Laugardagur 28. maí, 2022
12.1 C
Reykjavik

Askasleikir opnar sig á einlægan hátt: „Ég er alls ekki hræddur við mömmu“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Hann er nokkur hundruð ára gamall, fer í bað einu sinn á ári en það er auðvitað fyrir jólin. Askasleikir segir hér meðal annars frá fjölskyldunni, híbýlunum, hve nútíminn gerir allt auðveldara fyrir þá bræður fyrir jólin og hann talar um erlenda samkeppni svo sem jólasveininn í rauðu fötunum. Hann ljóstrar því meira að segja upp hvert uppáhaldsjólalagið hans sé.

 

Hann er tiltölulega nýkominn til byggða. Skærblá augun full af visku og fróðleik. Lífsreynslu. Glettni.

Hann er svolítið skítugur en maður veltir því ekki mikið fyrir sér þegar um íslenskan jólasvein er að ræða, enda búinn að fara langan veg til byggða og það í alls konar veðri og færð.

Röddin er svolítið hrjúf.

Hendurnar grófar. Sterklegar. Sigg á fingrum.

- Auglýsing -

Skemmdar tennur.

Askasleikir er sjötti jólasveinninn. Hann kemur til byggða 17. desember miðað við þá röð þeirra bræðra sem birt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862.

Hann segir móralinn í hópnum vera góðan.

- Auglýsing -

„Færri vita að við erum 77 systkinin í heildina, þó svo að 13 okkar séu frægastir. Með öðrum orðum er baðherbergið oft þétt setið, bæði dollan og spegillinn.“

Hann brosir svo skín í skemmdar tennurnar.

Hver vill ráða? Hver er frekastur? Hver er ljúfastur?

„Það er kannski dálítið erfitt að gera upp á milli systkina sinna en Hurðaskellir er í það minnsta háværastur og flestir hræddir við hann. Hann er samt mjúkur inni við beinið. Við Ketkrókur og Kertasníkir erum svo afskaplega góðir vinir. Þeir eru báðir voðalega vinalegir og dálítið krúttlegir, Ketkrókur með fínhreyfingar upp á 10 og Kertasníkir tryggir kertaljósin heima ár eftir ár.

Það er kannski dálítið erfitt að gera upp á milli systkina sinna en Hurðaskellir er í það minnsta háværastur og flestir hræddir við hann

Til útskýringar þá hafa 77 nöfn birst í gegnum aldirnar, stundum samnefni eins og Giljagaur og Froðusleikir og svo Hurðaskellir og Faldafeykir. Svo má vera að ég hafi ekki fengið að kynnast þeim öllum og jólasveinarnir týnst í gegnum aldirnar. Í dag eru allir löngu hættir að nota aska svo ég hef velt því fyrir mér að kíkja upp í Þjóðskrá og læt þau breyta nafninu mínu í Tupperware-sleiki eða Dollusleiki.“

Svo má vera að ég hafi ekki fengið að kynnast þeim öllum og jólasveinarnir týnst í gegnum aldirnar. (Mynd: Róbert Reynisson.)

Katla og Hekla gusu

Askasleikir segir að þeir bræður hafi alltaf viljað halda því dálítið leyndu hvenær þeir fæddust. „Okkar var þó fyrst getið í Grýlukvæði séra Stefáns Ólafssonar frá 17. öld en þá vorum við þegar farnir að láta að okkur kveða.“

Svo má geta þess að Jóhannes úr Kötlum kvað um Askasleiki.

 

 

Sá sjötti Askasleikir,

var alveg dæmalaus.

Hann fram undan rúmunum

rak sinn ljóta haus.

 

Þegar fólkið setti askana

fyrir kött og hund,

hann slunginn var að ná þeim

og sleikja á ýmsa lund.

(Jóhannes úr Kötlum)

 

Askasleikir er spurður um fyrstu minninguna. Hann horfir til himins: Stjörnurnar skína skært á annars kolsvörtum desemberhimninum.

„Uppvaxtarárin voru nú heldur fábrotin. Við systkinin áttum völuskrín og geymdum í því leikföngin okkar sem voru skeljar úr fjörunni, kjálkabein sem var hestur, tábein sem voru kindur og völubein sem voru kýr.“

En hvað er svo eftirminnilegast frá æskuárunum?

„Eftirminnilegast er þegar ég gekk upp allt fjallið, þar sem við bjuggum, með sleðann okkar systkinanna í eftirdragi. Þegar á toppinn var komið settist ég á sleðann og hallaði mér yfir fjallsbrúnina. Ég fór svo hratt, örugglega á 1.000, að ég missti stjórn á sleðanum, kastaðist af honum og stakkst inn í snjóskafl. Jólakötturinn þefaði mig upp og Giljagaur gróf mig svo upp.“

Það var ekki allt dans á rósum á æskuárum Askasleikis.

„Veðurfarið var afskaplega slæmt í upphafi 17. aldar. Það var alveg ískalt. Lítið veiddist af fiski og uppskeran var ekki góð heldur. Í þokkabót var eldgos, Katla gaus tvisvar með stuttu millibili og Hekla rétt á eftir og svo voru fleiri gos þessa öldina. Þetta varð til þess að við héldum okkur eins mikið inni í helli og mögulegt var.“

Í þokkabót var eldgos, Katla gaus tvisvar með stuttu millibili og Hekla rétt á eftir og svo voru fleiri gos þessa öldina

Foreldrar jólasveinanna, Grýla og Leppalúði, eru frægir. Jafnvel frægir að endemum.

„Fæstir vita að Grýla og Leppalúði eiga bara 20 börn saman. Mamma átti fyrir manninn Bola og bjuggu þau undir Arinhellu og kynntist hún Leppalúða eftir að Boli dó. Ég er ekki alveg viss um hve gömul mamma er, en ég veit að á hana er minnst í Snorra-Eddu sem er um 800 ára gömul. Mamma er því hörð í horn að taka, mikill kvenskörungur og kallar ekki allt ömmu sína. Pabbi er með svo lúin bein að hann er að mestu rúmliggjandi. Mamma stýrir því öllu á heimilinu.

Ég er alls ekki hræddur við mömmu, en ég vil hlýða henni, annars verð ég stundum hræddur, en hún er góð móðir. Pabbi er kóngur allra pabbabrandara en gefur annars lítið af sér og sést sjaldan. Ég velti stundum fyrir mér hvort hann þykist vera svona slappur til þess að sleppa við húsverkin.“

Pabbi er kóngur allra pabbabrandara en gefur annars lítið af sér og sést sjaldan

Grýla virðist elda og Askasleikir segir að íslensk kjötsúpa sé uppáhaldsmaturinn sinn.

„Hún er nefnilega best upphituð og nokkurra daga gömul, rétt eins og maturinn í askinum; afgangar. Askurinn er mjög sérstakt fyrirbæri sem Íslendingar hafa notað um aldir. Hér áður fyrr voru margir sem bjuggu í litlum húsum og ekki pláss fyrir alla að borða við matarborðið. Allir áttu þá sinn ask sem fólk fékk matinn sinn í og sat svo í rúminu sínu og borðaði. Það var því eins og skál úr timbri með áföstu loki sem fólk borðaði upp úr með skeið.“

Hvað með heimkynnin? Heimilið?

„Ég reyni stundum að leggjast í dvala eins og birnirnir gera, en næ yfirleitt ekki nema viku eða tveimur í senn og vakna þá yfirleitt við hroturnar í systkinum mínum. Við nýtum tímann vel til undirbúnings fyrir aðventuna, syngjum saman jólalög og þjóðvísur, spilum á fjölbreytt hljóðfæri, förum í leiki, æfum töfrabrögð og förum svo á stúfana annað slagið til að kanna hvort það séu ekki allir að hegða sér vel. Lífsstíllinn er fábreyttur en við eigum í okkur og á og fyrir það erum við þakklát. Við fáum oftast góðan mat, dass af sætindum og svo þetta gamla góða, laufabrauð og hangikjöt, skyr og bjúgu. Þið þekkið þetta.“

Blaðamaður veltir því fyrir sér hvort jólasveinar geti átt áhugamál eins og mannfólkið. Hvað segir Askasleikir?

„Þið hafið heyrt lagið Kerti og spil, ekki satt? Spilin eru þar inni vegna mín, ég er nefnilega svo oft að sýna spilagaldra. Ég ákvað ungur að ég ætlaði að verða töframaður þegar ég yrði stór og nú eru spilin og töfrasprotinn aldrei langt undan og er ómissandi þáttur á jólaböllum og annars staðar þar sem við erum með lengri heimsóknir. Ég vinn nú hörðum höndum að því að kenna systkinum mínum eitthvað örlítið svo þau geti í það minnsta reddað sér.“

Ég ákvað ungur að ég ætlaði að verða töframaður þegar ég yrði stór og nú eru spilin og töfrasprotinn aldrei langt undan og er ómissandi þáttur á jólaböllum og annars staðar þar sem við erum með lengri heimsóknir. (Mynd: Róbert Reynisson.)

Góð samkeppni hjálpar

Mannanna börn hér á landi þekkja flest íslensku jólasveinana. En hvað ef maður snýr dæminu við? Hver er fyrsta minning Askasleikis varðandi mannfólkið?

„Ég sá fólk sem líktist mér, en var samt einhvern veginn allt öðruvísi, kannski svipað og þið hugsið þegar þið sjáið mig; mjög líkur ykkur, en samt svo öðruvísi. Ég ólst auðvitað upp í kringum mjög mörg systkini en átti ekki marga vini utan systkinahópsins svo mér fannst mjög gaman að hitta fólk, spjalla og læra um það hvernig það gerir hlutina.“

Ég sá fólk sem líktist mér, en var samt einhvern veginn allt öðruvísi, kannski svipað og þið hugsið þegar þið sjáið mig; mjög líkur ykkur, en samt svo öðruvísi

Askasleikir segir að þau séu að fara að nálgast 400 skiptin sem hann hefur farið til byggða fyrir jólin.

„En þá tel ég ekki með skiptin sem ég hef skotist til byggða til að sækja mat, kaupa í skóinn eða skoða náttúruundur. Ég lét mig ekki vanta að eldgosinu í Geldingadölum.“

Jólasveinarnir þurfa að undirbúa sig vel áður en þeir halda til byggða fyrir jólin og þá er eins gott að hafa allt á hreinu.

„Þetta er reyndar orðið svo þægilegt í dag. Við höfum fyrst samband við Þjóðskrá og fáum upplýsingar hjá þeim um fjölda barna og búsetu. Það eru svo góðar verslanir sem opna fyrir okkur á nóttunni til að kaupa inn gjafirnar. Ef við komum að tómu rúmi verður uppi fótur og fit og þá hef ég oft samband við bræður mína sem vinna rannsóknarvinnuna og komast að því hvar barnið og skór þess sé niðurkominn. Svo eru það blessuð jólaböllin sem hefur verið heldur lítið af síðustu tvö ár. Við fáum gott undirbúningstímabil og æfum okkur á hljóðfærin, lærum töfrabrögð og vinnum í nýjum atriðum frá miðjum janúar til loka nóvember. Þá þjófstörtum við aðeins og kíkjum til byggða þegar vel liggur á og hátíðahöld hefjast.“

Við höfum fyrst samband við Þjóðskrá og fáum upplýsingar hjá þeim um fjölda barna og búsetu

Áður en hann heldur til byggða passar Askasleikir upp á að vera búinn að fara í árlega jólabaðið. „Ég reyni líka að kíkja í klippingu annað slagið. Ég lét klippa á mig „mullet“ í ár, þið vitið, „business in the front, party in the back“. Það er víst í tísku núna. Ég legg svo áherslu á heiðarleika, góð samskipti og þjónustulund í öllu sem ég geri.“

Það er búið að vera nóg að gera að undanförnu.

„Við mamma höfum verið í Jólaþorpinu í Hafnarfirði alla sunnudaga í aðventu og verðum fram að jólum og við Kertasníkir höfum svo verið að heimsækja Húsasmiðjuna um helgar. Þess á milli eru nokkur jólaböll, barnaafmæli, fjölskylduboð og verslanir.“

Hvað með erlenda samkeppni; jólasveininn í rauðu fötunum?

„Í gamla daga klæddumst við gömlum, íslenskum fötum og vorum með skotthúfu. Rauði jólasveinninn varð ekki vinsæll fyrr en upp úr 1930 en hann var líka stundum í grænum galla. Kók hafði líklega mikil áhrif á litinn og vinsældir rauða jólasveinsins og hægt og rólega fórum við að breytast líka. Allt í einu áttu Íslendingar 13 rauða – ameríska – jólasveina sem flestir líta eins út og gefa allir í skóinn. Mér finnst nóg komið af þessu og ég legg mig fram við að ná aftur fram þessum gömlu karaktereinkennum sem líklega einkennast af íslensku ullinni. Við höfum því undanfarið klæðst ullarsokkum, rauðum buxum og lopapeysu og verið með rauða jólahúfu með skúf í staðinn fyrir þessa kúlu sem flestir eru með. Lopapeysan er svo lengi að þorna að ég þvæ hana vel fyrir aðventuna og svo strax eftir áramót. Ég á svo fleiri lopapeysur til skiptanna. Buxurnar eru hins vegar fljótar að þorna þegar ég legg þær við eldstæðið hennar mömmu; ég verð bara að passa að það kvikni ekki í þeim. Við leggjum líka mikla áherslu á að vel sjáist í andlitin okkar, bæði enni og augu, því það auðveldar persónuleg tengsl,“ segir Askasleikir og brosir svo mikið að brosið nær alla leið til skærblárra augnanna.

Mér finnst nóg komið af þessu og ég legg mig fram við að ná aftur fram þessum gömlu karaktereinkennum sem líklega einkennast af íslensku ullinni

„Flest lönd eru með sína eigin útgáfu af jólasveininum. Úkraínski jólasveinninn er til dæmis bara einn og heitir Faðir Frosti og er í síðum kufli, stundum rauðum, stundum bláum og stundum í öðrum litum. Við erum alls ekki í samkeppni við erlenda jólasveina en þurfum stundum að leiðrétta misskilning. Íslensku jólasveinarnir eiga sem dæmi ekki fljúgandi hreindýr.“

Askasleikir hugsar sig um í smástund. Lokar augunum en opnar þau svo aftur og heldur áfram.

„Hvað varðar íslensku jólasveinana þá erum við mjög margir og erum kannski í smá innbyrðis vinsældakeppni um hver sé í uppáhaldi, en þetta er alltaf jákvæð samkeppni. Góð samkeppni hjálpar öllum að ná lengra og gera betur, sem er mjög jákvætt.“

Mannanna börn tengja ýmis lög við íslensku jólasveinana. Askasleikir á sjálfur uppáhaldsjólalag.

„Þó svo að ég haldi mikið upp á gömlu, íslensku jólalögin er ég mjög hrifinn af ítalska smellinum sem Helgi Björns gerði frægan, Ef ég nenni, en það lag syng ég alltaf mjög reglulega. Alltaf þegar ég fer í bað.“

Jólasveinarnir geta verið hrekkjóttir og Askasleikir á sér draum.

„Mig langar að bæta upp fyrir slæma fortíð og vera börnum, og gamla fólkinu, gott fordæmi. Ég geng sem dæmi alltaf með endurskinsmerki á mér núna svo ég sjáist nú örugglega. Mig langar líka að setja á svið sýningu, kannski alvöru töfrasýningu, einn daginn.“

Draumar. Draumar geta verið alls konar. Askasleikir segir frá draumi sem hann dreymdi nóttina áður en viðtalið var tekið.

„Mig er alltaf að dreyma einhverja vitleysu. Í nótt dreymdi mig að ég hefði verið búinn að gefa um helming barna í skóinn þegar ég uppgötvaði að pokinn hafði verið tómur frá upphafi og að allir skór væru enn tómir. Ég hafði bara heimsótt alla en ekkert skilið eftir. Það var gott að dreyma þetta bara; það hefði verið verra ef það hefði gerst í alvörunni.“

Það eru þessi karaktereinkenni. Persónuleiki.

„Ég myndi lýsa mér sem vinalegum og góðhjörtuðum jólasveini þó svo að ég geti stundum verið dálítið stríðinn, en það er bara á góðan hátt. Það má enginn meiðast eða særast. Ég hef auðvitað tekið miklum breytingum frá því fyrr á öldum, en í dag kann ég alla mannasiðina, ég nota þá bara ekki alltaf.“

Ég myndi lýsa mér sem vinalegum og góðhjörtuðum jólasveini þó svo að ég geti stundum verið dálítið stríðinn, en það er bara á góðan hátt

Jólasveinninn er spurður hvað jólin séu í huga hans.

„Þó svo að mér finnist vera gaman að fá gjafir þá finnst mér vera enn betra að gefa gjafir. Það er nefnilega sælla að gefa en þiggja. Nægjusemi er samt eitthvað sem fleiri mættu tileinka sér og njóta og gleðjast yfir litlu hlutunum í lífinu. Jólin eru þó fyrst og fremst tími kærleika og friðar. Mér finnst voða gott að setjast við eldstæðið heima með fjölskyldunni og nokkrum vinum og verja góðum tíma saman. Því miður eru ekki allir sem finna frið á þessum tímum eða eiga fjölskyldu að gleðjast með. Þá er gott að geta lagt sitt af mörkum til að gera líf þeirra betra. Við fjölskyldan finnum okkur góðan stað til að verja aðfangadagskvöldi á og bjóðum nokkrum fjölskylduvinum að vera með okkur. Við erum svo mörg hvort sem er að það munar varla um nokkra rassa. Við eldum saman, eða þau okkar sem ekki fara í heimsóknir á aðfangadag, og svo slökum við bara á, njótum samverunnar og svo ætla ég að stýra kviss-keppni fyrir þennan góðan hóp. Við heimsækjum svo fjölda fólks í fjölskylduboðin þess á jóladag og alveg fram að áramótum.“

Jólin eru þó fyrst og fremst tími kærleika og friðar

Mig langar að bæta upp fyrir slæma fortíð og vera börnum, og gamla fólkinu, gott fordæmi. Ég geng sem dæmi alltaf með endurskinsmerki á mér núna svo ég sjáist nú örugglega. (Mynd: Róbert Reynisson.)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -