðar að, er alltaf með augun opin fyrir fallegum sniðum og efnum. Ég sérsauma kjólana á hverja og eina brúði. Kjóllinn þarf að passa fullkomlega og draga fram það besta hjá hverri konu. Hver kjóll er því einstakur og þannig á það auðvitað að vera þegar brúðarkjóll er annars vegar. Ég er því ekki með neina kjóla á lager en er þó með nokkra kjóla til sýnis sem hægt er að fá að skoða og máta.“

Eyrún Birna hannar brúðarkjóla í bóhemískum, flæðandi og þægilegum stíl.

Lengra viðtal og fleiri myndir af brúðarkjólum má finna í brúðarblaði Vikunnar, sem verður fáanlegt í verslunum í allt sumar.

Texti: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir af brúðarkjólum: Ruth Ásgeirsdóttir/Ljósmyndir og list
Fyrirsæta: Gabríela Ósk Vignisdóttir
Mynd af Eyrúnu Birnu: Aldís Pálsdóttir

Brúðarblað Vikunnar verður fáanlegt í verslunum í allt sumar.

Vilja efla áhuga á matarmenningu

Matarauður Íslands og Hótel- og matvælaskólinn efna til samkeppni meðal almennings um þjóðarrétti í því skyni að heiðra og fagna margbreytilegri matarmenningu Íslendinga.

Tilgangurinn er að fá hugmyndir um fjölbreytta rétti úr íslensku hráefni sem hægt er að njóta vítt og breitt um landið og efla áhuga almennings á matarmenningu, auka þekkingu á íslensku hráefni og mikilvægi nærsamfélagsneyslu. Réttina má útfæra sem létta máltíð eða aðalmáltíð og geta þeir verið bæði úr jurta- eða dýraríkinu.

Valdir verða 15 réttir úr innsendum uppskriftum sem nemendur og kennarar við Hótel- og matvælaskólann útfæra og elda fyrir dómnefnd, en veitt verða verðlaun fyrir fimm rétti. Dómnefndin verður skipuð bæði fagfólki og skemmtilegu áhugafólki og almenningur getur ennfremur kosið uppáhaldsréttinn sinn á Netinu, sem hefur áhrif á úrslitin. Sigurréttunum verður fylgt eftir til ákveðinna veitingastaða um land allt  þar sem þeir verða í boði.

Öllum er frjálst að senda inn uppskriftir en skilafrestur er til 5. maí.

Nánar á https://mataraudur.is/thjodlegir-rettir

Hægt er að fylgjast með verkefninu á instagram undir #þjóðlegirréttir

Fjallað verður ítarlegar um samkeppnina í 6. tölublaði Gestgjafans.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Margir kveðja bensínið

Líklegast er að íslenskir bílakaupendur fái sér tengitvinnbíl eða hreinan rafbíl næst þegar þeir kaupa sér bíl. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í norrænni könnun um áform fólks í bílakaupum og Orka náttúrunnar (ON) hefur tekið saman um stöðu rafbílamála á Íslandi.

Í könnuninni kemur fram að rétt rúmlega 20% kaupenda er í þessum hugleiðingum. Fleiri eða tæp 25% þátttakenda í könnuninni voru í þessum hugleiðingum í Noregi. Talsvert færri eru að velta því fyrir sér annars staðar á Norðurlöndunum.

Þegar þátttakendur voru spurðir að því af hverju þeir ætli ekki að kaupa rafbíl svöruðu 43% á Íslandi að þá skorti drægni. Flestir sögðu líka það sama í Noregi. Á hinum Norðurlöndunum var helsta skýringin sú að þeir þykja of dýrir.

Opnar sig um móðurhlutverkið: „Stundum missi ég vitið“

Charlize Theron stars as Marlo in Jason Reitman's TULLY

Leikkonan Charlize Theron er einstæð móðir sonarins Jackson, sex ára, og dótturinnar August, tveggja ára. Hún opnaði sig um móðurhlutverkið í samtali við Us Weekly þegar nýjasta mynd hennar, Tully, var frumsýnd í síðustu viku.

„Það er enginn dýrðarljómi í barnauppeldi. Þar er mikil þrautseigja fólgin í því,“ sagði Charlize á rauða dreglinum og bætti við að hún treysti mikið á ráð frá móður sinni, Gerdu Maritz.

„Ég held að öll ráð frá móður minni hafi verið mjög góð. Hún segir stundum: Veistu, á morgun er nýr dagur. Þetta eru ekki endalok heimsins,“ sagði Charlize og hélt áfram:

„Stundum missi ég vitið, sérstaklega í bílnum þegar við erum í langferð eða eitthvað. Þá horfir hún á mig og hlær og segir: Þetta er bara augnablik. Það líður hjá. Þetta líður hjá.“

Þráði að vera móðir

Bæði börn Charlize eru ættleidd og hefur hún talað mjög opinskátt um það síðan hún ættleiddi Jackson árið 2012.

„Ég þráði að vera móðir og ég lagði allt mitt í það. Það er ekki auðvelt að ættleiða, jafnvel þegar maður er stjarna,“ sagði leikkonan í viðtali við tímaritið Elle Canada árið 2016. Þá sagðist hún einnig ekki velta sér upp úr því að vera einstæð móðir, þó það hafi ekki verið draumurinn.

„Engan dreymir um að vera einstætt foreldri, en ég lærði fyrir löngu síðan að það er ekki hægt að stjórna öllu í lífinu. Ég aðlagaðist aðstæðunum því ég er jarðbundin manneskja.“

Þetta eru vinsælustu áleggin á pítsu

|
|

Fyrirtækið Caviar, sem sérhæfir sig í heimsendingu á mat sem pantaður er á netinu, er búið að taka saman gögn frá rúmlega tuttugu borgum í Bandaríkjunum og greina hvaða álegg á pítsu eru vinsælust.

Ostur og tómatur trónir á toppi listans, en við ætlum að sleppa þeim áleggjum af topplistanum þar sem ekki er um aukaost að ræða né tómat sem grænmeti, heldur tómatsósuna sem er á flestum pítsum víða um heim.

Hér eru því átta vinsælustu áleggin samkvæmt gögnum frá Caviar:

1. Pepperoni
2. Pylsa
3. Hvítlaukur
4. Ólífur
5. Sveppir
6. Laukur
7. Kjúklingur
8. Oregano

Pítsur eru jafnmismunandi og þær eru margar.

Athygli vekur að skinku er hvergi að finna, en líklegt er að það álegg myndi skora nokkuð hátt ef samskonar könnun yrði gerð hér á landi. Áhugavert er að bera þennan lista frá Caviar saman við könnun sem Foodler gerði árið 2013, en þá voru niðurstöðurnar eilítið öðruvísi, þó pepperoni hafi samt sem áður borið sigur úr býtum.

1. Pepperoni
2. Sveppir
3. Laukur
4. Pylsa
5. Beikon
6. Aukaostur
7. Svartar ólífur
8. Græn paprika
9. Ananas
10. Spínat

Kristín fór úr 127 kílóum í 88: „Byrjaðu í dag, ekki á morgun“

|||||
|||||

Kristín María Stefánsdóttir er þrítug, tveggja barna móðir sem býr á Akureyri. Kristín hefur átt við bakvandamál að stríða síðan hún fór í fyrstu myndatökuna á baki þegar hún var fimmtán ára gömul. Hún eignaðist son árið 2006 og eftir meðgönguna hríðversnaði hún í bakinu og átti erfitt með að hreyfa sig, eins og hún var vön að gera.

„Hægt og rólega komu kílóin á mig. Með árunum og miklu brasi alltaf með bakið á mér, án þess að fá svör um hvað amaði að, versnaði það og einnig andlega heilsan,“ segir Kristín í samtali við Mannlíf. Eftir langa þrautagöngu ákvað Kristín að snúa vörn í sókn árið 2015.

Kristín var ekki aðeins þjökuð af verkjum heldur einnig illa stödd andlega.

„Ég hafði tekið þá stóru ákvörðun að taka mér frí frá vinnu og fara í það verkefni að finna út hvað væri að gerast í líkamanum mínum, enda löngu komin yfir hundrað kíló og gat á tímum ekki gengið fyrir verkjum,“ segir Kristín. Hennar fyrsta verk var að leggjast inn á bakdeildina á spítalanum á Stykkishólmi þar sem hún dvaldi í þrjár vikur. Þar fékk hún sprautur í bakið sem gerðu ekki mikið til að lina sársauka hennar.

„Þannig að ég fór heim eftir þennan tíma eins og ég var áður en ég fór, en auðvitað búin að læra margt. Eftir að ég kom heim var ég í sjúkraþjálfun og beið eftir svari að komast inn hjá Virk og byrja í endurhæfingu, þar sem ég þurfti virkilega á þvi að halda. Ég fékk síðan svar í maí um að ég gæti byrjað hjá þeim í ágúst,“ segir Kristín. Í millitíðinni fékk hún símtal frá Kristnesi, endurhæfingar- og öldrunarlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri, um að hún væri komin inní svokallaðan O-hóp fyrir of þungt fólk.

„Ég auðvitað stökk á það tækifæri. Ég hugsaði ekkert út í það hvort ég væri í raun tilbúin fyrir þetta ferli þegar ég labbaði inn á Kristnes í júní og var þar í 4 vikur á virkum dögum. En ég mætti og kynntist yndilslegu fólki, lærði helling en nýtti mér það ekki. Þegar ég hugsa til baka núna, þá gerði ég ekki annað en að kvarta og leið bara alls ekkert vel, ég var bara ekkert tilbúin. Á meðan á öllu þessu stóð, hélt ég áfram að versna í líkamanum.“

Fóstrið blómstraði ekki í kviðnum

Kristín fékk óvæntar fréttir í júlí sama ár um að hún væri með barni. Fréttir sem glöddu hana mjög.

„Þegar ég var komin 12 vikur, fékk ég að vita að það sæist ekki það sem ætti að sjást á tólftu viku og að öllum líkindum væri ekkert búið að gerast lengra en áttundu vika. Ég tók þetta mjög nærri mér,“ segir Kristín og bætir við að hún hafi strax vitað af hverju fóstrið blómstraði ekki í kvið hennar.

„Líkaminn minn var einfaldlega orðinn of veikur til þess að halda því á lífi. Eftir þetta versnaði allt mjög mikið líkamlega. Ég var flutt með sjúkrabíl frá sjúkraþjálfaranum mínum þar sem taugaverkir og annað var orðið það slæmt að ég gat bara ekkert staðið upp af bekknum,“ segir Kristín sem var orðin langþreytt á að fá ekki að vita nákvæmlega hvað amaði að bakinu.

„Kannski það leiðinlegasta við þetta er líka að svörin við bakverkjunum var alltaf það að ég væri orðin of þung og núna þyfti ég bara að fara heim og gera eitthvað í mínum málum. Ég veit ekki hvað ég var búin að fara oft niður á sjúkrahús og bara send heim með lyf og þá setningu að ég þyrfti að leggja af. Sem er ekki rétt leið að hjarta og hug manneskju sem er vel í ofþyngd. Sú manneskja veit það vel og ef það væri svo auðvelt að fara bara heim og leggja af, hugsa ég að það væru ekki margir í ofþyngd.“

Þrjátíu ára og 127 kíló

Kristín var þyngst 127 kíló.

Í kjölfarið þurfti Kristín að ganga við hækjur í tvo mánuði vegna verkja og fresta endurhæfingu hjá Virk þar sem hún var ekki fær um að sinna henni. Í staðinn byrjaði hún í sundleikfimi með eldri borgurum í Akureyrarlaug og fór að hitta sálfræðing hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands reglulega. Það var þá sem Kristín gerði sér grein fyrir að hún þyrfti ekki síður að taka sig í gegn andlega.

„Ég áttaði mig heldur betur á því að ég þurfti ekki bara að fara í endurhæfingu með líkamann á mér heldur hausinn á mér líka. Þarna var ég orðin 127 kíló, ekki orðin þrítug. Það var ekkert bara bakið. Það kannski byrjaði þar, en það besta sem ég gerði í þessu ferli var að byrja hjá sálfræðingi og fara að hugsa um mín mál. Þarna voru gömul og ný mál sem ég þurfti, og átti bara eftir, að vinna úr og á þessum þremur árum sem ég hef verið að vinna í mínum andlegu málum hefur heldur betur margt breyst,“ segir Kristín, sem hélt áfram að sækja sálfræðitíma og sundleikfimi og er þakklát fyrir þá hjálp sem hún hefur fengið.

„Fólkið hjá Kristnesi og Starfsendurhæfingu Norðurlands er allt yndislegt fólk og ég á þeim margt að þakka. Þarna hitti ég fólk sem loksins hlustaði og gerði ekki lítið úr mínum vandamálum.“

Versnaði í bakinu eftir aðra meðgöngu

Kristín gat ekki hreyft sig mikið fyrir utan sundtímana, en ákvað í janúar árið 2016 að taka mataræði sitt í gegn.

„Ég tók þrjá mánuði sykur-, hveiti- og aukaefnalausa,“ segir Kristín og sá strax mikinn mun. „Ég missti 13 kíló á þessum þremur mánuðum. Ég losnaði endanlega við hækjurnar og var farin að labba niður í sundlaug og bæði fara í sundleikfimi og gera sjálf æfingar í lauginni. Markmiðið mitt daglega var að labba tvö til þrjú þúsund skref. Hægt og rólega urðu þessi skref fleiri og fleiri. Í lokin á þessum þremur mánuðum var mikil breyting á mér,“ segir hún og bætir við að eftir þetta tímabil hafi hún hætt á þessu mataræði.

„Ég gat það bara ekki lengur, en sá heldur betur að með réttu mataræði getur svo mikið gerst.“

Kristín var búin að losa sig við sautján kíló í apríl sama ár, stundaði enn sundleikfimi og gekk um sex þúsund skref á dag. Hún byrjaði í prógrammi hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands og sá alltaf meiri árangur andlega og líkamlega. Þá varð hún ólétt af sínu öðru barni.

„Ég var mjög hrædd um bakið á mér en ég gat bara ekki annað en fagnað þessu litla heilbrigða lífi. Meðgangan gekk bara ágætlega likamlega og ég hætti ekkert að hugsa um mataræðið þrátt fyrir mikla ógleði og annað fyrst til að byrja með. Ég fór í göngutúra og var í meðgöngusundi,“ segir Kristín.

Það var svo í janúar í fyrra sem Kristín fékk litla stúlku í hendurnar og þá kom smá bakslag í lífsstílinn sem hún hafði tileinkað sér.

„Ég versna meira í bakinu, en fann þó að ég jafnaði mig fyrr eftir bakslagið, þar sem líkaminn var orðinn sterkari en áður. En ég missti tökin pínulítið í mataræðinu, og vá hvað það var heldur betur fljótt að gerast. Ég áttaði mig fljótt á því hvað var að gerast hjá mér, enda komin með mikil andleg tæki og tól eftir sálfræðitímana og sneri þessu við. Þess vegna segi ég, andlegi þátturinn er risastór í öllu þessu.“

Ekkert sem heitir skyndilausnir

Kristín gjörbreytti um lífsstíl og blómstrar í dag.

Kirstín stundaði meðgöngusund í átta mánuði eftir að hún átti stúlkuna, gekk um allt með barnavagninn í hvaða veðri sem er og fór í sjúkraþjálfun. Hún segir að þarna hafi hún loks verið 100% tilbúin til að fara aldrei aftur í sama farið.

„Ég þurfti að minna mig á það á hverjum degi af hverju ég væri að þessu. Hausinn á manni á það til að vera það erfiðasta sem maður dílar við í svona ferli og þetta kostar blóð, svita og mörg tár. Það er ekkert sem kallast skyndilausnir í þessum málum. Það komu margir dagar þar sem bakið gafst upp og ég var rúmliggjandi, en þarna var ég búin að ákveða að þetta bak væri ekkert að fara verða það sem myndi láta mig gefast upp,“ segir Kristín, sem tók mataræðið heljartaki á þessu tímabili.

„Ég þurfti að endurskoða allt sem ég keypti, allt sem ég eldaði. Ég fann leiðir til að gera rétti hollari sem ég eldaði áður og eyddi miklum tíma í eldhúsinu bara til að finna út hvað mér fannst gott. Ég prófaði alltaf eitthvað nýtt. Ég las og tók næringarfræði í menntaskólanum á meðan ég var í endurhæfingu. Ég lærði að borða grænmeti. Já, lærði,“ segir Kristín og hlær. „Ég borðaði ekki mikið af því en í dag borða ég allt grænmeti. Það er svo ótrúlega mikið sem ég er búin að læra sem ég bara áttaði mig aldrei á.“

„Þetta er eilífðarverkefni“

Í kjölfarið fékk Kristín loksins svör um hvað amaði að bakinu.

„Það er komið mikið slit í neðstu tvo hryggjaliði og útbunganir á þremur stöðum. Ég reyndi aftur að fara í sprautur, en þær gerðu litið gagn eins og í fyrra skipti. Aðgerð hjá mér er möguleiki en ekki möguleiki inni á mínu heimili þar sem ég er með fimmtán mánaða gamalt barn, og bataferli eftir aðgerðina langt. Ég tók því ávörðun með mínum lækni að halda áfram mínu ferli og sjá hvert það kemur mér varðandi bakið. Ég get kannski ekki lagað þetta vandamál, en ég gat og get gert allt annað í líkamanum betra til þess að hjálpa mér við að díla við þetta ákveðna vandamál.“

Í dag er Kristín komin niður í 88 kíló, úr 127 kíló. Hún segir að þolinmæði og þrautsegja hafi verið lykillinn að velgengni hennar í þessari lífsstílsbreytingu.

Lífsgleðin skín úr þessari þrítugu konu.

„Ég fór loksins að nota það sem mér var kennt á öllum þessum stöðum sem ég hef verið á, nýta hverja mínútu sem ég hafði með öllum þessum fagaðilum sem voru þarna til þess að hjálpa mér. Markmiðið í upphafi var að léttast og fá svör við bakverkjunum, enda þurfti ég þess. En maður þarf að taka hausinn á sér með svo að maður sé tilbúinn fyrir þetta. Þetta er eilífðarverkefni ef maður ætlar að viðhalda sér. Þetta er erfitt, en ég er að gera þetta og ef ég get það, þá geta svo sannarlega aðrir það.“

Ekki bera þig saman við næsta mann

Hana dreymir um að hjálpa öðrum að lifa betra og heilsusamlegra lífi.

„Ég er búin að stunda bóklegt nám í gegnum þetta allt. Ég var búin að ákveða að læra læknaritarann og hef verið að stefna að því, en það er vinna sem bakið á mér kannski höndlar. En á þessum þremur árum hef ég fengið mikla trú á sjálfri mér og í dag langar mig að mennta mig í þá átt að geta hjálpað öðrum sem eru að ganga í gegnum þetta. Að kynnast fólki sem skilur mann, getur aukið mikinn skilning hjá manni,“ segir Kristín. En hvað vill hún segja við fólk sem er í sömu stöðu og hún var fyrir þremur árum síðan?

„Ekki gefast upp þó að ekkert gerist á vigtinni í einhvern tíma eða þú borðaðir óhollt og heldur að allt sé ónýtt. Það kemur alltaf dagur á eftir þessum degi og þá reynum við að gera betur. Þér þarf að líða vel og skilja að líkaminn er að ganga í gegnum miklar breytingar og styrkjast. Ef þú átt erfitt með hreyfingu, þá get ég sagt þér að á þessum tíma bjargaði sundleikfimi öllu hjá mér. Settu þér lítil markmið til að byrja með, gerðu girnilegu, hollu uppskriftina sem þú ert búin að ætla að gera lengi, labbaðu x mörg skref á dag og sigraðu sjálfan þig með því að bæta þig. Maður þarf alltaf að byrja á litlu hlutunum. Það ert þú sem þarft að gera þetta, taka þessar ákvarðanir fyrir þig, en nýttu þér hjálp frá fólkinu í kringum þig.

Ekki horfa á það sem næsta manneskja er að gera og bera þig saman við hana. Gerðu þitt eigið. Byrjaðu í dag, ekki á morgun.“

Þvílík breyting á þremur árum.

Myndir / Úr einkasafni

„Alltaf að móðga einhvern“

|
|

Finnst „eðlileg“ samskipti oft byggja á hræsni.

Dagur einhverfu var í upphafi mánaðarins og þetta árið er athyglinni beint að konum og stúlkum á einhverfurófi. Hélène Magnússon greindist með Asperger á fullorðinsaldri og átti fyrst erfitt með að viðurkenna það fyrir samferðafólki sínu. Greiningin umbreytti hins vegar lífi hennar og þegar hún horfir til baka sér hún æskuna í nýju ljósi.

Hélène segir að einhverfan hafi oft reynst henni styrkur, til dæmis í nýjasta afreki hennar – að koma eigin garni á markað.

Hélène er fædd og uppalin í Frakklandi og flutti talsvert á milli staða vegna vinnu föður síns, sem var fyrsta ástæðan sem hún fann fyrir því að hún eignaðist ekki vini. Árið 1995 hitti hún nokkra Íslendinga í partíi í París og fór í kjölfarið í frí til Íslands. „Mér leið strax eins og ég ætti heima hérna þannig að ég fór aftur til Frakklands til þess eins að segja upp vinnunni sem ég var ekki ánægð í og undirbúa flutninga til Íslands,“ segir Hélène sem vann sem lögmaður í Frakklandi á þessum tíma. Þremur mánuðum seinna var hún flutt til landsins og býr hér ásamt eiginmanni sínum og þremur dætrum. Hún var komin vel á fullorðinsár þegar hún var greind á einhverfurófinu með Asperger. „Maðurinn mínn heyrði í útvarpsþætti á BBC um konur í atvinnurekstri sem voru með Asperger og fannst þær svolítið líkar mér. Í gamni tók ég einhvers konar einhverfupróf á Netinu og skoraði hátt. Ég vissi lítið sem ekkert um Asperger á þessum tíma, fór að lesa mér til og fann margt sem var afar kunnuglegt.“

Í kjölfarið fór hún í greiningarferli og fékk formlega greiningu. Hún segir að það hafi bæði verið mikill léttir og frelsun en hún hafi einnig verið skelfingu lostin. „Líf mitt umbreyttist gjörsamlega, ég vissi ekki lengur hver ég var, á hvaða stað ég var í lífinu, hvað mér líkaði vel við og hvað ekki. Á sama tíma fékk ég ákveðna hugljómun og sá líf mitt í alveg nýju ljósi, ekki síst þegar ég horfði til baka.“

„Í gamni tók ég einhvers konar einhverfupróf á Netinu og skoraði hátt. Ég vissi lítið sem ekkert um Asperger á þessum tíma, fór að lesa mér til og fann margt sem var afar kunnuglegt.“

Hélène var hlédrægt barn, talaði lítið og mjög lágt. Hún var fyrirmyndarnemandi, átti aldrei í erfiðleikum með nám og efst í öllum greinum, þar með talið íþróttum. En hún átti fáar vinkonur, oftast eina í einu sem hún missti svo eftir ákveðinn tíma. „Ég slóst töluvert við strákana og stóð á mínu og þegar ég kom á unglingsárin átti ég alltaf kærasta þannig að ég upplifði mig ekki einmana eða utangarðs. Ég lærði að treysta eingöngu sjálfri mér og bera mig vel en flestir tóku því þannig að ég væri merkileg með mig og fyrirliti aðra. Ef einhver hefði spurt mig áður en ég fékk greininguna hvort ég hefði orðið fyrir einelti sem barn hefði svarið verið nei. Núna, eftir að ég greindist, er svarið hins vegar klárlega já sem birtist í útilokun. Fólki fannst ég svolítið skrítin og forðaðist samskipti við mig. Mér var til dæmis ekki boðið í afmæli og sá sjálf ekki ástæðu til að halda upp á afmælið mitt.“

Kemur út úr skápnum
Hélène segir að margt í hegðun hennar hér áður megi rekja til einhverfunnar og hún uppgötvi nýja hluti í þeim efnum daglega. „Ég var til dæmis alltaf að lenda í að móðga einhverja og geri það svo sem enn þá. Það hefði örugglega breytt ýmsu fyrir mig að greinast fyrr en þá væri ég allt önnur manneskja í dag. Ferðalagið mótar manneskjuna og ég vildi ekkert endilega breyta því.“

Hélène fannst erfitt fyrst að viðurkenna fyrir samferðafólki sínu að hún væri á einhverfurófi. „Til að byrja með sagði ég eingöngu mínum allra nánustu frá þessu og fólkinu sem ég vann með. Ég sagði síðan einni og einni manneskju sem ég kynntist frá greiningunni og fór smám saman að opna mig meira. Í dag lifi ég í sátt við sjálfa mig og hef verið að fá löngun til að verða sýnilegri, sem er meðal annars ástæðan fyrir því að ég samþykkti strax að koma í þetta viðtal. Í rauninni er ég að koma út úr skápnum og samsama mig vinum mínum í hinsegin samfélaginu og það hefur verið mjög hjálplegt að eiga samtöl við þá um þetta ferli. Ég hef alltaf verið opin með einhverfuna gagnvart dætrum mínum og miklar umræður skapast á milli okkar um þetta. Stundum er ég til dæmis ekki rétta manneskjan til að hjálpa þeim að vinna í málum sem koma upp á milli þeirra og vinkvennanna. En við erum frekar nánar og samband okkar er gott. Gagnvart maka hefur sambandið gengið upp og niður í gegnum tíðina eins og hjá öðrum en við höfum náð að finna gott jafnvægi og er sambandið okkar mun heilbrigðara núna.“

Ómögulegt að fylgja öllum félagslegum stöðlum
Hélène er í stuðningshópi með fullorðnum einhverfum konum hjá Einhverfusamtökunum og segir að það hjálpi sér mikið og minnki stress. Útivera og hreyfing gerir henni líka gott. „Aðalmálið hefur hins vegar verið að leyfa sjálfri mér að vera eins og ég er, án þess að líða illa yfir því. Ég hef orðið meira umburðarlyndi fyrir sjálfri mér, passa mig að yfirkeyra mig ekki og gefa mér meiri séns. Það getur verið yfirþyrmandi og þreytandi að reyna hvað eftir annað að vera „eðlilegur“ og veldur oft mestu streitunni. Þarna þarf að finna jafnvægi. Eftir samskipti við fólk þarf ég í kjölfarið að vera ein til að jafna mig. Áður leið mér illa, varð stressuð og uppgefin þegar ég var búin að vera innan um fólk í svolítinn tíma án þess að vita hvað olli. Í dag fer ég bara afsíðis í smástund þegar þetta gerist og tek þannig tillit til minna eigin þarfa. Ég skipulegg mig líka öðruvísi og reyni að vera ekki lengi í svoleiðis aðstæðum. Ég fer milliveginn, reyni að fylgja félagslegum stöðlum, þar sem ég kem því við, en það eru svo margir staðlar, eða blæbrigði, sem ég þekki hreinlega ekki og því er ómögulegt fyrir mig að fylgja þeim að öllu leyti. Einnig get ég ekki falið skoðanir mínar og segi fólki yfirleitt það sem mér finnst í raun og veru. Mér finnst „eðlileg“ samskipti oft byggja á hræsni og margir þannig félagslegir staðlar sem ég harðneita að sætta mig við. Annars hefur það líka hjálpað að hafa flutt til annars lands því það hefur oft gefið fólki skýringu á því að ég sé „skrítin“. Ef ég hef ekki skilið eitthvað eða brugðist við með óhefðbundnum hætti hefur fólk bara hugsað með sér að það sé vegna þess að ég sé útlendingur.“

„Ég fer milliveginn, reyni að fylgja félagslegum stöðlum, þar sem ég kem því við, en það eru svo margir staðlar, eða blæbrigði, sem ég þekki hreinlega ekki og því er ómögulegt fyrir mig að fylgja þeim að öllu leyti.“

Skapaði sér vinnu sem hentaði
Hélène er prjónahönnuður og rekur fyrirtækið Prjónakerling ehf. Hún hefur prjónað síðan hún var barn og það hjálpar henni að slaka á og ná tengingu við sjálfa sig. „Prjónaskapur er aðaláhugamál mitt og þó að ég hafi gert hann að atvinnu þá slaka ég á með prjónana mína. Ég vinn í fullu starfi sem hönnuður, rek mitt eigið fyrirtæki og er með tvo starfsmenn auk þess að vera í allskonar samvinnu. Ég sel prjónauppskriftir á vefsíðunni minni prjonakerling.is, hef skrifað bækur um íslenskt prjón og skipulagt göngu- og prjónaferðir á Íslandi í samvinnu við Íslenska fjallaleiðsögumenn síðan 2010. Einnig stend ég fyrir framleiðslu af mínu eigin garni: Love Story einbandi og Gilitrutt tvíbandi, afar fíngerðu og mjúkum prjónaböndum út hreinni íslenski lambsull. Það var mikið átak að koma þessu á markað alveg frá grunni, krafðist mikillar einbeitingar, ástríðu, þrjósku og elju. Ég er sannfærð um að einhverfan hefur verið mér styrkur í þessu ferli.

Í dag á ég virkilega gott líf, skapaði vinnuuhverfi sem hentar mér og á góða vini sem taka mér eins og ég er. Ég er meira að segja komin inn í vinkonuhóp, eða saumaklúbb, sem er öruggt skjól fyrir okkur allar.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ólafur Darri gerir það gott í Hollywood

Íslenski leikarinn verður áberandi á hvíta tjaldinu í ár.

Stiklur úr nýjustu kvikmynd leikarans Ólafs Darra Ólafssonar, The Meg, litu dagsins ljós nýverið og hafa á skömmum tíma fengið hvorki meira né minna en samtals nokkur milljón áhorf á Youtube. Ef marka má stikluna virðist hér vera á ferð æsispennandi skrímslamynd í ætt við Jaws þar sem hópur fólks hefur leit að ofvöxnum hákarli. Myndinni er leikstýrt af Jon Turtletaub, leikstjóra National Treasure-myndanna, og skartar stórstjörnunni Jasan Statham í aðalhlutverki. Ólafur Darri fer með hlutverk eins leitarmannanna í myndinni.

Fyrir utan The Meg eru fjórar nýjar Hollywood-myndir væntanlegar með íslenska leikaranum á árinu, þar á meðal framhald stórmyndarinnar Fantastic Beasts and Where to Find Them úr smiðju J.K. Rowling, höfundi bókanna um galdrastrákinn Harry Potter, og svo ný þáttasería með bresku leikkonunni Kate Beckinsale í aðalhlutverki. Því er óhætt að segja að Ólafur Darri hafi í nógu að snúast um þessar mundir.

Æskudýrkun, hégómi og klappstýrufjör

Margrét Erla Maack, fjöllistadís, kabarettmær og mamma Reykjavík Kabarett, sem er að undirbúa sumarsýningar, deilir með lesendum nokkrum sakbitnum sælum.

Death Becomes Her (1992)

Meryl Streep, Goldie Hawn og Bruce Willis í tiltölulega barnvænni hryllingsmynd um æskudýrkun og hégóma. Ég sá plakatið á vídeóleigu þar sem Goldie er með gat í maganum … og var ekki lítið spennt yfir því að sjá hana í fyrsta sinn. Og hún var stórkostleg. Ég horfði á hana aftur um daginn og ég held að það verði fastur liður núna. Hún eldist mjög vel og er orðin költ-mynd. Og það á víst að gera söngleik upp úr henni. Ekki leiðinlegt.

Bring it on (2000)

Ég var búin að gleyma þessari mynd en fékk fyrirspurn um daginn um að kenna klappstýrufjör í gæsapartíi, svo auðvitað varð ég að sökkva mér á kaf í hana, vinnunnar vegna. Hún eldist svona sæmilega en það er fjandi mikið stuð og kóreógrafía er geggjuð.

Working Girl (1988)

Undirfötin í sexí senunum fá mig til að veltast um í hláturs- og aulakasti. Annars er þetta bara virkilega góð og „empowering“ mynd sem ég fæ ekki nóg af.

Blossi/810551 (1997)

Við verðum bara að finna aðra plánetu til að halda partíinu gangandi. Þessi mynd var víst framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 1998.

The Cockettes (2002)

Þessi mynd er allt of góð til að vera á svona lista, en samt. Ég get horft endalaust á þessa heimildamynd um dragkabarettkommúnu í San Francisco á sjöunda áratugnum. Það verður fyndnara og fyndara með hverju áhorfi að engum ber saman um neinar tímasetningar eða „neimdropp“ því allir voru á svo miklum eiturlyfjum á sögutímanum. Frábær frásagnarstíll og „inspírerandi“ fólk.

Aðalmynd / Auðunn Níelsson

Drungaleg dulúð í Langholtskirkju

Söngsveitin Ægisif flytur kórverkið Bjöllurnar ásamt nokkrum vel völdum perlum úr Náttsöngvunum eftir Sergej Rachmaninov í Langholtskirkju Laugardaginn 21. apríl. Tónleikarnir hefjast klukkan 17.

„Þessi tegund tónlistar er okkur Íslendingum í raun ekki svo framandi,“ segir Hreiðar Ingi Þorsteinsson, kórstjóri, tónskáld og stofnandi Söngsveitarinnar Ægisif, um tónlistina á fyrirhuguðum tónleikum. „Dökki liturinn sem einkennir mjög rússneskan tónheim á mikið sameiginlegt með gömlu íslensku þjóðlögunum.“

Kórsinfóníuna Bjöllurnar op. 35 samdi Rachmaninov árið 1913 við texta Edgars Allan Poe, The bells. Verkið er í fjórum köflum sem hver um sig túlkar ákveðið æviskeið mannsins, frá fæðingu til greftrunar. Litróf stemningarinnar er afar breitt og sveiflast frá drungalegri dulúð í síðrómantískan hátíðleika. Upphaflega er verkið samið fyrir stóra sinfóníuhljómsveit auk kórs og einsöngvara en fyrir utan sönginn verður það flutt hér í nýrri undirleiksumritun fyrir píanó. Þess má geta að þetta er frumflutningur verksins á Íslandi.

Náttsöngvar Rachmaninovs op. 37 voru fyrst fluttir í mars 1915 en vegna rússnesku byltingarinnar og opinberrar liststefnu í kjölfar hennar voru þeir ekki endurfluttir fyrr en hálfri öld síðar.

Einsöngvarar á tónleikunum verða Lilja Dögg Gunnarsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Hrafnhildur Árnadóttir og Fjölnir Ólafsson. Píanóleikari er Anna Guðný Guðmundsdóttir.

Mynd: Hrafnhildur Árnadóttir verður meðal einsöngvara á tónleikum Söngsveitarinnar Ægisif.

Verður tvítug tveggja barna móðir í sumar: „Rosalega mikið sjokk“

|||
|||

„Mér hefur oft fundist ég hafa misst af einhverju sem aðrir á mínum aldri eru að gera en ég hef allt lífið framundan og nægan tíma til þess að gera allskonar hluti,“ segir Karen Eva Þórarinsdóttir.

Karen var aðeins átján ára þegar hún eignaðist son sinn, Elmar Þór Róbertsson, með kærasta sínum Róbert Smára Haraldssyni. Í dag er Karen tvítug og Róbert 23ja ára og þau eiga von á sínu öðru barni þann 11. júní næstkomandi. Karen segir það hafa verið ákveðið áfall að komast að því að hún gengi með annað barn svo ung.

Karen og Elmar í kósíheitum.

„Þetta var rosalega mikið sjokk fyrst þar sem ég er svona ung og ég taldi mig engan veginn tilbúin í það að eignast annað barn, enda algjörlega að læra á lífið og allt um uppeldi á eldri stráknum mínum. Mamma mín, sem er mín stoð og stytta, studdi mig í gegnum sjokkið eins og hún gerði á fyrri meðgöngunni og er ég endalaust þakklát fyrir hana. Viðhorfið mitt var mjög fljótt að breytast enda er strákurinn minn það allra besta í lífinu mínu og ég er umvafin yndislegu fólki sem vill allt fyrir okkur gera,“ segir Karen.

Krefjandi að vera ung móðir

Elmar sonur hennar verður aðeins nítján mánaða gamall þegar að nýja barnið kemur í heiminn, en Karen segir það vissulega reyna á að verða móðir svona ung.

„Það er mjög krefjandi að vera ung móðir og ég held að margir átti sig ekki á því hversu mikið maður þarf að þroskast á stuttum tíma til þess að takast á við foreldrahlutverkið, nýskriðin í fullorðinsaldur. Þetta tekur mikið á oft á tímum og maður fær að kynnast hvað þreyta er,“ segir Karen og hlær. „En á sama tíma er þetta svo rosalega gefandi, að fá að elska sitt eigið barn, að lítill einstaklingur þarfnist manns.“

Karen segist ekki hafa fundið fyrir fordómum í sinn garð fyrir að byrja barneignir á þessum aldri.

„Ég hef ekki fundið mikið fyrir fordómum, nema kannski þegar ég fæ svip frá fólki hér og þar. Sumir verða mjög hissa að ég af öllum skuli vera ung móðir þar sem ég var vandræðagemsinn í 10. bekk. Sumir hafa gert létt grín að þessu en alls ekkert á fordómafullan hátt. Ég fékk oft að heyra hvernig ég ætti að hafa hlutina og fékk uppeldisráð sem mér fannst persónulega úrelt og ákvað sjálf að taka ekki til mín,“ segir Karen.

Gerólíkar meðgöngur

Elmar virðir fyrir sér litla systkinið.

Karen er búin að vera óvinnufær síðan í febrúar vegna meðgöngukvilla, en hún segir þessar tvær meðgöngur gerólíkar eins og oft vill verða.

„Fyrri meðgangan mín var algjör draumur og gekk frábærlega, engir fylgikvillar og allt gekk eins og í sögu. Það sama átti við um fæðinguna. Ég þurfti ekkert verkjastillandi nema baðið og glaðloft. Seinni meðgangan er hinsvegar allt önnur. Morgunógleðin byrjaði snemma og ég var með hana í þrjá mánuði. Þá tók við grindargliðnun, sem er orðin mjög slæm núna og fer versnandi með tímanum. Í kringum 20. vikuna byrjaði ég síðan að fá samdrætti með miklum verkjum sem að hræddi mig rosalega þar sem ég fékk aldrei neina fyrirvaraverki á fyrri meðgöngu. Ég er búin að vera í góðu eftirliti hjá yndislegu ljósmæðrunum mínum og það er passað vel uppá mig þar,“ segir Karen sem hefur líka þurft að passa uppá andlegu hliðina á þessari meðgöngu.

„Það er ekki hægt að vera alltaf í góðu skapi þegar maður er í sársauka alla daga og verkjalyf gera takmarkað gagn. En ég held í vonina að fæðingin verði góð í þetta skiptið líka.“

Draumurinn að vinna við förðun

Karen og Róbert búa saman á Selfossi, þar sem Karen hefur búið meira og minna alla sína tíð. Hún útskrifaðist sem förðunarfræðingur frá Mask Academy í desember í fyrra og stefnir á frekari frama í þeim bransa.

„Draumurinn er að vinna við eitthvað förðunartengt, mögulega opna mitt eigið fyrirtæki eða eitthvað skemmtilegt. Mig langar rosalega að klára framhaldsskóla og mun ég sennilega vinna í því hægt og rólega,“ segir Karen, sem snappar um líf sitt og tilveru undir nafninu kareneva98.

Snappar um allt milli himins og jarðar.

„Ég snappa um allt sem mér dettur í hug; barnið mitt, meðgönguna, förðun, andlega heilsu, hvað ég geri á daginn og ýmislegt,“ segir Karen og bætir við að Snapchat hafi verið hennar leið til að vinna bug á feimni. „Ég ákvað að koma mér út úr þægindarammanum og feimninni sem ég glími við og finna mér eitthvað skemmtilegt að gera á daginn. Ég byrjaði á opnu snappi með öðrum frábærum mömmum, madres101, og er ég þar inni reglulega. Ég snappa líka á mínu eigin snappi á hverjum degi.“

Áður en ég kveð Karen verð ég að spyrja hvort hún hyggi á að fjölga enn frekar í barnahópnum í nánustu framtíð.

„Nei, allavega ekki næstu árin. Okkur langar að koma undir okkur fótum og kaupa húsnæði. Mig langar að finna mér góða atvinnu áður en við hugum að öðru barni á eftir þessu kríli.“

Myndir / Fyrirmyndir og úr einkasafni

Sarah Jessica Parker hannar brúðarkjóla

|||||||||||
|||||||||||

Sex and the City-stjarnan Sarah Jessica Parker er búin að frumsýna brúðarlínu í samstarfi við tískurisann Gilt.

Brúðarkjólarnir í línunni eru afskaplega fallegir og vandaðir og kosta allt frá rúmlega þrjátíu þúsund krónum og upp í þrjú hundruð þúsund krónur. Í línunni er einnig klæðnaður fyrir brúðarmeyjar, sem og skór fyrir stóra daginn.

Öll línan er unnin í New York, en Sarah ferðaðist víða um Evrópu til að velja slitsterk og vönduð efni fyrir línuna. Þá eru þægindi höfð að leiðarljósi í öllum sniðum.

Hér fyrir neðan má sjá nokkra af brúðarkjólunum:

Hér má svo sjá fatnað sem ætlaður er brúðarmeyjum:

Og hér eru nokkur skópör:

Alla línuna má sjá hér.

Nýr stefnumótaþáttur úr smiðju höfundar The Bachelor

Mike Fleiss, höfundur raunveruleikaþáttarins The Bachelor, tilkynnti í vikunni að nýr stefnumótaþáttur úr hans smiðju færi í loftið í sumar á sjónvarpsstöðinni ABC.

Þátturinn heitir The Proposal, eða Bónorðið, og fellur það í hlut fyrrum NFL-leikmannsins Jesse Palmer að vera kynnir. Þeir sem hafa fylgst vel með fyrrnefndum Bachelor-þáttum kannast kannski við Jesse, en hann keppti í seríu 5.

The Proposal telur alls tíu þætti og snúast þeir um tíu vonbiðla sem keppa um hylli einnar manneskju, líkt og í The Bachelor, The Bachelorette og fleiri þátta í svipuðum dúr. Bónorðið sker sig úr með þeim þætti að vonbiðlarnir fá ekki að sjá, eða vita nokkurn skapaðan hlut um manneskju sem þeir eru að reyna að heilla.

Líkt og í öðrum stefnumótaþáttum verða ýmsar áskoranir sem vonbiðlarnir þurfa að takast á við, til dæmis svara ýmsum nærgönglum spurningum og reyna að heilla fjölskyldumeðlimi óþekktu manneskjunnar.

Eftir hverja áskorun er einn keppandi sendur heim þar til aðeins tveir standa eftir. Þeir tveir fá þá loksins að hitta huldumanneskjuna og geta þá borið upp rómantískt bónorð að eigin vali, samkvæmt tilkynningu frá ABC.

Lesa má á milli línanna að bónorðið sé valfrjálst, en að það geti einnig aðeins falið í sér boð á stefnumót.

Frægir foreldrar sem eiga tvíbura

Það er mikil blessun að eignast börn, hvað þá þegar um fjölbura er að ræða.

Nokkur pör af tvíburum hafa gert það gott í skemmtanaiðnaðinum og ber þar helst að nefna Mary-Kate og Ashley Olsen. Fræg pör hafa einnig verið dugleg að eignast tvíbura og ákváðum við að líta aðeins yfir nokkur stjörnubörn sem hugsanlega eiga eftir að feta í fótspor foreldra sinna í framtíðinni.

Enrique Iglesias og Anna Kournikova

Söngvarinn og tennisstjarnan buðu tvíburasystkinin Nicholas og Lucy velkomin í heiminn þann 16. desember í fyrra.

Cristiano Ronaldo og Georgina Rodriguez

Fótboltastjarnan tilkynnti í júní í fyrra að hann væri búinn að eignast tvíbura með kærustu sinni. Systkinin hafa fengið nöfnin Mateo og Eva.

Beyoncé og Jay Z

Beyoncé tilkynnti það á Instagram í febrúar í fyrra að hún ætti von á tvíburum og internetið sprakk næstum því. Tvíburarnir, sem heita Rumi og Sir Carter, komu síðan í heiminn þann 13. júní í Kaliforníu.

A post shared by Beyoncé (@beyonce) on

George og Amal Clooney

Leikarinn og lögfræðingurinn hafa reynt að halda einkalífi sínu utan sviðsljóssins en það var vinur þeirra, leikarinn Matt Damon, sem staðfesti fréttir þess efnis að þau ættu von á barni í fjölmiðlum. Í júní í fyrra komu tvíburar í heiminn, dóttirin Ella og sonurinn Alexander.

Ricky Martin

Söngvarinn eignaðist synina Matteo og Valentino í ágúst árið 2008 með hjálp staðgöngumóður.

A post shared by Ricky (@ricky_martin) on

Sarah Jessica Parker og Matthew Broderick

Leikarahjónin nýttu sér hjálp staðgöngumóður í júní árið 2009 þegar þeim fæddust dæturnar Marion Loretta Elwell og Tabitha Hodge.

A post shared by SJP (@sarahjessicaparker) on

Rebecca Romijn og Jerry O’Connell

Það voru gleðileg jólin árið 2008 hjá leikarahjónunum. Þau eignuðust tvíburasysturnar Dolly Rebecca-Rose og Charlie Tamara-Tulip þann 28. desember það ár.

Neil Patrick Harris og David Burtka

Leikararnir tilkynntu það þann 14. ágúst árið 2010 að þeir ættu von á tvíburum með hjálp staðgöngumóður. Sonur þeirra Gideon Scott og dóttir þeirra Harper Grace komu í heiminn í október sama ár.

A post shared by Neil Patrick Harris (@nph) on

Mariah Carey og Nick Cannon

Söngkonan og spéfuglinn eignuðust tvíburana Moroccan og Monroe þann 30. apríl árið 2011, en Mariah og Nick skildu þremur árum síðar.

A post shared by Mariah Carey (@mariahcarey) on

Angelina Jolie og Brad Pitt

Leikkonan staðfesti það á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí árið 2008 að hún ætti von á tvíburum. Það var svo þann 12. júlí það ár að sonurinn Knox Léon og dóttirin Vivienne Marcheline komu í heiminn. Bættust tvíburarnir í stóran barnahóp, en foreldrarnir skildu árið 2016.

Jennifer Lopez og Marc Anthony

Tónlistarhjónin eignuðust soninn Maximilian David og dótturina Emme Maribel í New York þann 22. febrúar árið 2008. Jennifer og Marc skildu þremur árum síðar.

A post shared by Jennifer Lopez (@jlo) on

Eurovision-stjarna gefur út sumarsmell

Eurovision-stjarnan María Ólafs er búin að gefa út nýtt lag sem heitir Hækka í botn. María er líklegast þekktust fyrir að vera fulltrúi Íslands í Eurovision árið 2015, en hún flutti lagið Unbroken í Vín og komst ekki upp úr undanúrslitum.

Lagið er heldur betur hressandi stuðlag, svokallaður sumarsmellur, en lítið hefur farið fyrir Maríu síðustu misseri.

Það eru sannkallaðar Eurovision-kanónur sem standa á bak við lagið Hækka í botn, en höfundar þess eru Sveinn Rúnar Sigurðsson og Valgeir Magnússon, oft þekktur sem Valli Pipar, en þeir tveir sömdu lagið Golddigger fyrir Söngvakeppnina í ár sem Aron Hannes flutti. Hann laut hins vegar í lægra haldi fyrir laginu Heim, eða Our Choice, sem flutt var af Ara Ólafssyni en um trommuleik í því atriði sá Gunnar Leó Pálsson, kærasti fyrrnefndar Maríu Ólafs.

Hér fyrir neðan má hlusta á þennan nýja smell frá Maríu:

Mynd / Jónatan Grétarsson

Veruleiki barna annar en áður

Berglind Brynjólfsdóttir, sálfræðingur hjá Sálstofunni, veit meira um kvíða barna og ungmenna en flestir landsmenn.

Starf Berglindar felst fyrst og fremst í greiningu og meðferð á fjölbreyttum vanda og frávikum í hegðun og líðan barna en einnig í ráðgjöf til foreldra og fagaðila. Hún segir meirihluta vinnu sinnar snúast um kvíða í einhverri mynd, þar sem kvíði barna fari vaxandi og snerti flest mál með einhverjum hætti. Berglind hefur áralanga reynslu af ráðgjöf og hefur haldið fjölmörg vel sótt námskeið og fyrirlestra tengda málefnum barna og unglinga. Hún segir námskeiðin og kvíðavinnuna almennt fyrst og fremst ganga út á fræðslu. „Að vita hvað maður er að glíma við og af hverju, er jafnmikilvægt og að vita hvernig er svo hægt að takast á við vandann. Þá er líka mikilvægt fyrir foreldra og börn að vita hvað þarf að forðast að gera og hvað ekki.Ég held að flestir sálfræðingar sem hafa haldið námskeið eða fyrirlestur um kvíða séu með fullt út úr dyrum.  Maður á alltaf von á að koma að hálftómu húsi einhvern tíma og að fólk sé búið að heyra nóg um kvíða barna en það virðist að minnsta kosti ekki vera komið að því ennþá.“

Kvíði er eðlileg tilfinning 

Berglind segir kvíða hafa margar og ólíkar birtingarmyndir. „Helstu einkenni hans eru ýmis konar áhyggjur, feimni gagnvart fólki og /eða aðstæðum, hræðsla gagnvart ýmiss konar aðstæðum og þrálátar hugsanir. Kvíða fylgja gjarnan ýmis líkamleg einkenni, s.s. hraður hjartsláttur, magaverkur eða hröð öndun. Kvíðin börn og ungmenni forðast gjarnan aðstæður sem valda þeim kvíða og ef þau þurfa að fara í slíkar aðstæður reyna þau yfirleitt að komast úr þeim eins fljótt og þau geta og líður þá oft eins og þau hafi rétt sloppið við eitthvað sem er upplifað mjög hættulegt. Þannig getur myndast vítahringur sem vindur oft upp á sig ef ekkert er að gert.“

Kvíði er í grunninn eðlileg tilfinning sem allir finna fyrir einhvern tíma og er okkur nauðsynlegur. Hann verður hins vegar að vanda þegar hann er farinn að birtast of oft, við aðstæður sem eru ekki hættulegar og er farinn að trufla barn/ungmenni í sínu daglega lífi og farinn að koma í veg fyrir að það taki þátt og/eða njóti þess sem það tekur sér fyrir hendur.“

Veruleiki barna annar en áður

Kvíði er nokkuð algengur að sögn Berglindar, en hún segir mörg börn glíma við einhver einkenni kvíða í lengri eða styttri tíma. „Eins og ég segi, þá kemur einhvers konar kvíði inn í meirihluta mála sem við veitum meðferð við á stofu. Stundum erum við fljót að laga það sem truflar, stundum tekur það lengri tíma. Veruleiki barna og unglinga er annar en hann var og felur í sér aðrar áskoranir og verkefni en þegar við vorum ung. Umræða um tilfinningar og líðan er án nokkurs vafa opnari en hún var og algengara að fólk ræði almennt þau mál við börnin sín. Á hinn bóginn er auðvelt að falla í þá gryfju að vilja að börnunum okkar líði aldrei illa, sem er auðvitað óraunhæf krafa og getur leitt til þess að venjuleg líðan og viðbrögð eru orðin að vanda í huga foreldra.“

Mikilvægast að afla sér upplýsinga

Aðspurð um ráð fyrir foreldra sem grunar að barnið sitt gæti þjáðst af kvíða, segir Berglind mikilvægast að afla sér upplýsinga og fræðslu. „Algengustu hindranir foreldra sem ég rekst á eru tvenns konar; að átta sig ekki á hvar/hvenær kvíði er farinn að trufla og leyfa barni að „sleppa“ við aðstæður sem geta undið upp á sig. Hins vegar að ætla alls ekki að leyfa kvíða að stjórna og krefjast því of mikils af barninu sem getur líka viðhaldið vandanum og gert hlutina verri. Það er því mikilvægt að afla sér upplýsinga um eðli kvíða og fá ráð hjá fagfólki ef einföld inngrip duga ekki til“ segir Berglind að lokum.

Lesið umfjöllunina í heild sinni í 15.tölublaði Vikunnar.

„Ég lofa þér að ég mun elska þig og vernda“

Stórleikarinn Dwayne “The Rock” Johnson eignaðist sitt annað barn með kærustu sinni Lauren Hashian í gær. Dwayne tilkynnti þetta á Instagram og deildi um leið yndislegri mynd af nýfæddri stúlkunni, sem fengið hefur nafnið Tiana Gia Johnson.

Með myndinni birtir Dwayne hjartnæm skilaboð.

„Hamingjusamur og stoltur að færa heiminum aðra sterka stúlku. Tiana Gia Johnson kom í heiminn eins og náttúruafl og móðirin fæddi hana eins og rokkstjarna,“ skrifar Dwayne. Hann bætir við að hann beri ómælda virðingu fyrir konum um heim allan.

A post shared by therock (@therock) on

„Ég var alinn upp og umkringdur sterkum, ástríkum konum allt mitt líf, en eftir að hafa tekið þátt í fæðingu Tiu er erfitt fyrir mig að lýsa þeirri ást, virðingu og aðdáun sem ég ber til Lauren Hashian og allra mæðra og kvenna þarna úti.“

Þá gefur leikarinn verðandi feðrum mikilvæg ráð.

„Það er mikilvægt að ná sambandi við konu sína þegar hún er að fæða, að styðja hana eins mikið og hægt er, haldast í hendur, halda í fótleggi, gera hvað sem þú getur. En ef þú vilt virkilega skilja kraftmiklustu og frumstæðustu stundu sem lífið hefur upp á að bjóða – horfðu á barnið þitt fæðast. Það breytir lífinu og sú virðing og aðdáun sem þú berð til konu verður takmarkalaus.“

Þetta er þriðja dóttir Dwayne en fyrir átti hann hina tveggja ára Jasmine Lia með Lauren og hina sextán ára gömlu Simone Alexandra úr fyrra hjónabandi. Hann segir að Tiana litla fái nákvæmlega sömu meðferð og hinar tvær stúlkurnar – nóg af ást og stuðningi.

„Ég lofa þér að ég mun elska þig og vernda, leiðbeina þér og láta þig hlæja restina af lífinu mínu. Brjálaði pabbi þinn ber ábyrgð á mörgu og ber ýmsa hatta í þessum stóra heimi, en að vera faðir þinn verður alltaf sá hattur sem ég er stoltastur af því að bera.“

Sláandi lík Díönu prinsessu í rauðum kjól

Kate Middleton, hertogynjan af Cambridge, og Vilhjálmur prins eignuðust sitt þriðja barn, lítinn snáða, á St Mary’s-sjúkrahúsinu í London í gærmorgun.

Kate og Vilhjálmur yfirgáfu sjúkrahúsið síðdegis í gær og frumsýndu um leið nýjustu viðbótina við konunglegu fjölskylduna.

Kate ljómaði er hún heilsaði blaðamönnum, ljósmyndurum og aðdáendum fyrir utan sjúkrahúsið og klæddist eldrauðum kjól frá Jenny Packham með hvítum blúndukraga. Við hann var hún í ljósum skóm frá Gianvito Rossi. Hár og förðun hennar var óaðfinnanleg, þökk sé stílista hennar Natasha Archer sem var að sjálfsögðu á staðnum.

Margir hafa bent á að Kate hafi verið sláandi lík Díönu prinsessu í fatavali, en prinsessan heitin klæddist rauðri dragt þegar hún gekk út af fæðingardeildinni með Harry prins árið 1984.

Þess má geta að Kate klæddist líka kjól úr smiðju Jenny Packham þegar hún frumsýndi hin tvö börnin sín; Georg prins árið 2013 og Charlotte prinsessu árið 2015. Þeir voru hins vegar báðir ljósir, en í þetta sinn ákvað hún að kynna heiminn fyrir nýjasta prinsinum í sterkum lit sem tekið er eftir.

Þetta velja Íslendingar helst á pítsu

||
||

Við sögðum frá því í gær að Bandaríkjamenn velja helst pepperoni á pítsur, samkvæmt gögnum frá heimsendingarþjónustunni Caviar. Í öðru sæti á listanum voru pylsur og í því þriðja hvítlaukur.

Við ákváðum því að spyrja Önnu Fríðu Gísladóttur, markaðsstjóra Dominos á Íslandi, hver eftirlætisálegg Íslendinga væru þegar þeir panta sér pítsu. Ótrúlegt en satt, þá trónir pepperoni líka á toppi þess lista. Í frétt úr gögnum Caviar furðuðum við okkur á því að skinka næði ekki á blað, en hún er í öðru sæti á listanum frá Dominos. Það er svo rjómaosturinn sem vermir þriðja sætið.

Hér eru tíu vinsælustu áleggin á pítsur Íslendinga samkvæmt gögnum frá Dominos:

1. Pepperoni
2. Skinka
3. Rjómaostur
4. Piparostur
5. Beikon kurl
6. Sveppir
7. Nautahakk
8. Laukur
9. Ananas
10. Jalapeno

Heimurinn elskar pepperoni á pítsur.

Við settum einnig fram mjög óvísindalega könnun í hópnum Matartips! á Facebook og spurðum einfaldlega hvert eftirlætis álegg tipsara væri. Við fengum fjöldan allan af svörum og niðurstaðan er að meðlimir hópsins eru sammála fjöldanum og setja pepperoni í efsta sæti. Í öðru sæti er ananas, sem ætti að gleðja forseta vor eða hitt þó heldur, og fast á hæla ananas eru sveppir.

Hér kemur listi Matartips-ara yfir eftirlætisálegg:

1. Pepperoni
2. Ananas
3. Sveppir
4. Skinka
5. Beikon
6. Rjómaostur
7. Bananar
8. Laukur
9. Jalapeno
10. Piparostur

Annað sem var nefnt gott á pítsur voru til að mynda döðlur, kjúklingur, rækjur, gráðostur, svartur pipar, ólívur, paprika, svart Doritos-snakk, parmesan-ostur og hráskinka.

Smekkur manna er misjafnur þegar kemur að áleggi á pítsu.

Fyllti eldhúsið af keramík

Áskorun að fara út fyrir þægindarammann.

Hera Guðmundsdóttir hönnuður tók þátt í HönnunarMars 2018 með sýningunni Souvenir/Minning í Geysi Heima. Hún starfar bæði hérlendis og í Frakklandi og nafn hönnunar hennar, Atelier Dottir, tengir þessa tvo menningarheima.

Hera Guðmundsdóttir er konan á bakvið hönnunina Atelier Dottir og starfar bæði í París og á Íslandi.

„Sýningin mín á HönnunarMars 2018 er hluti af rannsóknarvinnu sem ég byrjaði á fyrir næstum ári síðan. Verkefnið er enn í mótun en mér fannst áhugavert að sýna verk sem er enn þá á útfærslustigi,“ úrskýrir Hera. „Rannsóknin snýr að sambandinu á milli lyktar og minnis eða hvernig við tengjum ákveðna lykt við stað og stund. Ég notast við ilmkjarnaolíur sem ég hef blandað til að draga fram ákveðnar minningar, mínar eigin og annarra, en ég dreypi svo þessum olíum yfir litla skúlptúra úr steinleir sem dregur ilminn í sig og gefur jafnframt frá sér. Verkefnið er mun nær mér en það sem ég hef gert hingað til en í því er einmitt mikil áskorun, að fara út fyrir þægindarammann og sjá hvað gerist.“

Flakkar milli miðla
Hera lærði fatahönnun í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist 2012 en hefur á síðustu árum færst yfir í önnur listform. Hún er líklega þekktust fyrir veggspjöldin sem hafa verið í sölu og nú síðast bættist keramíkið við.

„Ætli það sem ég geri sé ekki á mörkum hönnunar og listar. Mér finnst mjög áhugavert allt sem að sameinar notagildi og fagurfræði; hlutirnir sem við umkringjum okkur með og fegra umhverfi okkar. Ég flakka á milli miðla en hingað til hef ég mest unnið með collage og ljósmyndir sem verða svo að veggspjöldunum sem Atelier Dottir er þekkt fyrir. Nýjasti miðillinn er hins vegar keramík sem ég byrjaði að vinna með síðasta haust. Mér finnst engin ástæða til að einskorða sig við einn miðil eða eina ákveðna tækni, það sem vekur áhuga hverju sinni er alltaf vert að skoða.

Það var ekki endilega meðvituð ákvörðun að hverfa frá fatahönnun. Mig langaði að breyta til og lét eina spurningu ráða ferðinni: „Hvað langar þig að gera alla daga, alltaf?“ Það sem ég komst að er að ég þrífst best þegar ég vinn að ólíkum verkefnum, þegar engir tveir dagar eru eins. Ég er ekki viss um að ég hafi sagt skilið við fatahönnun fyrir fullt og allt en í augnablikinu finn ég mig betur innan listarinnar og annarra sviða hönnunar. Allt sem ég nýti mér í dag við rannsóknar- og hugmyndavinnu lærði ég í náminu. Ég sé það alltaf betur og betur hversu margar og ólíkar dyr hönnunarnám getur opnað. Námið er í raun upphafspunktur rannsóknar sem svo teygir sig inn á önnur og ólík svið.“

Í nýjustu hönnun sinni dreypir Herar ilmkjarnaolíum yfir litla skúlptúra úr steinleir með það að markmiði að draga fram minningar.

Kynntist ástinni í París
List hefur alltaf skipt Heru miklu máli og hún hefur alla tíð verið umkringd list bæði heima hjá sér og hjá afa sínum og ömmu. „Ég veit ekki hvernig áhuginn kviknaði fyrir alvöru, ætli hann hafi ekki bara alltaf verið þarna en ég held að ég hafi lært snemma að list væri sjálfsögð og nauðsynleg. Ég er fædd í Reykjavík og alin upp við Skólavörðuholtið. Foreldrar mínir fluttu í Garðabæ þegar ég var unglingur og búa þar enn en mér hefur alltaf fundist ég vera miklu meiri Reykvíkingur en nokkuð annað. Ég kynntist manninum mínum í París en við erum búin að vera saman í tæp fimm ár. Hann er einstaklega skilningsríkur og þarf oft að sýna mikla þolinmæði þegar ég er í miðju verkefni. Ég lagði til dæmis undir mig eldhúsið í desember fyrir keramíkið og það var varla hægt að sjóða vatn þar fyrir vösum og klumpum af steinleir. Foreldrar mínir og afi og amma hafa líka sýnt mér mikinn stuðning, alveg síðan í náminu, voru alltaf í klappliðinu og alltaf til í skutl og reddingar á síðustu stundu.“

„Það hefur milka þýðingu fyrir mig að sýna á Íslandi. Ég sæki mér orku í hvert skipti sem ég kem heim til Íslands og það eru algjör forréttindi að geta flakkað svona á milli og sinnt verkefnum á báðum stöðum.“

Hera flutti til Frakklands haustið 2012 til að vera í starfsnámi í þrjá mánuði. Síðan eru liðin sex ár. „Frakkland og þá sérstaklega París er og verður draumastaður fyrir alla sem tengjast list eða hönnun, sagan og söfnin eru næg ástæða til að setjast þar að. Síðan er maðurinn minn auðvitað er franskur. Nafnið sem ég hanna undir, Atelier Dottir, tengir saman löndin mín tvö og vísar í þetta flakk á milli Parísar og Reykjavíkur. Svo spilaði líka inn í að „h“ er ekki borið fram í frönsku og ég hef enn þá ekki hitt þann Frakka sem getur borið rétt fram föðurnafnið mitt.“

Hera hélt sýningu í Geysi heima á HönnunarMars.

Sækir orku til Íslands
Hera hefur haldið nokkrar sýningar. Í Reykjavík hefur hún sýnt hjá Norr11, The Coocoo’s nest og Geysi Heima. „Allt mjög ólíkar sýningar sem eiga það sameiginlegt að hafa verið unnar í samstarfi við frábært fólk og haldnar í fallegum rýmum svo það er ómögulegt að gera upp á milli þeirra. Í desember síðastliðnum tók ég í fyrsta skipti þátt í samsýningu hönnuða í París en út frá þeirri sýningu hófst nýtt samstarf sem verður kynnt með vorinu. Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að sýna á Íslandi. Ég sæki mér orku í hvert skipti sem ég kem heim til Íslands og það eru algjör forréttindi að geta flakkað svona á milli og sinnt verkefnum á báðum stöðum. Það skiptir mig miklu máli að halda í þessa tengingu.“

Næsta verkefni Heru er lína af handgerðum keramíkvösum sem hún gerir fyrir blómasalann Louis-Géraud Castor sem sér meðal annars um blómaskreytingar fyrir búðir A.P.C. og Lemaire og Picasso-safnið í París. „Við byrjuðum á hugmyndavinnunni í desember og ætlum okkur að kynna vasana í apríl en fyrsta frumgerðin var hluti af sýningunni minni á HönnunarMars,“ segir Hera að lokum. Hera er á Facebook og Instagram undir notandanafninu Atelier Dottir. Veggspjöldin og gjafakortin fást í Geysi Heima og Akkúrat.

Viðtalið birtist í 12. tbl. Vikunnar 2018. 

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

„Svolítill hippi í mér“

Eyrún Birna brúðarkjólahönnuður.

Hver kjóll er einstakur.

Tilviljun réði því að Eyrún Birna Jónsdóttir sneri sér að gerð brúðarkjóla en hún sérhæfir sig í bóhemískum, flæðandi, þægilegum og lágstemdum kjólum.

„Þið fáið engar „rjómatertur“ hjá mér,“ svarar Eyrún Birna hlæjandi þegar hún er spurð út í sérstöðu brúðarkjólanna sinna. „Ég hef alltaf heillast af hvers kyns blúndum og hekli, ætli ég sé ekki svolítill hippi í mér. Við hönnunina hef ég í huga að kjólarnir séu áhugaverðir, úr fallegum efnum og að sniðin séu klæðileg. Ég legg líka áherslu á að kjólarnir séu þægilegir því mér finnst mikilvægt að konum líði sem best á brúðkaupsdaginn. Innblástur fæ ég alls staðar að, er alltaf með augun opin fyrir fallegum sniðum og efnum. Ég sérsauma kjólana á hverja og eina brúði. Kjóllinn þarf að passa fullkomlega og draga fram það besta hjá hverri konu. Hver kjóll er því einstakur og þannig á það auðvitað að vera þegar brúðarkjóll er annars vegar. Ég er því ekki með neina kjóla á lager en er þó með nokkra kjóla til sýnis sem hægt er að fá að skoða og máta.“

Eyrún Birna hannar brúðarkjóla í bóhemískum, flæðandi og þægilegum stíl.

Lengra viðtal og fleiri myndir af brúðarkjólum má finna í brúðarblaði Vikunnar, sem verður fáanlegt í verslunum í allt sumar.

Texti: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir af brúðarkjólum: Ruth Ásgeirsdóttir/Ljósmyndir og list
Fyrirsæta: Gabríela Ósk Vignisdóttir
Mynd af Eyrúnu Birnu: Aldís Pálsdóttir

Brúðarblað Vikunnar verður fáanlegt í verslunum í allt sumar.

Vilja efla áhuga á matarmenningu

Matarauður Íslands og Hótel- og matvælaskólinn efna til samkeppni meðal almennings um þjóðarrétti í því skyni að heiðra og fagna margbreytilegri matarmenningu Íslendinga.

Tilgangurinn er að fá hugmyndir um fjölbreytta rétti úr íslensku hráefni sem hægt er að njóta vítt og breitt um landið og efla áhuga almennings á matarmenningu, auka þekkingu á íslensku hráefni og mikilvægi nærsamfélagsneyslu. Réttina má útfæra sem létta máltíð eða aðalmáltíð og geta þeir verið bæði úr jurta- eða dýraríkinu.

Valdir verða 15 réttir úr innsendum uppskriftum sem nemendur og kennarar við Hótel- og matvælaskólann útfæra og elda fyrir dómnefnd, en veitt verða verðlaun fyrir fimm rétti. Dómnefndin verður skipuð bæði fagfólki og skemmtilegu áhugafólki og almenningur getur ennfremur kosið uppáhaldsréttinn sinn á Netinu, sem hefur áhrif á úrslitin. Sigurréttunum verður fylgt eftir til ákveðinna veitingastaða um land allt  þar sem þeir verða í boði.

Öllum er frjálst að senda inn uppskriftir en skilafrestur er til 5. maí.

Nánar á https://mataraudur.is/thjodlegir-rettir

Hægt er að fylgjast með verkefninu á instagram undir #þjóðlegirréttir

Fjallað verður ítarlegar um samkeppnina í 6. tölublaði Gestgjafans.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Margir kveðja bensínið

Líklegast er að íslenskir bílakaupendur fái sér tengitvinnbíl eða hreinan rafbíl næst þegar þeir kaupa sér bíl. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í norrænni könnun um áform fólks í bílakaupum og Orka náttúrunnar (ON) hefur tekið saman um stöðu rafbílamála á Íslandi.

Í könnuninni kemur fram að rétt rúmlega 20% kaupenda er í þessum hugleiðingum. Fleiri eða tæp 25% þátttakenda í könnuninni voru í þessum hugleiðingum í Noregi. Talsvert færri eru að velta því fyrir sér annars staðar á Norðurlöndunum.

Þegar þátttakendur voru spurðir að því af hverju þeir ætli ekki að kaupa rafbíl svöruðu 43% á Íslandi að þá skorti drægni. Flestir sögðu líka það sama í Noregi. Á hinum Norðurlöndunum var helsta skýringin sú að þeir þykja of dýrir.

Opnar sig um móðurhlutverkið: „Stundum missi ég vitið“

Charlize Theron stars as Marlo in Jason Reitman's TULLY

Leikkonan Charlize Theron er einstæð móðir sonarins Jackson, sex ára, og dótturinnar August, tveggja ára. Hún opnaði sig um móðurhlutverkið í samtali við Us Weekly þegar nýjasta mynd hennar, Tully, var frumsýnd í síðustu viku.

„Það er enginn dýrðarljómi í barnauppeldi. Þar er mikil þrautseigja fólgin í því,“ sagði Charlize á rauða dreglinum og bætti við að hún treysti mikið á ráð frá móður sinni, Gerdu Maritz.

„Ég held að öll ráð frá móður minni hafi verið mjög góð. Hún segir stundum: Veistu, á morgun er nýr dagur. Þetta eru ekki endalok heimsins,“ sagði Charlize og hélt áfram:

„Stundum missi ég vitið, sérstaklega í bílnum þegar við erum í langferð eða eitthvað. Þá horfir hún á mig og hlær og segir: Þetta er bara augnablik. Það líður hjá. Þetta líður hjá.“

Þráði að vera móðir

Bæði börn Charlize eru ættleidd og hefur hún talað mjög opinskátt um það síðan hún ættleiddi Jackson árið 2012.

„Ég þráði að vera móðir og ég lagði allt mitt í það. Það er ekki auðvelt að ættleiða, jafnvel þegar maður er stjarna,“ sagði leikkonan í viðtali við tímaritið Elle Canada árið 2016. Þá sagðist hún einnig ekki velta sér upp úr því að vera einstæð móðir, þó það hafi ekki verið draumurinn.

„Engan dreymir um að vera einstætt foreldri, en ég lærði fyrir löngu síðan að það er ekki hægt að stjórna öllu í lífinu. Ég aðlagaðist aðstæðunum því ég er jarðbundin manneskja.“

Þetta eru vinsælustu áleggin á pítsu

|
|

Fyrirtækið Caviar, sem sérhæfir sig í heimsendingu á mat sem pantaður er á netinu, er búið að taka saman gögn frá rúmlega tuttugu borgum í Bandaríkjunum og greina hvaða álegg á pítsu eru vinsælust.

Ostur og tómatur trónir á toppi listans, en við ætlum að sleppa þeim áleggjum af topplistanum þar sem ekki er um aukaost að ræða né tómat sem grænmeti, heldur tómatsósuna sem er á flestum pítsum víða um heim.

Hér eru því átta vinsælustu áleggin samkvæmt gögnum frá Caviar:

1. Pepperoni
2. Pylsa
3. Hvítlaukur
4. Ólífur
5. Sveppir
6. Laukur
7. Kjúklingur
8. Oregano

Pítsur eru jafnmismunandi og þær eru margar.

Athygli vekur að skinku er hvergi að finna, en líklegt er að það álegg myndi skora nokkuð hátt ef samskonar könnun yrði gerð hér á landi. Áhugavert er að bera þennan lista frá Caviar saman við könnun sem Foodler gerði árið 2013, en þá voru niðurstöðurnar eilítið öðruvísi, þó pepperoni hafi samt sem áður borið sigur úr býtum.

1. Pepperoni
2. Sveppir
3. Laukur
4. Pylsa
5. Beikon
6. Aukaostur
7. Svartar ólífur
8. Græn paprika
9. Ananas
10. Spínat

Kristín fór úr 127 kílóum í 88: „Byrjaðu í dag, ekki á morgun“

|||||
|||||

Kristín María Stefánsdóttir er þrítug, tveggja barna móðir sem býr á Akureyri. Kristín hefur átt við bakvandamál að stríða síðan hún fór í fyrstu myndatökuna á baki þegar hún var fimmtán ára gömul. Hún eignaðist son árið 2006 og eftir meðgönguna hríðversnaði hún í bakinu og átti erfitt með að hreyfa sig, eins og hún var vön að gera.

„Hægt og rólega komu kílóin á mig. Með árunum og miklu brasi alltaf með bakið á mér, án þess að fá svör um hvað amaði að, versnaði það og einnig andlega heilsan,“ segir Kristín í samtali við Mannlíf. Eftir langa þrautagöngu ákvað Kristín að snúa vörn í sókn árið 2015.

Kristín var ekki aðeins þjökuð af verkjum heldur einnig illa stödd andlega.

„Ég hafði tekið þá stóru ákvörðun að taka mér frí frá vinnu og fara í það verkefni að finna út hvað væri að gerast í líkamanum mínum, enda löngu komin yfir hundrað kíló og gat á tímum ekki gengið fyrir verkjum,“ segir Kristín. Hennar fyrsta verk var að leggjast inn á bakdeildina á spítalanum á Stykkishólmi þar sem hún dvaldi í þrjár vikur. Þar fékk hún sprautur í bakið sem gerðu ekki mikið til að lina sársauka hennar.

„Þannig að ég fór heim eftir þennan tíma eins og ég var áður en ég fór, en auðvitað búin að læra margt. Eftir að ég kom heim var ég í sjúkraþjálfun og beið eftir svari að komast inn hjá Virk og byrja í endurhæfingu, þar sem ég þurfti virkilega á þvi að halda. Ég fékk síðan svar í maí um að ég gæti byrjað hjá þeim í ágúst,“ segir Kristín. Í millitíðinni fékk hún símtal frá Kristnesi, endurhæfingar- og öldrunarlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri, um að hún væri komin inní svokallaðan O-hóp fyrir of þungt fólk.

„Ég auðvitað stökk á það tækifæri. Ég hugsaði ekkert út í það hvort ég væri í raun tilbúin fyrir þetta ferli þegar ég labbaði inn á Kristnes í júní og var þar í 4 vikur á virkum dögum. En ég mætti og kynntist yndilslegu fólki, lærði helling en nýtti mér það ekki. Þegar ég hugsa til baka núna, þá gerði ég ekki annað en að kvarta og leið bara alls ekkert vel, ég var bara ekkert tilbúin. Á meðan á öllu þessu stóð, hélt ég áfram að versna í líkamanum.“

Fóstrið blómstraði ekki í kviðnum

Kristín fékk óvæntar fréttir í júlí sama ár um að hún væri með barni. Fréttir sem glöddu hana mjög.

„Þegar ég var komin 12 vikur, fékk ég að vita að það sæist ekki það sem ætti að sjást á tólftu viku og að öllum líkindum væri ekkert búið að gerast lengra en áttundu vika. Ég tók þetta mjög nærri mér,“ segir Kristín og bætir við að hún hafi strax vitað af hverju fóstrið blómstraði ekki í kvið hennar.

„Líkaminn minn var einfaldlega orðinn of veikur til þess að halda því á lífi. Eftir þetta versnaði allt mjög mikið líkamlega. Ég var flutt með sjúkrabíl frá sjúkraþjálfaranum mínum þar sem taugaverkir og annað var orðið það slæmt að ég gat bara ekkert staðið upp af bekknum,“ segir Kristín sem var orðin langþreytt á að fá ekki að vita nákvæmlega hvað amaði að bakinu.

„Kannski það leiðinlegasta við þetta er líka að svörin við bakverkjunum var alltaf það að ég væri orðin of þung og núna þyfti ég bara að fara heim og gera eitthvað í mínum málum. Ég veit ekki hvað ég var búin að fara oft niður á sjúkrahús og bara send heim með lyf og þá setningu að ég þyrfti að leggja af. Sem er ekki rétt leið að hjarta og hug manneskju sem er vel í ofþyngd. Sú manneskja veit það vel og ef það væri svo auðvelt að fara bara heim og leggja af, hugsa ég að það væru ekki margir í ofþyngd.“

Þrjátíu ára og 127 kíló

Kristín var þyngst 127 kíló.

Í kjölfarið þurfti Kristín að ganga við hækjur í tvo mánuði vegna verkja og fresta endurhæfingu hjá Virk þar sem hún var ekki fær um að sinna henni. Í staðinn byrjaði hún í sundleikfimi með eldri borgurum í Akureyrarlaug og fór að hitta sálfræðing hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands reglulega. Það var þá sem Kristín gerði sér grein fyrir að hún þyrfti ekki síður að taka sig í gegn andlega.

„Ég áttaði mig heldur betur á því að ég þurfti ekki bara að fara í endurhæfingu með líkamann á mér heldur hausinn á mér líka. Þarna var ég orðin 127 kíló, ekki orðin þrítug. Það var ekkert bara bakið. Það kannski byrjaði þar, en það besta sem ég gerði í þessu ferli var að byrja hjá sálfræðingi og fara að hugsa um mín mál. Þarna voru gömul og ný mál sem ég þurfti, og átti bara eftir, að vinna úr og á þessum þremur árum sem ég hef verið að vinna í mínum andlegu málum hefur heldur betur margt breyst,“ segir Kristín, sem hélt áfram að sækja sálfræðitíma og sundleikfimi og er þakklát fyrir þá hjálp sem hún hefur fengið.

„Fólkið hjá Kristnesi og Starfsendurhæfingu Norðurlands er allt yndislegt fólk og ég á þeim margt að þakka. Þarna hitti ég fólk sem loksins hlustaði og gerði ekki lítið úr mínum vandamálum.“

Versnaði í bakinu eftir aðra meðgöngu

Kristín gat ekki hreyft sig mikið fyrir utan sundtímana, en ákvað í janúar árið 2016 að taka mataræði sitt í gegn.

„Ég tók þrjá mánuði sykur-, hveiti- og aukaefnalausa,“ segir Kristín og sá strax mikinn mun. „Ég missti 13 kíló á þessum þremur mánuðum. Ég losnaði endanlega við hækjurnar og var farin að labba niður í sundlaug og bæði fara í sundleikfimi og gera sjálf æfingar í lauginni. Markmiðið mitt daglega var að labba tvö til þrjú þúsund skref. Hægt og rólega urðu þessi skref fleiri og fleiri. Í lokin á þessum þremur mánuðum var mikil breyting á mér,“ segir hún og bætir við að eftir þetta tímabil hafi hún hætt á þessu mataræði.

„Ég gat það bara ekki lengur, en sá heldur betur að með réttu mataræði getur svo mikið gerst.“

Kristín var búin að losa sig við sautján kíló í apríl sama ár, stundaði enn sundleikfimi og gekk um sex þúsund skref á dag. Hún byrjaði í prógrammi hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands og sá alltaf meiri árangur andlega og líkamlega. Þá varð hún ólétt af sínu öðru barni.

„Ég var mjög hrædd um bakið á mér en ég gat bara ekki annað en fagnað þessu litla heilbrigða lífi. Meðgangan gekk bara ágætlega likamlega og ég hætti ekkert að hugsa um mataræðið þrátt fyrir mikla ógleði og annað fyrst til að byrja með. Ég fór í göngutúra og var í meðgöngusundi,“ segir Kristín.

Það var svo í janúar í fyrra sem Kristín fékk litla stúlku í hendurnar og þá kom smá bakslag í lífsstílinn sem hún hafði tileinkað sér.

„Ég versna meira í bakinu, en fann þó að ég jafnaði mig fyrr eftir bakslagið, þar sem líkaminn var orðinn sterkari en áður. En ég missti tökin pínulítið í mataræðinu, og vá hvað það var heldur betur fljótt að gerast. Ég áttaði mig fljótt á því hvað var að gerast hjá mér, enda komin með mikil andleg tæki og tól eftir sálfræðitímana og sneri þessu við. Þess vegna segi ég, andlegi þátturinn er risastór í öllu þessu.“

Ekkert sem heitir skyndilausnir

Kristín gjörbreytti um lífsstíl og blómstrar í dag.

Kirstín stundaði meðgöngusund í átta mánuði eftir að hún átti stúlkuna, gekk um allt með barnavagninn í hvaða veðri sem er og fór í sjúkraþjálfun. Hún segir að þarna hafi hún loks verið 100% tilbúin til að fara aldrei aftur í sama farið.

„Ég þurfti að minna mig á það á hverjum degi af hverju ég væri að þessu. Hausinn á manni á það til að vera það erfiðasta sem maður dílar við í svona ferli og þetta kostar blóð, svita og mörg tár. Það er ekkert sem kallast skyndilausnir í þessum málum. Það komu margir dagar þar sem bakið gafst upp og ég var rúmliggjandi, en þarna var ég búin að ákveða að þetta bak væri ekkert að fara verða það sem myndi láta mig gefast upp,“ segir Kristín, sem tók mataræðið heljartaki á þessu tímabili.

„Ég þurfti að endurskoða allt sem ég keypti, allt sem ég eldaði. Ég fann leiðir til að gera rétti hollari sem ég eldaði áður og eyddi miklum tíma í eldhúsinu bara til að finna út hvað mér fannst gott. Ég prófaði alltaf eitthvað nýtt. Ég las og tók næringarfræði í menntaskólanum á meðan ég var í endurhæfingu. Ég lærði að borða grænmeti. Já, lærði,“ segir Kristín og hlær. „Ég borðaði ekki mikið af því en í dag borða ég allt grænmeti. Það er svo ótrúlega mikið sem ég er búin að læra sem ég bara áttaði mig aldrei á.“

„Þetta er eilífðarverkefni“

Í kjölfarið fékk Kristín loksins svör um hvað amaði að bakinu.

„Það er komið mikið slit í neðstu tvo hryggjaliði og útbunganir á þremur stöðum. Ég reyndi aftur að fara í sprautur, en þær gerðu litið gagn eins og í fyrra skipti. Aðgerð hjá mér er möguleiki en ekki möguleiki inni á mínu heimili þar sem ég er með fimmtán mánaða gamalt barn, og bataferli eftir aðgerðina langt. Ég tók því ávörðun með mínum lækni að halda áfram mínu ferli og sjá hvert það kemur mér varðandi bakið. Ég get kannski ekki lagað þetta vandamál, en ég gat og get gert allt annað í líkamanum betra til þess að hjálpa mér við að díla við þetta ákveðna vandamál.“

Í dag er Kristín komin niður í 88 kíló, úr 127 kíló. Hún segir að þolinmæði og þrautsegja hafi verið lykillinn að velgengni hennar í þessari lífsstílsbreytingu.

Lífsgleðin skín úr þessari þrítugu konu.

„Ég fór loksins að nota það sem mér var kennt á öllum þessum stöðum sem ég hef verið á, nýta hverja mínútu sem ég hafði með öllum þessum fagaðilum sem voru þarna til þess að hjálpa mér. Markmiðið í upphafi var að léttast og fá svör við bakverkjunum, enda þurfti ég þess. En maður þarf að taka hausinn á sér með svo að maður sé tilbúinn fyrir þetta. Þetta er eilífðarverkefni ef maður ætlar að viðhalda sér. Þetta er erfitt, en ég er að gera þetta og ef ég get það, þá geta svo sannarlega aðrir það.“

Ekki bera þig saman við næsta mann

Hana dreymir um að hjálpa öðrum að lifa betra og heilsusamlegra lífi.

„Ég er búin að stunda bóklegt nám í gegnum þetta allt. Ég var búin að ákveða að læra læknaritarann og hef verið að stefna að því, en það er vinna sem bakið á mér kannski höndlar. En á þessum þremur árum hef ég fengið mikla trú á sjálfri mér og í dag langar mig að mennta mig í þá átt að geta hjálpað öðrum sem eru að ganga í gegnum þetta. Að kynnast fólki sem skilur mann, getur aukið mikinn skilning hjá manni,“ segir Kristín. En hvað vill hún segja við fólk sem er í sömu stöðu og hún var fyrir þremur árum síðan?

„Ekki gefast upp þó að ekkert gerist á vigtinni í einhvern tíma eða þú borðaðir óhollt og heldur að allt sé ónýtt. Það kemur alltaf dagur á eftir þessum degi og þá reynum við að gera betur. Þér þarf að líða vel og skilja að líkaminn er að ganga í gegnum miklar breytingar og styrkjast. Ef þú átt erfitt með hreyfingu, þá get ég sagt þér að á þessum tíma bjargaði sundleikfimi öllu hjá mér. Settu þér lítil markmið til að byrja með, gerðu girnilegu, hollu uppskriftina sem þú ert búin að ætla að gera lengi, labbaðu x mörg skref á dag og sigraðu sjálfan þig með því að bæta þig. Maður þarf alltaf að byrja á litlu hlutunum. Það ert þú sem þarft að gera þetta, taka þessar ákvarðanir fyrir þig, en nýttu þér hjálp frá fólkinu í kringum þig.

Ekki horfa á það sem næsta manneskja er að gera og bera þig saman við hana. Gerðu þitt eigið. Byrjaðu í dag, ekki á morgun.“

Þvílík breyting á þremur árum.

Myndir / Úr einkasafni

„Alltaf að móðga einhvern“

|
|

Finnst „eðlileg“ samskipti oft byggja á hræsni.

Dagur einhverfu var í upphafi mánaðarins og þetta árið er athyglinni beint að konum og stúlkum á einhverfurófi. Hélène Magnússon greindist með Asperger á fullorðinsaldri og átti fyrst erfitt með að viðurkenna það fyrir samferðafólki sínu. Greiningin umbreytti hins vegar lífi hennar og þegar hún horfir til baka sér hún æskuna í nýju ljósi.

Hélène segir að einhverfan hafi oft reynst henni styrkur, til dæmis í nýjasta afreki hennar – að koma eigin garni á markað.

Hélène er fædd og uppalin í Frakklandi og flutti talsvert á milli staða vegna vinnu föður síns, sem var fyrsta ástæðan sem hún fann fyrir því að hún eignaðist ekki vini. Árið 1995 hitti hún nokkra Íslendinga í partíi í París og fór í kjölfarið í frí til Íslands. „Mér leið strax eins og ég ætti heima hérna þannig að ég fór aftur til Frakklands til þess eins að segja upp vinnunni sem ég var ekki ánægð í og undirbúa flutninga til Íslands,“ segir Hélène sem vann sem lögmaður í Frakklandi á þessum tíma. Þremur mánuðum seinna var hún flutt til landsins og býr hér ásamt eiginmanni sínum og þremur dætrum. Hún var komin vel á fullorðinsár þegar hún var greind á einhverfurófinu með Asperger. „Maðurinn mínn heyrði í útvarpsþætti á BBC um konur í atvinnurekstri sem voru með Asperger og fannst þær svolítið líkar mér. Í gamni tók ég einhvers konar einhverfupróf á Netinu og skoraði hátt. Ég vissi lítið sem ekkert um Asperger á þessum tíma, fór að lesa mér til og fann margt sem var afar kunnuglegt.“

Í kjölfarið fór hún í greiningarferli og fékk formlega greiningu. Hún segir að það hafi bæði verið mikill léttir og frelsun en hún hafi einnig verið skelfingu lostin. „Líf mitt umbreyttist gjörsamlega, ég vissi ekki lengur hver ég var, á hvaða stað ég var í lífinu, hvað mér líkaði vel við og hvað ekki. Á sama tíma fékk ég ákveðna hugljómun og sá líf mitt í alveg nýju ljósi, ekki síst þegar ég horfði til baka.“

„Í gamni tók ég einhvers konar einhverfupróf á Netinu og skoraði hátt. Ég vissi lítið sem ekkert um Asperger á þessum tíma, fór að lesa mér til og fann margt sem var afar kunnuglegt.“

Hélène var hlédrægt barn, talaði lítið og mjög lágt. Hún var fyrirmyndarnemandi, átti aldrei í erfiðleikum með nám og efst í öllum greinum, þar með talið íþróttum. En hún átti fáar vinkonur, oftast eina í einu sem hún missti svo eftir ákveðinn tíma. „Ég slóst töluvert við strákana og stóð á mínu og þegar ég kom á unglingsárin átti ég alltaf kærasta þannig að ég upplifði mig ekki einmana eða utangarðs. Ég lærði að treysta eingöngu sjálfri mér og bera mig vel en flestir tóku því þannig að ég væri merkileg með mig og fyrirliti aðra. Ef einhver hefði spurt mig áður en ég fékk greininguna hvort ég hefði orðið fyrir einelti sem barn hefði svarið verið nei. Núna, eftir að ég greindist, er svarið hins vegar klárlega já sem birtist í útilokun. Fólki fannst ég svolítið skrítin og forðaðist samskipti við mig. Mér var til dæmis ekki boðið í afmæli og sá sjálf ekki ástæðu til að halda upp á afmælið mitt.“

Kemur út úr skápnum
Hélène segir að margt í hegðun hennar hér áður megi rekja til einhverfunnar og hún uppgötvi nýja hluti í þeim efnum daglega. „Ég var til dæmis alltaf að lenda í að móðga einhverja og geri það svo sem enn þá. Það hefði örugglega breytt ýmsu fyrir mig að greinast fyrr en þá væri ég allt önnur manneskja í dag. Ferðalagið mótar manneskjuna og ég vildi ekkert endilega breyta því.“

Hélène fannst erfitt fyrst að viðurkenna fyrir samferðafólki sínu að hún væri á einhverfurófi. „Til að byrja með sagði ég eingöngu mínum allra nánustu frá þessu og fólkinu sem ég vann með. Ég sagði síðan einni og einni manneskju sem ég kynntist frá greiningunni og fór smám saman að opna mig meira. Í dag lifi ég í sátt við sjálfa mig og hef verið að fá löngun til að verða sýnilegri, sem er meðal annars ástæðan fyrir því að ég samþykkti strax að koma í þetta viðtal. Í rauninni er ég að koma út úr skápnum og samsama mig vinum mínum í hinsegin samfélaginu og það hefur verið mjög hjálplegt að eiga samtöl við þá um þetta ferli. Ég hef alltaf verið opin með einhverfuna gagnvart dætrum mínum og miklar umræður skapast á milli okkar um þetta. Stundum er ég til dæmis ekki rétta manneskjan til að hjálpa þeim að vinna í málum sem koma upp á milli þeirra og vinkvennanna. En við erum frekar nánar og samband okkar er gott. Gagnvart maka hefur sambandið gengið upp og niður í gegnum tíðina eins og hjá öðrum en við höfum náð að finna gott jafnvægi og er sambandið okkar mun heilbrigðara núna.“

Ómögulegt að fylgja öllum félagslegum stöðlum
Hélène er í stuðningshópi með fullorðnum einhverfum konum hjá Einhverfusamtökunum og segir að það hjálpi sér mikið og minnki stress. Útivera og hreyfing gerir henni líka gott. „Aðalmálið hefur hins vegar verið að leyfa sjálfri mér að vera eins og ég er, án þess að líða illa yfir því. Ég hef orðið meira umburðarlyndi fyrir sjálfri mér, passa mig að yfirkeyra mig ekki og gefa mér meiri séns. Það getur verið yfirþyrmandi og þreytandi að reyna hvað eftir annað að vera „eðlilegur“ og veldur oft mestu streitunni. Þarna þarf að finna jafnvægi. Eftir samskipti við fólk þarf ég í kjölfarið að vera ein til að jafna mig. Áður leið mér illa, varð stressuð og uppgefin þegar ég var búin að vera innan um fólk í svolítinn tíma án þess að vita hvað olli. Í dag fer ég bara afsíðis í smástund þegar þetta gerist og tek þannig tillit til minna eigin þarfa. Ég skipulegg mig líka öðruvísi og reyni að vera ekki lengi í svoleiðis aðstæðum. Ég fer milliveginn, reyni að fylgja félagslegum stöðlum, þar sem ég kem því við, en það eru svo margir staðlar, eða blæbrigði, sem ég þekki hreinlega ekki og því er ómögulegt fyrir mig að fylgja þeim að öllu leyti. Einnig get ég ekki falið skoðanir mínar og segi fólki yfirleitt það sem mér finnst í raun og veru. Mér finnst „eðlileg“ samskipti oft byggja á hræsni og margir þannig félagslegir staðlar sem ég harðneita að sætta mig við. Annars hefur það líka hjálpað að hafa flutt til annars lands því það hefur oft gefið fólki skýringu á því að ég sé „skrítin“. Ef ég hef ekki skilið eitthvað eða brugðist við með óhefðbundnum hætti hefur fólk bara hugsað með sér að það sé vegna þess að ég sé útlendingur.“

„Ég fer milliveginn, reyni að fylgja félagslegum stöðlum, þar sem ég kem því við, en það eru svo margir staðlar, eða blæbrigði, sem ég þekki hreinlega ekki og því er ómögulegt fyrir mig að fylgja þeim að öllu leyti.“

Skapaði sér vinnu sem hentaði
Hélène er prjónahönnuður og rekur fyrirtækið Prjónakerling ehf. Hún hefur prjónað síðan hún var barn og það hjálpar henni að slaka á og ná tengingu við sjálfa sig. „Prjónaskapur er aðaláhugamál mitt og þó að ég hafi gert hann að atvinnu þá slaka ég á með prjónana mína. Ég vinn í fullu starfi sem hönnuður, rek mitt eigið fyrirtæki og er með tvo starfsmenn auk þess að vera í allskonar samvinnu. Ég sel prjónauppskriftir á vefsíðunni minni prjonakerling.is, hef skrifað bækur um íslenskt prjón og skipulagt göngu- og prjónaferðir á Íslandi í samvinnu við Íslenska fjallaleiðsögumenn síðan 2010. Einnig stend ég fyrir framleiðslu af mínu eigin garni: Love Story einbandi og Gilitrutt tvíbandi, afar fíngerðu og mjúkum prjónaböndum út hreinni íslenski lambsull. Það var mikið átak að koma þessu á markað alveg frá grunni, krafðist mikillar einbeitingar, ástríðu, þrjósku og elju. Ég er sannfærð um að einhverfan hefur verið mér styrkur í þessu ferli.

Í dag á ég virkilega gott líf, skapaði vinnuuhverfi sem hentar mér og á góða vini sem taka mér eins og ég er. Ég er meira að segja komin inn í vinkonuhóp, eða saumaklúbb, sem er öruggt skjól fyrir okkur allar.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ólafur Darri gerir það gott í Hollywood

Íslenski leikarinn verður áberandi á hvíta tjaldinu í ár.

Stiklur úr nýjustu kvikmynd leikarans Ólafs Darra Ólafssonar, The Meg, litu dagsins ljós nýverið og hafa á skömmum tíma fengið hvorki meira né minna en samtals nokkur milljón áhorf á Youtube. Ef marka má stikluna virðist hér vera á ferð æsispennandi skrímslamynd í ætt við Jaws þar sem hópur fólks hefur leit að ofvöxnum hákarli. Myndinni er leikstýrt af Jon Turtletaub, leikstjóra National Treasure-myndanna, og skartar stórstjörnunni Jasan Statham í aðalhlutverki. Ólafur Darri fer með hlutverk eins leitarmannanna í myndinni.

Fyrir utan The Meg eru fjórar nýjar Hollywood-myndir væntanlegar með íslenska leikaranum á árinu, þar á meðal framhald stórmyndarinnar Fantastic Beasts and Where to Find Them úr smiðju J.K. Rowling, höfundi bókanna um galdrastrákinn Harry Potter, og svo ný þáttasería með bresku leikkonunni Kate Beckinsale í aðalhlutverki. Því er óhætt að segja að Ólafur Darri hafi í nógu að snúast um þessar mundir.

Æskudýrkun, hégómi og klappstýrufjör

Margrét Erla Maack, fjöllistadís, kabarettmær og mamma Reykjavík Kabarett, sem er að undirbúa sumarsýningar, deilir með lesendum nokkrum sakbitnum sælum.

Death Becomes Her (1992)

Meryl Streep, Goldie Hawn og Bruce Willis í tiltölulega barnvænni hryllingsmynd um æskudýrkun og hégóma. Ég sá plakatið á vídeóleigu þar sem Goldie er með gat í maganum … og var ekki lítið spennt yfir því að sjá hana í fyrsta sinn. Og hún var stórkostleg. Ég horfði á hana aftur um daginn og ég held að það verði fastur liður núna. Hún eldist mjög vel og er orðin költ-mynd. Og það á víst að gera söngleik upp úr henni. Ekki leiðinlegt.

Bring it on (2000)

Ég var búin að gleyma þessari mynd en fékk fyrirspurn um daginn um að kenna klappstýrufjör í gæsapartíi, svo auðvitað varð ég að sökkva mér á kaf í hana, vinnunnar vegna. Hún eldist svona sæmilega en það er fjandi mikið stuð og kóreógrafía er geggjuð.

Working Girl (1988)

Undirfötin í sexí senunum fá mig til að veltast um í hláturs- og aulakasti. Annars er þetta bara virkilega góð og „empowering“ mynd sem ég fæ ekki nóg af.

Blossi/810551 (1997)

Við verðum bara að finna aðra plánetu til að halda partíinu gangandi. Þessi mynd var víst framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 1998.

The Cockettes (2002)

Þessi mynd er allt of góð til að vera á svona lista, en samt. Ég get horft endalaust á þessa heimildamynd um dragkabarettkommúnu í San Francisco á sjöunda áratugnum. Það verður fyndnara og fyndara með hverju áhorfi að engum ber saman um neinar tímasetningar eða „neimdropp“ því allir voru á svo miklum eiturlyfjum á sögutímanum. Frábær frásagnarstíll og „inspírerandi“ fólk.

Aðalmynd / Auðunn Níelsson

Drungaleg dulúð í Langholtskirkju

Söngsveitin Ægisif flytur kórverkið Bjöllurnar ásamt nokkrum vel völdum perlum úr Náttsöngvunum eftir Sergej Rachmaninov í Langholtskirkju Laugardaginn 21. apríl. Tónleikarnir hefjast klukkan 17.

„Þessi tegund tónlistar er okkur Íslendingum í raun ekki svo framandi,“ segir Hreiðar Ingi Þorsteinsson, kórstjóri, tónskáld og stofnandi Söngsveitarinnar Ægisif, um tónlistina á fyrirhuguðum tónleikum. „Dökki liturinn sem einkennir mjög rússneskan tónheim á mikið sameiginlegt með gömlu íslensku þjóðlögunum.“

Kórsinfóníuna Bjöllurnar op. 35 samdi Rachmaninov árið 1913 við texta Edgars Allan Poe, The bells. Verkið er í fjórum köflum sem hver um sig túlkar ákveðið æviskeið mannsins, frá fæðingu til greftrunar. Litróf stemningarinnar er afar breitt og sveiflast frá drungalegri dulúð í síðrómantískan hátíðleika. Upphaflega er verkið samið fyrir stóra sinfóníuhljómsveit auk kórs og einsöngvara en fyrir utan sönginn verður það flutt hér í nýrri undirleiksumritun fyrir píanó. Þess má geta að þetta er frumflutningur verksins á Íslandi.

Náttsöngvar Rachmaninovs op. 37 voru fyrst fluttir í mars 1915 en vegna rússnesku byltingarinnar og opinberrar liststefnu í kjölfar hennar voru þeir ekki endurfluttir fyrr en hálfri öld síðar.

Einsöngvarar á tónleikunum verða Lilja Dögg Gunnarsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Hrafnhildur Árnadóttir og Fjölnir Ólafsson. Píanóleikari er Anna Guðný Guðmundsdóttir.

Mynd: Hrafnhildur Árnadóttir verður meðal einsöngvara á tónleikum Söngsveitarinnar Ægisif.

Raddir