Laugardagur 27. maí, 2023
4.8 C
Reykjavik

Bleika sæta kaffihúsið á Akureyri: „Þeim fannst þetta fáránleg hugmynd“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Þær eru þrjár mæðgurnar sem reka saman bleika, krúttlega kaffihúsið við Ráðhústorg í miðbæ Akureyrar. Helena Guðmundsdóttir er móðirin og sögð brauð- og rjómatertusérfræðingur, Karolína Helenudóttir, stóra systir, uppskriftasérfræðingur og kökulistamaður og svo er það litla systirin, Þórunn Jóna Héðinsdóttir, kökulistamaður og kaffibarista.

Það er varla að maður vilji skera í þessa, svo falleg er hún.

Kaffihúsið fer varla fram hjá neinum sem á leið um miðbæinn, þar sem bleiku gluggarnir kalla á mann og bókstaflega draga mann nær.

Það verður heldur enginn svikinn sem þangað stígur fæti inn, allt bleikt, ó svo fallegt og hlýlegt. Og þá á eftir að ræða allar veitingarnar. Óhætt er að vara við að valkvíði mun sennilega grípa þá sem fara í kaffi, já eða búbblur á Sykurverk, slíkt er úrvalið og eru veitingarnar hver annari girnilegri. En á kaffihúsinu er á hverjum degi að finna mikið úrval af girnilegum kökum, makkarónum, brauðtertum, beikonumslög, marens sleikjóar og svona mætti lengi telja.

Sykurverk er með réttu kökuna í barnaafmæli.

En hver var kveikjan að kaffihúsinu?

„Við mæðgur höfum alla tíð brallað mikið saman í eldhúsinu, hvort sem það er að baka pizzu í kvöldmat, kanilsnúða með kaffinu eða jafnvel búa til fermingartertur fyrir fjölskylduna,“ segir Karolína og heldur áfram. „Við höfum alltaf unnið mjög vel saman og áttum okkur allar hver sitt hlutverk.“ Helena, móðirin, bakaði kökur og setti saman, Þórunn er snillingur að setja sykurmassa yfir kökur og hún sjálf sá um skreytingarnar.

„Nú þegar við erum búnar að vinna saman í þetta langan tíma þá höfum við kennt hvor annari verkefni hvors annars og vinnum vel saman.“

- Auglýsing -

Fannst þetta fáránleg hugmynd

Það var hugmynd Karolínu að stofna kaffihús en hún segir það alltaf hafa verið draumur móður sinnar. „Mömmu langaði alltaf að opna kaffihús en þeim fannst þetta samt fáránleg hugmynd hjá mér fyrst,“ segir hún og skellir upp úr. „En hingað erum við svo komnar,“ segir hún glöð í bragði.

Það er sama hvað tilefnið er, Sykurverk býr til kökuna þína.

Þá segir hún að sjálf hafi hún fyrir alvöru byrjað að æfa sig í kökuskreytingum árið 2016 þegar hún átti von á sínu fyrsta barni. „Mig langaði að læra gera fallegar kökur fyrir kynjaveislur og afmælisveislur framtíðarinnar eins og mamma gerði alltaf.“ En Karolína sagði sama hvernig afmæliskökur hún hafi beðið um, mamma hennar hafi alltaf orðið við óskinni. „Ég bað meira að segja einu sinni um Silvíu Nótt köku og mamma gerði hana bara,“ segir hún brosandi.

- Auglýsing -

En ekki nóg með að Karolína hafi farið að æfa sig í kökuskreytingum, þá fór hún líka að gera sínar eigin uppskriftir. Hún segir að oft á tíðum hafi uppskriftirnar ekki alveg verið að gera sig, þannig hún fékk sér krassbók og fór að fínpússa og búa til sínar eigin uppskriftir. En mottó kaffihússins er, „bragðið skiptir mestu máli!“

Gómsætt brauðmeti er alltaf vinsælt.

Karolína segir þær mæðgur vera mjög stoltar af því að eiga sínar eigin uppskriftir og að þeim þyki mjög vænt um þær.

Opnuðu í miðjum faraldri

Sykurverk opnaði þann 16. maí í fyrra en ætlunin var að opna fyrr en vegna kórónuveirufaraldursins þurftu þær að seinka opnun. „Við skrifuðum undir leigusamninginn og tveimur dögum síðar greindist fyrsta kórónuveirusmitið á Íslandi.“ Þrátt fyrir þá hindrun segir Karolína að það hafi gengið mjög vel hjá þeim og viðtökurnar verið frábærar. „Við höfum fengið ótrúlega góðar undirtektir og margir glaðir yfir að kominn sé staður á Akureyri sem bjóði upp á svona skemmtilegar afmæliskökur, en tveggja, þriggja hæða kökur hafa ekki verið í sölu hér svo ég viti.“ En Sykurverk heldur úti vefsíðunni sykurverk.is, þar sem hægt er að panta ýmsar veitingar fyrir veisluna og bjóða þær upp á sérpantanir þar sem reynt er að koma til móts við allar óskir um skreytingu og útlit veitinganna.

„Ekkert sem fer úrskeiðis þar“

Aðspurð hvað sé vinsælast á kaffihúsin, stendur ekki á svörum. „Coockie dough kakan okkar slær alltaf í gegn og svo beikonstykkin, þau hafa verið rosalega vinsæl. Það er brauð fyllt með beikoni og osti, ekkert sem fer úrskeiðis þar.“

Hvað gæti verið rómantískara en að færa elskunni snni svona góðgæti?

 

Þá eru þær mæðgur duglegar að prufa sig áfram með nýjar uppskriftir, en á Sykuverki er alltaf kaka vikunnar sem er breytileg og má með sanni segja að boðið hafi verið upp á fjölbreyttar bragðtegundir, en má þar nefna Skitles, Lucky Charms, hindberja, banana og Turkish Pepper.

Eitthvað fyrir alla

Það er óhætt að mæla með Sykurverki fyrir barnafólk en bæði er staðurinn ævintýralega fallegur, enda markmiðið að láta hann líta út eins og „candy land“, að sögn Karolínu, þá eru einnig leikföng á staðnum og sömuleiðis veitingar í barnastærðum. „Mamma vann í mörg ár sem dagmamma og ég er með þrjú lítil börn, þannig barnatengingin er rík og fannst okkur nauðsynlegt að hafa staðinn barnvænan.“ Hún segir það sömuleiðis vera leiðinlegt að fara á kaffihús og þurfa borga kannski 1000 krónur fyrir kökusneið sem barnið borðar síðan ekki nema helminginn af. „Þannig okkur fannst nauðsynlegt að hafa eitthvað svona lítið fyrir börnin.“

Hugmyndaflugið er endalaust hjá þeim mæðgum í kökulistinni.

Sykurverk gætir þess svo sannarlega að hafa eitthvað fyrir alla aldurshópa, en frá klukkan fimm til átta, alla daga er „happy hour“. „Hér er góður staður til að hittast í bleikar búbblur og makkarónur,“ segir Karolína að lokum glöð í bragði enda að lifa drauminn sinn, að fá borgað fyrir það sem hún elskar að gera, baka.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -