Mánudagur 29. apríl, 2024
7.8 C
Reykjavik

Hilmar allsherjagoði:„Alinn upp á orgelbekknum í Dómkirkjunni því Páll Ísólfsson var barnapían mín“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta er upphaf,“ segir Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði Ásatrúarfélagsins, þegar hann er spurður hvað dagurinn í dag, 21. desember, þýði fyrir hann en ásatrúarmenn halda í dag á vetrarsólstöðum upp á jólin sín. „Þetta er hátíð sem er líffræðilega nauðsynleg út af sólargangi en fólk hefur á öllum tímum fundið þörf fyrir að hafa þetta hátíðleg tímamót og vera með helgiathafnir. Þessi hátíð hefur verið iðkuð í öllum samfélögum á öllum tímum – þegar þessi nýja hringrás hefst; vetrarsólstöður.

Jólin eru náttúrlega ævagamalt nafn úr heiðni.

Eitt af nöfnum Óðins er Jólnir og jólin hafa ætíð verið stór í hinum heiðna átrúnaði.
Jólin eru náttúrlega ævagamalt nafn úr heiðni. Þetta er heiðið nafn sem sumir hafa tengt við „sól“ eða „hjól“. Það var alltaf einhver hátíð á þessum tímamótum. Það skipti máli að hjálpa sólinni að koma aftur upp á táknrænan hátt. Það átti að vera til ákveðið magn af mat og drykk og sumir vilja meina að fólk hafi jafnvel verið með einhverjar frjósemishátíðir sem tengdust þessu til að hjálpa sólinni og frjómagni jarðar. Eða þá skemmtileiki. Þetta hefur alltaf verið mjög sterk hátíð. Hjá okkur ásatrúarmönnum er þetta svo nátengt náttúrunni sem vaknar með rísandi sólargangi. Þegar þessi nýja hringrás byrjar.“

Jólablót heima
Á heimasíðu Ásatrúarfélagsins, asatru.is, segir: „Jólablót við vetrarsólhvörf er hin forna hátíð ljóssins þegar sólin fer hækkandi á lofti og dag tekur að lengja. Þetta eru tímamót nýs upphafs, nýs árs, nýs lífs og er því einnig hátíð barnanna sem oft leggja sitt af mörkum við sérstaka ljósaathöfn. Er þá blótað til árgæsku, til heilla Freys, til árs og friðar.“
Vegna Covid-heimsfaraldursins munu ásatrúarmenn halda sín jólablót væntanlega flestir heima hjá sér og svo var líka í fyrra. Annars væri þetta öðruvísi. „Við værum þá saman komin í stórum sal, á bilinu 150 manns,“ segir Hilmar Örn en þess má geta að 1. janúar 2021 foru félagar 5.118. „Það væri  mikið af tónlist og kveðskap. Það væri sungið. Börnin eru yfirleitt alltaf í öndvegi. Þau fá litlar gjafir og eru með lítinn helgileik þar sem þau eru með kerti og kveikja með þeim táknrænt á sólinni en þá raða þau kertum í spíral. Þar sem þetta verður ekki gert í kvöld þá kveikjum við ljós í hjörtunum í staðinn.“

Það er svo nauðsynlegt að koma saman í þesssum litla hóp til að markera þetta nýja upphaf en fyrir marga er þetta upphafið að nýju ári en við tökum smáforskot á sæluna með nýja árið.

Hilmar Örn er heima í sóttkví og mun halda þar upp á jólin í kvöld. „Ég kveiki á mínum kertum og held mitt blót heima í sóttkví. Blótið í ár, eins og i fyrra, er frekar óhefðbundið af því að við getum ekki verið með þessa samneyslu og veislu sem fylgir þessu yfirleitt og við getum ekki einu sinni gefið fólki hangikjöt eða mandarínur á útiblótinu. Það er svo nauðsynlegt að koma saman í þesssum litla hóp til að markera þetta nýja upphaf en fyrir marga er þetta upphafið að nýju ári en við tökum smáforskot á sæluna með nýja árið. Yfirleitt eru jól og áramót miklu lengri hátíð hjá okkur ásatrúarmönnum af því að við byrjum á vetrarsólstöðum og svo erum við langt fram á nýja árið að halda upp á þessi tímamót,“ segir Hilmar Örn sem heldur líka kristin jól með fjölskyldu og vinum. „Jólin hjá okkur eru þess vegna miklu lengri og kannski meiri og stærri í sniðum þegar allt er saman lagt.“
Hilmar Örn og og fjölskylda hans eru í sóttkví og það verður kjúklingur í matinn í kvöld. „Það er af illri nauðsyn en við höfum ekki farið út í búð í smátíma. Annars ánetjaðist ég kalkúni þegar ég bjó í Englandi og hann verður í matinn á aðfangadagskvöld. Síðan er það hangikjöt og fleira þegar bætist í hátíðina.“
Hilmar Örn er spurður hvort hann ætli í sparifötin í kvöld.
„Ég ætla ekki að vera í lopapeysunni. Það er mikil hátíð þegar ég fer úr henni.“

Siðareglurnar í Hávamálum

Blaðamaður tók líka viðtal við Hilmar Örn á sumarmánuðum þegar sólin var sem hæst á lofti. Þar sagði hann meðal annars frá æskunni og tónlistinni í lífi sínu.
„Ég hafði mjög sterkt ímyndunarafl og mikla hneigð til lista. Ég hafði mikla hneigð til að stunda list af einhverju tagi.“

Mér fannst kristni vera ágæt og mér finnst hún ennþá vera ágæt en hún heillaði mig ekki.

- Auglýsing -

Hann segist hafa alist upp í mjög kristnu umhverfi.
„Það má segja að ég hafi verið alinn upp á orgelbekknum í Dómkirkjunni því Páll Ísólfsson var barnapían mín og ég fór alltaf með honum í Dómkirkjuna þegar hann var að æfa sig. Dómkirkjuprestar voru heimilisvinir og höfðu gaman af að tala við skrýtinn strák um trúarbrögð. Mér fannst kristni vera ágæt og mér finnst hún ennþá vera ágæt en hún heillaði mig ekki. Ég fór þangað sem ég fann samhljóm. Ég skoðaði aðra trú. Ég hef alltaf haft mikla trúarþörf og það hefur alltaf verið mikilvægt fyrir mig að horfa á stærra samhengi. Þó mér sé ekki vel við Carl Gustav Jung sálfræðing þá er ég samt mjög sammála honum að trúarþörfin sé ekki síðri þörf en kynhvötin eða þörfin fyrir að komast af. Það er stór þáttur í okkur að þurfa að finna einhvern farveg fyrir þá tilfinningu að maður sé hluti af einhverju stærra samhengi.
Það var ekki síst  undir áhrifum frá Einari, syni Páls Ísólfssonar, fræðimanns og skólastjóra Málaskólans Mímis, sem ég dáði mjög. Ég gerðist rótari hjá Einari og hélt á glærum þegar hann byrjaði með fyrirlestra um rætur íslenskrar menningar í Norræna húsinu 1968. Síðan var Ásatrúarfélagið stofnað þegar ég var 14 ára gamall en því miður gat ég ekki gengið í það strax og þurfti að bíða þangað til ég var orðinn 16 ára. Þannig að ég mætti í Þjóðskrá á 16 ára afmælisdaginn minn og skráði mig í Ásatrúarfélagið. Þá voru innan við 40 manns í félaginu.“
Hilmar Örn viðurkennir að hafa orðið fyrir fordómum eftir að hann gekk í félagið.
„Já, smá. Í byrjun. Það var talað dálítið illa um félagið og það var litið á það eins og þetta væri einhver brandari og að okkur væri ekki alvara. Ég var í Menntaskólanum við Tjörnina og þar var á málfundi um trú haldið fram að þetta væri félag sem hefði verið stofnað á veitingastaðnum Óðali og gengi út á sukk. Við höfum verið gagnrýnd og gerð hlægileg á margan hátt í áratugi. En ég verð að segja að ég fann fyrir ofboðslegum viðsnúningi árið 2000 í kringum kristnihátíðina á Þingvöllum þar sem átti að úthýsa okkur og stöðva okkar hefðbundna blót. Þá breyttist þetta og fólk sá að okkur var alvara mitt í öllum farsanum þegar átti að útiloka okkur frá klósettum á Þingvöllum.“
Hvað heillaði ungan strák við ásatrúna?
„Þetta eru ekki bara goðsögur og tengsl við eitthvað sem maður veit að er ævafornt heldur líka siðfræðin í Hávamálum.“

Ásatrúarmenn iðka trú sína á hvern þann hátt sem hverjum og einum hentar svo framarlega sem iðkunin brýtur ekki á bága við landslög.

Á heimasíðu Ásatrúarfélagsins, asatru.is, stendur:
„Ásatrú, eða heiðinn siður, byggist á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir fornum menningararfi og náttúrunni. Eitt megininntak siðarins er að hver maður sé ábyrgur fyrir sjálfum sér og gjörðum sínum.
Í Hávamálum er einkum að finna siðareglur ásatrúarmanna.
Heimsmynd ásatrúarmanna er að finna í Völuspá. Þar er sköpunarsögunni lýst, þróun heimsins, endalokum hans og nýju upphafi.
Í trúarlegum efnum hafa ásatrúarmenn aðallega hliðsjón af hinum fornu Eddum. Margir ásatrúarmenn líta frekar á ásatrú sem sið eða lífsstíl heldur en bein trúarbrögð.
Að kalla siðinn ásatrú er reyndar villandi þar sem átrúnaður er ekki einungis bundinn við æsi, heldur hvaða goð eða vætti sem er að finna innan norrænnar goðafræði og þjóðtrúar, svo sem landvætti, álfa, dísir, vani, jötna, dverga og aðrar máttugar verur eða forfeður.
Ásatrúarmenn iðka trú sína á hvern þann hátt sem hverjum og einum hentar svo framarlega sem iðkunin brýtur ekki á bága við landslög.“

Hilmar Örn Hilmarsson. (Mynd: Róbert Reynisson.)

 

- Auglýsing -

Prívat menntaður í tónsmíðum
Jú, Hilmar Örn fór að sækja athafnir Ásatrúarfélagsins en það er annað sem átti líka hug hans. Tónlistin. Hann lærði á blokkflautu og síðar fiðlu og píanó og var í tónlistarnámi fram á unglingsár. Og hann samdi tónlist.
„Tónlistin var hluti af uppeldi mínu. Ég var alltaf að reyna að hætta að gera tónlist og reyndi það með ýmsum ráðum og mér mistókst hrapallega. Svo ákvað ég að vera sá sem ég er sem er mjög fínt og hefur reynst farsælt.“
Hver er Hilmar Örn Hilmarsson?
„Maður sem lifir fyrir tónlist og harmoníu. Það er bara þannig.
Alveg frá upphafi. Hvað sem er. Nema að ég gat ekki hlustað á ómstríða tónlist fyrr en ég var unglingur. Ég var alinn upp í ákveðinni spennitreyju vestrænnar tónlistar og popptónlist hljómaði mjög falskt fyrir mér. Ég fékk gæsahúð og mér leið illa ef ég heyrði Kinks og ákveðnar hljómsveitir sem mér fannst hanga í tóninum. Svo get ég líkt því við trúarupplifun þegar ég allt í einu fattaði Bítlana. Ég fattaði allt í einu Led Zeppelin og ég fattaði Trúbrot. Ég gerðist mjög handgenginn The Rolling Stones.“

Svo tók rokkdjöfullinn við. Ég var í rokkhljómsveitum. Sú fyrsta sem hafði nafn hét Fatima.

Hann segist hafa „haldið tónlistarnáminu út“ til 15 ára aldurs.
„Svo tók rokkdjöfullinn við. Ég var í rokkhljómsveitum. Sú fyrsta sem hafði nafn hét Fatima.“ Hann var trommuleikari í hljómsveitinni Fatimu á árunum 1972-1975. Hann var trommuleikari hljómsveitarinnar Fellibylurinn Þórarinn frá árinu 1979 og síðan var það Frostrósir sem spilaði aðallega diskótónlist. Hljómsveitin fékk svo nafnið Þeyr og gaf út plötuna Þagað í hel í lok árs 1980. Hilmar Örn samdi suma textana.
Aðrar hljómsveitir tóku við og má þar síðast nefna MÖK Trio sem kom meðal annars fram á Galdrahátíðinni á Ströndum árið 2001.
Kvikmyndatónlistin sem hann semur er ævintýralega falleg og má þar nefna tónlist í kvikmyndunum Bennu-Njálssögu, Skyttunum, Börnum náttúrunnar, Bíódögum, Djöflaeyjunni, Englum alheimsins og Fálkum.
Hann samdi og samdi og samdi. Og hann kynntist dulúð ásatrúarinnar æ meira.
„Ég var jafnframt mjög hrifinn af gyðinglegri dulspeki og hebreska er lykillinn að henni,“ segir tónskáldið og allsherjargoðinn sem segist hafa endað á því að tipla á tánum í kringum stúdentsprófið og hafi verið metinn inn í Háskóla Íslands þar sem hann lærði hebresku í eitt ár.
„Ég ætlaði svo í nám sem kallast „Music information techonology“ en þá var mér farið að ganga svo vel í tónsmíðum að ég þurfti að slaufa því.

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin
Snemma beygist krókurinn. Örlögin réðust við tjörnina í Reykjavík þar sem kynslóðir hafa rennt sér á skautum þegar hún er ísi lögð og ungir og aldnir hafa á sólríkum sumardögum hent brauðmolum til fuglanna. Þar réðust svolítið örlög allsherjargoðans á tónlistarsviðinu.

Börn náttúrunnar var til dæmis tilnefnd til Óskarsverðlaunanna og Hilmar Örn fékk árið 1991 Evrópsku kvikmyndaverðlaunin fyrir tónlist sína í kvikmyndinni.

„Ég og Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmaður kynntumst í Menntaskólanum við Tjörnina þegar ég var 16 ára og hann var að verða tvítugur. Hann var með Fjalaköttinn, kvikmyndaklúbb menntaskólanna.
Samstarfið hefur sannarlega verið farsælt. Börn náttúrunnar var til dæmis tilnefnd til Óskarsverðlaunanna og Hilmar Örn fékk árið 1991 Evrópsku kvikmyndaverðlaunin fyrir tónlist sína í kvikmyndinni.
„Það hafði mjög sterk áhrif á líf mitt því að þá var ég allt í einu kominn í alþjóðlegt samhengi og kynntist fólki frá öðrum löndum. Ég hef síðan unnið með erlendum leikstjórum þannig að þetta hafði mjög góð áhrif á feril minn.
Ég hef fengið þó nokkuð af verðlaunum og ansi mikið af tilnefningum í gegnum tíðina.“
Hilmar Örn er rólegur. Hlédrægur. Lítillátur. Það er einhver ró yfir allsherjargoðanum. Tónskáldinu. Þegar leitað er upplýsinga á netinu þá er ferilskráin löng. Hér skal stiklað á stóru:
Hann ruddi brautina hér á landi þegar kom að því að nota tölvur við tónsmíðar sem og þegar kom að nýjum hugmyndum varðandi upptökur. Hann hefur unnið meðal annars að tilraunaverkefnum með ýmsum tónlistarmönnum svo sem Sigur Rós, Steindóri Andersen og Eivør Pálsdóttur.

Á Wikipedíu má finna þetta meðal annars; og þetta eru ekki allar kvikmyndirnar sem hann hefur unnið við:
Soundtracks

1981 – Brennu-Njálssaga (Íslenska kvikmyndasamsteypan), directed by Friðrik Þór Friðriksson.
1987 – Skytturnar (Icelandic Film Corporation), directed by F. Þ. Friðriksson.
1991 – Börn Náttúrunnar (Icelandic Film Corporation), directed by F. Þ. Friðriksson.

1992 – Svo á Jörðu Sem á Himni directed by Kristinn Jóhannesdóttir.
1992 – Ævintýri á Okkar Tímum, directed by Inga Lísa Middleton.
1993 – Hin Helgu Vé, directed by Hrafn Gunnlaugsson.
1995 – Bíódagar (Icelandic Film Corporation), directed by F. Þ. Friðriksson.
1995 – Á köldum klaka /Cold Fever (Icelandic Film Corporation), directed by F. Þ.                 Friðriksson.
1996 – Anton (Jutlandia Film), directed by Aage Rais-Nordentoft.
1996 – Djöflaeyjan (Icelandic Film Corporation), directed by F. Þ. Friðriksson.
1997 – Sekten, directed by Susanne Bier.
1998 – Vildspor directed by Simon Staho.
1999 – I Tigerens Øje, directed by Ulla Boje Rasmussen.
1999 – Bye Bye Blue Bird (Danish Film Institute), directed by Katrin Ottarsdóttir.
1999 – Ungfrúin góða og húsið, directed by Guðný Halldórsdóttir.
2000 – Englar alheimsins (Icelandic Film Corporation), directed by F. Þ. Friðriksson.
2000 – På Fremmed Mark (???), directed by Aage Rais-Nordentoft.
2002 – Fálkar (Icelandic Film Corporation), film directed by F. Þ. Friðriksson.
2005 – Beowulf & Grendel, film directed by Sturla Gunnarsson.

Dreymir tónlist
Tónskáldið og allsherjargoðinn er spurður á hvað hann leggi áherslu í tónsmíðum sínum.
„Það sama og hvernig ég haga lífi mínu. Það er tilfinningin. Að fylgja alltaf tilfinningu og innsæi og leita að einhverri innri lógík. Ég er ekki á neinn hátt næmur – ég hef aldrei séð álf, huldukonu eða draug þótt mig dauðlangi til þess – en ég get samt alltaf tengt mig við eitthvað með minni lélegu og götóttu lógík. Ég veit ekki hvað það er og ég þori ekki einu sinni að skilgreina það. Ég leita í eitthvað sem er stærra en ég er. Það er raunverulega þannig.“
Nóbelsskáldið skrifaði um hinn hreina tón. Er Hilmar Örn búinn að finna þann tón?
„Ég er mikill aðdáandi Halldórs,“ segir hann og nefnir tón heimsins sem Taóistar kalla Huang Chung. „Jörðin hefur sína eigin tíðni sem er kennd við vísindamanninn Winfried Schumann og menn hafa verið að eltast við þann tón.“

Það sem er verra er að ég er stundum að hljóðblanda í draumum og er að stilla alls konar græjur. Það er miklu verra. Það er óþægilegt. En að dreyma hreina tónlist er dásamlegt.

Hann dreymir stundum tónlist.
„Stöðugt.
Þetta er mjög algengt. Það sem er verra er að ég er stundum að hljóðblanda í draumum og er að stilla alls konar græjur. Það er miklu verra. Það er óþægilegt. En að dreyma hreina tónlist er dásamlegt.“
Hilmar Örn er spurður hvort hann haldi að einhver hinum megin sé að senda honum hugmyndir í gegnum drauma.
„Ég vildi geta sagt það en ég held að augljósasta skýringin tengist dulvitund minni af því að þetta tengist þekkingu minni og áherslum. Ég held að við séum í sífelldri endurvinnslu á því sem við tökum inn.“

Óumdeildur
Tónlistin. Ásatrúin. Hvað á þessi tvennd, þessi dúett í lífi Hilmars Arnar, sameiginlegt?
Hilmar Örn var virkur í starfi Ásatrúarfélagsins árum saman jafnhliða því sem hann samdi hvert listaverkið á fætur öðru. Hann segir að þáverandi allsherjargoði, Sveinbjörn Beinteinsson, hafi notað sig mikið sem túlk þegar komu erlendir gestir og hann segist hafa borið ómælda virðingu fyrir forvera sínum því hann hafi verið svo sérstakur.
„Þetta, ásatrúin, var einhvern veginn samgróið honum. Og hann var aldrei með nein látalæti sem heillaði mig líka.“
Tíminn leið. Árin liðu.
„Ég reyndi að vinna eins mikið með félaginu og ég gat. Þetta var alltaf kjölfesta í lífi mínu. Það að skipta um trúfélag 16 ára gamall var fyrsta stóra ákvörðunin sem ég tók sem ungur maður. Þetta var engin smá ákvörðun fyrir mig sem var ákaflega trúarþurfi. Þetta var upp á líf og dauða þannig séð. Þetta er eitthvað sem maður vill standa við. Þetta skilgreinir mig sem manneskju í siðrænu og trúarlegu samhengi og tengist líka gildum mínum í lífinu. Þetta er ekki léttvægt.“

Það skiptir mig miklu máli að vera allsherjargoði og ég tek þessu mjög alvarlega.

Hilmar Örn varð svo allsherjargoði árið 2003.
„Það var líklega vegna þess að ég var óumdeildur. Það er kannski það. Ég er svo venjulegur,“ segir hann og kímir. „Það hefur verið það sem hefur hjálpað mér. Það bjóst enginn við því að ég gerði eitthvað skrýtið. Það skiptir mig miklu máli að vera allsherjargoði og ég tek þessu mjög alvarlega. Ég lít á þetta sem mikla ábyrgð sem ég þarf að standa við.“
Hilmar Örn er spurður í hverju starf hans sem allsherjargoði felist.„Það er allt frá því að vera rótari og yfir í það að vera með fólki á stórum stundum í lífi þess. Það að gefa barni nafn finnst mér vera skemmtilegast af öllu sem og að gifta fólk en svo eru erfiðar stundir eins og andlát og útfarir sem er líka mikilvægur hluti. Maður er í öllu þessu ferli. Þetta er eitthvað sem gefur mér mikið. Stækkar mann.
Þetta segir maðurinn sem segist hafa næstum því alist upp á orgelbekknum í Dómkirkjunni og svo voru dómkirkjuprestar heimilisvinir á æskuheimilinu.

Línuleg hugsun
Hann er spurður út í kristna trú.
„Ég gagnrýni ekki lengur kristna trú en ég gerði mikið af því þegar ég var táningur. Mér finnst hún á margan hátt vera falleg og góð en hún hefur stundum farið út af sporinu. Ég hef enga þörf fyrir guðfræðimeting. Ég held þó stundum að það hefði verið betra ef Páll postuli hefði haft minni áhrif í sambandi við hvernig kristin trú þróaðist. Það er bara mín skoðun og er meira tilfinningalegt heldur en rökrænt.
Mér finnst að kirkjan sé mikið að reyna að leiðrétta sig og ég held að vandamálið við eingyðistrú – sama hvort verið sé að tala um kristni, gyðingdóm eða islam – sé að þetta er opinberaður sannleikur sem er klappaður í stein og óumbreytanlegur. Þetta er mjög línuleg hugsun og í vestrænni heimsmynd byrjar tíminn í Fyrstu Mósebók og endar í 22. kafla Opinberunarbókarinnar. Ég held að líf okkar sé miklu meiri hringrás heldur en lína. Og við eigum að hugsa í hringrás og við erum hluti af henni eins og sólarhringnum, árinu og mannsævinni. Það er það sem skiptir máli.“

Það hefur kennt mér mikið um umburðarlyndi sem ég held að við verðum að rækta með okkur.

Hvað með ríg á milli fólks sem aðhyllist ólík trúarbrögð?
„Hann skilar engu. Ég hafði mikla þörf fyrir að gagnrýna önnur trúarbrögð þegar ég var táningur eins og ég sagði og háði mikla uppreisn gegn því sem hægt var að gera gagnvart trúarbrögðum en ég hef ekki fundið þörf fyrir það síðustu áratugi. Ég hef frekar fundið það sem sameinar trúarbrögð og er þakklátur fyrir samtrúarlegar athafnir sem ég hef tekið þátt í svo sem brúðkaup og nafngjafir og ekki síst útfarir þar sem ég hef verið gestur í kirkjum landsins en mér hefur verið sýndur sá sómi og heiður að fá að vera með athafnir í kirkjum sem er langt frá því að vera sjálfsagt. Það hefur kennt mér mikið um umburðarlyndi sem ég held að við verðum að rækta með okkur.“
Allsherjargoðinn er spurður um skoðun hans varðandi þörf fólks til að trúa á guð, vætti, goð eða annað.
„Ég held að við þurfum að spegla okkur og upplifa í stærra samhengi. Ég held að við byrjum að vinna í drambinu í okkur þegar við mælum okkur saman við eitthvað sem er stærra en við sjálf sem tengist trúarbrögðum. Við höfum séð hvernig við höfum skemmt náttúruna og fundist við vera mikilvægari og merkilegri en hún og hugsum um eigið æviferli eins og heimurinn byrji og endi með manni sjálfum. Við eigum að hugsa eins og við höfum byrjað í gegnum ótal forfeður og formæður og eins og við séum að halda áfram að lifa í gegnum ótal afkomendur og skila jörðinni í betra ásigkomulagi til næstu kynslóðar en við fengum hana. Þetta samhengi og þessi hugsun held ég að gæti komið okkur til bjargar.“

Að deyja inn í fjall
Líf og dauði. Dauði og líf.

Ég er líka mjög hrifinn af þeirri hugmynd að menn lifi áfram í verkum sínum og þar getur maður nálgast lofgjörð eftirlifanda og þakkað fyrir lífshlaup og lífsverk sem hefur verið gert af góðum hug.

Hvað er lífið og hvað er dauðinn?
„Þessi hringrás sem er grundvöllurinn í ásatrúnni finnst mér vera mjög hjálpleg hugsun. Líf kviknar. Það dafnar. Hnignar. Eyðist. Það er þessi heimssýn sem mér finnst vera svo góð. Maður á að reyna að lifa eins innihaldsríku lífi og maður getur hérna megin grafar og vona svo og treysta að maður haldi áfram í einhverri mynd annaðhvort í gegnum líffræðilega afkomendur eða eitthvað sem maður getur gefið heiminum eins og til dæmis tónlist. Það eru margir menn sem lifa í mér í gegnum þeirra skrif og þeirra tónlist. Ég á marga leiðtoga í lífi mínu sem hafa komið til mín í gegnum listina og sem hafa stækkað mig og skilgreint mig. Mér finnst vera gott að geta lifað í svona verkum,“ segir tónskáldið. Allsherjargoðinn.
„Ég hef ákveðna trú á endurholdgun. Ég er líka mjög hrifinn af þeirri hugmynd að menn lifi áfram í verkum sínum og þar getur maður nálgast lofgjörð eftirlifanda og þakkað fyrir lífshlaup og lífsverk sem hefur verið gert af góðum hug.“
Hilmar Örn segir að margar handavistir séu í bókmenntum ásatrúarmanna og að úr miklu sé að velja.
„Fólk getur dáið inn í fjall eins og fjallað er um í mörgum sögum. Eitt dæmi er Kráku-Hreiðar Ófeigsson sem kaus að deyja inn í Mælifell og þetta er eitt af mörgum dæmum þar sem menn velja sér handanvist í fjalli og eru þar með ættingjum og vinum í eilífum fagnaði. Menn geta dáið inn í steina og setið þar og kveðið eins og Gunnar á Hlíðarenda. Hel er ekki slæmur staður þótt það hafi fengið á sig slæma mynd í gegnum kristni en menn hafa ruglað því saman við „hell“. Egill Skallagrímsson sagði í Sonartorreki að hann muni glaður og með góðum hug heljar bíða. Svo erum við með sal eins og Gimlé þar sem allt góða fólkið fer eins og segir í Völuspá. Sumir trúa því að þeir fari til Valhallar eða húsakynna þess goðmagns sem þeir hafa áhuga á eins og Fensali hjá Frigg og Fólkvangi Freyju. Þá er fjallað um endurholdgun í Helgakviðu Hundingsbana. Stærsta hugmyndin sem endurspeglast í Hávamálum er að fólk lifi áfram í verkum sínum – á góðan eða slæman hátt. Ef menn hafa verið dólgar og lélegir þá eru þeir dæmdir af því fólki sem á eftir þeim kemur. “

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -