Föstudagur 14. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Rósgyllt og glitrandi veisluborð og gómsætar veitingar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Að mörgu ber að hyggja þegar halda skal veislu enda möguleikarnir ótæmandi. Vikan fékk að vera fluga á vegg í einni slíkri sem haldin var á dögunum til heiðurs níu ára afmælisstelpu.

 

Þrátt fyrir að flestir boðsgestir hafi verið á aldrinum 7-11 ára, hentuðu bæði veitingar og skreytingarnar vel fyrir allan aldur, einkum og sér í lagi fyrir þá sem farnir eru að huga að fermingardeginum. Vinsældir hins rósgyllta virðast síður en svo fara dvínandi og því er óhætt að mæla með litnum á hvaða veisluborð sem er. Í okkar tilfelli sameinuðum við rósgyllt með ferskjulit og hvítum sem kom ótrúlega vel út saman. Litapallettan virðist bæði tíma- og aldurslaus og ætti því að henta í veislur fyrir alla aldursflokka.

Vinsældir hins rósgyllta virðast síður en svo fara dvínandi og því er óhætt að mæla með litnum á hvaða veisluborð sem er.

Skreytingarnar fengum við hjá Partíbúðinni sem er lítil en notaleg verslun sem rekin er í Garðabæ en vert er að hafa í huga að blöðrupantanir þurfa að fara fram í gegnum Netið þó hægt sé að nálgast aðrar vörur samdægurs á staðnum. Við mælum óhikað með Partíbúðinni þar sem hægt er að reikna með persónulegri þjónustu og fagmannlegum vinnubrögðum en líftími blaðranna frá þeim var óvenju langur, eða þar til löngu eftir að veisluhöldum lauk.

Sætar syndir sáu okkur fyrir fagurskreyttum veitingum í réttu þemalitunum og kleinuhringjastandurinn þeirra sló rækilega í gegn en hann er nýr á markaðnum og hentar einkar vel í hvers kyns veislur. Við mælum eindregið með veislubökkunum frá þeim þar sem hægt er að gæða sér á makkarónum, muffins og gómsætum konfektmolum í fullkomnum smakkstærðum fyrir alla aldurshópa.

Afmælisbarnið óskaði eftir einfaldri marenstertu og auðvitað var okkur ljúft og skylt að verða við þeirri ósk og ekkert afmæli er haldið án þess að með læðist eins og ein sígild súkkulaðikaka. Að þessu sinni skreyttum við hana með karamellubráð og hvítu súkkulaði en kremið var gert úr sama súkkulaði. Fyrir fullorðna gesti buðum við svo upp á rifinn svínahnakka, borinn fram í brauðbollum með spæsí majónesi og hrásalati sem óhætt er að segja að hafi slegið í gegn en uppskriftirnar er að finna hér fyrir neðan.

Súkkulaðikaka með saltkaramellu og hvítsúkkulaði

- Auglýsing -

Þessi uppskrift kemur frá hinni yndislegu Evu Laufeyju en eftir að hafa prófað hana einu sinni var ekki aftur snúið og því ratar þessi alltaf á afmælisborðið og slær undantekningalaust í gegn.

Súkkulaðikaka með saltkaramellu og hvítsúkkulaði.

150 g sykur
150 g púðursykur
130 g smjör
2 egg
260 g hveiti
1 tsk. matarsódi
1,5 tsk. lyftiduft
salt á hnífsoddi
50 g kakó
2 dl mjólk

Þeytið sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós. Bætið eggjum saman við, einu í einu. Blandið þurrefnum út í deigið ásamt mjólkinni. Skiptið deiginu niður í tvö smurð hringlaga form og bakið við 180°C í 20-25 mínútur.

- Auglýsing -

Saltkaramella

Þessa karamellu geri ég nánast vikulega og nota sömu uppskrift hvort sem um er að ræða fyrir brúnaðar kartöflur eða hvers kyns eftirrétti. Það er algjör óþarfi að hræðast bráðina og ég get fullyrt að með þokkalegu magni af sjálfstrausti getur hún ekki klikkað.

200 g sykur
4 msk. smjör
1 dl rjómi
1/4 tsk. sjávarsalt

Dreifið úr sykrinum á litla pönnu og látið bráðna, bætið svo smjörinu saman við og hrærið á meðan. Hellið því næst rjómanum við, hrærið og slökkvið á hitanum. Bætið sjávarsaltinu svo við í lokin.

Hvítsúkkulaðikrem

Lykillinn að kreminu er að þeyta það nógu lengi. Ef smjörið er tekið beint úr ískápnum er snjallt að mýkja það upp með því að blása á það með hárblásara.

250 g smjör, við stofuhita
400 g flórsykur
150 g hvítt súkkulaði
1 tsk. vanilludropar
1 msk. rjómi

Hrærið smjörið saman og bætið flórsykrinum við í nokkrum skömmtum. Bræðið á meðan hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði og látið kólna lítillega áður en því er bætt saman við blönduna. Bætið vanilludropum og rjóma við í lokin.

Pavloa með breyttu sniði

Lykillinn að hinni fullkomnu pavlovu felst, að mínu mati, í því að þurrka skálina með eldhúspappír sem búið er að spreyja ediksblöndu í áður en byrjað er. Mér finnst líka gott að hita ofninn á ögn hærra hitastig fyrstu mínúturnar til að ná gylltum gljáa á marensinn en lækka svo niður í 130°C og halda því hitastigi út bökunartímann eða í 1 ½ klukkutíma.

Pavloa með breyttu sniði.

6 eggjahvítur
4 dl sykur
ögn af salti

Ég skipti uppskriftinni í tvennt, stífþeytti 3 eggjahvítur saman ásamt 2 dl af sykri og ögn af salti. Dreifði svo blöndunni á bökunarpappír svo úr varð tölustafurinn 9. Síðan endurtók ég leikinn og setti svo báðar plöturnar inn í ofn. Eftir að bökunartíminn var liðinn leyfði ég marensnum að kólna í ofninum yfir nótt.

Morguninn eftir þeytti ég svo rjómann en í þessa uppskrift þurfti einn stóran rjómapela og annan lítinn. Rjómanum sprautaði ég svo á kökuna, bæði á milli og ofan á og leyfði svo afmælisbarninu að skreyta með frjálsri aðferð.

Rifinn svínahnakki í BBQ-sósu „Pulled Pork“

2,5 kg úrbeinaður svínahnakki, settur í kryddblöndu

Kryddblandan

1/2 msk. paprikukrydd
1/2 msk. „smoked paprika“
1/2 msk. cummin
1/2 msk. mesquite-krydd
1/2 msk. sinnepskrydd
1/2 tsk. cayenne-pipar
1 msk. sjávarsalt
2 msk. púðursykur
6-8 hvítlauksgeirar, pressaðir

Rifinn svínahnakki í BBQ-sósu „Pulled Pork“.

Blandið kryddum saman og myljið í morteli. Skolið kjötið, þerrið og setjið á bretti þar sem það er stungið með kjötgaffli djúpt allan hringinn. Setjið kjötið að því loknu í vakúmpoka ásamt kryddblöndunni sem er dreift vel yfir kjötið og þrýst inn í það þannig að það sé vel þakið. Lofttæmið síðan pokann og setjið inn í ísskáp þar sem hann fær að vera yfir nótt.

Fyllið fat af vatni og hitið með sous vide-tæki upp að 72°C. Látið kjötið vera þar á því hitastigi í rúmlega sólarhring.

BBQ-sósa

3 dl tómatsósa
2 dl púðursykur
1 dl hlynsíróp
2 msk. eplaedik
2 msk. Worcestershire-sósa
2 msk. sojasósa
1 msk. dijon-sinnep
1 tsk. laukkrydd
1 tsk. hvítlaukskrydd
1 tsk. cayenne-pipar

Blandið hráefnum í pott, hitið að suðu, lækkið hitann og látið malla í nokkrar mínútur. Þegar kjötið er búið að vera í ofninum í rúmlega sólarhring er það tekið úr vatnsbaðinu og pokanum og sett í eldfast mót þar sem það er rifið með tveimur göfflum. Smakkið síðan kjötið til með reyktu sjávarsalti áður en BBQ-sósunni er hrært saman við kjötið. Berið kjötið fram í mjúkum brauðbollum (dinner rolls) með „spicy majó“ og „amerísku“ hrásalati (cole slaw).

Myndir / Hallur Karlsson

Tryggðu þér áskrift að vefútgáfu Vikunnar hérna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -