Föstudagur 13. september, 2024
1.8 C
Reykjavik

Bæjarfulltrúi Miðflokksins reiður út í VG og Austurlistann: „Þetta eru forkastanleg vinnubrögð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bæjarfulltrúi Miðflokksins í Múlaþingi, Þröstur Jónsson, er óánægður með að ekkert samráð hafi verið við flokkinn er aðrir listar í minnihluta sveitastjórn Múlaþings skiptu með sér fulltrúum í nefndum. Austurlistinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð fengu alla fulltrúana sem í boði var fyrir minnihlutann, Miðflokkurinn engan.

Sagt er frá málinu á Austurfrétt.

„Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og ekki til þess fallin að halda þeim vinnuanda sem verið hefur,“ sagði Þröstur á fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar.

Sagði Þröstur á fundinum að hin tvö framboðin hefðu myndað blokk án samráðs við Miðflokkinn heldur aðeins sent niðurstöðurnar í tölvupósti kvöldið fyrir fundinn. Kvaðst Þröstur sitja hjá við afgreiðslu nefnda af þessum ástæðum og að hann myndi líklegast halla sér að meirihlutanum á nýhöfnu kjörtímabili þar sem honum líkaði við málefnaskrána sem og fólkið. „Minnihlutinn getur ekki vænst góðs samstarfs frá M-listanum á kjörtímabilinu,“ sagði hann á fundinum.

Varð raunin sú í nefndarkosningunum að Miðflokkurinn fékk engan fulltrúa í byggðarráð, fjölskylduráð og umhverfis- og framkvæmdaráð. Fékk flokkurinn þó áheyrnafulltrúa í þeim öllum. Hildur Þórisdóttir oddviti Austurlistans minnti á það í svari sínu til Þrastar að sami háttur hafi verið á á síðasta kjörtímabili. „Þetta er ekki í fyrsta sinn. Við fengum tvo fulltrúa nú, VG tvo og ákváðum að mynda blokk. VG og Austurlisti eiga málefnalega samlegð. Þetta eru engar nýjar fréttir sem koma neinum á óvart. M-listi fékk einn mann og var ekki í samningsstöðu. Það hefði því engu breytt fyrir ykkar stöðu þótt þið hefðuð komið inn í viðræðurnar,“ sagði Hildur.

Oddviti VG, Helgi Hlynur Ásgrímsson kvaðst skilja reiði Þrastar og bað hann afsökunar á að hafa ekki rætt við hann fyrirfram. „Auðvitað átti ég að hringja í þig og tala um þetta, fyrirgefðu.“

- Auglýsing -

Svaraði Þröstur því til að hann kynni að meta auðmýkt Helga Hlyns en Hildur baðst einnig afsökunar í seinna svari sínu. Benti hún í leiðinni á að fyrirvarinn hafi verið stuttur en taldi það augljóst að flokkarnir tveir, Austurlistinn og VG myndu mynda blokk líkt og gert var síðast. Bætti Helgi Hlynur því við að lítið hefði verið til skiptana í ráðunum og að Miðflokkurinn ætti þó áheyrnarfulltrúa í öllum þremur ráðum.

Fram kemur einnig í frétt Austurfréttar að á síðasta kjörtímabili hafi meirihlutinn og minnihlutinn skipt jafnt á milli sín formennsku í heimastjórnum. Ekki er svo þetta tímabil en meirihlutinn verður í formennsku í þremur heimastjórnum. Björg Eyþórsdóttir, Framsóknarflokki, verður formaður á Seyðisfirði, Vilhjálmur Jónsson, Framsókn, á Fljótsdalshéraði og Guðný Lára Guðrúnardóttir, Sjálfstæðisflokki, á Djúpavogi. Athygli vekur að Eyþór Stefánsson frá Austurlistanum verði formaður heimastjórnar Borgarfjarðar og þar með eini heimamaðurinn sem gegnir formennsku í slíkri stjórn.

Sagði Helgi Hlynur það slæm skref hjá meirihlutanum að taka til sín formennskuna í þriðju heimastjórninni. „Þið eruð að gera þetta að flokkspólitísku máli. Gagnrýnin verður harðari en verið hefur.“ Berlind Harpa Svavarsdóttir hjá Sjálfstæðisflokknum sagði skiptinguna vera ákvörðun meirihlutans og þar muni starfa nýtt, öflugt og áhugasamt fólk.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -