Laugardagur 27. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Brynja Huld hjálpar konum frá Afganistan: „Maður er með óbragð í munninum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Brynja Huld Óskarsdóttir, öryggis- og varnarmálafræðingur, óttast að yfirtaka Talibana á Afganistan og Kabúl sé upphaf að einhverju sem ekki sé hægt að sjá fyrir endann á.

„Þó þessi yfirtaka marki endalok 20 ára viðveru Bandaríkjanna og NATO í Afganistan þá er hún í rauninni upphafið að einhvers konar stjórnartíð Talibana hvort sem þeir verða einir við stjórn eða einhverjir aðrir með þeim sem hafa áður verið virkir í stjórnmálum í landinu. Þetta eru fyrstu dagarnir á einhverju nýju. Þetta hefur allt gerst hratt og aðstæður til dæmis í Kabúl hafa breyst ótrúlega hratt. Það er óraunverulegt að hugsa til þess að þetta hafi gerst á svona stuttum tíma,“ segir hún en ekki eru nema 10 dagar síðan Talibanar tóku yfir fyrstu héraðsborgina í Afghanistan. Forseti landsins, Ashraf Ghani, fór úr landi í gær og sama dag fór hópur Talibana inn í forsetahöllina í Kabúl. Stjórnarherinn barðist ekki gegn Talíbönunum þegar þeir fóru inn í borgina en þeir höfðu tilkynnt að þeir vildu taka yfir með friðsömum hætti.

„Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort sú ákvörðun Ghani að fara úr landi hafi verið góð eða slæm ákvörðun. Hann segist hafa gert það á þeim forsendum að vernda þjóðina fyrir blóðbaði því það má vel álykta að ef stjórnarherinn og Talíbanar hefðu mæst í útjarði Kabúl hefðu þau átök getað valdið skelfilegu mannfalli bæði fyrir herinn og almenna borgara. Íbúar Kabúl eru um fjórar milljónir auk þess sem þar er fjöldi afganskra flóttamanna sem hefur flykkst til borgarinnar undanfarnar vikur.“

Talíbanar hafa sharíalög í heiðri og segir Brynja Huld að bagalegt sé að hugsa til þess að öll þau réttindi sem konur hafa áunnið sér á síðastliðnum 20 árum verði nú að engu og það á nokkrum sólarhringum. „Maður sér það á myndum og myndskeiðum frá Kabúl að það eru ekki margar konur á ferli. Þetta eru mestmegnis karlar. Konurnar eru heima. Þær eru hræddar og eru ekkert að hafa sig í frammi á meðan það er ekki komið í ljós hvernig þetta verður þegar Talíbanarnir eru við stjórn. Það er mikil óvissa í gangi þessa dagana og verður væntanlega næstu vikurnar.“

Talíbanar hafa sharíalög í heiðri og segir Brynja Huld að bagalegt sé að hugsa til þess að öll þau réttindi sem konur hafa áunnið sér á síðastliðnum 20 árum verði nú að engu og það á nokkrum sólarhringum.

Athygli vakti víða um heim í gær mynd af karlmanni að mála yfir mynd af konu á vegg í Kabúl en þá var einnig verið að rífa niður auglýsingamyndir af konum. „Það er eins og það sé verið að eyða konum úr almannarýminu og ég held að þessi mynd eigi eftir að verða svolítið táknræn þegar fram líða stundir. Maður er með óbragð í munninum þegar maður hugsar til þess hvað konur þurfa að ganga í gegnum og hversu óöruggar þær eru. Mér finnst ég alltaf vera að átta mig sífellt meira á forréttindum mínum; ég er vestræn kona, ég er örugg, ég get lært og unnið og búið þar sem ég vil. Þegar ég set það í samhengi við afganskar konur þá magnast upp sá grimmilegi veruleiki sem þær búa við.“

Aðspurð hvað yfirtaka Talíbana þýðir fyrir alþjóðasamfélagið segir Brynja Huld að það verði áhugavert að sjá hver viðbrögð alþjóðasamfélagsins munu verða. „Hvað munu Sameinuðu þjóðirnar gera, hvað gera Evrópulönd, hvað gera Bandaríkin og fleiri? Afganir upplifa brottför Bandaríkjahers og NATO sem svo að það sé verið að yfirgefa þá og skilja þá eftir í ömurlegum aðstæðum og þá verður fólk reitt og gramt sem er kjörinn jarðvegur fyrir nýliðun fyrir alþjóðleg hryðjuverkasamtök eins og Íslamska ríkið og al-Qaeda sem eru samtök sem Vesturlöndin hafa frekar áhyggjur af hvað varðar öryggi sitt. Talíbanarnir eru mjög ólíklega að fara að gera árásir á Ísland eða í París. Þeir vilja stjórna Afganistan með sharíalögum. Þetta snýst meira um hvers konar jarðvegur verður fyrir aðra öfgahópa í Afganistan þegar Talíbanarnir eru komnir til valda. Það er eitthvað sem myndi snerta öryggi alþjóðasamfélagsins meira en endilega að Talibanar sitji í forsetahöllinni í Kabúl.“

- Auglýsing -

Brynja Huld starfar nú hjá íslensku frumkvöðlafyrirtæki auk þess að vera stundakennari í námskeiði um hryðjuverk við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Undanfarna daga hafa hún og fyrrum kollegar hennar verið í sambandi við fyrrverandi kollega í Kabúl við að vinna að lista, hálfgerða flóttalista, áhrifakvenna í Afganistan sem vilja komast úr landi. „Allir sem vettlingi geta valdið reyna að leggja hönd á plóginn svo sem við að reyna að tengja fólk saman eða safna saman vegabréfaupplýsingum. Manni rennur blóðið til skyldunnar ef maður getur hjálpað einhverjum einhvers staðar. Maður verður að gera það sem maður getur.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur sagt að til greina komi að hingað til lands komi stærri hópur afganskra flóttamanna en áður stóð til að taka á móti og að Ísland verði að axla ábyrgð í alþjóðasamfélaginu. „Við verðum að hjálpa eins mörgum og við getum,“ segir Brynja Huld. „Hvert líf skiptir máli og við eigum auðvitað að leggja okkar af mörkum.“

Þetta snýst meira um hvers konar jarðvegur verður fyrir aðra öfgahópa í Afganistan þegar Talíbanarnir eru komnir til valda. Það er eitthvað sem myndi snerta öryggi alþjóðasamfélagsins meira en endilega að Talibanar sitji í forsetahöllinni í Kabúl.

 

- Auglýsing -

Brynja Huld Óskarsdóttir

Mannúðarþörf

Brynja Huld bjó í Kabúl í eitt ár, 2018-2019, þar sem hún starfaði sem samskiptaráðgjafi hjá NATO.

„Ég fór út á vegum Íslensku friðargæslunnar en þá er maður sendur út af hálfu utanríkisráðuneytisins sem tekur þátt í verkefnum NATO erlendis. Ég var það sem kallast „Strategic Communications Officer“ og veitti ráðgjöf, samskiptaráðgjöf, til afganska varnarmálaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins, var tengiliður fyrir kosningaöryggi og milli NATO og Sameinuðu þjóðanna og svo afgönsku kjörstjórnarinnar. Ég sinnti alls konar samskiptaverkefnum mest tengd stjórnmálum, lýðræði og öryggi.“

Hún nefnir Afgani þegar hún er spurð hvað hafi verið eftirminnilegast sem og það að skilja sögu þeirra og þetta flókna land. „Það eru 14 þjóðernisbrot í Afganistan. Menningin og maturinn er ólíkur á milli hópa. Við fengum ekkert að valsa um eins og maður hefði viljað og það var nú oftast auðveldara að fá fólk í heimsókn til okkar heldur en að fara til annarra því öryggisástandið breyttist frekar hratt á þessum tíma. Ég var heppin og fékk að vinna sem sjálfboðaliði með afgönskum skátum og ég held að það séu dýrmætustu minningarnar sem ég á frá þessum tíma.“

Brynja Huld segir að það að fara þessa leið í lífinu, vinna á vegum NATO í Afganistan, tengist því að hún vilji gera eitthvað til góðs. Gera eitthvað sem skiptir máli. „Þetta tengist örugglega einhverri mannúðarþörf eða -þrá þó svo að NATO sé auðvitað hernaðarbandalag og það má svo sem alltaf benda á það. Þetta er einhver þrá sem tengist því að læra meira, kynnast öðrum aðstæðum og láta gott af sér leiða í leiðinni.“

Hún er spurð hvort dvölin í Afganistan hafi breytt henni. „Já, auðvitað gerði hún það. Ég held að líf mitt verði alltaf „fyrir og eftir Kabúl“. Ég held að allir sem fá tækifæri til að víkka sjóndeildarhring sinn og reynslusvið hljóti að upplifa það eins. Ég sé forréttindi mín betur eftir dvölina því á einhvern hátt var árið eitt besta ár lífs míns hingað til sem kem auðvitað frá þvílíkum forréttindastað; að geta flogið inn í aðstæður eins og Afganistan, unnið fyrir alþjóðaher, kynnst afganskri menningu og fengið einhverja reynslu sem breytir mér til lífstíðar og flogið svo út aftur heim í öryggið. Afganskar kynsystur mínar búa ekki við það öryggi, þau forréttindi, og það er sú tilhugsun sem drífur mig áfram í að vekja athygli á aðstæðum þeirra og þeim nöturlega raunveruleika sem þær vöknuðu við í Kabúl í morgun.“

 

Þetta tengist örugglega einhverri mannúðarþörf eða -þrá þó svo að NATO sé auðvitað hernaðarbandalag og það má svo sem alltaf benda á það.

Brynja Huld Óskarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -