2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Stundum er ástin ekki bundin kyni“

  Lífsreynslusaga úr Vikunni

  Ég kynntist Steina á sveitaballi þegar ég var tvítug. Hann var svo sannarlega maður drauma minna. Við höfum átt yndisleg ár saman. Tíu árum eftir að samband okkar hófst stóð ég frammi fyrir erfiðustu ákvörðun lífs míns. Ég þurfti að gera mér grein fyrir því hvað ást er. Er hægt að elska manneskju fyrir að vera hún? Sama í hvaða líkama hún er?

  Þegar ég var ung hafði ég vissar hugmyndir um ástina. Hún var eitthvað yfirnáttúrulegt og ómótstæðilegt í mínum huga. Eitthvað sem gat sigrað allt. Ég var ung þegar draumarnir um fjölskyldu og eiginmann fóru að gera vart við sig. Ég var bara sú týpa. Týpan sem hafði ekki þörf fyrir allt félagslífið, ég vildi ást og fjölskyldu. Ég fór í gegnum táningsárin með þessa glansmynd í huganum. Ég fór á nokkur stefnumót í framhaldsskóla en ekkert hitti í mark. Það hafði enginn þau áhrif á mig sem dagdraumar mínir sögðu mér að ástin ætti að hafa. Það varð því ekkert úr neinu.

  Ég er alin upp í litlum bæ úti í landi. Það var ekki margt um manninn þar. Ég sótti framhaldsskóla í næsta bæ og þekkti því flestalla sem ég eyddi þessum árum með. Það var síðan einn daginn sem við vinkonurnar ákváðum að fara á sveitaball að lífið breyttist. Ballið var í töluverðri fjarlægt frá heimabæ okkar. Þetta var um sumar og því fannst okkur kjörið að kippa bara með okkur tjaldi og gista á nálægu tjaldsvæði. Ég hlakkaði mikið til því það var ekki oft sem við fórum í svona ferð saman.

  AUGLÝSING


  Draumaprinsinn á sveitaballinu

  Ballið var yndislegt. Ég var rétt búin að stíga inn á dansgólfið þegar allt í einu var gripið í mig og mér snúið í hringi. Ég vissi ekki hvað var að gerast en hló þessi ósköp. Að laginu loknu þakkaði þessi herra fyrir sig og smellti á mig kossi. Það var eitthvað sem gerðist innra með mér á þessari stundu. Ég kolféll. Hann fór og dansaði við vini sína en við litum samt ekki hvort af öðru. Eitt leiddi af öðru og áður en ég vissi af var ég komin út í móa með hann mér við hlið. Ég svaf ekkert um nóttina, við sátum og spjölluðum og á þessari stundu vissi ég að hann væri maðurinn sem mig langaði að vera með.

  Nóttin leið hratt og þegar kom að því að fara heim ákváðum við að hittast helgina eftir. Hann var úr Reykjavík og ætlaði að gera sér ferð í heimabæ minn, eingöngu til að hitta mig.

  Ég man enn í dag spennuna og eftirvæntinguna sem ríkti alla vikuna. Biðin var löng og erfið að mér fannst. Loksins kom hann og við smullum saman. Eftir þessa helgi vildum við ekki hvort án annars vera. Hann leit á það sem ævintýri að flytja í lítinn smábæ úti á landi. Sagði að sér leiddist hvort eð er í vinnunni og hefði alltaf langað til að verða bóndi.

  Sumrinu eyddum við í sitthvorum landshlutanum. Þegar haustaði kom að því að við fundum okkur lítið hús, úti í sveit, til að leigja. Og þar hófst sambúð okkar Steina.

  Steini var ekkert að ljúga þegar hann sagði við mig að hann hefði átt þann draum að verða bóndi. Um leið og við fengum litla sveitabæinn okkar á leigu hófst hann handa við að fá dýr og annað til okkar. Ég hafði klárað skólann um vorið og vann í Kaupfélaginu. Hann fékk vinnu við fiskverkun. Honum leiddist það fljótt. Hann var samt einstakur að finna það jákvæða í hlutunum og það var það sem heillaði mig við hann frá upphafi.

  Árin liðu og við eignuðumst tvö börn. Fyrstu árin voru draumur, þetta var eiginlega of gott til að vera satt, eins og stundum er sagt.

  Við eignuðumst stelpu og strák með tveggja ára millibili. Steini tók föðurhlutverkið af fullri alvöru. Stundum upplifði ég að hann væri að bæta fyrir eitthvað sem faðir hans hafði ekki gefið honum í æsku.

  Horfinn einn daginn

  Steini var fyrsta og það má segja eina ástin mín. Ég kippti mér því lítið upp við hluti sem teljast ekki eðlilegir í samböndum. Kynlíf okkar var svolítið skrítið og hann átti það til að spyrja mikið út í allt varðandi konur. Hann hafði einstakan áhuga á líkama kvenna. Mér fannst það fallegt. Hann var líka einstaklega næmur. Vinkonur mínar áttu það til að fíflast með að hann væri einn af okkur. Hann lét sig varða um hluti sem mennirnir þeirra gerðu ekki.

  Eins yndislegur og Steini minn var þá fannst mér alltaf skrítið að hann sagði alveg skilið við lífið sem hann átti áður en hann kynntist mér. Það fylgdu honum engir vinir. Hann var í litlu sambandi við fjölskyldu sína. Foreldrar hans voru í eldri kantinum og pabbi hans var látinn þegar við hófum sambúð. Mamma hans var komin á elliheimili. Þegar við hittum hana sagði hún alltaf að hann Steini sinn hefði verið sérstakt barn. Hann hefði þurft að hafa fyrir lífinu. Þegar ég spurði hann út í þetta fékk ég lítið um svör. Hann sagði mömmu sína hafa ofverndað sig sem barn. Með árunum fann ég samt á honum að hann leyndi einhverju fyrir mér. Hann var ekki allur þar sem hann var séður.

  Það gerðist svo einn daginn að Steini hvarf. Hann fór út um morguninn en kom ekki heim aftur þann daginn. Ég reyndi að hringja í hann en slökkt var á símanum hans. Ég spurðist fyrir um hann en enginn virtist hafa séð hann. Ég talaði við lögregluna á svæðinu og þeir sögðust ekki geta gert neitt í málinu strax. Ég varð viti mínu fjær af hræðslu því þetta var ólíkt Steina. Tveir dagar liðu og þá fékk ég frá honum bréf. Hann hafði póstlagt það sama dag og hann hvarf. Bréfið var langt og innilegt og ég get ekki haft orð á því hvað ég feldi mörg tár við lestur þess.

  Leyndarmálið afhjúpað

  Steini sagði mér frá leyndarmálum sínum í þessu bréfi. Hann sagði af hverju hann forðaðist að ræða æsku sína. Sagði mér frá einelti sem hann varð fyrir og af hverju hann ætti enga vini. Hann hafi byrjað nýtt líf með mér, líf sem hann óskaði svo heitt að gæti gengið upp. En hann áttaði sig á því að hann gæti ekki breytt því hver hann er. Frá unga aldri hafi hann vitað að hann væri í röngum líkama. Þegar hann var barn hagaði hans sér eins og stelpa, ekki eins og strákur eins og líkami hans sagði til um. Hann varð fyrir miklu aðkasti og með tímanum lærði hann að bæla niður þessa líðan sína. Hann sagðist aldrei hafa hallast að karlmönnum, hann væri ástfangin af mér. En hann hefði ekki þorað að standa fyrir framan mig og segja mér þetta. Nú væri hann búinn að leita sér leiða til að koma hlutunum í ferli og ætlaði að verða konan sem hann þráði alltaf. Hann sagði þetta eina erfiðustu ákvörðun sem hann hafi tekið á lífsleiðinni en að sama skapi þá bestu. Hann hafði áhyggjur af börnunum okkar og bað mig um að ræða þetta ekki strax við þau.

  Ég gjörsamlega fraus við lesturinn. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera, segja eða einfaldlega hvort ég ætti að tala við hann aftur. Það bærðust með mér allskonar tilfinningar. Það sem stóð alltaf upp úr var samt ást mín til Steina. Hann var ástin mín eina. En gat ég elskað hann sem konu?

  Erfið ákvörðun

  Dagarnir liðu og ég heyrði ekkert frá Steina. Ég reyndi sjálf ekki að ná í hann. Ég þurfti að átta mig. Átta mig á mínum tilfinningum, ræða við fólkið í kringum mig og finna út hvernig ég ætti að takast á við þetta. Vinkonur mínar brugðust misjafnlega við. Sumar sögðu að ég væri gagnkynhneigð. Að auðvitað gæti ég ekki verið með konu. Aðrar reyndu að vera eins opnar með þetta og þær gátu. Eins og áður þá skortir mig orð til að lýsa þeim tilfinningum sem bærðust innra með mér.

  Það kom svo að því að Steini minn birtist á tröppunum heima. Hann leit illa út en samt var einhver ró yfir honum sem ég hafði ekki upplifað áður. Þegar ég sá hann gerðist eitthvað innra með mér. Ég áttaði mig á því að ég er ástfangin af honum. Ég er ástfangin af persónunni hans, manneskjunni sem hann er, ekki kyni hans. Við áttum langt og mikið spjall næstu daga og ég sagði honum að ég myndi standa með honum. Ég þyrfti að taka einn dag í einu og kannski myndi ég hætta við. Hann samþykkti það.

  Tókst á við fordóma

  Nú eru liðin sex ár og ég á bestu konu sem ég gæti hugsað mér. Ég er ástfangin upp fyrir haus. Stundum er ástin ekki bundin kyni. Ég hef lært það með tímanum. Það hafa ýmsir erfiðleikar mætt okkur á leiðinni og þá aðalega fordómar. Það er önnur og löng saga hvernig við tókumst á við þetta með börnunum. En í dag líður öllum vel. Við erum bændur og börnin orðin stór. Við erum hamingjusamar og þessi erfiðasta ákvörðun lífs míns varð til þess að ég lærði að sjá hlutina og lífið í nýju ljósi. Ég tókst á við eigin fordóma og hlusta ekki á fordóma annarra.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is