Skotinn af smástelpu á Svalbarðasvæðinu: ,,Hún var einn og fimmtíu og 46 kíló“

top augl

Gestur Sjóarans að þessu sinni er Húsvíkingurinn Eiríkur Sigurðsson, skipstjóri á Reval Viking.

Eiríkur var skipstjóri á Hágangi þegar norsk freigáta skaut á skipið þegar það var við veiðar á Svalbarðasvæðinu. Skipið var skráð í Mið-Ameríkuríkinu Belís sem á hlut að Svalbarðasáttmálanum. Norðmenn fara með stjórn á Svalbarðasvæðinu og vildu ekki sjá þessi erlendu skip þarna en Eiríkur og hans menn vildu ekki láta þá komast upp með að bola sér í burtu.

Norðmennirnir voru meðal annars búnir að koma sér upp klippum til að klippa aftan úr þeim trollin, álíkar þeim sem notaðar voru á Breta í þorskastríðunum.

,,Það tókst nú ekkert hjá þeim, þetta voru svo miklir klaufar, kunnu ekkert á þetta en svo til að stríða þeim þá slökuðum við bara hlerunum út en engu trolli, það voru bara grandarar á milli hleranna. Þeir fóru fyrir aftan okkur og voru að reyna að klippa því þeir héldu náttúrulega að við værum bara á togi en svo endaði með því að við nenntum þessu ekki og hífðum trollið upp. Það brutust alltaf út svakaleg fagnaðarlæti um borð í freigátunum því þeir sá náttúrulega að það komu engin troll! En trollin voru allan tímann uppi á dekki bara.“

Eitt sinn þegar þeir voru við veiðar á Leirdýpinu, skammt undan landhelgi Noregs kom ein freigátan siglandi og þeir ákváðu að hífa í hvelli. Þegar hlerarnir voru komnir upp var fullt af fiski í trollinu sem þá flaut fyrir aftan skipið. Freigátan sendi þá út léttbátinn með smærri gerð af klippum og ætluðu að reyna að klippa á pokann og rífa hann í tætlur.

Þegar léttbatinn var að bera að garði leist Eiríki ekkert á blikuna, kallaði á kallana niðri á dekki að taka til spúlslönguna og reyna að spúla þau í burtu. Báturinn hörfaði um stundarsakir en sneri svo aftur. Þá tók 150 kílóa, tveggja metra hár stýrimaður Eiríks, Anton Ingvason frá Dalvík, sig til og óð aftur í skut með haglabyssu. ,,Hann stóð þarna vígalegur eins og Rambó með haglabyssuna og reiknaði með að það myndi duga; hann ætlaði náttúrulega aldrei að skjóta nokkurn mann!“

,,Hann ætlaði bara að hræða þá. Það dugði samt ekki neitt þannig að hann skaut einu skoti, helvítis maðurinn! Og það var nú ekki mjög vinsælt!“

Eiríkur lítur svo á að skotið hafi farið of nálægt bátnum en aldrei þó þannig að hann ætlaði að fara að hitta neinn. Norðmennirnir urðu skiljanlega mjög hræddir og hörfuðu til baka um borð í freigátunua.

Skipherrann kallaði þá á Hágangi, gerði kröfu um að skipið myndi stoppa og hann myndi senda menn um borð til að taka við stjórninni. Eiríki leist nú ekkert á það og setti þá á fulla ferð til Íslands óviss um hvort hann myndi svo sem lenda þar eða einhversstaðar annarsstaðar. Þegar þeir voru búnir að keyra í sex til átta klukkustundir fór skipstjóri freigátunnar að hóta því að stoppa þá með öllum ráðum og jafnvel skjóta á þá ef ekkert annað dygði. Eiríkur lét ekki segja sér það og sagðist myndi halda áfram.

Norðmennirnir sigldu þá alveg upp að Hágangi og tilkynnti honum að hann myndi skjóta og bað Eirík að tryggja það að það væru engir menn í vélarrúminu því þangað ætlaði hann að skjóta. Eiríkur sagði honum þá að það væri alfarið á hans ábyrgð og hann ætlaði ekkert að tryggja það að það væru ekki menn að störfum í skipinu.

Skipstjóri freigátunnar lét þetta ekki stoppa sig og það endaði með því að hann skaut tvisvar á skipið en Eiríkur lýsir því sem gríðarlegum höggum þegar skotin hæfðu skipið. Eftir seinna skotið kallaði Eiríkur yfir og bað þá að hætta að skjóta því hann vildi skoða skemmdirnar og þeir samþykktu að skjóta ekki aftur fyrr en Eiríkur væri búinn að kalla til þeirra aftur.

Skotin skildu eftir sig tvö hnefastór göt á skipinu, rétt fyrir ofan sjólínu. Skotmarkið hafði greinilega átt að vera stýrisvélin en hefði freigátan hæft hana væru þeir úr leik.

Eiríkur fór þá aftur upp í brú, kallaði yfir til freigátunnar, útskýrði stöðuna og sagðist ætla að halda áfram og þá var skotið einusinni til viðbótar. Þá áttaði Eiríkur sig á því að þetta gengi ekki neitt og stoppaði því skipstjóri freigátunnar var búinn að hóta því að hann myndi sökkva skipinu.

Vopnaðir dátar komu næst um borð og hertóku skipið og því svo siglt til hafnar í Tromsö þar sem Eiríkur og stýrimaðurinn voru kærðir fyrir ofbeldi og fiskveiðibrot sem endaði með að þeir voru settir í fangelsi; Eiríkur yfir nótt og stýrimaðurinn með haglabyssuna nokkrum dögum lengur.

Þeir þurftu svo að fara aftur til Noregs og vera viðstaddir réttarhöld þar sem þeir hittu hluta áhafnarinnar en þar kom það Eiríki á óvart hver skyttan hefði verið.

,,Það var svolítið gaman að ég komst að því að skyttan var rúmlega tvítug stelpa! Ég sá hana! Hún var svona kannski einn á fimmtíu á hæð og 46 kíló eða eitthvað!“

Í viðtalinu rekur Eiríkur sögu sjóferils síns. Hann fór að fara til sjós um fermingaraldur en í dag stýrir hann togara sem dregur allt að fjórum trollum í einu.

Viðtalið má sjá í heild sinni hér í spilaranum en einnig er hægt að hlusta á alla þætti Sjóarans á Spotify hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni